Örnefnaskrá Brúnavíkur
Syðsti hluti Brúnavíkur er Skjótanesið og út af því er Skjótanesfles. Sunnan á nesinu eru básar er heita Hvalbás og Vík en ofar á nesinu er Gjáarhjalli. Suður af honum taka við Skjótanesflug en í þeim um það bil miðjum eru Selatorfur og liggur leiðin í þær um klettarákir af Gjáarhjalla. Upp af hjallanum eru Skjótanesraðir. Norðan á Skjótanesi eru básar er heita Grímshöfn og út af henni er Grímshafnarboði sem er blindsker.
Næsti bás er Skellir og svo Illibás. Næst kemur Stapabás og svo Tindarastargil og nær það upp nesið þvert til brúna og innan þess eru Kambsbás og svo Selabás. Básar þessir liggja mjög saman og munu vera gömul selalátur. Upp af þessum básum eru brattar skriður er Skjótanesskriður heita og liggur eftir þeim tæp gata út eftir nesinu. Ofar á Skjótanesi heita Dagmálabotnar og þá er Króksgil er liggur frá fjallseggjum ofan að Sandi er liggur fyrir botni víkurinnar. Innan Skjótanesraða heitir Dagmálafjall og norðan í því eru svokölluð Rauðuskot. Þar niður af er Baulumýri, þá Hvalgil og Hrafnaklettar. Því næst er Baulugil og Baulugilslækur fellur eftir því í sjó fram.
Innan Baulugils er Hafhryggur og Haftjörn. Er sennilegt að hvort tveggja dragi nafn sitt af Grettishafi er stóð á vesturenda hryggjarins fram undir (næst) síðustu aldamót en var þá velt af hlóðum.
Niður af Hafhrygg er Borgarsund og Borgartangi og sjást þar tóftarbrot, sennilega leifar af sauðaborg. Inn af Dagmálafjalli heita Geldingaskörð er farin eru til Hvalvíkur og innan þeirra er Geldingahnúkur. Niður af Geldingaskörðum heitir Stóribotn en Ups innar. Þá koma Stórabotnsmelar neðar og að lokum Breiðasund. Innan Geldingahnúks er Súludalur er gata liggur um til suður-Víkna. Innan Súludals kemur Súlutindur (605m). niður af Súludal heita Selbrekkur, Selmýrar og Sel en þar sjást enn tóftir eftir gömul beitarhús. Þá kemur Selmell og innar Súlugil er Súlugilslækur fellur um og í á þá er fellur eftir víkinni til sjávar og Brúnavíkurá (Víkurá) heitir.
Norðan í Súlutindi heita Súlutindsbotnar en Grænukinnar neðar. Inn af Súlutindi er Kjólsvíkurskarð, þá Krossfjall (521m.). Þá kemur Ups og Þrándarhryggur (274 m). Niður frá Kjólsvíkurskarði er Rauðimell en Forir utan við Þrándarhrygg. Utan Fora eru Engidalsbrúnir en Engidalur þar utar. Í norðurkrika hans er sérkennilegur hóll erEinbúi nefnist en Moldargil heitir þar norður af. Engidalur er grösugur og fallegur skeifulagaður dalur.
Norður af Forum heita Hnútur, þá Svartfell (525m) og Hofstrandarskarð (321m) og ystGeitfell (587m). Suður frá Hofstrandarskarði liggur melrani er Háls nefnist. Niður hann fellur lækur er Stórilækur heitir og fellur hann í Víkurá.
Utan Stóralækjar heita Hvammar en utan við áðurnefndan Háls heitir Brotagil og samnefndir lækir falla um bæði Hvamma og Brotagil og falla í Víkurána.
Sunnan í Geitfelli eru sérkennilegir klettar er Þjófaklettar nefnast. Niður frá þeim erÞjófakinn, þá Flatafjall. Töðubalar og engjalönd er Döp heita eru næst ánni. Utan við Töðubala heita Hjallar. Þá koma Hlauphjalli, Skriðuhnaus, Skriða en Breiða og Leyningur neðar. Næst ánni er svo Langholt.
Utan Geitfells er Brúnavíkurskarð og um það liggur reiðgatan til Borgarfjarðar. Þá kemur Gránípa (441m). Utan Gránípu kemur Hafnarskarð og er þar allstór tjörn í dalkvos sunnan við skarðið. Í henni finnast svokölluð vatnaaugu sem eru af þörungaættum. Næsta fjall er svo Búrfell (451m).
Að sunnanverðu í Brúnavíkurskarið er mjög einkennilegur hóll, að mestu gróinn, er Þjófur nefnist og má telja líklegt að áðurnefndir Þjófaklettar dragi nafn af honum enda í svipaðri hæð en þó sund á milli. Þar niður af er Gatnahryggur, Fjall, Efribrekka, Neðribrekka og í henni um það bil miðri er Hálfdánarklettur. Til er frásögn um að maður er Hálfdán hét fyndist þar örendur og illa útleikinn á aðfangadagskvöld jóla og var gjörningum um kennt en maður þessi gætti sauða fyrir þáverandi Brúnavíkurbónda á áðurnefndu fjalli og sjást þar en tóftarbrot.
Utan Gatnahryggs fellur Bæjarlækurinn niður um brekkur og tún í Guðbrandsengi. Þá koma Klaufir en Útbrekkur neðar og að lokum tún jarðarinnar.
Helstu örnefni í túninu eru: Fremst er Nátthagi, þá Réttartunga, Hesthústunga. Hlauphústunga er utar en Hjáleiga er yst. Þá eru Útmýrar en Stekkur er yst og þrýtur þar undirlendi víkurinnar en við taka torfærur og flug er Brúnavíkurbjarg nefnist.
Niður frá túni, út með sjó, eru básar er heita talið frá ánni: Hákarlavogar og Höfn og er þar allgóð lending. Þá koma Ytri- og Innri-Kvosir og Stekkabás.
Búrfellsgil heitir djúpt klettagil er liggur frá Búrfelli í sjó niður og má segja að það skilji hið byggilega land frá ófærum. Utan Búrfells er Grenjahnaus, Stekkhvammsfell (413m), en yst er Almenningstindur (448m). Niður af Grenjahnaus heita Hafnarbotnar, þá Bæjarjaðar og Flatijaðar. Í Bæjarjaðri neðst er djúpt og sérkennileg klettaskora er Hrafnagjá heitir. Þar með sjó eru Urðarbás og Langafjara. Utan Flatajaðars er Háijaðar (eða Breiðijaðar). Þá kemur Illagil (og Borgartangar) en þar á að hafa verið sauðaborg áður fyrr og sjást þar enn tóftarbrot. Sauðageymsla lagðist þar niður er sauðamaður ekkjunnar er þá bjó í Brúnavík fórst þar í illviðri og sauðir hennar allir.
Niður af Borgartöngum heitir Brattijaðar og Skál og þar niður af er Skálarbás.
Utan Borgartanga heitir Illakinn og þá Stekkhvammstangar og Stekkhvammur en það er allstórt grashvolf er nær til fjallsbrúna og á þar að hafa verið stekkur til fonra og sjást þar gömul tóftarbrot. Niður af Stekkhvammstöngum heitir Neðrabjarg. Utan Stekkhvamms er Gjáarnef og síðan Almenningur. Þar niður af eru Keflavíkurflug, lítt geng. Þá koma Keflavíkurtorfur og Keflavík og út af henni er sker er Fauskur heitir (uppúr um háfjöru). Þá kemur Almenningsfjara en yst er Almenningsfles.
Í Brúnavík var síðast búið 1944. Þar var löngum tvíbýli og þótti ætíð gott til búsetu. Mjög reglulega lagaðar brúnir liggja frá Búrfellsgili inn norðurfjall víkurinnar en smálækka inn eftir. Má ætla að víkin dregi nafn af brúnum þessum, Brúnavík.
(Handrit: Bjarni Steinsson).
Eftir handriti Bjarna Steinssonar.