Sú trú er allforn að í svonefndri Álfaborg í Borgarfirði búi huldufólk.
Það varð einu sinni á jólahátíð að hjón ein er bjuggu að Jökulsá og áttu mörg börn, fýstust
að fara til Desjarmýrarkirkju með þau. Vinnukona var hjá þeim ung og fríð sýnum. Eigi er getið um nafn hennar. Hjónin báðu
hana vera heima að gæta búsins meðan þau væru við kirkjuna en þangað er lítill spölur. Átti hún einnig að líta til
fjárins þar í kring. Nú fara þau öll til kirkjunnar.
En stúlkan starfar að búverkum í eldhúsi nokkra stund. Verður henni þá gengið út; sér hún
þá að komin er kafaldshríð, mikill vindofsi og snjóburður; hún bregður við hið snarasta og vindur sér útí mokkinn að
bjarga fénu. En eigi hefur hún lengi gengið áður hún villtist og lendir loks að stórum steini. Er hún þá magnþrota og leggst
þar fyrir. Hyggur hún sér þá dauðann vísan. En þá vill svo til að allt í einu kemur þar fjárhópur nokkur; fer
mórauð ær fyrir og etur horngarðinum í veðrið. Á eftir hópnum kemur ungur maður fríður og drengilegur. Hvorki þekkir hún
manninn eða féð. Þegar kindurnar runnu framhjá snýr maður þessi sér að stúlkunni og heilsar henni vingjarnlega. Hún tekur
því og segir: "Hver ertu og hvar áttu heima?" Sigurður heiti ég og á ég heima hérna í Álfaborginni og skaltu velkomin að fylgja
mér þangað því eigi er þér lífvænlegt hér." Hún játti því og spyr hvort margt fólk búi í
borginni. Hann kveður það vera margt og gott í hinum nyrðra hluta en all-blandið og margskonar syðra megin. "Og skaltu eigi láta á þig fá
þótt móðir mín verði svipyggld við þig." Hún heitir því. Koma þau nú að syðri hluta borgarinnar. Rekur
Sigurður féð inn í aðrar dyr. Svo tekur hann í hönd stúlkunnar og leiðir hana inn um hinar. Koma þau í herbergi eitt. Er þar fyrir
kerling móðir Sigurðar. Þau heilsa henni. Hún tekur eigi undir við stúlkuna en segir við son sinn þurrlega: "Hvar fannstu gersemi þessa?"
"Hérna hjá Kjóahraunsvaðinu,! Segir hann. "Hún hefði látist þar hefði ég eigi fundið hana." Sigurður sest á rúm sitt
og bendir stúlkunni að gera það líka. Kerling fer nú ofan og sækir þeim mat. Stúlkan signir þá mat sinn. "Hvað ertu að
krafla og káfa, ólukku kindin?" segir kerling, tekur vönd og ber allt húsið innan með andfælum miklum.
Stúlkan svaf hjá Sigurði um nóttina. Um morguninn segir hann: "Nú er hríðrof og muntu heim fara. En fundið hefur bóndi
fé sitt." Hún kvaðst heim fara "en vandlaunað er þér. Skaltú þiggja gimbur mórauða er ég á og eru það lítil
laun". "Svo að einu þigg ég hana að þú fylgir sjálf með og farir til mín í vor því ég ann þér." "Svo skal
vera," segir hún og fer heim.
Segir hún sögu sína en eigi trúlofun. Síðla um veturinn hvarf Mosa hennar og vildi hún eigi láta leita hennar. En um
vorið hvarf stúlkan sjálf og sást eigi síðan. En svo segir kona ein að Bakka löngu síðar að hún væri gift kona í
Álfaborginni. Kvaðst hún hafa setið fjórum sinnum yfir henni í barnsnauð.
"E.s. Guðnýjar Tómasdóttur í Fjarðarseli í Seyðisfirði 1904." Sjá Þjóðsögur
Jóns Árnasonar. I, 26.