Áhugaverðir staðir fyrir fjölskylduna til að skoða

hofnin á borgarfirðiBátahöfnin við Hafnarhólma

Við bátahöfnina við Hafnarhólma eru tveir útsýnispallar og fuglaskoðunarhús. með einstaklega góðu aðgengi að ritu og lunda.  Sú aðstaða er tvímælalaust með því albesta sem þekkist á landinu – jafnvel í heiminum. Þar er hægt að fylgjast með ritu á hreiðrum og með lundanum við holur sínar.  Mest er af honum á morgnanna og á kvöldin en yfir daginn flýgur hann á sjó út í ætisleit. Talið er að milli 10 til 15 þúsund lundapör verpi í Hafnarhólma.  Lundinn hverfur yfirleitt allur samtímis rétt fyrir miðjan ágúst. Í Hólmanum er einnig talsvert æðarvarp og einnig eru þar um 100 fýlshreiður. 

 


lindarbakkiLindarbakki

Lindarbakki, torfbær, sumarhús Elísabetar Sveinsdóttur (Stellu á Lindarbakka) er fallegur og gamall torfbær í hjarta þorpsins. Hann er eitt vinsælasta myndefni gesta fjarðarins enda er hann mikil bæjarprýði. Bærinn var fyrst byggður árið 1899 og er næst elsta húsið í þorpinu.  Hlutar hans hafa verið endurbyggðir en kjallarinn, með brunni í, er upprunalegur.

Nánar um Lindarbakka


 

Álfaborg

Álfaborgin setur mikinn svip á þorpið Bakkagerði. Eins og nafnið gefur til kynna er Álfaborg heimkynni álfa og þar er Borghildur, Álfadrottning Íslands sögð búa ásamt hirð sinni. Fjöldi sagna er til um samskipti álfa og huldufólks í borginni, m.a. um stúlkur er giftust íbúum Álfaborgar og um konur sem þar bjuggu sem höfðu samskipti við fólk í byggðarlaginu.  Ein þeirra hafði m.a. áhrif á það hvar kirkjan var staðsett þegar hún var flutt frá Desjarmýri út í þorpið í byrjun 20. aldarinnar. Góður stígur er á topp Álfaborgar.  Átthagafélag Borgfirðinga í Reykjavík gaf 1979 hringsjá sem stendur á toppnum. Borginn er friðlýstur fólkvangur og ber að umgangast hana af virðingu.


bakkagerðiskirkjaBakkagerðiskirkja

Kirkjan í Borgarfirði var áður á Desjarmýri en um aldamótin 1900 var hún flutt út í Bakkagerði og var vígð í desember 1901.  Sumarið 2001 var unnið að verulegum endurbótum á kirkjunni að utan. Skipt var um mikið af burðargrind, skipt um glugga og byggð ný forstofa.  Enn mesti dýrgripur staðarins er altaristaflan í kirkjunni sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði hér á Borgarfirði sumarið 1914 að beiðni kvenna í sókninni. Kirkjan er opin alla daga.
 

innrahvannagilInnra-Hvannagil

Innra-Hvannagil í Njarðvík er athyglisverður staður. Skilti er við veginn þegar komið er niður í víkina og góður vegslóði upp að gilinu.  Stutt og mjög auðveld ganga fyrir alla er inn í það, en þar birtast fjölbreyttar bergmyndanir í líparítinu og sérkennilegir basalt-berggangar kljúfa líparítskriðurnar þvers og kruss. Botn árinnar er mjög sérkennilegur á flúðum skammt uppi í gilinu.

 

 


UrðarhólavatnUrðarhólar og Urðarhólavatn

Í afrétt Borgarfjarðar er að finna einstaklega fallegt vatn og sérstæðar jarðmyndanir. Urðarhólar er stórbrotin og gróf framhlaupsurð, en við hlið þeirra liggur hið fallega og djúpa Urðarhólavatn. Vatnið liggur við bjarta og hvíta líparít strönd og þarna getur orðið mikil veðursæld á björtum sumardögum í skjóli frá hafgolunni. Stutt gönguleið liggur um Urðarhóla og að Urðarhólavatni frá veginum um Húsavíkurheiði. Frábær fjölskylduganga.

 

 

 


 

Njarðvíkurskriður

Um Njarðvíkurskriður liggur akvegurinn til Borgarfjarðar eystri frá Njarðvík. Skriðurnar voru lengi vel mikill farartálmi en nú er þar kominn breiður og malbikaður vegur. Óvætturinn Naddi er sagður hafa átt heima í skriðunum og sat þar fyrir vegfarendum, rændi þá og drap. Í skriðunum er tilvalið að stoppa og virða fyrir sér krossinn sem var reistur til verndar öllum þeim sem eiga leið um skriðurnar og kynna sér þar nánar söguna. Útsýnið í skriðunum er frábært yfir Njarðvík og næsta nágrenni. 

Lesa nánar 


 

 

Myndagallerý frá Borgarfirði og Víknaslóðum