Gegn einelti

Í grunn- og leikskóla Borgarfjarðar eystra er lögð mikil áhersla á að öllum nemendum líði vel. Nemendur eiga að geta treyst starfsfólki skólans og geta leitað til allra starfsmanna ef þeim líður illa eða upp koma erfið samskiptamál. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í meðferð eineltismála sem upp kunna að koma og fer hann eftir verkferli sem er lýst hér neðar.

Við lítum svo á að það að koma í veg fyrir og uppræta einelti er jafnt á ábyrgð skólans, nemenda, forráðamanna og samfélagsins í heild. Nauðsynlegt er að allir sjái hag sinn í því að tekið sé hratt og örugglega á eineltismálum og úr þeim sé leyst farsællega. Skólinn hvetur alla nemendur til að láta vita ef þeim líður illa, ef þeim finnst sem að þeir séu lagðir í einelti eða að þeir verði fyrir kynbundnu ofbeldi hafi grun um, eða verða vitni að slíku og leggur sig fram um að hjálpa þeim sem eiga hlut að máli.

Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt áreiti sem beinist að einni manneskju í lengri eða skemmri tíma. Einelti felur í sér misbeitingu valds með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis og er skilgreint sem ofbeldi. Einelti getur birst í mörgum myndum. Ekki er hægt að útbúa tæmandi lista en það má nefna:

  • Andlegt: Illt umtal, bendingar, augnagotur, glott, niðrandi tákn, reglubundnar skemmdir á fötum og öðrum eignum, þolandi þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn sjálfsvirðingu hans og réttlætiskennd.
  • Líkamlegt: Barsmíðar, spörk, hrindingar, skemmdarverk, innilokun, þvingun.
  • Munnlegt:Uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni, dónaskapur.
  • Rafrænt/skriflegt: Tölvupóstur, textaskilaboð, krot, bréfasendingar, skilaboð á Facebook og öðrum samskiptamiðlum.
  • Hunsun: Útskúfun, útilokun úr félagahópi, ekki hlustað, látið eins og viðkomandi sé ekki til, eða hafi ekkert fram að færa.

Oftast fer einelti meðal nemenda fram þar sem enginn fullorðinn sér. Því er mikilvægt að vitni láti vita. Sá sem lagður er í einelti segir því miður mjög sjaldan frá af ótta við að eitthvað enn verra bíði hans. Hann kennir jafnvel stundum sjálfum sér um og því þurfa aðrir nemendur, foreldrar, kennarar og starfsmenn skólans að vera vakandi yfir hegðan og líðan nemenda og bregðast við ef merki um einelti sjást eða ef nemendur kvarta undan hegðun annarra nemenda og eigin líðan.

Kynbundið ofbeldi eða niðurlægjandi samskipti vegna kyns, kynþáttar, fæðingarstaðar, aldurs, fötlunar eða annars  getur lýst sér sem framantalið ofbeldi og er ekki liðið í skólanum. Ofbeldi ber að tilkynna, skrá og meðhöndla. 

Á tenglunum hér að neðan má finna mikilvæga þætti eineltisáætlunarinnar.

 

Vísbendingar um einelti                Hvað geta foreldrar gert ?            Forvarnir í skólanum 

 

  Ferill í eineltismálum                            Skref fyrir skref - nemendur og foreldrar 
 

 

Á vefsíðu Barnaheilla má finna þessa skilgreiningu:

(Smella má á orðið Barnaheilla hér að framan til að komast á vefsíðuna)
"Um einelti er að ræða þegar einstaklingur eða hópur einstaklinga beinir endurtekið hvers kyns niðurlægjandi áreitni að ákveðnum einstaklingi eða hópi einstaklinga. Í einelti felst valdbeiting og geta birtingarmyndir eineltis verið margs konar, bæði líkamlegar og andlegar. Þar má nefna stríðni, ýmiss konar látbragð, niðrandi ummæli, sögusagnir, andleg kúgun, hótanir, líkamlegt ofbeldi, einangrun eða útskúfun. Einelti er víða að finna, í skólum, á vinnustöðum og í félagsstarfi og tómstundum. Sá sem lendir í einelti ber aldrei ábyrgð á eineltinu."

Eineltisáætlun þessi var gerð skólaárið 2014-2015 af kennurumog skólastjóra, rædd og samþykkt í skólaráði og samþykkt af skólanefnd 2015.

Endurskoðuð veturinn 2018-2019