Desjarmýri

Desjarmýri, með Setbergi
(eftir handriti Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar).

Hið eiginlega heimaland Desjarmýrar takmarkast af Hrafná að utan en Myrká að innan.  Þegar komið er utan akveginn (Desjarmýrarveg), er liggur frá Bakkagerði í Desjarmýri og staðnæmst á innri bakka Hrafnár er skiptir löndum Desjarmýrar og Sólbakka verður fyrst fyrir manni á hægri hönd harðvellisbakki á mótum Hrafnár og Fjarðarár er nefnist Hrafnártangi.  Fyrir nokkrum áratugum náði hann lengra niður en Fjarðaráin hefir í vatnavöxtum stöðugt grafið undan honum og brotið hann niður.  Ofan til á tanganum er skilarétt Austurbyggðar, byggð haustið 1922.  En neðst við Fjarðarána og einnig milli kvísla hennar eru eyrar og hólmar einu nafnið kallaðir Hólmar.  Ysti hólminn og sá stærsti þeirra er nær frá Hrafnárósi og inn að gamla Mosdalsárósi heitir Stóri-hólmi.  Á þessu svæði er þýft mólendi er í daglegu tali er kallað “Niður í kríuvarpi”, síðan krían tók sér þar varpland um leið og landið var girt.  Þetta landsvæði kallaðist áður Nes.

Ofan við mólendið er yst allstór valllendisslétta, beggja vegna vegarins og nær frá Hrafnárbakka að litlum læk er heitir Bæjarlækur og nefnist Grund.  Innan við lækinn tekur við blautlend mýri, kölluð Veita, er nær inn undir Tíðarmel.  Neðst í henni að utan er lítill stararkíll er kallast Störtjörn.  Ofan við Veituna rís allhár brattur grasigróinn malarhjalli sem er leifar gamals sjávarbakka og kallast Börð og eru þau talin ná inn að Kvíalág.

En ofan Hjallans tekur við Desjarmýrartún með prestsetrinu Desmarmýri.

Förum við nú upp með Hrafnánni og verður fyrir okkur valllendisbakki er kallast Hrafnárbakki.  Innan við hann en ofar við Grundina, rís allhár melhryggur er heitir Karlsbarð sem er ysti og nyrsti hluti allbreiðs mólendis er kallast Móar er gengur inn frá Hrafnánni og er nú að miklu leyti ræktað land.  Mun það draga nafn af því að gamlir einsetumenn bjuggu á næstliðinni öld og sjást greinilega húsatætturnar þar til sl. ár er þær voru sléttaðar.  Milli Karlsbarðs og Þorsteinsmels er allbreið grasigróin lægð er heitir Móalág og rennur Móalækur eftir henni í Hrafná.  Ofan við Móalág gengur flatur melur alveg út að Hrafná er heitir Þorsteinsmelur.  En Mýrarkrikinn ofan við hann, upp að Hrafná, heitir Þorsteinsnes.   Inn og upp frá Þorsteinsnesi tekur við afhallandi mýrlendi er nefnist Hálsmúlamýri.  Innst í henni eru mógrafir, Ytri- og Inngrafir.  Niður af Ytri-Gröfum er melur, kallaður Svarðarmelur og þar niður af heitir Svarðeyri.  Nokkuð fyrir innan Ynnri-Grafir er alldjúpur hvammur niður að Hrafnánni er heitir Innsti Hvammur.  Ofan við Hálsmúlamýri gengur allmikil melbunga niður frá Staðarfjalli og kallast Háls.  Ofan við Hálsinn er mýrarsund, kallað Sund og þar upp af mikil melbunga eða hjalli, dökkur að lit er kallast Svartihjalli og enn hærra til fjallsins í sömu stefnu er ljós melhjalli er nefnist Hvítihjalli.  Næstu örnefni innan við Hálsinn sem nú eru þekkt er lynggróin hæðarhryggur er gengur niður frá Svartahjalla og niður undir Hrafná og heitir Leyti.  Efst á þessari hæð er stakur klettur að mestu grasigróinn að ofan er nefnist Leytisklettur.  Af Leytiskletti er gott útsýni yfir fjárstöðvar á utanverðum Hrafndal.  Margir telja hinn eiginlega Hrafndal byrja við Leyti.  Innan við Leytisklett og upp með Svartahjalla eru hlíðar Staðarfjallsins þaktar samfelldum gróðri en þó sundurskornar af giljum og skorningum og kallast það Grænukinnar.  Rétt innan við Leyti er foss í Hrafnánni, almennt nefndur Hrafnárfoss en gilið út frá honum kallað Fossgil.  Nokkru innar er annar foss í ánni og er hann nefndur Innri-Hrafnárfoss.

Láglendisræman frá Hrafnárfossi og inn með Hrafnánni, sem er afhallandi skriður, vaxnar lyngi og mosagróðri heita Lúpumóar.  Hefðu þeir eins mátt vera nefndir Lápumóar því þar eru stöðvar heiðarlápunnar, (sendlingsins) sem verpir þarna á dalnum.

Þar fyrir innan tekur við graslendi sem kallast Grænubalar.  Á síðari árum hafa þeir spillst mjög af skriðuhlaupum og aurburði.  Upp af Lúpumóum og Grænubölum eru hlíðar Staðarfjallsins neðan til sundurskornar af djúpum giljum og er það svæði kallað Rimafjall.  Í Rimafjalli er djúpt og dökkleitt gil, kallað Dimmagil.  Næst innan við Grænubala og Rimafjall gengur djúpt gil ofan úr fjalli er heitir Þvergil.  Skammt frá innri gilbarminum er allstór steinn, kallaður Stóristeinn.   Þar upp af eru lyng og laufgrónir jaðrar er heita Sauðamergsgeirar.  Um Þvergil má segja að Hrafndalurinn skiptist í tvennt, Ytri og Innri-Hrafndal og einnig breytir um landslag.  Undirlendi verður þar meira og grösugra.  Láglendisspildan inn með Hrafnánni er í daglegu tali kölluð “Undir klettum”, en upp af henni rís hár og brattur hjalli með þrem aðskildum klettum í brúninni er heita Hrafnaklettar.  Upp á hjallanum er talsvert graslendi einu nafni kallað “Upp á klettum”.  Þar fyrir ofan og næst Staðarfjallinu eru urðarbotnar er nefnast Hvolf.  Skammt innan við Hrafnakletta er stór urðarbunga er kallast Grenismelur og eru þar þekkt 3 tófugreni.  Milli Hrafnakletta og Grenismels gengur dálítil mýrartunga milli tveggja lækja er heitir Fénaðarmýri.  Hrafná á upptök sín beggja vegna Grenismels og kallast landið að utanverðu Kvíslar.

Í Desjarmýri eru þessi fjöll fyrir stafni Hrafndalsins.

Skjöldur og Bálkur en skarðið milli þeirra heitir Bálkaskarð sem stöku sinnum er farið til Breiðuvíkur og þá komið niður í Innstadal í Breiðuvík.  Milli Bálks og Staðarfjalls er skarð, oftast nefnt Innra-Hrafndalsskarð, stöku sinnum farið af smölum og er þá komið niður á Efsta-hjalla í Mosdal.  Upp af Hrafnaklettum rís Staðarfjall með þverhníptum hömrum en alldjúpt skarð má heita að skeri fjallið í tvennt og er þessi hluti fjallsins í daglegu tali nefndur Innra-Staðarfjall en skarðið kallað Hrafndalsskarð.  Um það liggur stundum leið smala til Mosdals og þá komið niður á Efri-hjalla í Mosdal.  Tindurinn utan við skarðið heitir Staðartindur og blasir við frá Desjarmýri.

Ef haldið er eftir akveginum af innri bakka Hrafnár í Desjarmýri liggur vegurinn,þegar komið er að Heimatúninu upp aflíðandi lægð utast í túninu er kallast Klauf.  Höfum við þá á hægri hönd Börðin en á vinstri hönd þann hluta túnsins er nú heitir Hólshústeigur en var áður kallaður Þrándarstaðateigur af því að hjáleigubóndinn þar sló hann árlega upp á kúgildisleigur.  Yst á honum stendur fjárhús með hlöðu á bungumynduðum hól sem er brattur að utan og heitir Þinghóll.  Bendir nafnið til þess að þar hafi þing verið háð fyrr á öldum enda hefir þingstaður verið á Desjarmýri frá fornu fari og til ársins 1901 að hann var fluttur að Bakkagerði.

Næsta flöt innan við Hólshústeig, niður af Gamla-kirkjugarðinum, heitir Kirkjutunga, þá Brunnflög er dregur nafn af brunni eða uppsprettulind sem allt neysluvatn staðarins var sótt í til ársins 1947 að vatn var leitt í hið nýja prestseturshús frá uppsprettu norðan í Hálsinum.  Neðst í Brunnflöt, beint niður af lindinni, stóð um allmörg ár torfkofi, kallaður Vatnshúskofi af því að í honum var fyrir komið vatnshrút er dældi sjálfkrafa vatni úr lindinni heim í bæ.  Skammt innan við hann fast við Bæjarlækinn er lítil kofarúst kölluð Myllukofi því þar stóð kornmylla meðan korn var malað á bæjum.  En flötin milli Brunnflatar og Engjavegar er mynda þríhyrning heitir Réttarflöt af því að þar stóð áður við Túnlækjarins, hestarétt, hlaðin úr torfi, fram yfir síðustu aldarmót.  Var hún ætluð hestum kirkjugesta.

Framtún kallast einu nafni túnið inn af bæ, norðan Engjavegar.   Setbergsteigur hét áður þúfnastykki fast norðan Engjavegar svo sem teigslengd frá núverandi kálgarði.  Var hann sleginn af Setbergsbónda meðan Setberg var byggt.  Illiteigur hét áður kargþýfður þúfnareitur norðan við heimreiðina gengt Hólshústeig en er nú allur sléttur.

Innst og nyrst í honum við túngarðinn stóð áður smiðjukofi sem búið er að slétta.  Ofan við Bæjarlækinn er dálítill túnskriki er kallast Borgartún, kenndur við fjárborg er eitt sinn stóð þar sem Borgarhúsin standa nú.

Innan við Heimatún gengur lægð kölluð Kvíalág er dregur nafn af því að þar stóðu kvíar staðarins hlaðnar úr torfi, innst á túnhalanum, skammt norðan við Engjaveginn en hafa nú verið sléttaðar.

Framan við Kvíalágina er mýri er heitir Tíðamýri og nær niður á Börð og inn að mel er Tíðarmelur heitir sem er hár og brattur að innanverðu.  Dregur hvorttveggja, melurinn og mýrin, nafn af því að um þau lágu kirkjugöturnar af Innsveit meðan kirkja var á Desjarmýri.  Milli Kvíalágar og ytri hluta Tíðarmels er ofurlítill holtsrani, kallaður Litla-holt.  Ofan við Tíðarmýri er lynggróið holt er heitir Stekkholt sem dregur nafn af því að fram til 1922 stóð innst á því fjárrétt og stekkur er enn sjást tættur af og kringum þær ofurlítill túnblettur er kallast Stekkholtstún.  Mýrin inn af því heitir Stekkholtsmýri og eru gamlar mógrafir innst í henni er kallast Ytri-Mógrafir en aðrar mógrafir eru ofan við miðja Króka og kallast Innri-Mógrafir.  Í krika ofan við Stekkholtið er tjörn er heitir Stekkholtstjörn.

Beint inn af Desjarmýrarbæ rís hár melur ofan við Engjaveg er heitir Miðmundarmelur.  Eru sagnir um það að hann hafi til forna heitið Des og muni bærinn draga nafn af honum.  En hann gæti eins vel dregið nafn af gamla túninu er hann stendur í sem var beðmyndað vegna giljanna en Des í fornu máli merkir beð.  Skammt ofan við Miðmundarmel er annar melur er nefnist Langimelur er gengur upp undir Staðarfjall og er hæstur innan til.  Milli þessara tveggja mela er breið og slétt mýri er nær heim að túni.  Hún heitir Borgarmýri.  Ofan við Langamel rennur Móalækur er kemur undan Staðarfjalli.  Landið inn af Langamel meðfram rótum Staðarfjalls sem ýmist eru ný eða uppgróin skriðuhlaup kallast einu nafni Skriður.  Milli þeirra og Svartahjalla sem áður er nefndur gengur allstórt afhallandi engjastykki upp í Staðarfjallið er kallast Nátthagi.  En nokkru ofar í fjallinu, upp undir neðstu klettum, er ljósleitur líparítblandinn hryggur milli tveggja gilja er heitir Blik.  Var það notað af sjómönnum sem fiskimið út af Borgarfirði.   Átti Álfaborgin að bera í Blikið en Fles yst í Glettinganestangann.

Inn frá Skriðum rís melkollur allbrattur innan til er heitir Eyvindarhöfði en framan við hann og upp af honum er skógivaxinn skriðuhjalli er heitir Skógarhjalli.   Þar fram af kallast Fremriskriður en Ytri-skriður utan hjallans.  Niður af Eyvindarhöfða er engjastykki kallað Eyvindarhöll og þar niður af Uppmýrar, blautlent mýrarstykki er nær frá Miðmundarmel inn að Pyttalæk, ofan króka.  Innst í Uppmýrum skammt utan við læk er fellur innan við Höfðann og heitir Eyvindarhöfðalækur og rennur niður í Pyttalæk eru tvö smá holt.   Hið innra þeirra og stærra kallast Leirholt en hið ytra Hafnarheystæði af því þar var um skeið heyjað í kring frá Höfn og heyið sett saman á holtinu.  Fast ofan við þessi holt er kringlótt mýrardap er heitir Ker.  Meðfram Pyttalæknum eru aflíðandi mýrardrög, kölluð Pyttalækjarhóll.  Innan við Pyttalæk tekur við breiður og sléttur mýrarflóði er kallast Illiflói en mýrarstykkið þar inn af sem allt er þýft heitir Innstastykki og nær inn undir Mosdalsá.  Meðfram Mosdalsánni utan eru afhallandi mýrardrög kölluð Hvammar.

Innan við Tíðarmel sem áður hefur verið nefndur er blautlendur mýrarkriki er nefnist Torfkrókur og fellur Tíðarmelslækur eftir honum úti í hinn gamla farveg Mosdalsár.  Torfkrókur var áður frægur fyrir ágæta torf- og reiðingsristu og var allt heyjatorf Austurbyggðar skorið í honum fram yfir síðustu aldamót.  Torfið var venjulega þurrkað á næsta mel þar innan við er heitir Torfmelur.  Frá Torfmel gengur lágur malarhjalli alla leið inn undir Geirishóla er einu nafni kallast Krókar.  Það er gamall marbakki er bendir til þess að fjörðurinn hafi endur fyrir löngu náð miklu lengra inn í landið en smásaman fyllst upp af framburði ánna.  Eftir Krókunum lá áður gamli sýsluvegurinn frá Desjarmýri um Ytri-Krók sem er fast innan við Pyttalæk og þaðan inn á Tungur á móts við Setberg en skiptist þar skammt fyrir innan og lá önnur reiðgatan til Húsavíkur en hin beint til Kækjuskarða.

Innan við Torfmel en neðan Króka er slétt en votlend engjastykki sem heitir Breiða.  Meðfram því að neðan er mjótt en alllangt þurrlent þúfnastykki, kallað Rimi.  Þá taka við Mosdalsárbakkar sem eru harðvelliskend engjastykki beggja vegna hins gamla Mosdalsárfarvegs og milli hans og Pyttalækjar neðst kallast Tangi.  Niður af Ytri-Krók fellur lækjarsytra í alldjúpum farveg er nefnist Ytri-Aurkíll og rennur út í Mosdalsárfarveg.  Inn af Ytri-Krók hækkar malarhjallinn og verður hæstur niður af Illaflóa og heitir þar Háikrókur.  Meðfram Háakrók rennur lækur er kallast AurlækurLáglendið allt norðan og innan HáakróksMosdalsárfarvegi og inn undir Þverá kallast einu nafni Aur.  Malarhjallinn innst við Mosdalsá gengt Geirishólum kallast Innsti-Krókur.  Landspildan innan við Aur meðfram Þverá og allt niður að Fjarðará kallast Þverárbakkar en eyrarnar með Þverá kallast Þveráreyrar.  Þverártangi heitir þar sem Þverá og Fjarðará mætast.  Við ármótin er sérstakur veiðihylur í Fjarðaránni er áður hét Miðmundamelshylur.  Nafnið er dregið af Miðmundamel norðan Fjarðarár en nú er þessi hylur kallaður Glæsuoddahylur (en Glæsuoddi er í Miðmundarmel), eða bara Glæsir.  Fjarðaráreyrar kallast eyrarnar með Fjarðará.

Neðan við Mosdalsárbakka, milli þeirra og Fjarðarár er mikið mólendi er nær nálega óslitið frá Þverárbökkum og út undir Hrafná kallað einu nafni Nes.  Utanhalt við Ytri-Krók en norðan Mosdalsárbakka skerst mýrarkriki norður í mólendið er nefnist Péturssker.  Innan við það kallast mólendið Svartimór.  Inn og upp á við frá horni þessara móa, nokkuð í stefnu á Geirishóla neðanvert eru mjög blaut mýrardrög neðan Mosdalsárfarvegs, kölluð Mosdalsárdrög.  Lænur kallast blautgontur meðfram Svartamó innanverðum en Hvolslágar þurlendar gontur meðfram honum gengt Hvoli.  Þar fyrir neðan er hólmi í Fjarðaránni kallaður  Hvolshólmi og nokkuð fyrir utan hann er allstór hólmi er heitir Votanes.

Mosdalur takmarkast af Staðarfjalli að utan en Partafjalli og Hvítuhnúkum að innan og fyrir stafni hans eru Bálkur og Gatfjall.  Kletturinn yfir gatinu hrundi veturinn 1951 og eftir er skora í tindinn.  Eftir Mosdal fellur Mosdalsá.  Til skamms tíma rann hún gegnum Aur sem talið var besta engjastykki jarðarinnar (100 hesta engi) og eyðilagði það að mestu, rann síðan ofan við Nes út á móts við Tíðarmel en beygði þá ofan í Fjarðará.  En nú fellur hún í Þverá utan við Geirishóla.  Neðst í Mosdal eru skógivaxnar brekkur er heita Mosdalsbrekkur.  Ofan við þær er hjalli, gróinn mýrlendi er kallast Neðri-hjalli og upp af honum annar hjalli, langur og brattur er nefnist Efri-hjalli og enn ofar er lítt gróinn melhjalli er heitir Efsti-hjalli.  Niður af Gatfjalli heitir Gatfjallskverk.  Fram af Efri- og Neðri-hjalla er grýttur hryggur, kallaður Urð og er þar þekkt greni.

Innan við Mosdalsá er kjarri vaxin hraunbunga fyrir mynni Mosdals með mörgum hraunhólum og djúpum grasbollum á milli er heita Geirishólar.  Eru þeir luktir vötnum á þrjá vegu.  Neðst í þeim er alldjúp tjörn er kallast Geirishólatjörn.  En ofan við þá eru tættur eftir gömul beitarhús frá Desjarmýri (lögð niður 1884) og kallast “Á Geirsstöðum”.  Ekki er vitað að þar hafi nokkurn tíma byggð verið.

Mýrin upp af heitir Geirishólaýri.  Innan við Geirishóla er lítill lækur í djúpu gili er kemur úr Partafjalli.  Heitir gilið Maríulækjargil en lækurinn Maríulækur.  Milli Maríulækjar og Myrkár sem skilur lönd Desjarmýrar og Setbergs eru mýrar er heita Myrkármýrar en fjallið ofan við þær Partafjall og Partafjallshali þar sem það endar við Geirishóla.  Öll hlið Partafjallsins er að mýrunum veit er vaxin þéttum birkiskógi meðan til.

Innan við Myrká tekur við Setbergsland er nær inn að Efra-Selhúslæk milli Setbergshnauss og Hvítuhnjúka að sunnan en Krossár að vestan og Þverár að norðan.  Setberg var hjáleiga er tilheyrði Desjarmýri en lögð undir hana er hún lagðist í eyði 1908 og verða því örnefni jarðarinnar tekin hér með örnefnum Desjarmýrar.

Myrká kemur úr djúpu gili er myndast í stórri hvilft milli Partafjalls, Hvítuhnjúka og Setbergshnauss er kallast Hvolf.  Meðfram Myrká að innan eru mýrblendnir valllendisbakkar, kallað Myrkárbakkar.  Innan við þá eru hraunbungur er heita Setbergshraun, kallast hið innsta og efsta þeirra Stakahraun.  Á milli hraunanna eru mýrarsund, í daglegu tali kölluð Sund.

Utan og ofan Hrauna eru grasigróin sund gegnumskorin af jarðföllum og heita Græfur.  Ofan við Græfur gengur melrani niður úr Setbergshnausnum út með Myrká, vaxinn kjarri er kallast Hnaushali.  Innan við Græfur, neðan Setbergshnauss, tekur við allstórt mýrlendi er heitir Setbergsengi.  Engið skiptist í Efra- og Neðra-Engi.  Neðra-Engið tekur rétt við út og upp frá Brekkunni (upp af bænum) og liggur þar út ofan Hrauna endann en svo er æði brekkuhalli upp frá því.

Tekur Efra-Engið við fyrir ofan hallið og nær lengra út fyrir ofan hraunin en Neðra-Engið.  Innst í Efra-Engi kallast Engiskriki en þar upp af er Engishjalli.  Undan Engishjalla hefir bæjarlækur upptök sín er rennur gegnum Engið milli Bæjarstæðis og Setbergsins sem er dálítið standberg á innri lækjarbakkanum, gengt bænum og hann dregur nafn af.  Innan við lækinn hefst breiður lyngi- og kjarrivaxinn háls er nær inn að Stóralæk og kallast Setbergsháls.

Neðst við ármót Myrkár og Þverár gengur kjarri vaxinn melhryggur út úr Hraununum er nefnist Hraunhali.  En norðan Hrauna skammt frá Þveránni er lítill melkollur, kallaður Litlahraun.  Meðfram Þverá frá Hraunhalanum heitir Eyraroddi,Litlaholt nokkru innar en bilið milli þess og Hraunhalans kallast Þverárbakki.  Sultarhólmi og Feigðareyri hét áður í Þveránni, rétt undan Litlaholtinu og mun það dregið af því að 10. Maí 1871 drukknuðu þar tveir menn frá Setbergi, Stefán Kjartansson bóndi (faðir Jóns er síðar bjó á Gilsárvelli og Sólon Björnsson, 13 ára unglingur er freistuðu að vaða Þverána í Vatnavöxtum með heypoka á baki en jakaburður var í ánni og var talið að það mundi hafa valdið slysinu.

Niður undan Setbergsbænum er annað klapparholt er heitir Stórholt og eru vestan í því rústir af gömlum kálgarði.  Bilið milli Litlaholts og Stóraholts er kallað “Á milli Holtanna”.  Austur af Setbergsbænum eru brekkuhjallar, kallaðir Höll.  Þau eru skorin af tveim þverlágum, er nefnast Lágar.

Setbergstúnið liggur milli Bæjarlækjarins og Hólshúslækjar.  Austan við lækinn er dálítill hóll, þar stóð áður hús sem kallað var Hólhús.  Sauðhús var neðst á Setbergstúninu.  Upp af bænum heitir Brekka utan við Bæjarlækinn.  Vestan við Bæjarlækinn á Hólsbarðinu var hús kallað Lambhús og lítill túnblettur út frá því niður að læknum.  Aðaltúnið var undir brekkunni að bæjarbaki og niður af bænum.  Í út- og niðurjaðri túnsins heitir FitGrund heitir lítil slétta milli Þverár, Hólsins og Bæjarlækjarins en Krókur vestast á henni undir Hálsinum.  Þá heitir Klettur.  Hann gengur af Hálsinum fram í Þverána.  Vestan við klettinn heitir Eyri, láglendið milli Hálsins og árinnar.  Eyrin lokast að vestan með mjóum rana sem gengur úr hálsinum út í Þverána.  Vestan við hann fellur lítill lækur er kallast Stórilækur í Þverána.   Hann kemur undan Setbergshnaus og Urðarhólamýri og rennur um hríð eftir stóru gili.  Þar stóð stekkurinn á dálitlum grasbala og sjást enn rústirnar.  Allt svæðið sem hér hefir verið lýst, milli Bæjarlækjar og Stóralækjar upp undir Setbergshnaus kallast einu nafni Setbergsháls.

Innan við Stóralæk er allstórt engjastykki er kallast “Undir Höfða”.  Ofan við það rís há melbunga, víða kjarri vaxin, er heitir Setbergshöfði.  Hann er hæstur að vestan þar sem Krossá og Skúmhattardalsá mætast en eftir það heita þær Þverá.  Þar er hár foss í djúpu og kallast hylurinn undir fossinum Pottur.  Annar foss miklu lægri er í Þveránni út af Höfðanum og er hylurinn undir honum kallaður Ketill.

Ofan við Setbergshöfða er allbreiður grösugur dalur til suðvesturs er heitir Desjarmýrarafrétt.  Takmarkast hún að norðan af Setbergshnaus og Hvítuhnúkum, að austan af Víknaheiði og Hvítserk en sunnan af Náttmálafjalli og Þríhyrningsups.  Niður af Hvítuhnúkum rísa Urðarhólar sem er stórgrýtt og holótt hraunurð með mörgum strýtum og eru þar mörg þekkt tófugreni.  Neðan til í miðjum Urðarhólum er allstór hringmynduð skál með bröggum börmum og kringlóttri smátjörn í botninum og heitir skálin Ketill.  Í krikanum milli Setbergshnauss og Urðarhóla og niður af þeim er allstór mýrarblettur kallaður Urðarhólamýri en í krika ofan við hólana er mjög djúpt stöðuvatn er heitir Urðahólavatn.  Úr því fellur Neðri-Selhúsalækur ofan með Urðarhólum og Setbergshöfða niður í Krossá.  Dregur hann nafn af fornu seli frá Desjarmýri er stóð á efri bakka hans gegnt neðra horni Urðarhóla og sjást þar enn grónar tættur, kallaðar Seltættur.  Utan við Setbergshöfða eru mýrarsund með tjarnarsíkjum.  Utan við sundið tekur við Neðri-alda og nær út að Stóralæk.  Ofan við Neðri Selhúsalæk taka við Neðri-Fitjar.  Skammt ofan við lækinn rís langur melhryggur er nefnist Fitjahryggur.  Eftir honum liggur vegurinn frá Neðri-Selhúsalæk upp að Efri-Selhúsalæk.  Út frá efri enda Fitjahryggs liggur mikil melbunga út undir efra horn Urðarhóla og heitir Efri-alda.  Milli Efri-öldu og Fitjahryggjar er slakki eða laut, nefnd Ökusund.  Var um það venjuleg leið með heyæki ofan ef Efri-Fitjum.  Ofan við Efri-Öldu fellur Efri-Selhúsalækur er hefur upptök sín framan og ofan við Magnúsarhraun sem er strýtum myndaður urðarhóll neðan við Hvítserk.  Þar er þekkt greni.  Utan Efri-Selhúsalækjar, neðan Magnúsarhrauns en ofan Efri-Öldu er grösugt engjastykki, kallað Kriki.  Út frá Magnúsarhrauni er mikil hæðarbunga er heitir Vatnsalda.  Þar áttu fyrrum að mætast afréttar og Breiðuvíkursmalar þegar gengnar voru löggöngur.  Í lægð fyrir utan er Stóra-Gæsavatn.  Um það mitt liggja landamörk Desjarmýrar og Breiðuvíkur.

Ofan við Efri-Selhúsalæk taka við Efri-Fitjar, flatur mýrarflói.  Efsti hluti flóans nefnist Aur en þar fyrir ofan Krossmelahöll, niður frá Krossmelum, sem er malarhjalli niður frá Hvítserk.  Ofan við Krossmela er dæld meðfram Hvítserknum er nefnist Krossmeladæld.  Hátt upp af henni er hjalli í Hvítserknum er heitir Hvítserkshjalli.  Milli Hvítserks og Náttmálafjalls er Húsavíkurheiði.  Liggur melhryggur langleiðina upp frá Efri-Selhúsalæk og upp undir Krossmela.  Liggur vegurinn eftir honum.  Kallast þessi hryggur Efri-Fitjahryggur en hann liggur framan Efri-Fitja en utan Krossár.

Vestan við Krossá er Þríhyrningsups (er sumir kalla Krossups), milli Krossár og Skúmhattardals.   Fjallaröðin frá NáttmálafjalliSkúmhetti nefnist Skúmhattarröð en milli Skúmhattar og Þriggjahnúkafjalls eru Skúmhattarskörð.  Innsta horn Þríhyrningsupsar heitir Upsahorn.  Fyrir innan Upsahornið endar dalbrúnin, landið verður lægra og hallar jafnan til Skúmhattardals.  Milli lækjanna er falla niður í Skúmhattardalsána heita Tungur.  Aurar heita flatir og gróðurlitlir aurmelar upp frá Tungum en inn og upp frá Upsahorni.   Innri-Upsir heita melar er taka við innan við Tungur en út og niður frá Skúmhetti.

Skúmhattardalsá kemur neðan undan Skúmhattarskörðum og skilur lönd Desjarmýrar og Gilsárvallabæja.  Beggja vegna hennar heitir Skúmhattardalur.  Neðst milli Krossár og Skúmhattardalsár er Krossártangi.

Ritað veturinn 1957-58