Tundurduflið

Tundurduflið í Sauðabana 4. apríl 1942.

Úr grein eftir Eyjólf Hannesson í Múlaþingi 5  1970.

Laugardag fyrir páska var hér hörku norðaustan blástur en brimlítið.  Ég hafði áður beðið fólk á bæjunum út með sjónum að gera mér viðvart ef tundurdufl sæjust á reki inn fjörðinn.  Síðdegis þennan dag komu boð frá Snotrunesi um að tundurdufl væri á reki grunnt inn með Geitavíkurtanga.  Barst duflið inn fjörðinn skammt utan skerja og hvarf að lokum inn í Sauðabana sem næst miðju þorpinu.  Þegar sjáanlegt var hvar duflið mundi lenda var fólk í skyndi drifið úr næstu húsum og urðu hús mannlaus frá Svínalæk upp að barnaskóla en þangað fóru margir.  Í Tungu varð þó eftir liðlega sextugur maður, Ágúst Ólafsson.  Taldi hann óþarft að flýja hús þótt tundurdufl kynni að springa í grenndinni.

Frá því að duflið hvarf undir klettana við Sauðabana leið svo nálægt hálftími án þess að nokkuð bæri til tíðinda og fóru ýmsir að hafa við orð að fara heim aftur.  Sjór var fjarandi og var talið líklegt að annaðhvort væri duflið óvirkt eða fjarað hefði undan því og það stöðvast án þess að springa.

Ég var einn þeirra sem farið höfði í barnaskólann og snaraðist nú heim til að hringja í Bóas Eydal í Njarðvík en hann hafði lært að taka sundur dufl og gera þau óvirk. Um leið og Njarðvík svaraði fannst mér eins og húsið kipptist til og um leið kvað við ærandi hávaði.  Blöð og bækur ásamt öðru smálegu sem var í hillum og skápum hvirflaðist kringum mig og á eftir sumu sá ég út um gluggann sem eins og hvarf um leið.Svo vel vildi til að glugginn vissi frá sprengingunni og fór því út svo ég losnaði við glermulstrið.  Án þess að hirða meira um Njarðvík lagði ég símann á og hljóp út – og niður að Tungu til að vitja um Ágúst.

Meðfram norðurstafninum á Tungu var langur gangur með dyrum sem vissu að Sauðabana.  Þegar að húsinu kom voru útidyrnar hurðarlausar og hljóp ég í spretti inn um þær.  Var Ágúst þar fyrir og virtist við fyrsta útlit eins og hálf viðutan.  Spurði ég hann másandi hvort hann væri ekki meiddur.  Breiddist þá gamalkunnugt bros yfir andlitið á Gústa og hann svaraði í góðlátlegum tón eins og hann væri að friða krakka:  Hvaða læti eru þetta?  Það er ekkert að mér en ég held ég hafi sem snöggvast misst meðvitund.  Hafði Ágúst verið á leið út, kominn fast að hurðinni og ætlaði að fara að opna.  Kom þá hurðin á hann og flutti hann með sér yfir í hinn enda gangsins svo snögglega að hann vissi ekki hvað gerst hafði fyrr en hann var þar kominn.  Hafði hurðin því verið honum eins konar skjöldur.

Í Tungu var ljótt um að litast, allt lauslegt úr skorðum fært, brotnar hurðir og skilrúm, gluggar glerlausir og glerflísar og brot inn um öll herbergi.  Er ég kom út aftur eftir augnabliks yfirlit, voru menn að tínast heim til sín og hélt ég heim að Bjargi.

Varð mér fyrst fyrir að tína saman það sem ég gat náð af því er fokið hafði út um gluggann á símstöðinni.  Þegar inn í húsið kom var þar allt í óreiðu.  Var því líkast sem hvirfilbylur hefði geisað þar um herbergin.  Allt lauslegt var úr lagi fært.  Gler úr gluggum, hvergi í stórum brotum, mest í smákurli og dusti.  Sængurföt voru að vísu í rúmstæðum en hér og þar milli sænga og sums staðar niðri á rúmbotnum voru glerflísar og kurl.  Víða stóðu glerflísar í gólfi og þiljum.  Þótt glermulstrið væri hreinsað eftir bestu getu voru lengi á eftir að koma í ljós glerflísar á ólíklegustu stöðum.  Í herbergi í miðju húsinu hékk stór slagklukka á vænum járnkrók, sem skrúfaður var í þilvegginn uppi við loft.  Að neðan var klukkan fest með tveim skrúfum til þess að halda henni í réttum skorðum á þilinu.  Þessar skrúfur höfðu kippst út og klukkan kastast til hliðar að neðan og skrúfurnar höggvist inn í þilið aftur svo að klukkan hékk þannig föst, hálfgert á hliðinni og hafði stansað um leið.  Sást glögglega hvenær duflið sprakk.  Klukkan hafði stansað hálf átta.  Í þeim húsum sem nær voru Sauðabana gerði sprengingin enn meiri usla.

Sem að líkum lætur var kuldaleg aðkoma í húsunum sem verst urðu úti þar sem norðaustanstormurinn blés óhindrað inn um glugga svo að jafnkalt var inni og úti.Þá var hvorki rafmagn né olíukynding og eldur hafði verið tekinn úr ofnum og eldfærum áður en menn yfirgáfu húsin.  Snéri kvenfólk sér að því að lífga elda en karlmenn að því að koma einhverju fyrir gluggana.  Var allt tínt til sem að gagni mátti koma, pappaspjöld, hlerar og fjalir og hrökk sums staðar ekki til.  Var þá notast við poka og teppi.  Var unnið að þessu fram á nótt, það var kalsamt verk..

Ýmsir sváfu næstu nætur í barnaskólanum bæði vegna kulda og erfiðleika við að hreinsa upp glerbrot og fleira.

Brot úr tundurduflinu fundust niður hjá Álfaborg, inn hjá Leirgróf og upp undir fjalli.

Næstu dagar liðu og reynt var að þétta dyr og glugga en lítið var til af nýju gleri á staðnum í allar þær rúður sem brotnuðu.

Aðfararnótt fimmtud. 9. apríl kl. hálfþrjú vaknaði fólk við sprengjudrunur.  Þá sprakk dufl við klappirnar niður af Sæbakka.  Urðu þá skemmdir á þremur húsum, mest á Sæbakka.  Víðar sprungu dufl hér en hvergi svo nærri húsum að tjón hlytist af.

Eignartjón og annan skaða sem hljótast kynni af hernaðaraðgerðum Breta hér við land áttu menn að fá bætt.  Voru því metnar allar skemmdir og reikningur sendur Sýslumanni N.Múl.  Skömmu síðar komu tveir bretar og áttu þeir að meta upp skemmdirnar.  Þeirra mat var í flestum tilfellum lægra metið en heimamanna.

Dagsverk var á 20 – 25 krónur.  Gler 15 aurar ferþuml. (Á sennilega að vera ferfet).

Sem dæmi um mat:

Bjarg – steinsteypt – fjarlægð 120 m.
Brotnar 10 rúður.mat 95,- greitt 95.

Sæból – úr timbri, járnklætt – fjarlægð 80 m.
Brotnar 28 rúður. Veggfóður ónýtt, miðstöðvarofn laus, sprengdir 3 dyraumbúningar.  Brotinn reykháfur, þakjárn laut á köflum, brotnir 17 diskar og fern bollapör m.m.  Mat 1000 kr – greiðsla 655,-

Oddi – steinsteypt fjarlægð 65 m.
Brotnar 49 rúður og tvö skilrúm.  Sprungnir veggir í forstofu og reykháfur auk fleiri smáskemmda.  Þrjár hurðir brotnar.  Mat 1.425,- greitt 645,-

Borg – járnklætt timbur – fjarlægð 40 m.
Brotnar 47 rúður, reykháfur ónýtur, 6 dyrakarmar skemmdir, 3 hurðir brotnar, einn miðstöðvarofn ónýtur og 5 hreyfðir.  Rifið veggfóður og tvö skilrúm sprungin.  Mat 1.700,- greitt 1.100,-

Tunga – járnklætt timbur – fjarlægð 45 m.
Brotnar 30 rúður og þrjár hurðir, fimm aðrar skemmdar og dyra-karmar laskaðir.  Brotin skilrúm í tveim stofum og eitt fært úr stað.  Brotin ein sperra og nokkur langbönd í þaki.  Þakið að mestu laust á annarri hlið og saumur víða hrokkinn úr.  Mat 2.000,- greitt 845,-

Klöpp – steinsteypt geymslu- og sláturhús KBE, fjarlægð 20 m.
Brotnar allar rúður 23 að tölu og 4 hurðir.  Steypa víða sprungin, sérstaklega annar hliðarveggur.  Nokkrar sperrur brotnar, þakið hálflaust á annarri hlið.Saumur víða úr.  Mat 3.500,- boðið 1.500,- en ekki að því gengið.