Hólaland

Hólaland og Hólalandshjáleiga.
(Eftir handriti Eyjólfs Hannessonar).

Í túninu milli bæjanna er allstór stakur steinn.  Hann heitir Gullsteinn.  Að ofan er hann að mestu þakinn gulleitum skófum.  Þar af gæti nafnið komið – eða af þjóðsögu sem segir að undir steininum sé ketill, fullur af gulli – Ekki mátti þó grafa eftir gullinu því þá átti þeim sem að greftrinum unnu að sýnast Hólalandsbær í ljósum loga.

Á túninu skammt niður frá Hólalandsbænum er stór slétt flög.  Það er Grundin.  Henni hallar lítið eitt niður að Fjarðaránni.

Fjarðará kemur undan Mýrnesskörðum og skiptir Hólalands og Hvannstóðslöndum út að Merkjagarði á innanverðri Markeyri sem er sunnan Fjarðará.   Norðan ár á Hólaland út á móts við Merkjagarðinn en til fjalls á Hólaland til efstu eggja.

Bæjarlækur á upptök sín í Stórutjörn.  Hann fellur fyrst inn og niður Tjarnabotna, niður endilanga Seyluna, sker síðan Seyluhrygginn frá Hólalandshólnum þar sem hann fellur í djúpu gili út ofan við Hólinn en beygir síðan niður túnið og fellur rétt utan við bæinn og í bugum út og niður í Fjarðará, utan við Grundina.  Út frá Bæjarlæk með Fjarðaránni eru flatar móalengjur með grasdrögum á milli, það eru Bakkarnir.  Utan til á Bökkum fellur Rauðakelda í Fjarðará, grjótið í botni hennar er allt dreyrrautt og hefur nafn keldunnar verið af því dregið.  Upp frá Bökkunum er Hólalandsblá, mikið samfellt engi innan frá túni og út að landamörkum Gilsárvalla sem eru beina sjónhendingu frá áðurnefndum Merkjagarðsenda í Merkigil þar sem það endar við brekkurætur, ofan við Blána.  Eftir því fellur Merkilækur.  Hann á upptök sín upp í Mjóadal og skiptir þaðan löndum Hólalands og Gilsárvallahjáleigu (Nú 1957 Grundar).  Ofan við Blána er yst Aurinn, ávöl bunga, framburður úr Merkilæk.  Inn frá Aurnum, ofan við blána, eru Bringurnar.  Upp af þeim og Aurnum er Hólalandshlíðin.  Eru Bringurnar myndaðar af framburði úr grafningum og lækjarsytrum Hlíðarinnar.  Heitir þar stærsti grafningurinn DjúpigrafningurBringurnar eru ágætt engjaland og hey af þeim talið töðugæft.  Innan við ofanverða Blána en út og upp frá túninu er ávöl mýrarbunga.  Hún heitir Þemba.  Út og upp frá henni í Hlíðarrótunum er allhátt holt.  Á því eru gömul tóftabrot.  Þar heitir Fornistekkur.   Allt þetta land sem nefnt hefur verið upp að Hlíðarrótum er ein láglendis flatneskja sem þó hallar víðast lítið eitt til Fjarðarárinnar.  Hlíðin öll er að heita má ein brekka.  Skiptast þar á holtabörð og engjar.  Niðri á láglendinu eru enn ónefndir Seylukrikinn – venjulega nefndur Krikinn og Langholtið.  Þess er áður getið að Bæjarlækurinn skipti Seyluhrygg frá Hólalandshólum og beygi niður túnið þar sem hann kemur fram úr gili milli Hólsins og Hryggjarins.  Skammt upp frá lækjarbugnum liggur lítill hæðarhryggur út frá rótum Seyluhryggjarins og fer heldur lækkandi út eftir en lítið sund er milli hans og Hlíðarrótanna.  Þetta er Langholtið en lægðin milli Hlíðarrótanna og Langholtsins nær alla leiðina að rótum Seyluhryggjar og beygir síðan upp utan við Seyluhrygginn.  Myndast þarna djúp geil upp milli Hlíðarinnar að utan og Seyluhryggjar að innan.  Þarna er Seylukrikinn.  Rétt ofan við Hólalandsbæinn rís hár og mikill hóll, Hólalandshóllinn.  Heitir Háhóll þar sem hann er hæstur.  Djúp lægð er í hólinn upp af Hjáleigubænum.  Hún heitir Hólgjóta.  Inn og upp frá Hólnum tekur við stórt hólasvæði: Hólalandshólarnir sem jarðarheitið mun draga nafn af.  Hólkollarnir eru víða berir en graslautir á milli og hvammar.  Hæsti hóllinn sem stendur nokkuð stakur heitir Borgarhóll.  Þar áttu heima álfar eða huldufólk.  Hólaþyrping þessi að meðtöldum bæjarhólnum er allhá og fellur Fjarðará sunnan við þá í djúpu gili.  Þar sem gilbarminn ber hæst eru gömul gróin tóftarbrot.  Þar hét  Kiðukofi. En frá Borgarhól liggur samfelldur mjór melhryggur niður undir Fjarðará.  Hann heitir Rjúpnahryggur en niður við ána eru Djúpihvammur (eða Dýjahvammur) yst.  Innan við hann er Stekkjarhvammur og enn innar Taglhvammur.  Innan við Hólana er stór melhryggur sem liggur út og upp frá Fjarðaránni.  Hann heitir Selhryggur og endar í Selhryggskolli sem ber hátt yfir umhverfið.  Utan við Hólana, ofan við Hólalandshól er Seylan.  Hún er að mestu votlend mýrardrög.   Upp með henni að utan liggur Seyluhryggurinn sem áður er um getið.  Fyrir enda Seylunnar rís Tjarnarbotnabrún.  Brekkurnar niður frá henni heita Seylustafn eða Seylugafl.  Innst á Brúninni gegnt Seyluhryggskolli er allhátt melhrúgald.  Það heitir Einbúi.  Innan við Einbúa fellur Einbúalækur.  Hann fellur í bæjarlækinn langt niður í Seylunni.  Út frá efsta hluta seylunnar liggur stór og mikill botn, þvert út með brúninni.  Hann heitir Brunabotn.  Þar sér víða til brunagrjóts og mun botninn hafa hlotið nafn af því.  Út frá Tjarnarbotnabrún og í framhaldi af henni rís Hólalandsbrúnin hátt upp yfir Hlíðina og fer hækkandi út og upp eftir.  Heitir Hábrún þar sem hún er hæst.  Upp af utanverðri Hlíðinni beygir Brúnin nokkuð upp á við en síðan aftur út eftir allt að Merkilæk sem áður er getið.

Þar sem brúnin beygir upp á við heitir Brúnahorn.  Í bugnum sem þarna myndast út og upp með Brúninni en upp af ysta hluta Hlíðarinnar er Sláttuhöfði.  Hann ber nokkuð hærra en Hlíðin fyrir neðan.  Þar er gott engjaland.  Uppi á Brúninni, rétt innan við Merkilækinn, er há stök melstrýta, eyktarmark frá Gilsárvallahjáleigu og heitir Miðaftansþúfa.  Frá henni, upp með Merkilæknum, taka við háir melar, berir og gróðurlausir.  Inn og niður frá þeim, ofan við Hólalandsbrún og Tjarnarbotnabrún, eru Tjarnarbotnar, allmikið land, botnar, holt og mýrardrög með tjörnum hér og þar.  Yst ofan við Brúnina er Stóratjörn í kvos framan undir háum mel.  Á hábrúninni, skammt frá Stórutjörn, var haldið við Smalabyrgi meðan fært var frá því oft var setið yfir ám í Tjarnarbotnum.  Frá byrginu sést bæði yfir botnana og niður yfir sveitina og er það fagurt útsýni.

Skammt fyrir ofan Stórutjörn er Tangatjörn.  Hún ber heiti af töngum sem ganga út í hana hvor gegn öðrum.  Hún er minni en Stóratjörn.  Þar skammt fyrir ofan er enn stór tjörn er heitir Nykurtjörn.  Í henni átti að vera nykur.  Upp frá henni rís gríðarstór og hár melur, mikið til flatur að ofan.  Hann heitir Háimelur.  Utan við hann er Mjóidalur sem áður getur.  Gengur álma úr Mjóadalnum inn ofan við Háamelinn.  Upp frá Nykurtjörn er nokkurt graslendi því nær flatt en framan og ofan við það tekur við græn og gróin brekka.  Hún heitir Grænakinn.  Inn og upp frá henni liggur hár melur, Grænukinnarmelur.  Þar hafa fundist sjaldgæfir steinar.  Inn og upp frá Grænukinnarmel en lægra, liggja Tindfellsbotnar.  Í þeim er Tindfellsbotnstjörn.  Inn og niður frá henni er Kollóttimelur en utan við botnana, Fagrakinn.  Upp frá Mjóadal rísa háir melkambar hver upp af öðrum, berir og gróðurlausir en milli þeirra eru djúpar lægðir, víðast lítið grónar.  Þessir melar heita Kambsmelar og ná inn að Tindfellsbotnum.  Framan og neðan í Kambsmelum standa nokkrir klettadrangar á dreif, misstórir.  Þeir heita Kambsmelatröll.  Hefur þarna dagað uppi heil fjölskylda, ógn og skelfing ungra smalapilta fyrri ára.  Upp úr ofanverðum Tindfellsbotnum liggur Grenismelur.  Út og upp frá Grenismel, en upp af Kambsmelum, rís Tindfellið, hátt og bratt.  Í Grenismelnum og innst í Tindfelli eru milli 10 og 20 þekkt tófugreni á tiltölulega litlum bletti.  Uppi á Tindfellsberginu syðst rísa margar klettasúlur í röð, eins og tindar á kambi, háar og reglulega lagaðar.  Þær heita einu nafni Kambur.  Í djúpri laut sem liggur út milli Kambsmela að neðan en Tindfells að ofan er stór tjörn.  Hún heitir Hólmatjörn og hefur hlotið nafn sitt af litlum hólma sem í henni er.  Í hólmanum verptu venjulega endur.  Úr Hólmatjörn fellur allstór lækur fram og niður í botnana og myndar þar ásamt fleiri lækjum Selána.  Hún rennur ofan innan við Tindfells og Tjarnarbotna en beygir inn og niður í Fjarðará innan við Seyluhryggskollinn sem áður er nefndur.  Inn frá Selhrygg liggur Hólalandsdalur og er Selá ysta á dalsins og fellur sem áður segir niður í Fjarðará innan við Selhrygginn.

Frá Selá liggja allgrónar grundir dalsins lágt inn og vestur með Fjarðaránni en upp frá þeim rísa dalbrekkurnar viði vaxnar og margskonar fjölskrúðugu blómgresi og gróðri.  Fornar kolagrafir víðsvegar á dalnum bera því vitni að þar hefur áður verið mikil kolagerð.  Á bakka Fjarðarár rétt innan við Selána sér ennþá tóftahrúgald þar sem hið forna Hólalandssel hefur verið og eru tætturnar enn nefndar Selið.  Þar skammt frá hefir einnig svarðartekja Hólalands verið.  Sést þar enn fyrir svarðargröfum.  Nokkru innar en Selá fellur Miðá í djúpu gili niður í Fjarðará.  Skammt fyrir innan Miðárósinn fellur Fjararáin fram yfir klettaflúðir sem eru því nær flatar út frá löndunum beggja megin en í gegnum nær miðjar flúðirnar er djúpt gil eða stokkur.  Þegar lítið vatn er í ánni fellur hún öll gegnum stokkinn en flúðirnar beggja vegna hans eru þá þurrar.  Ekki er stokkurinn breiðari en svo að þar hafa stöku léttleikamenn stokkið þar yfir.  Má þó öllum vera það ljóst hvað við liggur ef þeim fatast stökkið því það mætti með ólíkindum teljast ef nokkur kæmist lífs af úr þeim heljarstreng sem þeytist í hvítfyssandi flugi fram í gegnum klettastokkinn.  Sagt er að áður hafi verið þarna steinbogi á ánni enda er staðurinn nefndur Steinbogi.

Ofan við dalbrúnina er mikið engjaland, aðallega mýrar og ennaland sem hallar niður á dalbrúnina.  Þar heita Fláar, Neðrifláar upp frá dalbrúninni en ofan við þá rís brekkuhall.  Þar heitir Fláabrún en ofan við Fláabrún heita Efrifláar.  Utar og ofar með Selá innanvert liggja melhryggir sem ber öllu hærra en umhverfið.  Þar heita Neðri-Mannamelar og lengra upp með Selá eru Efri-Mannamelar.  Sú hlið Tindfellsins sem að Hólalandsdal veit er hár samfelldur klettaveggur sem nær alla leið frá Grenismel upp að Eiríksdalsvarpi en Eiríksdalsvarp liggur út á bak við Tindfellið og ber nafn af Eiríksdal sem liggur frá því niður til Úthéraðs og skiptir varpið löndum.  Meðfram endilöngu berginu liggur hjalli.  Eitt alldjúpt gil sker hjallann um þvert.  Heitir hjallinn Háihjalli Hólalandsmegin við gilið en Grænihjalli sá hluti sem fjær er og veit til fjalla.  Grænihjallinn er að mestu gróinn oftast grænn en gilið sem hjallann sker heitir Þvergil.  Hái hjallinn sem áður er nefndur er af sumum nefndur urðarhjalli og mun það dregið af stórgrýtisurð sem er efst í hjallanum við rætur bergsins.  Meðfram endilöngum Háahjalla liggur annar hjalli miklu lægri.  Hann heitir Lágihjalli.

Inn frá Innstuá heita dalsbrekkurnar Innstuárhlíðar.  Þar er mikið og gott engjaland og fjölgresi mikið, ekki síðra en utar á dalnum.  Þar var oft heyjað fyrr á árum.  Fyrir innan Innstuá falla enn tvær ársprænur niður í dalinn með nokkru millibili.  Þær heita Ytri-Sauðá og Innri-Sauðá.  Milli Innstuáar og Ytri-Sauðár er Ytri-Sauðhöfði en Innri-Sauðhöfði milli Sauðánna.  Ofar, upp með Innstuá, eru Innstuár eða Innstuárdrög (Innstaá er oftast nefnd Innstá).  Niðri í dalnum falla Sauðárnar saman og síðan út í Fjarðará.

Innan við Sauðárnar, milli þeirra og Fjararár, er innsta láglendi dalsins, Þrætutungur, allstórt land, áður þrætuland milli Hvannstóðs og Hólalands en tilheyrir nú Hólalandi.  Þar er enn mikið graslendi, mýrarflæmi, holt og móalönd.  Þrætutungusporður heitir árnar koma saman utan Þrætutungur.  Inn frá Þrætutungum rísa Klifin í bug fyrir botni Hólalandsdal, neðst gróðursælar grasbrekkur en síðan bert grjót efst og klettabelti.  Norðan til á Klifunum hefir Klifá eða Klifarlækur brotið sér gil gegnum Klifabrúnina.  Utan við hana heitir Stakaklif.  Innan á Klifunum er Skaginn og ber hann nokkuð yfir Klifabrúnirnar ytri.  Er af honum allgott fyrir smalamenn, að sjá yfir drög og dældir sunnan við Klifin.  Eftir að upp á Klifin kemur er landið auðnarlegra.  Víða berar klappir og aurmelar en þó víða í dældum nokkur gróður.  Innan frá Klifunum blasir við stórt og mikið skarð, Mýrnesskörð eða Mýnesskörð.  Utan við það, vestur af Klifunum, gnæfir Beinageitin, hátt og mikið fjall.  Utan við Beinageitina er annað stórt skarðið, Sandadalur eða Sandaskörð.  Frá Mýrnesskörðum út að Sandadal liggur melhjalli meðfram Beinageitinni, allmiklu hærri en Klifin.  Hann heitir Upsir og Upsahorn þar sem hann endar innan við Sandadalinn.  Upp frá Upsunum innan til gengur bugur mikill inn í fjallið.  Þar heita Sveifar.  Út frá Upsahorna en lægra er Biskupsbrekka.  Hún liggur þvert fyrir neðan Sandadalinn og fer lækkandi út eftir.  Utan við Sandadal er Grjótfjall, bert og gróðurlaust.  Einn eldri maður (L.S.) telur að fjall þetta hafi áður verið nefnt Sandfjall en aðra samtíma menn heyrði ég aldrei nefna fjallið annað en Grjótfjall.

Utan við Grjótfjallið er Eiríksdalsvarp sem áður er um getið.

Áður var fjölfarinn vegur milli Héraðs og Borgarfjarðar um Sandaskörð og Eiríksdal.  Lá leiðin yfir Seyluna fyrir ofan Hólaland, yfir Selá ofan við Selhryggskoll, síðan upp innan við Selána um Mannamela.  Inn af Tindfelli skiptust leiðir.  Lá önnur út og upp á Eiríksdalsvarp en hinn einnig upp eftir henni til Sandaskarða.  Báðir eru þessir fjallvegir brattalitlir og skörðin sem þeir liggja um eins og geilar gegnum fjöllin milli Héraðs og Borgarfjarðar.  Sama er að segja um Mýrnesskörðin eða Mýnesskörðin en þau hafa sjaldan verið farin.  Ekki er kunnugt af hverju þau draga nafn.  Heitið Mýr- eða Mýnes er hvergi þekkt hér nærlendis.  Hið næsta er Mýnes í Eiðaþinghá við Lagarfljót, af sumum nefnt Mýrnes og hefur ekki tekist að grafa upp hvort heitið er hið rétta.  Innst á Klifum, rétt utan undir Mýrnesskörðum er allstór tjörn eða vatn.  Ekki er þekkt nafn á því.  En Beinageit er talin draga nafn af geitum Margrétar ríku á Eiðum.  Hún hafði geitur í seli á Hraundal.  Sagt er að eitt haust hafi snemma lagt snjóa og hafi geitur Margrétar orðið úti í fjallinu og hafi lengi sést bein þeirra.