Afrétt í Innfjöllum

Örnefni í afréttarlöndum Gilsárvalla og Grundar í Innfjöllum
(Eftir handriti Eyjólfs Hannessonar.) 

Fjöllin fyrir botni Borgarfjarðar nefnast einu nafni Innfjöll.  Miðhluti þeirra er afréttarland Gilsárvalla og Grundar, til efstu eggja en takmarkast af tveim ám, Þverá sem á upptök innst á Skúmhattardal og heitir Skúmhattardalsá meðan hún fellur út Skúmhattardalinn í Skúmhattardalsgili og Lambadalsá – sem fellur fyrst út um Lambadalsárgil en síðan í Þverá um flatar eyrar þvert utan við afréttarlöndin þar heita Lambadalsáreyrar en Lambadalsárós þar sem hún fellur í Þverána.  Milli Skúmhattardals og Lambadals er Kækjudalur.

Samfelldur fjallabálkur sem liggur fyrir botni allra dalanna heitir Eggjar.  Út frá þeim gengur Miðfjall milli Lambadals og Kækjudals en Þriggjahnúkafjall milli Kækjudals og Skúmhattardals.  Hefur það hlotið nafn af þrem hnúkum, sem eru hver fram af öðrum ofan á há fjallsröðinni, Ystahnúk, Miðhnúk og Innstahnúk.

Sunnan á Miðhnúk og Innstahnúk liggur stór flatur hjalli – frá skarðinu innan við Ystahnúk inn að Eggjum.  Þar upp er sjaldan komið enda ekki sérstakt nafn á hjallanum, en neðar í fjallinu eru tveir aðrir hjallar nefndir Efrihjalli og Neðrihjalli, en Urðarhjalli lítil hjallamyndun í krikanum þar sem Þriggjahnúkafjallið kemur inn að Eggjum sem þar ganga þvert fyrir og mynda Skúmhattardalsstafn.

Margir gilskorningar liggja úr Þriggjahnúkafjallinu niður í Skúmhattardalsárna, heitir sá stærsti Þvergil.  Út frá enda Þriggjahnúkafjalls – en miklu lægra liggur Skúmhattardalsháls.  Út með honum Kækjudalsmegin fellur Kækjudalsá um Kækjudalsárgil en þverbeygir fyrir hálsendann og fellur þaðan niður í Þverá.  Nokkuð fyrir utan ármótin er foss í Þveránni undir honum er djúpur hringmyndaður hylur sem heitir Ketill – en alllangt fyrir innan ármótin er annar foss hærri.  Undir honum er hylur sem nefnist Pottur.

Landið milli Kækjudalsár og Lambadalsár, inn að Miðfjalli heitir einu nafni Kollutungur.  Alldjúpt gil, sem liggur á ská út norður Kollutungurnar heitir Þvergil.

Yst úr Kækjudal gengur skeifumyndaður botn eða bugur inn í Miðfjallið.  Kringum botninn rís hár samfelldur klettabugur, biksvartur.  Hefur botninn hlotið nafn af þessum ástæðum og heitir Svartibotn.  Úr honum fellur Svartabotnslækur eftir Svartabotnsgili niður í Kækjudalsá en hún á upptök inn í Kækjudalsbotni.  Skammt inn frá Svartabotnsgili niður undan Svartabotni er lítil urðardyngja.  Þar er Kækudalsgreni, af sumum nefnt  Svartabotnsgreni.  Upp frá Svartabotni er djúpt skarð í Miðfjallið, nefnt Miðfjallsskarð eða Skarðið.  Utan við Skarðið er allhár hnúkur.  Frá honum niður á Kollutungur heitir Miðfjallsröð.  Nokkuð fyrir innan Svartabotn er Kækjudalsárvað.  Inn frá því heita hryggir – hækkandi melrandar inn og upp dalinn.  Frá þeim liggur há og brött brekka upp til Kækjuskarða.  Hún heitir Kinn en Kækjuskörðin eru lítill slakki innan við há röð Þriggjahnúkafjallsins þar sem það kemur saman við Eggjar.  Niðri í Kækjudalnum skammt út og niður frá Kinninni er stakur klettur með húslagi.  Hann heitir Kirkjusteinn – forn álfakirkja – kunn úr þjóðsögum.  Utan til á Kollutungum er annar stakur klettur, líka kunnur úr þjóðsögum.  Hann heitir Kollur.  Fornir götuslóðar liggja inn og upp Kinn og yfir Kækjuskörð, nú sjaldan farin – en var áður fjölfarin leið bæði vetur og sumar meðan verslunarviðskipti voru svo til öll við Seyðisfjörð.

Lambadalsmegin Miðfjalls eru ekki þekkt örnefni nema innst á dalnum.  Hvilftir og hjallar sem liggja upp frá Lambadalsbotni á mótum Miðfjalls og Eggja heita Sveifar, með grasgeirum og grónum drögum neðantil en að mestu ber grjót er ofar dregur.