Samstarf foreldra og skóla

Lögð er áhersla á að samstarf heimilis og skóla byggi á gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir viðhorfum og þekkingu hvors annars. Samstarfið byggir á þeirri forsendu að foreldrar beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna. Mikilvægt er að þessir aðilar geti treyst hvor öðrum, deilt sjónarmiðum sínum og tekið sameiginlegar ákvarðanir er varða börnin.Reynt er  að koma til móts við óskir foreldra svo framarlega að það stangist ekki á við stefnu skólans. Dagleg samskipti og upplýsingastreymi eru mikilvægir þættir til að stuðla að jákvæðu og traustu sambandi milli foreldra og skóla. Foreldrar eru ævinlega velkomnir og geta tekið þátt í daglegu starfi sem og ýmsum uppákomum. Þeir geta leitað til alls starfsfólks ef þeir þurfa upplýsingar sem varða barnið, starfsemina eða til að koma óskum sínum á framfæri. Lögð er áhersla á: Að rækta samvinnu og samskipti skólans og heimilanna. Að veita foreldrum upplýsingar um starfsemi skólans og að stuðla að þátttöku foreldra í starfinu.

Foreldrar leikskólabarna eru hluti af öllu skólasamfélaginu, eru félagar í foreldrafélagi Grunn- og leikskólans og eiga fulltrúa í skólaráði það sama á við um foreldra grunnskólabarna.

Samtalsdagur um nám og líðan nemenda er í nóvember. Foreldrafundur er einu sinni á ári, að hausti. Foreldrar fá reglulega upplýsingar um starfið í skólanum sent í tölvupósti.

Aðlögun barns er einn þáttur í uppeldisstarfinu og skiptir miklu máli fyrir líðan barnsins hvernig til tekst. Á meðan barnið er í aðlögun er lagður grunnur að gagnkvæmum kynnum, trausti og virðingu á milli foreldra og kennara. Að byrja í leikskóla er ný reynsla, allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að málum því þá er verið að leggja góðan grunn að framtíðinni. Þátttökuaðlögun tekur þrjá - fimm daga þar sem foreldrar eru með börnum sínum til að byrja með en skilja þau síðan eftir í stutta stund í einu sem síðan alltaf lengist. Í aðlögðun er mikilvægt að efla öryggiskennd og vellíðan barnanna og foreldra þeirra í þessum nýju aðstæðum. Stuðla að gagnkvæmum kynnum á milli fjölskyldu barnanna og leikskólans. Að gefa bæði foreldrum og börnum tækifæri til að kynnast en það er styrkur fyrir barn sem kemur nýtt inn í leikskóla að hafa önnur börn með sér sem einnig eru ný.