Útinám

Við skólann er útinám, nám í tengslum við samfélagið og náttúruna í kring um okkur, hluti af þeim leiðum og kennsluaðferðum sem kennarar og nemendur nýta sér markvisst. Kennarar eru hvattir til að skipuleggja kennsluna sem oftast útivið. Á það við í öllum bekkjardeildum og öllum námsgreinum.  Í útikennslu er veður ekki hamlandi þáttur, því förum við út í öllum veðrum, nema að sjálfsögðu ef hætta er á ferðum. 

Útinám hefur marga kosti, meðal annars eflist heilbrigði barnanna, öll skynfæri þeirra virkjast, þau fá aukna hreyfingu og námið sem fer fram tengist þeirra eigin umhverfi. Það er afskaplega mikilsvert í kennslu að nemendur eigi sameiginlegan reynsluheim sem hægt er að vísa til og byggja umræður, verkefni og þekkingu þeirra á. Í útinámi og útiveru þroskast jafnframt félags- og samskiptahæfni þeirra undir handleiðslu kennara.

Útinám er metið sem hluti af námsmati í hverri grein.

Foreldrar þurfa ef til vill að aðstoða börn sín og unglinga við að muna eftir að koma vel klædd og eftir veðri. Góður skóbúnaður, hlífðarfatnaður, ullarsokkar í stígvél, húfur og vettlingar skipta gríðarlegu máli í þessu sambandi og eru nauðsynlegur fatnaður flesta daga.