Fjarðará

Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Hún hefur upptök sín í Vatni sem er á fjallsveginum sem er á milli Bárðarstaðadals og Héraðs. Frá Vatninu rennur hún austur á allhátt klettabelti sem er fyrir botni Bárðarstaðadals og heitir Klif. Steypist hún fram af Klifunum vestan til og rennur síðan austur Bárðarstaðadalinn sem næst miðju. Nokkuð fyrir innan Bárðarstaði og Árnastaði er foss í henni er Arnarfoss heitir. Undir honum er mjög djúpur hylur en ekki stór að ummáli er Arnarfosshylur heitir.  (Í Arnarfosshyl gengur silungur innst í ána).

Þegar austur fyrir Bárðarstaði og Árnastaði kemur sveigir áin meira til suðausturs og austan við Úlfsstaði rennur hún alveg að endanum á Svartamónum sem áður er nefndur í því er ritað er um Úlfsstaði. Þar gengur dálítill grastangi fram í ána. Við hann er djúpur hylur er Svartamóshylur heitir. Í honum er oft veiðisælt þegar silungur er genginn í ána. Á nokkru svæði fyrir austan þennan hyl rennur áin í sveigum og ganga þar svitt á hvað grasivaxnir tangar fram í hana.

Fyrir austan þetta svæði rennur áin beint til austurs á nokkrum kafla eða út á móts við það er Norðdalsáin rennur í hana að norðan en sunnan við hana er þá norðausturhornið á Enginesinu er heitir Réttartangi. Norðan og norðaustan undir honum er allstór hylur er Réttarhylur heitir. Við Réttartangann sveigir áin til suðurs á milli Enginess og Klyppsstaðaness en sveigir síðan til austurs nærri suður undir Suðurfjallinu.

Hofsáin, sem áður er nefnd, rennur í hana skammt austan við þar sem hún sveigir. Þar er hylur í henni er Hofsárhylur heitir. Nokkru austar rennur áin alveg meðfram Suðurfjallinu á dálitlu svæði og heitir þar Einstigi. Þar er nokkuð langur hylur í henni er Einstigshylur heitir. Fyrir austan hann sveigir áin lítils háttar til norðausturs og rennur þannig á nokkrum kafla. Þar er hylur í henni er Kirkjuárhylur heitir. Kirkjuáin er rennur austan Klyppsstaðar rennur í Kirkjuárhylinn.

Þegar út fyrir Kirkjuárhylinn kemur sveigir áin aftur í austur og rennur þannig beint austur undir Sævarenda. Nokkuð vestan við Sævarenda, þar sem Húsáin rennur í hana, er hylur í henni er Húsárhylur heitir. Rétt vestan við Sævarendatúnið er vað á ánni er Hesthúsvað heitir.  (Á móti Hesthúsvaði var hesthús).  Sjávarflóðs gætir í ánni inn að þessu vaði.

Frá Hestúsvaðinu rennur áin í austur, austur að sandinum fyrir fjarðarbotninum þar sem Kríusandur heitir. Norðaustur af Sævarenda er nokkuð stór grasivaxinn hólmi í ánni. Hann heitir Kríuhólmi og tilheyrir Sævarenda. Vestur við endann á hólmanum er vað yfir Fjarðarána. Skammt austur af Kríuhólmanum er hylur í ánni er Naustahylur heitir. Dregur hann nafn af tanga sunnan við ána austanvert við Sævarendatúnið er Naustatangi heitir.

Nokkru austar í ánni er annar hólmi er Sævarendahólmi heitir. Hann er grasivaxinn og í honum er dálítið æðarvarp. Áin rennur norðan við hólmann en sunnan við hann er leirurenna semþornar á fjöru en flæðir í á flóði.

Norðaustur af hólmanum eru allstórar sandleirur sem þorna um fjöru en yfir þær flæðir á flóði. Þetta svæði heitir Lón. Frá Kríusandinum rennur Fjarðaráin norðaustur með sandinum sem er fyrir fjarðarbotninum. Lónin ná norðaustur að svokallaðri Eyri sem er Stakkahlíðarmegin við ána. Það er grasigróin sandeyri. Skammt frá henni á leirunni er tilbúinn grjóthólmi er tilheyrir Stakkahlíð. Í honum er æðarvarp. Áin rennur þrengra en Lónin eru frá hólmanum og til sjávar. Þar sem hún rennur í sjóinn heitir Fjarðarárós en venjulega í daglegu tali er það aðeins kallaður Ós. Þegar sjór er kyrr er stundum lent í Ósnum á árabátum og smáum mótorbátum.

Á nokkru svæði innan við Ósinn rennur áin alveg við bakkana að norðan og fellir í sjóinn suðaustan við áðurnefndan Knörr austast í áðurnefndri Knararvík. Ósinn færist stundum til vegna sands sem í honum er og dýpi í honum er mjög breytilegt eftir því hvort áin grefur hann niður eða brim ber sand í hann.