Nám og heimanám

 Nám nemenda í Grunnskóla Borgarfjarðar eystra er einstaklingsmiðað, og kennt er í samkennsluhópum. Með einstaklingsmiðuðu námi er átt við að kennarinn kappkosti að koma með sveigjanlegum hætti til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Nemendur þurfa því ekki að vera að læra það sama hverju sinni, heldur geta þeir verið að fást við ólík viðfangsefni, misþungt efni, mismunandi námsefni eða unnið hver á sínum hraða, upp á eigin spýtur eða í hópum.  

Að nám nemenda sé einstaklingsmiðað þýðir einnig að markmið hvers nemanda eru eins há og mögulegt er út frá hans styrkleikum og veikleikum. Tekið er mið af því í kennslunni að nemendur þurfa mismunandi gerðir af kennsluaðferðum og leiðbeiningum. Við fylgjum Aðalnámskránni og styðjumst  auk þess við kenningar Gardner um fjölgreindir nemenda. 

Við notum fjölbreytta kennsluhætti og samþættum námsgreinar til að gera nám nemenda heildstætt, mæta mismunandi hæfileikum nemenda og auka skilning þeirra á viðfangsefnum. Aukin samþætting námsgreina, útikennsla og lotukennsla er hluti af þróun á starfsháttum skólans.

Skólinn okkar er skapandi skóli, verkgreinar eru ekki aukafög heldur fög sem njóta viðurkenningar líkt og bókleg fög. Gott jafnvægi er á milli bóknáms og verkgreina. Hér læra nemendur að bera ábyrgð á eigin námi, við horfum til styrkleika hvers og eins og vinnum að því að bæta veikleika. 

 

Heimanám 

Í öllum bekkjum ber nemendum að lesa heima daglega. Foreldrar kvitta fyrir lesturinn á sérstakt blað.  Kennarar miða við að heimanám sé sanngjarnt og í einhverju magni. Vinnudagur nemenda ætti að vera dagvinna, ekki vinna í fríum og um helgar nema í örfáum undantekningartilvikum.  Umsjónarkennari kennir nemendum að skipuleggja heimanám, vera ábyrgir fyrir heimanámi sínu og vinna það jafnt og þétt.  Nemendur sem ekki klára verkefni eða tímááætlun í kennslustund eiga að jafnaði að klára heima.  Eftir veikindi eða frí nemenda eiga nemendur að vinna upp heima það sem þeir hafa misst úr.