Klyppstaður

KLYPPSSTAÐUR
Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Landamerki á milli Klyppsstaða og Úlfsstaða eru Norðdalsáin en landamerki milli Klyppsstaða og Stakkahlíðar eru eftir beinni línu sem dregin er á milli Karlfellsraðar sunnan í miðju Karlfelli þar sem austurhlið þess beygir til norðausturs og í fremsta grjótholt í Sævarendablá. Lína þessi liggur dálítið vestan við svokallaðan Háskaga í Stakkahlíðarlandi.

(Nafnið á bænum er ýmist borið fram Klyppsstaður eða Klyfsstaður.  Ekkert klif er í námunda við bæinn).  (Í Kallfellinu (Karlfellinu) eru háir klettar og óvenju skýrt bergmál.  Smalar léku sér oft að því að kalla uppí bergið.  Nafn fjallsins gæti verið dregið af þessu).  

Innskot við pentun:  Örnefnastofnun telur réttast að nota Karlfell og Klyppsstað.

Klyppsstaðatún er á milli Norðdalsár og Kirkjuár, efst á sléttlendinu, við brekku sem er ofan við það. Neðan við túnið er stórt graslendi, engjar og beitiland.
Að vestan takmarkast það af Norðdalsá og Fjarðará, að sunnan af Fjarðará og að austan af Kirkjuá. Svæði þetta heitir Klyppsstaðanes. Nær það á kafla þvert yfir sveitina því Fjarðaráin rennur þar fast við Suðurfjallið.

Austan við Kirkjuána er stórt grasivaxið flatlendi er Klyppsstaðablá heitir. Eru þar véltækar allgóðar engjar. Að sunnan takmarkast blá þessi af Fjarðaránni en að austan af áðurnefndri landamerkjalínu á milli Klyppsstaða og Stakkahlíðar. Efst á þessari sléttu, upp við hallandi land sem tekur við fyrir ofan, spölkorn fyrir austan Klyppsstað, eru beitarhús frá Klyppsstað og nokkurt tún í kringum þau. Hús þessi heita Klyppsstaðahjáleiga og sést það á gömlu manntali að þar hefur áður fyrr verið búið. Upp frá þessum sléttum tekur við hallandi land upp að fjöllum er bak við það liggja. Fjöll þessi heita Miðfell vestar en Karlfell austar.

Upp á brekkunni ofan við Klyppsstaðatúnið, nærri Norðdalsánni, er grasivaxið holt er Króarholt heitir.  (Króarholt er norðvestan við bæinn, alveg við ána.  Þar er eins og hvammur við ána.  hann er þröngur og gæti verið króarlegur).  Þar var áður fjárhús en er nú niðurlagt. Vestan við holtið er foss í Norðdalsánni er Norðdalsárfoss heitir. (Um 100 - 250 metrum ofan við Norðdalsárfoss eru dálitlar syllur í klettum við ána sem Lambahvammar heita). 

Upp frá brekkunni, ofan við Klyppsstaðatúnið á milli Norðdalsár og Kirkjuár, eru alllangt upp eftir dálítið hallandi lyngmóar og sums staðar dálítið hallandi melar. Þegar ofar dregur með Kirkjuánni vex hallinn á landinu dálítið og taka þar við grasgefnar harðvellisengjar er Selgontur heita.  (Gonta nefnist mjótt engi.  Selgontur eru margir geirar (upp á annað land).  Slíkar gontur voru á mörgum bæjum.  D.d.  var sagt: „Nú sláum við gontuna hérna út úr“).  Suðvestur af Selgontunum og niður af Norðdalsánni er graslendi, lítilsháttar hallandi, er Selmýri heitir. Suðvestan við Selmýrina er foss í Norðdalsánni er Reykjafoss heitir.  (Reykjafoss dregur nafn sitt af úða miklum sem er upp af fossinum).

Vestan við Selgotnurnar og Selmýrina er lækur er Sellækur heitir. Hann sprettur fram úr hæðabrúnunum norðvestan við Selgonturnar. Skammt vestan við hann, inn af Selmýrinni, eru fallnar húsatættur. Þar voru beitarhús frá Klyppsstað fyrir nokkrum árum og dálítið tún í kringum þau en nú er það allt niðurlagt. Þessi staður heitir Sel.  (Frá Seli sér inn eftir öllum dalnum og út eftir öllum dalnum).

Vestan við Sellækinn byrjar Norðdalurinn. Hann er sléttur á löngu svæði meðfram Norðdalsánni eða langt inn í dalinn. Nálægt miðju þessa graslendis á lengdina sveigist dalurinn meira til norðvesturs og heitir þar Leiti. Upp af sléttlendi dalsins, austan við Leitið, liggja grösugar brekkur, víðast harðvelli, ágætar engjar. Þær ná upp á brúnina þar sem hæðirnar byrja undir Miðfellinu sem er fjall það er ræður landamerkjum á milli Klyppsstaða og Hjaltastaðaþinghár. Engjar þessar heita Norðdalsbrekkur. Upp á brúninni ofan við þær er dálítil dæld, grasivaxnar engjar, er Slakki heitir. Norðvestur af Slakkanum, dálítið hærra í fjallinu austast á Efri-Vatnahjallanum, er stór steinn er Náttmálasteinn heitir. Eftir gömlum eyktum mun náttmál hafa verið miðuð við hann frá Stakkahlíð.

Graslendið í dalnum vestan við Leitið heitir Kolahraunsmýrar. Brekkurnar ofan við mýrarnar heita Vatnahjallabrekkur. Ofan við þær eru tveir hjallar, hver upp af öðrum, er heita Neðri- og Efri-Vatnahjallar. (Valnahjallar eru stakir á þessu landssvæði.  A.m.k. sá neðri er mjög grasgefinn.  E.t.v. draga þessir hjallar nafn sitt af sauðavölum en Sauðahjalli er þarna fyirir ofan).  Innan við mýrarnar og brekkurnar er allstórt dálítið hallandi svæði er nær inn að Mosdal norðan Norðdalshnjúks. Úr Norðdalnum og upp í mynni Mosdals er allhá og brött brekka. Mosdalurinn er stuttur og endar á fjallsegginni á milli Loðmundarfjarðar og Héraðs. Heitir þar Norðdalsvarp.

(Innskot við prentun:  Vatnahjallar eða Valnahjallar - spurning hvort er rétt?  Annað er örugglega rangt tekið upp af frumriti.

Norðan við Mosdalinn er fjall er Botndalsfjall heitir og er það að mestu leiti í Eiðaþinghá. Norður af mynni Mosdalsins á milli Botndalsfjalls og Miðfells er skarð eða klettalaus fjallsegg er Oddsskarð heitir. Mjög brattar og háar skriður eru frá dalnum og upp í skarðið. Austan við skarð þetta eru sveigmyndaðir klettar í Miðfellinu, háir og þverhníptir. Neðan undir þeim er stórgrýtt urð. Svæði þetta heitir Askja. Austan við hana taka áðurnefndir Vatnahjallar við.

Miðfellið liggur frá norðvestri til suðausturs á því svæði sem það er meðfram Norðdalnum en síðan liggur það til norðausturs. Þar sem Miðfellið sveigir til norðausturs er dálítill hjalli í því er Sauðahjalli heitir. Austan undir Miðfellinu, á milli Norðdalsins og dals sem er á milli Miðfells og Karlfells og Miðdalur heitir, er melabunga er Háumelar heita.

Ofan við áðurnefndar Selgontur er brött brekka, upp á brekkubrúnina austan við Háumelana, er Strípabrekka heitir og nær hún að Kirkjuánni.

Nokkuð fyrir ofan brekku þessa, upp með Kirkjuánni en austan undir Háumelum, eru klettadrangar á háum með og heita þeir Strípar.  (Strípar eru einstakir klettar á háum hól).

Kirkjuáin kemur úr áðurnefndum Miðdal og rennur ofan í Fjarðará. Hún rennur örskammt frá íbúðarhúsinu á Klyppsstað og er foss í henni skammt frá húsinu er Kirkjuárfoss heitir. Nokkuð fyrir austan Kirkjuána er önnur minni á er hefur upptök sín í Karlfellinu og heitir Hjáleiguá. Hún rennur ofan á sléttuna rétt austan við Klyppsstaðahjáleiguna og sveigir þar austur með brekkunum og rennur í svokallaðan Skagalæk sem er skammt vestan við Lágskaga sem er í Stakkahlíðarlandi.

Svæðið á milli Kirkjuár og Hjáleiguár og upp að hjöllum sem eru neðan undir Karlfellinu heitir Gunnengi. Hjallarnir sem nú voru nefndir heita Hrossahjallar. (Hrossahjallar eru smástallar hver upp af öðrum en í þeim eru engir klettar).  Efst í Gunnenginu, neðan undir Hrossahjöllum, skammt frá Kirkjuánni, er einstakur, nokkuð stór klettur, er Einbúi heitir.  (Einbúi setur svip sinn á Gunnengi).

Miðdalurinn austan Kirkjuár liggur frá Hrossahjöllum og endar inn við svokallað Miðdalsvarp. Á varpinu miðju er allstór einstakur hnjúkur er Miðdalshnjúkur heitir. Nálægt miðjum Miðdalnum að austanverðu eru klettar neðst í Karlfellinu er Votubjörg heita.

Sunnan undir Miðdalsvarpinu er oftast jökulfönn. Svæðið austan Hjáleiguár og að landamerkjum á milli Stakkahlíðar og Klyppsstaða heitir neðst næst sléttunni Klyppsstaðaenni. Þau eru dálítið hallandi. Næst ofan við þau er dálítið svæði með minni halla er heitir Balar. Ofan við þá er allstórt hallandi engi er Grænahnausengi heitir. Vestan við það í brekkunum er svæði er tilheyrir Hrossahjöllum. Það er á milli Hjáleiguár og Grænahnausengis. Hrossahjallarnari ná því á milli Kirkjuár og Grænahnausengis. Ofan við Grænahnausengið er brattur og langur melur er Grænihnaus heitir. (Grænihnaus er eins og smá höfði, lynggróinn að ofan, en uppblásinn kinn í honum).  Hann er bæði í Stakkahlíðar og Klyppsstaðalandi.

Sunnan í Karlfellinu, í Klyppsstaðalandi ofan til, er allstórt svæði er Hvolf heitir.  (Karlfellið er eins og dálítið bogadregið inní sig að sunnanverðu.  Það er Hvolfið).