Breiðuvík

Breiðavík: mynd: Sigurgeir Haraldsson

Breiðuvík (Breiðavík) er landnámsjörð. Þar segir Landnáma að Þórir Lína hafi numið land. Fyrir botni víkurinnar er breiður sandur og þar fellur Stóraá (Víkurá) til sjávar. Hún skilur að miklu leyti að jarðirnar Breiðuvík og Litluvík (Litlu-Breiðuvík) sem er sunnan árinnar. Litlavík fór í eyði árið 1945. Skammt frá sjó norðan megin í víkinni stóð Breiðuvíkurbærinn.

Þar var löngum tvíbýli, en byggð þar lagðist af árið 1947. Breiðavík var eftirsótt jörð vegna mikils landrýmis og landkosta en slæm lendingarskilyrði þóttu þó mikill löstur. Þá er einnig þokugjarnara í Breiðuvík en í Borgarfirði. Víkin er vel gróin og litskrúðug líparítfjöll skapa ákaflega sérstaka fjallasýn. Landeigendur og Slysavarnasveitin Sveinungi á Borgarfirði reistu þar neyðarskýli á níunda áratugnum og sumarið 1998 reisti Ferðafélag Fljótsdalshéraðs þar 33ja manna glæsilegan gistiskála.

Skáli FFF í Breiðuvík

Margar eldri rústir eru umhverfis bæjarstæðið og flest bendir til búsetu frá landnámi, en víkurinnar er getið í Gunnars sögu Þiðrandabana (um árið 1000). Gamlar rústir þar heita Fornibær. Athyglisvert er að Litluvíkurfólk átti kirkjusókn til Húsavíkur, en Breiðuvíkurfólk til Borgarfjarðar.  Litlavík fór í eyði 1945 og Breiðuvík 1947. Jeppavegur er frá Borgarfirði um Gagnheiði og þar uppi er útsýnisskífa.  Frá Breiðuvík er einnig jeppavegur um Víknaheiði og kemur þar inn á Loðmundarfjarðarveg við rætur Hvítserks.

Svínavík heitir dalverpi er liggur upp í Grenmó norðan Breiðuvíkur. Þar hefur aldrei verið búið enda víkin lítil og erfið uppgöngu.

Fáar færar leiðir eru á Svínavík en þó er þokkaleg leið um Kaplaskarð og á fjöru má auðveldlega ganga fyrir Forvaða úr Breiðuvík.