Árnastaðir

Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Árnastaðaland nær frá Melá að austan að vatnaskilum norðvestur á fjallveginum sem er á milli Bárðastaðadals og Eiðaþinghár í Fljótsdalshéraði. Austast í landi jarðarinnar, meðfram Fjarárá, eru sléttar og allmikið grónar grundir eða malareyrar er heita Árnastaðaeyrar. Ofan við þær á milli Melár og Árnastaðatúns eru dálítið hallandi grundir og mýrardrög sem ná upp að fjallsrótum.

Í gegnum Árnastaðatúnið rennur dálítítill lækur er Bæjarlækur heitir. Vestan við Árnastaðatúnið er dálítið sléttlendi meðfram Fjarðaránni á nokkru svæði. Fyrir ofan það eru hallandi enni upp að fjallarótum og ná þau nærri vestur að Miðmundaá, smáá sem rennur þar niður fjallið og í Fjarðará. (Miðmundaá er ýmist kölluð svo eða Miðmundará).  Vestan við Miðmundará og vestur að á er Hrævardalsá heitir, er dálítið hallandi land frá fjallsrótum og ofan að Fjarðará og er það ýmist gras- engjar eða lynggróið.

Meðfram Fjarðaránni, dálítið fyrir innan Miðmundaána, er lágur klettaás og (?) nokkru svæði er Gildruhraun heitir. Frá Hrævardalsá og vestur að sveigmynduðum klettum sem liggja fyrir botni Bárðarstaðadals og nefndir eru Klif, er allstórt landsvæði, er Afrétt heitir og hallar því dálítið frá fjallsrótum og að Fjarðará. Þar þykir mjög góð hagaganga fyrir sauðfé eins og yfirleitt í öllu Árnastaðalandi. Á svæði þessu skiptist á gras og lynggróður. Fyrir ofan svæði það, frá MeláHrævardalsá sem ég hefi nú lýst, er Árnastaðafjall.

Frá Melá og nokkuð vestur fyrir Árnastaði eru allháar og nokkuð brattar brekkur í fjallinu. Ofan við þær á löngu svæði er hjalli er nefndur er Mýrarhjalli. Á honum er töluvert graslendi og var stundum heyjað þar fyrr á árum. Upp af Mýrarhjallanum, austan til í fjallinu, eru stórar klettaaxlir sem ná upp á fjallsbrún og heita einu nafni Hádegisaxlir. Frá Hádegisöxlum og vestur að allhárri klettaöxl, er heitir Nónöxl eða Nónaxlir, er nokkuð stór dæld í fjallið er heitir Miðmundaárbotnar og kemur áðurnefnd Miðmundaá úr þeim að vestanverðu en austar úr þeim kemur lækur er rennur í gegnum túnið á Árnastöðum og heitir hann Bæjarlækur eins og áður segir og rennur hann ofan í Fjarðarána.

Vestan við Miðmundaárbotnana er hátt fjall er heitir Hákallshaus. (Ber nafn af lögun sinni).  Það mun vera hæsta fjall hér við Loðmundarfjörð. Frá Seyðisfirði séð heitir þetta fjall Sandhólatindur.
Nónaxlir, sem áður er getið, eru á milli Miðmundaárbotna og Hrævardals og ná að neðan frá Mýrarhjalla og upp á fjallsbrún, rétt vestan við Hákallshaus. Þar á fjallsbrúninni er dálítill einstakur tindur er Nóntindur heitir. Vestur frá Nóntindi er fjallsbrúnin slétt og jöfn að ofan vestur að fjallsöxl eða tindi sem er dálítið hærri en fjallið fyrir austan og heitir hann Skýhnjúkur.  (Í vissri átt situr oft þoka á toppinum á Skýhnjúki).  Norðvestan í honum, við rætur fjallsins, er dálítill hjalli er nefndur er Unusæti. Neðan undir Skýhnjúknum, en vestan undir Nónöxlum, er dalur í fjallinu er Hrævardalur nefnist. Nær hann niður á móts við neðri endann á Nónöxlum. Dalur þessi er víðari en sýnist neðan úr sveitinni.  Eftir honum rennur Hrævardalsáin, sem áður er nefnd, og niður fjallið og í Fjarðará.  (Hrævardalur er tæplega dalur, miklu fremur seigur í fjallinu). 

Norðvestur af Skýhnjúk er fjallið mikið lægra á alllöngu svæði en fjöllin sunnan og norðan við. Hæsta brúnin á þessu svæði, og sem sést héðan, heitir Þófadalsvarp. Norðan við það, en sunnan við fjallveginn , er fjallshnjúkur, ekki stór að ummáli eða hár, er Tóarhnjúkur heitir. Sunnan við Tólarhnjúkinn rennur á innan frá Þófardalsvarpinu og fram af fjallsbrúninni sunnan við Tóarhnjúkinn og ofan í Fjarðarána, nokkuð sunnan við áðurnefnd Klif í Bárðarstaðadalnum, og heitir hún Þófá. Svæðið í brekkunum undir fjallsbrúninni á milli Þófár og Fjarðarár heitir Þófi.  (Í Þófanum er graslendi.  Kindur sem þangað fara eiga í erfiðleikum með að komast upp aftur og lenda því gjarnan í svelti.  Því eru sumir farnir að kalla þennan tanga Sultartanga).

Viðbætur frá Örnefnastofnun
Athugasemdir.   Ásta Stefánsdóttir skráði.

Miðmundaá er nefnd svo. Mér finnst sennilegt, að það hafi verið eyktamark frá Bárðarstöðum.
Gildruhraun. Það má vel vera, að hafi verið tófugildrur á því. En í þjóðsögum er sagt, að sauðaþjófar hafi komið úr sunnanverðum Seyðisfirði eða Mjóafirði, farið inn öll fjöll og ofan í Bárðarstaðadal og náð kindum í gildrur, og er það álitið, að það hafi verið við Gildruhraun. Þar hagar svo til, að er svolítil kró við ána, sem gott hefði verið að reka fé á, en það er hálfótrúlegt, þetta er svo nálægt bæ, nema það hefði verið að næturlagi.
Hádegisaxlir, Nónöxl eða Nóntindur hafa verið eyktamörk, kannski frá Árnastöðum, Bárðarstöðum eða Úlfsstöðum.
Sennilega frekar Unusæti, ekki heyrt sögn um það.

Í örnefnaskránni eru ekki nefnd landamerki milli Árnastaða og Bárðarstaða, en Bárðarstaðir eiga land sunnan við á í dalnum, að ég held, út að Hrævardalsá.