Tilurð huldufólks

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir svo:

TILORÐNING  HULDUFÓLKS

Það var eitt sinn að guð kallaði til Evu aldamóður og sagði henni á ákveðnum degi og tíma að sýna sér öll börn sín á tilteknum stað og láta þau vera kembd og þvegin og svo vel búin sem föng væri á.
Eva gerði sem henni var boðið, en af því börnin voru mörg nennti hún ekki að hafa fyrir að búa þau öll svo vel sem skyldi. Tók hún þá nokkur frá af hvoru kyni er henni þóktu ósélegust og fal þau í helli einum og bjó svo um dyrnar að þau kæmist ekki á braut þaðan, en öll hin lét hún koma fram fyri auglit drottins á tilteknum stað og tíma.

En er guð kom að sjá yfir börn hennar þá spyr hann Evu hvert hún hafi ekki fleiri börn, en hún neitti því.

Þá mælti guð til hennar: "Það sem þú nú hefur viljað hylja og dylja fyri guði þínum, það veri héðan í frá hulið og dulið fyri þér og bónda þínum og öllum niðum ykkar nema þeim einum er ég vil það veita, og engar nytjar né skemmtun skuluð þið af þeim hafa héðan af."

Meðfylgjandi saga er úr bókinni Huldufólkssögur, úrval úr þjóösögum og æfintýrum Jóns Árnasonar:  1920.   Ath. að upprunalegri stafsetningu er haldið.

Uppruni álfa.
Um uppruna huldufólks fer tvennum sögum, sem hjer segir.
Einhverju sinni kom guð almáttugur til Adams og Evu.  Fögnuðu þau honum vel, og sýndu honum alt, sem þau áttu innan stokks.  Þau sýndu honum líka börnin sín, og þótti honum þau allefnileg.  Hann spurði Evu, hvort þau ættu ekki fleiri börn en þau, sem hún var búin að sýna honum.  Hún hvað nei við.  En svo stóð á, að Eva hafði ekki verið búin að þvo sumum börnunum, og fyrirvarð sig því að láta sjá þau, og skaut þeim fyrir þá sök undan.  Þetta vissi guð, og segir:  „Það, sem á að vera hulið fyrir mjer, skal verða hulið fyrir mönnum“.  Þessi börn urðu nú mönnum ósýnileg og bjuggu í holtum og hæðum, hólum og steinum.  Þaðan eru álfar komnir, en mennirnir eru komnir af þeim börnum Evu, sem hún sýndi guði.  Menskir menn geta aldrei sjeð álfa, nema þeir vilji sjálfir; því þeir geta sjeð menn og látið menn sjá sig.

Einu sinni var maður á ferð.  Hann viltist og vissi ekki hvað hann fór.  Loksins kom hann að bæ, sem hann þekti ekki neitt.  þar barði hann á dyr.  Kom kona roskin til dyra og bauð honum inn.  Hann þáðí það.  Voru húsakynni fremur góð á bænum og þokkaleg.  Konan leiddi manninn í baðstofu, og voru þar tvær stúlkur fyrir, ungar og fríðar.  Ekki sá hann fleira fólk á bænum en hina rosknu konu og stúlkurnar.  Var honum vel tekið, gefinn matur og drykkur, og síðan fylgt til sængur.  Maðurinn bað um að fá að samrekkja annari stúlkunni, og var það leyft.  Leggjast þau nú út af.  Vildi þá maðurinn snúa að henni, en fann þar engan líkama, sem stúlkan var.  Þreif hann þá til hennar, en ekkert varð milli handa hans; þó var stúlkan kyrr hjá honum í rúminu, svo að hann sá hana alt af.  Hann spyr hana þá, hvernig þessu víki við.  Hún segir, að hann skuli ekki undrast þetta;  „því að jeg er líkamalaus andi“, segir hún.  „Þegar djöfullinn forðum gerði uppreist á himni, þá var hann og allir þeir, sem með honum börðust, rekinn út í hin ystu myrkur.  Þeir sem horðu á eftir honum voru og reknir burtu af himni.  En þeir, sem hvorki voru með nje móti honum og í hvorugan flokkin gengu, voru reknir á jörðu niður, og skipað að búa í hólum, fjöllum og steinum, og eru þeir kallaðir álfar eða huldumenn.  Þeir geta ekki búið saman við aðra en sjálfa sig.  Þeir geta bæði gert gott og ilt, og það mikið á hvorn veginn, sem er.  Þeir hafa engan slíkan líkama, sem þjer, menskir menn, en geta þó birst yður, þegar þeir vilja.  Jeg er nú ein af þessum flokki hinna föllnu anda, og því er engin von, að þú getir haft meira yndi af mjer en orðið er“.  Maðurinn ljet sjer þetta lynda, og sagði síðan frá því, sem fyrir sig hefði borið.