Njarðvík

Njarðvík

(Að mestu eftir handriti Björns Andréssonar í Njarðvík með viðaukum eftir Magnúsi Helgasyni, Baldurshaga). Örnefni á mynd eru einnig úr landi Snotrunes. 

Landamerki milli Njarðvíkur og Snotrunes eru bein lína úr hæsta tindi Skriðnafjalls niður í Bölmóðshlein sem er dálítil klettabrík í litlum vog, skammt sunnan við miðjar Njarðvíkurskriður.  Vogur sá heitir Bölmóður en skriðan upp af honum Bölmóðskinn.

Njarðvíkurskriður kallast einu nafni gróðurlitlar grjótskriður sem liggja norðaustan í Skriðnafjalli milli Naddagils að norðan og Aðgerðarhvammsjaðars að sunnan en hann er í Snotruneslandi.  Akvegurinn sem nú liggur um Njarðvíkurskriður er um 700 m. langur.  Næsta horn norðan Bölmóðs heitir Krossjaðar.  Á honum stendur Naddakross sem er úr tré með steyptri steinplötu undir.  Á hann grafið þessi áletrun: Effigiem Christi Qui Transis Pronus Honora.  Anno MCCCVI.  Hann stóð áður í grasjaðri ofan götu en var færður niður fyrir vegbrún þegar akvegurinn var gerður um SkriðurnarKrossinn hefur oft verið endurnýjaður en jafnan haldið sömu áletrun.  Munnmæli herma að fyrr á öldum hafi óvættur er Naddi nefndist (af því að það naddaði í grjótinu undan fótum hans er hann gekk um Skriðurnar), hafst við í helli einum ofarlega í Naddagili er síðan heitir Naddahellir.  Naddi rændi þá er um Skriðurnar fóru og varð nokkrum mönnum að bana uns bóndasonur einn, Jón að nafni, frá Gilsárvallahjáleigu, aðrir segja frá Njarðvík, réði niðurlögum hans.  En í þakklætisskyni fyrir það svo og til öryggis ferðamönnum á þessum hættuslóðum, var Krossinn reistur.  Hefur það verið venja að þeir sem um Skriðurnar fara læsu faðirvorið eða gjörðu bæn sína hjá Krossinum.  Skammt norðan við Krossinn er gil, kallað Krossgil og rennur eftir því Krosslækur.  Hann fellur fram af allháum kletti niður í stórgrýtta fjöru sem kölluð er Fjaran fyrir neðan Krossinn. (Ekki Krossfjara).  Norðan við hana er allþykk klettahlein með gati í gegnum er sjór fellur um en ekki er kunnugt um nafn á þessum kletti.  Fyrir norðan hann er Krossfjara, hömrum girt nema að norðan.  Í henni miðri er Krossfjöruhlein.  Um fjöruna fellur sjór frá hleininni svo fært er fyrir hana en illfært um flóð og ófært ef ólga er í sjó.  Sauðfé sækir mjög suður fyrir hleinina því þar er jafnan mikill þari en hættusamt er þar því ef brimar þvær þar allt innan.  Næsta gil norðan Krossgils heitir Graskinnargil og nyrðri brekka þess Graskinn.  Þar hlaupa snjóflóð oft.  Þá er Blautakinn og nær hún aðNaddagili en svo heitir gil það er takmarkar Skriðurnar að norðan.  Nyrðri brekka þess kallast Naddagilskinn.  Þar er mjög snjóflóðahætt.

Skammt fyrir ofan veg í Naddagili að norðanverðu er Naddahellir en nú er hrunið fyrir munnann.  Þar hafði Naddi ból sitt.  Norðan Naddagils eru grasigrónir balar, kallaðir Naddavellir en þar átti Naddi að hafa sést á síðkvöldum að svipast um eftir mannaferðum.

Neðan við Naddagil og Naddavelli er Naddagilsfjara.  Upp af Naddavöllum eru hjallar, hvor upp af öðrum, kallaðir Neðri- og Efri-Naddahjalli..  Norðan við Naddahjalla er brött og fremur gróðursnauð dalskvompa er nefnist Skriðnadalur.  Beint upp af honum er klettabrík sem heitir Eiturtindur.  ÚrSkriðnadal falla tveir lækir sem hafa hvor um sig myndað djúp gil.  Syðra gilið liggur við Naddavelli og heitir Miðgil en fjaran þar undir kallast Miðfjara.  Hitt gilið er nokkru norðar og heitir Heimastagil.  Spildan á milli þessara gilja er kölluð Út á milli gilja.  Fyrir neðan og norðan Heimastagil er fjara, kölluð Heimastafjara.  Um miðja vegu milli Heimustufjöru og Miðfjöru er smábás, klettum girtur, semHáski heitir.  Fé stekkur stundum niður í hann og getur farist ef brim gerir.  Fleiri básar eru þar en óskemmtileg eru nöfn á þeim.  Ofan vegarins sunnan Naddagils er grasjaðar er kallast Ólafstorfa.

Norðan við Heimustufjöru er grasigróinn tangi, Heimustufjörutangi, einnig af sumum nefndur Fögrufjörutangi.  Vestan við hann er vogur sem heitir Sölvaker.

Ef við höldum áfram inn með sjó verður fyrir okkur stórgrýtt fjara sem kallast Urð.  Nær hún alla leið inn að Sandi í Suðurkrók.  Um miðja Urðina gengur klöpp ein fram í sjó og heitir húnFiskiklöpp.  Er stundum landað þar fiski en lending er þó vond.  Ofan við Urðina eru allháir bakkar, sundurskornir af smá grafningum og giljum.  Stærst þeirra er Króksgil sem er rétt innan við Fiskiklöpp.  Þegar Urðinni sleppir tekur við bogmynduð sandfjara er liggur fyrir botni víkurinnar, kölluð Njarðvíkursandur.  Syðsti hluti hans nefnist Suður-Krókur.  Þar fellur Njarðvíkurá til sjávar og myndar allstórt lón skammt innan við ósinn, kallað Lón.  Smálækur fellur niður í Krókinn er heitir Krókslækur.  Á bakkanum við Krókinn er eyðibýlið Króksbakki en hann fór í eyði 1936 og var síðasti ábúandi þess Helgi Björnsson.  Nemum staðar á Króksbakka og lítum til fjalls.  Blasir þá við okkur Hádegisfjall, 610 m. hátt með hömrum efst en niður af þeim skriður, gróðurlitlar ofan til.  Svæðið sem vegurinn liggur um frá KróksbakkaHeimastagili er oft nefnt Út á Skriðum.  Vestan til á Hádegisfjalli er allstór steinn kallaður Hádegissteinn.  Hverfum frá sjónum að sinni og höldum eftir veginum inn til lands, sunnan Njarðvíkurár.  Komum við brátt að gili sem heitir Hólagil. Svæðið neðan vegar frá KróksbakkaHólagili kallast Bakki.  Örskammt innan við Hólagil eru allháir melhaugar sem Hólar heita.  Ef gengið er upp á þá framan til sést tóft sem kallast Hólatóft.  Þar hafði Jóhannes Jónsson, fóstri Kjarvals listmálara, sauði sína.  Þá blasir einnig við slétt mýri, Hólamýri og upp af henni fjölgrösug kinn, kölluð Hólakinn.  Skammt þar fyrir innan fellur Ytri-Hvannagilsá er rennur í Njarðvíkurá.  Á vinstri hönd er gróður lítil og sundurskorin fjallshlíð sem nefnist Háls.  Utan til í honum er stakur steinn, allstór, kallaðurStóristeinn.  Ef við göngum upp á Hálsbrún sjáum við botn með talsverðum gróðri og smá tjörnum og heitir hann Stóribotn.  Fyrir ofan hann er brattur gróðurlaus melhryggur er gengur fram úr Hádegisfjalli, skorinn sundur af Hólagili.  Melkollurinn fyrir framan það heitir Hólahnúkur.  Þar fyrir ofan er allstórt mýrarsvæði, grösugt, er kallast Hádegisbotnar.  Þar þótti allgott slægjuland.  Beint upp afHólahnúk er sérkennilegur melhryggur, kallaður Langimelur.  Skiptir hann botnunum og kallast Ytribotnar fyrir utan hann en Fremribotnar fyrir framan.  Framar og ofan við Hádegisbotna er sérstakur klettur er heitir Rjúpnaklettur.  Vestan undir honum er urð og hefur þar verið greni.  Ofan við Hádegisbotna er Snotrunesháls, í daglegu tali kallaður Nesháls.  Hlíðin frá Neshálsi fram og niður um Rjúpnaklett heitir Langahlíð.  Í Hádegisbotnum eiga nokkrir smálækir upptök sín sem sameinast í geysidjúpu gili, Ytra-Hvannagili og rennur eftir því Ytri-Hvannagilsá.  Gilskorur upp af Hvannagili kallast Ytri-Klofar.

Snúum nú aftur til vegar og höldum yfir Ytri-Hvannagilsá.  Tekur þá við allbreitt móasvæði, Hvannagilsmóar.  Þar þykir vetrarbeit best í Njarðvík að gamalli sögn.  Móar þessir ná að Innri-Hvannagilsá sem rennur þar á víðáttumiklum líparíteyrum sem eru framburður úr feyki miklu gili, Innra-Hvannagili.  Ef við lítum upp á milli Hvannagilja sjáum við allhátt uppi ávala melbungu,Hvannagilshnaus og Geitavíkurþúfu beint upp af honum.  Fram af Hvannagilshnaus eru Innri-Hvannagilsklofar.  Þar upp af er allstórt svæði, gróðurlítið, kallað Brunadalir.  Ná þeir allt upp að Bakkadalsvarpi.  Lækir þeir sem koma úr Brunadölum myndaInnri-Hvannagilsá.

Höldum eftir veginum yfir Innri-Hvannagilsá að brúnni á Njarðvíkurá.  Rétt framan við Hvannagilsá er stór steinn sem heitir Grásteinn.  Mýrar þær sem eru sunnan við veginn heitaGrásteinsmýri.  Inn af þeim eru Stóruenni sem ná inn undir Urðardal.  Fyrir ofan Grásteinsmýrar og Stóraenni er Grásteinshlíð, sundurskorin af mörgum smálækjum.  Stærstur þeirra er Stórilækur sem fellur í Njarðvíkurá skammt innan við brúna.  Efsta brúnGrásteinshlíðar er kölluð Múlabrún.  Þar fyrir ofan sjáum við allstórt fjall, fremur gróðurlítið.  Heitir það Múli en ysti hluti þess kallast Múlakollur.  Austan við Múlann eru Brunadalir sem áður eru nefndir.  Bak við Múlann er Múlaskarð sem er á milli Brunadals og Urðardals.

Sleppum nú veginum um stund og höldum með Njarðvíkuránni þar til við komum að allstórri þverá sem fellur í hana.  Heitir sú á Urðardalsá en dalurinn er hún kemur úr Urðardalur.  Framan viðUrðardalsána þar sem hún fellur í Víkurána er mjór oddi sem nefnist Tangi.  Förum nú upp með Urðardalsá en hún rennur í alldjúpu gili með fossum og flúðum, mjög straumhörð.  Brátt komum við að ármótum þar sem tvær ár koma saman og mynda ána sem við höfum farið með.  Heita þar Ytri- og Innri-Urðardalsá.  Nemum staðar um stund og lítum nánar á umhverfið.  Brekka dalsins að ofan kallast Hlíð og er hún sæmilega gróin en sundurskorin af smálækjum og með stórum staksteinum sem verða fleiri og fleiri eftir því sem ofar kemur í dalinn.  Einn steinn mjór ber þar nokkuð af hinum.  Heitir hann Strípur.  Fyrir utan og ofan Hlíðina er svæði sem kallast Urðardalsflóar í daglegu tali Flóar.  Tanginn milli ánna er oft nefndur Hólmi.  Neðsti hluti hans sem eru urðarhólar með mjög stórum steinum nefnist Neðsta-Urð.  Þá kemur dæld þvert á milli ánna, síðan stórgrýttur urðarhóll sem heitir Miðurð.  Þar fyrir ofan er mjótt á milli ánna og nokkuð lægra, síðan tekur við stórt urðarsvæði sem kallast Efsta-Urð.  Í Urðardal hafa melrakkar oft átt greni.  Að framan er dalurinn afmarkaður með allháum fjallshrygg sem heitir Byrða, 457 m með kjarngróðri í hlíðum en klettabeltum ofar.  Upp á háfjallinu er þó nokkur gróður.

Vestan við Byrðu eru grasigrónir hjallar og inn af þeim allstórt svæði, mýrlent með stórum staksteinum.  Heitir það Dyrfjalladalur og er suðurhlíð hans mjög brött og stórgrýtt.  Norðan í Byrðu er grasigróinn hjalli er heitir Lambamúlahjalli.  Þar er slægjuland nokkuð og var þar heyjað áður fyrr.  Vestur úr Dyrfjalladal gengur Mjóidalur sem endar á Mjóadalsvarpi og er það innst í stafni Njarðvíkur.  Suður af Urðardal, Byrðu og Dyrfjalladal blasa við Dyrfjöllin sem eru mjög há og tignarleg hamrafjöll.  Af Mjóadalsvarpi sjást Dyrnar sem fjöllin draga nafn af.  Skarðið austan viðDyrfjöll heitir Grjótdalsvarp.

Fremsta fjall að norðanverðu í Njarðvík heitir Súlur.  Austan undir þeim er hóll sem heitir Stórhóll.  Sunnan við hann eru hjallar, kallaðir Súlnahjallar en norðan við Stórhól heitirStórhólsmýri, milli Stórhóls og Geldingaskarða sem eru næstu skörð utan viðSúlur.  Í Hengifossánni sem kemur úr þeim er mjög hár foss sem heitir Hengifoss.  Brúnin sem hann fellur fram af er kölluð Hengifossbrún og fyrir neðan hana eru Hengifossmýrar.  Fjallið fyrir utan Geldingaskörð heitir Geldingafjall 634 m. Niður af því yst liggur melhryggur sem endar á höfða við ána sem heitir Fremri Hríshöfði og framan á honum er Fremra-Sel.  Nokkru utar er Ytri Hríshöfði.  Utan við Geldingafjall er Vatnsskarð er dregur nafn af litlu stöðuvatni norðan til í skarðinu.  Þar liggur nú hinn nýi akvegur milli Borgarfjarðar og Héraðs.  Undan skarðinu fellur Vatnsskarðsá er rennur milli Ytri- og Innri-Hríshöfða.  Utan við Vatnsskarð er Sönghofsfjall(537m).  Hof átti að hafa staðið upp á fjallinu með klukkum í en litlar eða engar sjást nú minjar þess, (sjá þjóðs. Sigf. Sigf. IX14).  Niður frá því gengur Móagilshnjúkur og út og niður af honum Móagilshnaus.  Beggja vegna við hann er kallaðir KlofarFremri- og Ytri-Móagilsklofi.  Smá lækir falla úr þeim í Víkurána en milli þeirra eru Móagilsmýrar.  Utan við Söngholfsfjall er Seldalur.  Úr honum kemur Selá sem fellur í Víkurá.  Nokkurn spöl frá Víkurá, rétt utan við Selána er Ytra-Njarðvíkursel og heitir Selmýri þar fyrir utan.  Þar á selinu stóð að sögn Fljótsdælu bær er Virkishús hét og sjást þar enn miklar leifar eftir húsatættur.  Brekkan fyrir utan og ofanSelið heitir Selkinn en fyrir ofan hana er Selhjalli.  Fjallið utan við Seldal heitir Grjótfjall en hæsti tindur þess kallast Grjótfjallstindur.  Sunnan í Grjótfjalli eru Efri- og Neðri-Grjótbotn.  Niður frá Grjótfjalli eru stórgrýttir urðarhólar sem kallast Hryggur en fyrir utan þá eru Grjótbrekkur.  Úr þeim kemur Silungslækur.  Utan við Grjótfjall er Göngudalur.  Eftir honum fellur Göngudalsá en þar lá áður aðalreiðvegur milli Borgarfjarðar og Héraðs og þar liggur nú landssíminn.  Upp af Göngudal er Gönguskarð.  Fjallið utan við það heitir Smátindafjall, (563 m) í daglegu tali nefnt Tindafjall.  Að framamverðu í Göngudal, ofan til, eru tvö gil sem heita Efra- og Neðra-Þvergil.  Á milli þeirra er Þvergilshnaus og upp af honum eru Stúlkubotnar.  Þar áttu endur fyrir löngu að hafa orðið úti tvær stúlkur úr Héraði er voru á leið til Borgarfjaðrar en villtust af leið í dimmviðri.  Norður úr Göngudal er Mjóidalur.

Næsta fjall utan Göngudals er Kerlingarfjall.  Sunnan í því, allhátt, eru tveir hjallar, kallaðirEfri- og Neðri-Gunnarshjalli.  Á Efri-Hjallanum átti Gunnar Þiðrandabani að hafa hafst við í tjaldi sínu, bak við stóran stein, eftir víg Þiðranda að sögn Fljótsdælu.  Fram og niður af Gunnarshjalla, við árgilið, er melhryggur, kallaður Háhryggur.  Í árgilinu ofan við hann erKiðahvammur.  Þar í helli undir fossinum í Göngudalsánni höfðust Kórekssynir við nóttina eftir bardagann í Njarðvík, (sbr. Fljótsd.sögu).  Á láglendinu, skammt utan Göngudalsár, er dæld, kölluð Lynglág.  Vestan í Kerlingarfjalli er allstór botn, gróðurlítill, kallaðurKerlingarbotn.  Framan við hann, þar sem mólendið ber hæst, rétt neðan við réttina og örskammt utan við reiðgötuna til Göngudals er hringlagaður fornmannahaugur en ekki er vitað hver þar er heygður.  Um það bil beint út af skilaréttinni, æði spöl frá Lynglá er smálægð sem Andrésarlág heitir.  Skammt fyrir utan hana fornt garðlag er nær ofan úr Kerlingarfjalli, (heitir) í sjó fram milli Borgar og Njarðvíkurbæjar, kallað Þorragarður.  Er talið að það sé vörslugarður sá er Ásbjörn vegghamar hlóð, (sbr. Frásögn Fljótsd.).  Fyrir utan hann, lítið eitt frá fjallinu, eru haugar í mýrlendi, kallaðir Haugar en óvíst hvort þar sé um dysjar að ræða en nær fjallinu kallast Kerlingarmór og fyrir neðan hann er Illadý.  Út af Kerlingarmó eru tvær smá hraunklessur er heita Fremra- og Ytra-Grattahraun með dálitlu millibili.  Upp af þeim, neðan til í fjallinu, eru Litluklettar og rennur fram af þeim lítill lækur er heitir Litluklettalækur.  Lækur sá er myndast af smálækjum úr Kerlingarfjalliheitir Rauðilækur og fellur í Víkurána fast út við sand.  Slétta svæðið meðfram Víkurá frá RauðalækGöngudalsá kallast GrundBæjarhóll heitir hóll sá er Njarðvíkurbær stendur á og er kirkjugarður þar í hlaðvarpa skeifumyndaður að lögun.  Túnið fyrir framan hann er oftast nefnt Framtún eða Magnúsartún.

Vestan við Bæjarhól, norðan gömlu reiðgötu eru Teigar en norður af þeim Tjarnarstæði.  Norðan við Bæjarhól er Lambhústún og út af því Hesthústún.  Fyrir utan bæ er Fjósaþýfi, þá Hringur sem var hringlagað þúfnastykki sem búið er að slétta og yst Króatunga, út við Rauðalaækin.  Túnið umhverfis kirkjuna er kallað Grundir.  Býlið út við sjóinn heitir Borg og er það kennt við hringlagaða Sauðaborg sem er rétt utan við íbúðarhúsið.  Í Borgartúninu á svonefndriLöngutungu er þúfa sem nefnist Þiðrandaþúfa.  Þar á Þiðrandi Geitisson að hafa verið veginn svo sem sagt er frá í Fljótsdælu.  Þúfunni er nú friðlýst.  Upp frá Borg liggur mýri, kölluð Borgarmýri en utan og ofan við hann út á Bakka er Hjaltagrund en svæðið þar upp af alt að fjallsrótum kallast tún.  Þar hefur nú verið reist nýbýli 1955 er heitir Njarðvík

Utan við Kerlingarfjall er Skemmudalur, hét áður Skammidalur en áin sem úr honum rennur er nefndStekká.  Neðst í Skemmudal er Skemmudalsvarp en niður af því beggjamegin við ána eruStekkjarbotnar og nokkru neðar, utan og framan við ána, er grasigróin botn, kallaður Fjárskjól.  Utan við ána, spölkorn frá sjó, stóð býlið Stekkur og í kringum það Stekkjartún.  (Áður Njarðartún).  Býli þetta eyðilagðist í snjóflóði úr Tóarfjalli aðfararnótt 2. febrúar 1883.  Flóðið braut öll hús nema bæjardyrnar.  Norðurstafn baðstofunnar ásamt rjáfrinu féll inn og ofan á fólkið sofandi.  Þar fórust hjónin, Guðmundur Eiríksson, Sesselja Þorkelsdóttir, dóttir hjónanna og fósturdóttir, báðar ungar, móðir bónda á áttræðisaldri og vinnukona en tveir synir bóndans lifðu undir flóðinu frá því á föstudagsnótt til laugardags er þeim var bjargað óskemmdum.  Dimmviðri var svo ekki sást til bæjarins af bæjunum í kring hvernig ástatt var.

Niður af Stekkjartúni er Stekkjarsandur og kallast nyrsti hluti hans Norðurkrókur.  Þar eru hellisskútar sem fé leitar sér oft skjóls í.  Nokkurn spöl þar fyrir utan er allhá klöpp er skagar nokkuð fram í sjóinn.  Heitir hún Bjarndýrsklöpp

Utan við Skemmudal er Tóarfjall.  Ofan til í því eru grastorfur, kallaðar Efri- og Neðri-Sultartorfa.  Niður af þeim kallast Bakkar.  Niður af Sultartorfum rennur lækur er heitirFornustekkarlækur.  Æði langt út á Bökkum er gil sem heitir Yxnisgil en niður af því er fjara sem heitir Hvalfjara.  Þar fyrir utan tekur við Stórató og eru upp af henni Efri- og Neðritóarhjalli en niður úr henni miðri skagar Tóartangi út í Víkina.  Fyrir neðan, en utan við Tóartanga er bás sem kallast Tóarbás eða Tóarfjara.  Fyrir utan Tóarfjall er Skjaldarfjall en milli þeirra Skjaldardalur.  Úr Skjaldardal kemurSkjaldará er fellur til sjávar í Hellisfjöru.  Fyrir utan ána er allstór hellir, kallaður Hundraðkindahellir.  Fyrir utan ána neðst er Litlató en niður af henni Litlutóartangi og utan við hannLitlutóarfjara.  Upp af Litlutóarfjöru eru lyngivaxnar skriður, kallaðar Svuntur en ofan við þær eru hjallar er heita Efri- og Neðri-Skjöldur og ná inn að Skjaldará.  Næst Litlutóarfjöru er bás sem heitir Háski en upp af honum Háskajaðar er nær upp á Hnaus.  Utan við hann er Skálanesfjara en utan við hana er allstórt grasivaxið nes með grasigróna jaðra upp af er heitir Skálanes.  Austast á því er hóll er heitir Króarhóll.  Þar var áður útræði.  Niður af Skálanesi er bás, kallaður Skeljabás en tanginn sem skagar suður úr nesinu heitir Skálanestangi.  Vestan á honum er Skálaneshöfn og var þar lending.  Inn og suður af tanganum í miðri vík eru þrjú sker er heita Gunnarssker.  Sjást tvö þeirra að jafnaði upp úr sjó nema á háflæði en á þriðja skerinu örlar aðeins um stórstraumsfjöru.  Á Gunnar Þiðrandabani, að sögn Fljótsdælu, að hafa hvílst á flótta sínum yfir víkina undan óvinum sínum.

Norðan við Skálanes er fjara sem heitir Króarfjara.  Þar skagar stór klöpp í sjó fram er heitirMáfaklöpp en utan við hana er önnur fjara er nær norður að Stapa, kölluð Drumbafjara, mesta rekafjara í Njarðvík.  Austan af henni er sker, æði spöl frá landi, er heitir Fauskur.  Norðan viðStapa er fjara sem heitir Stapafjara og norður af henni löng fjara, kölluð Langafjara.  Niður úrHlaupum er hlein sem ekki er vitað um nafn á en norðan við hana er fjara sem heitir Kambsfjara.  Upp af Skálanesinuganga grasigrónir jaðrar en þar fyrir ofan kallast Hnausar og enn ofar Urðarhjalli.  Norðan við Hnausa gengur klettahlein þverhnýpt í sjó fram, kölluð Stapi en norðan við Stapa heitir Hlaup norður að Kambi sem er Skriðugil er nær upp á Brimneshnaus.

Hátt í fjalli, upp af miðjum Hlaupum, er hjalli sem heitir Beinahjalli.  Áðurnefndur Brimneshnaus, sem er hjalli norður af Brimnesi, nær frá Kambi norður að Afréttará er á upptök sín á  Grasadal.  Upp af honum nyrst er gjá er nær upp á Grasadal, kölluð Bolagjá.  Norðan við Brimneshnaus er grasigróið nes er heitir Brimnes og stendur þar sjálfvirkur viti, kallaður Kögurviti til aðgreiningar Brimnesvita við Seyðisfjörð.  Niður af honum er tangi sem heitir Brimnestangi en vestan í honum er fjara sem heitir Brimneshöfn og er þar lending.  Norðan við Afréttarána tekur við mýri er nær norður að Afréttarskriðum.  Ofan við hana er hjalli sem einnig nær að skriðunum.  Norðan við Afréttarskriður heitir Jaðar en niður af honum miðjum er stór steinn, kallaður Kögur-Grímstak, (sbr. Þjóðs. J.Á. I.bls. 165) en upp af honum hellir, kallaður Kögur-Grímshellir og gengur sjór inn í hann um flæði.  Nyrsta brún jaðars kallast Kögur.  Norðan við Kögur tekur við alllangur sandur með sjó fram er heitir Ólafsvogssandur, í daglegu tali alltaf kallaður Ólafssandur og þótti gott rekapláss.  Nyrst á honum er klettahlein en norðan við hana malarfjara, kölluð Gripdeild er var mjög umdeild rekafjara milli Unaóss og Njarðvíkur en tilheyrir nú Njarðvík.  Þar liggja nú landamerki milli Njarðvíkur og Unaóss, beint upp áGrasdalsröð.

Norðan Tóarfjalls og Skjaldarfjalls er stór og grösugur dalur, Efri- ogNeðri-Grasdalur.  Niður af Neðri Grasdal er hamrabelti en fyrir neðan það tekur við svonefndAfrétt er nær frá Kambi á BrimnesiKögri.