Um Þorbjörgu Steinsdóttur og fjölskyldu

Mynd af Þorbjörgu Steinsdóttur og Benedikt Gíslasyni með tvö börn sín, Unu Guðlaugu og Gest Gunnstein. (Þau virðast oftast hafa verið kölluð Guðlaug og Gunnsteinn) Þorbjörg Steinsdóttir var fæd d á Borg í Njarðvík 28. febrúar 1864 sbr. Prestþjónustubók Njarðvíkursóknar 1821-1869. Hún var dóttir Steins Sigurðssonar. (Sjá  Ættir Austfirðinga nr. 3299,  2. bindi bls. 328 og um börn hans og fleiri afkomendur á næstu blaðsíðum). Steinn bjó á Borg í Njarðvík við Borgarfjörð eystra og síðar í Brúnavík, en hann var fæddur 1826 og dáinn 1895. Kona hans var Guðný Árnadóttir frá Hólalandi í Borgarfirði eystra. Þau eignuðust sex börn sem skráð eru í Ættum Austfirðinga, en þau voru: Þórhalla, Sigurður, Árni, Þorbjörg, Elísabet og Áslaug og er mikill fjöldi afkomenda frá Steini og börnum hans kominn. Er það kölluð Steinsætt sem er ein grein af Njarðvíkurætt hinni yngri.  Steinn var m. a. þekkur fyrir að vera mjög góður og heppinn yfirsetumaður eða ljósfaðir.
Þorbjörg Steinsdóttir (nr. 3315 í Æ. Aust.) átti Benedikt Gísason (nr. 10876,  Æ. Aust.), f. 23.07.1860, en hann var frá Hofströnd í Borgarfirði eystra.
Þau Þorbjörg bjuggu m. a. í þurrabúð á Hjallhól í þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystra, þar sem Benedikt stundaði sjómennsku. Þeirra börn voru samkvæmt  Ættum Austfirðinga:  Gísli, f. 1888, Steinólfur, f. 1890, Una Guðlaug, f. 1900 og Gestur Gunnsteinn f. 26.07.1904. Ennfremur segir neðanmáls að auk framantaldra barna  var Sigvarður bóndi á Hofströnd sonur þeirra, kvæntur Oddnýju Þorsteinsdóttur, Jónssonar úr Suðursveit, bróður Sveins í Fagardal. Þess má geta að í manntalinu frá 1910 er fæðingarár Þorbjargar ekki Mynd af börnum Þorbjargar og Benedikts á efri árum. Talið frá vinstri: Steinólfur, Gísli, Sigvarður, Guðlaug og Gunnsteinn.rétt skráð, en þar er hún sögð fædd 1862 og  fæðingardagur hennar er þar einnig ranglega skráður. Þar er hún sögð fædd í Bakkagerðissókn, en á að vera Njarðvíkursókn. Ekki fer þó á milli mála, að um sömu konu er að ræða, en þá er hún gift kona  og til heimilis á Hjallhól í Bakkagerðisþorpi.
Þorbjörg Steinsdóttir lést 26. febrúar 1952 að því er segir í Íslendingabók.

Til fróðleiks bæti ég hér við  kafla um búsetuferil Þorbjargar og  síðar hennar og Benedikts Gíslasonar eiginmanns hennar, er þar stuðst við heimildir úr prestsþjónustubókum frá Njarðvíkur-,  Desjarmýrar- og Húsavíkursóknum og sóknarmannatölum öðru nafni  húsvitjunarbókum úr sömu sóknum.
Þorbjörg ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum á Borg í Njarðvík til fjórtán ára aldurs, en árið 1878 flytur hún með foreldrum sínum og systkinum til Brúnavíkur sunnan Borgarfjarðar og er þar hjá þeim næstu árin .
Árið 1887 er Þorbjörg enn í Brúnavík, þá 23ja ára  ógift. Það ár er einnig skráður þar til heimilis Benedikt Gíslason vinnumaður frá Hofströnd.
Þann 3. júní 1888 fer fram lýsing með þeim Þorbjörgu og Benedikt og 14. júlí sama ár eru þau gefin saman í hjónaband, Þorbjörg Steinsdóttir og Benedikt Gíslason.Fór giftingin fram í kirkju, sem þá væntanlega var Desjarmýrarkirkja.
Sama dag eru gefin saman í hjónaband Árni Steinsson bróðir Þorbjargar, sem einnig var til heimilis í Brúnavík, og Ingjbjörg Jónsdóttir sama stað, en hún mun hafa verið dóttir Jóns Sveinssonar sem áður var bóndi í Brúnavík. Svaramenn beggja brúðhjónanna voru Steinn Sigurðsson bóndi í Brúnavík og Þorsteinn Magnússon bóndi í Höfn.
Mynd af Benedikt Gíslasyni.Þorbjörg og Benedikt búa áfram í Brúnavík ásamt foreldrum hennar og systkinum til 1891 og þar fæðast synir þeirra Gísli og Steinólfur.
Árið 1892 eru þau flutt til Litluvíkur, sem þá tilheyrði Húsavíkursókn og þá eru synir þeirra  orðnir þrír, Gísli, Steinólfur og Árni um 1 árs. Þau eru um kyrrt í Liltuvík næsta ár en flytja síðan til Þrándarstaða í Borgarfirði og eru skráð þar 1895 með synina Gísla, Steinólf og Sigvarð, en Árni er þá ekki skráður þar.
Árið 1897 er Sigvarður kominn í Hofströnd og er skráður þar tökubarn, en  þar bjó þá frændfólk hans í föðurætt.
Fjölskyldan er annars áfram á Þrándarstöðum til ársins 1900, en flytur þaðan í Bakkagerði og er skráð þar til heimils frá 1901 í sóknarmannatali. Reyndar eru þau skráð í manntalinu frá 1901 leigendur á Ósi rétt utan við þorpið, en hafa trúlega verið þar aðeins stuttan tíma og flutt í Bakkagerði eftir að manntalið var tekið árið 1901. Þau búa síðan áfram á Bakkagerði næstu ár og frá 1903 búa þau í húsi sem kallað var Þóreyjarkot á Bakkagerði og eru þar  til 1905. 
Árið 1906 byggir Benedikt járnklætt timburhús á Hjallhól og fjölskyldan býr þar til 1920, en Benedikt lést árið 1917, sjá Saga Borgarfjarðar eystra bls. 309.
Í manntali sem tekið var árið 1910 búa þau Þorbjörg og Benedikt á Hjallhóll og hjá þeim eru þá börn þeirra, Gísli, f. 1888, Steinólfur, f. 1890, Una Guðlaug, f. 1900 og Gestur Gunnsteinn, f. 1904. Einnig er Sigvarður sonur þeirra, f . 1895, kominn til þeirra, en hann fór í fóstur til  frændfólks síns á Hofströnd árið 1897 eins og áður getur.
Læt ég hér staðar numið að segja frá Þorbjörgu Steinsdóttur og fjölskyldu.                                                      
                                                                                 Egilsstöðum í ágúst 2010,
Guðgeir Ingvarsson frá Desjarmýri.