Úlfsstaðir

ÚLFSSTAÐIR
Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eftir samtölum við Sigurð Stefánsson frá 1971

Landamerki á milli Úlfsstaða og Bárðarstaða eru frá stórum steini er Skjaldarsteinn heitir og er hann í Fjarðaránni nokkuð austan við Hjáleiguna á Bárðarstöðum. Landamerkjalínan liggur beint frá Skjaldarsteininum og í svokallaðan Sigvaldalæk, (er smáspræna), sem rennur fram af hjallabrúninni skammt norðaustan við hjáleiguengið á Bárðarstöðum. Frá Sigvaldalæknum á hjallabrúninni eru landamerkin áframhaldandi bein lína í Herfell. Að austan og norðan ræður Norðdalsá landamerkjum á milli Úlfsstaða og Klyppsstaða. Fjöllin sem ráða landamerkjum á milli Eiðaþinghár og Úlfsstaða eru Herfell og Norðdalshnjúkur.

Niður í byggðinni eru helstu örnefni þessi: Vestan Úlfsstaðatúns eru Úlfsstaðamýrar meðfram Fjarðaránni og nokkuð upp frá henni en þar fyrir ofan eru Úlfsstaðabrekkur.  (Á Úlfsstaðamýrum inn með ánni var stekkjarhús.  Þar var útburður, sbr. Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar.  Kallað var að fara inn á Stekki).  Þar eru töluverðar engjar og svæðið allt vel gróið. Brekkur þessar ná upp undir lága kletta í hjallanum fyrir ofan. Nokkurt svæði í klettum þessum heita Votuklettar.  (Votuklettar eru alltaf rakir vegna vætu ofan frá).

Suðvestur af Úlfsstaðatúninu austast í Úlfsstaðamýrunum skammt frá Fjarðaránni er holt er heitir Stríphóll. (Stríphóll hlýtur að vera dreginn af nafninu strípaður því að frá Úlfsstöðum er þetta sá einstakasti hóll, hann stendur aleinn.  Þetta er gróinn hóll, ekki mjög stór, e.t.v. á 3ja hundrað metra að ummáli).  Austan við Stríphólinn er dálítið mýrarsvæði er Stríphólsmýri heitir.

Upp af Votuklettum, upp á brún brekkunnar, er grasivaxinn hjalli er Fífuhjalli heitir. (Á Fífuhjalla vex mikið af fífu).  Á honum eru dálitlar engjar. Norðvestur af hjalla þessum upp við Herfellið er nokkuð hár stórgrýttur melur er Háahraun heitir. Upp á Herfellinu miðju, á þeirri hlið þess er til austurs veit, er klettakambur er Goðahnjúkur heitir. Fyrir norðaustan þessa kletta, beint upp af Úlfsstaðabænum, er nokkur dæld í hjallabrúnina og heitir hún Skálabotnar.

Niður og austur af Úlfsstaðatúninu er grasslétta, mýri og harðlendi, er heitir Úlfsstaðanes. Austan við það liggur mórani, lyngvaxinn, ofan að Fjarðaránni er Svartimór heitir.  (Svartimór er langt frá því að vera svartur).  Austan við Svartamóinn, meðfram Fjarðaránni á dálitlu svæði, eru grasivaxnir bakkar. Á þeim eru allmiklar gamlar grónar húsarústir er Grímsstaðir heita. Dálítil dæld eða gil er upp í móana rétt austan við Grímsstaði er heitir Grímsstaðagil.

Ofan við Svartamóinn og austan við Grímsstaðagilið eru lyngmóar frá Fjarðaránni og austur að Norðdalsá og upp að allháum og nokkuð bröttum brekkum, er Úlfsstaðaháls heitir. Brekkur þessar eru allmikið vaxnar nokkuð háu birkikjarri. Austast neðan við móa þessa, er kallaðir eru Úlfsstaðmóar, er graslendi meðfram Fjarðaránni og austur að Norðdalsá er heitir Sléttur.

Úlfsstaðamóarnir
enda að austan við Norðdalsána í brattri brekku er Álfasteinabrekka heitir. Upp á brekku þessari eru nokkrir einstakir steinar, sumir stórir en aðrir minni, er einu nafni heita Álfasteinar.

Austan við áðurnefnda Skálabotna er allhár hnjúkur, sléttur að ofan en dálitlir klettar í honum að sunnan og austan. Hnjúkur þessi heitir Hálskollur eða Úlfsstaðahálskollur. Úlfsstaðahálsinn nær frá þessum kolli og austur og norðaustur að Norðdalsánni. Ofan við brekkurnar í hálsinum er hálsinn flatlendur og lítið eitt hallandi til austurs og norðausturs. Aðalgróðurinn í honum er lyng.
Norðvestur af Úlfsstaðahálsinum er Norðdalurinn á milli Norðdalsár og Herfells.

Norðaustan í Herfelli vestan við Norðdalinn eru tvær dældir eða hjallar, hver upp af öðrum, er Geldingabotnar heita.

Í fjallinu að vestan og innst í dalnum eru sveigmyndaðar urðir er Sveifar heita. (Sveifar eru hallandi rætur fjallanna, ekki kletttar.  Þetta er bogadregið svæði sunnan undir Norðdalshnjúk).  Norðan við þær við dalbotninn er nokkuð hátt fjall er heitir Norðdalshnjúkur. Norðan við hnjúk þennan er dálítill dalur er Mosdalur heitir. Hann tilheyrir bæði Úlfsstöðum og Klyppsstað.

Á Norðdalnum norðvestur af Úlfsstaðahálsinum er allmikið graslendi meðfram Norðdalsánni meir en inn á miðjan dalinn og dálítið hallandi og nær það upp að allmikið hallandi hlíðum, gras- og lynggrónum, sem ná upp að Herfellinu. Nokkuð fyrir innan graslendi þetta á melum meðfram Norðdalsánni er allhár hóll, einstakur og hringmyndaður, er heitir Kolahraun.  (Grjótið í Kolahrauni er allt eins og mulið, eins og kurl en döklleitt.  Lítilsháttar hrafntinna hefur fundist í námunda við Kolahraun.  þetta er gróðurlítill hóll með mosaþembingi, sívalur og jafn upp á topp, einstakur að sjá).

Viðbætur frá Örnefnastofnun:
Athugasemdir,  Ásta Stefánsdóttir skráði.

Skjaldarsteinn er trúlega líkur skildi að lögun, rís eins og skjöldur á hvolfi upp úr ánni.
Herfell. Veit ekki um nafngift, ef til vill af því það er tignarlegt þvert fyrir firðinum.
Álfasteinar heita sennilega svo, vegna þess að þeir standa í þyrpingu uppi á brekkunni, skrýtnir að lögun, sumir með göt í gegnum sig. Meðan álfatrú var mjög ríkjandi, hefur þetta þótt líklegt álfaaðsetur.
Grímsstaðir. Þar er tóftarbrot; á þar að hafa búið einsetumaður, er Grímur hét.
Háahraun. Þar hefur oft verið tófugreni í hrauk.

Úlfsstaðapartur
Land þetta tilheyrir Úlfsstöðum. Það nær frá Hofsá að austan að Melá að vestan sem ræður landamerkjum á milli Úlfsstaða og Árnastaða. Neðan við fjallið er graslendi er Engines heitir en norðausturhorn þess við Fjarðarána heitir Réttartangi. (Í Réttartanga var réttað allt fram til 1918 eða 1919).  Sums staðar er það blautar mýrar en annars staðar og þá einkum meðfram Fjarðaránni eru dálítið þýfðir harðvellisbakkar. Austan til og efst á þessu grassvæði er nokkuð breiður grasivaxinn tangi frá fjallsrótum og fram á mýrlendið, nokkuð hærri en mýrin. Nafn þess er Ísleifsgerði. Efst á honum, upp við fjallið, eru gamlar fjárhúsatóftir eftir beitarhús er þar voru frá Úlfsstöðum.

Upp í fjallinu, í sömu hæð og Mýrarhjallinn í Sævarendafjallinu, er hjalli er Mýrarhjalli heitir. Hann nær frá HofsáMelá. Dálítið engi er á hjallanum sem áður var dálítið notað. Ofan við hjallann er klettahöfði er Sultarhjallar heita. Þar fyrir ofan eru botnar sem ná upp að urðum fjallsins fyrir ofan. Á dálitlu svæði vestan við Gunnhildi má fjallið heita klettalaust beint upp af Sultarhjöllum. Þar heita Árnastaðaskörð. Gangandi menn fara þau stundum.

Viðbætur frá Örnefnastofnun.
Ásta Stefánsdóttir skráði.

Engines. Ég hef alltaf heyrt það kallað Enganes. Það er fremur blautlent, en þó er líklegt, að þar hafi verið nýttar engjar. Þær voru víða nýttar í gamla daga.
Réttartangi. Þar var víst rétt fram til 1918, en efni hefur ekki verið gott, bara torf.
Ísleifsgerði. Þar mun einsetumaður, er Ísleifur hét, [hafa] byggt kofa og búið um hríð.
Sultarhjallar munu vera mjög lítið grasi vaxnir og kannski sultur á fé, ef það festist þar.