Veturinn 2019-2020

4. Feb.

Mætt: 
Zlata, Júlíus, Páll, Hófi, Sylvía ásamt Jónu
Fundarefni:
1. Afhending grænfánans.
2. Staða verkefna
1. Afhending grænfánans hefur frestast ítrekað vegna veðurs og færðar. En nú er stefnt á að Guðrún komi 13. feb kl. 10:00. Munum við taka á móti henni með veitingum sem nemendur hafa bakað.
2. Staða verkefna:
Lýðheilsa: Nemendur hafa verið að setja miða í Gullbomsuna en viðurkenna að þau mættu vera duglegri við það. Þetta sama á við um starfsfólk ;) Ákveðið að nú ætlum við að taka okkur á og skoða hug okkar vel.
Við höfum nú þegar farið í þrjár gönguferðir í vetur ( Stapavík, Hallormsstaður og Fardagafoss ) og stefnt á að fara á Hrafnatind við fysta tækifæri. 
Allir nemendur skólans hafa nýtt sér það að fara í tómstundir/íþróttastarf í Egilsstaði og eru þau mjög ánægð með það.
Hnattrænt jafnrétti. Nemendur hafa velt fyrir sér stöðu krakka í heiminum, skoðað myndbönd og aflað sér fróðleiks. Ákveðið að þar sem ekki var haldin tombóla fyrir jólin að nota hluta af einhverri annarri fjáröflun til að styrkja krakka í öðrum löndum líkt og gert var í fyrra. 
Fleira ekki gert og fundi slitið
Jóna ritaði fundargerð

 

2. desember
Smá aukafundur í umhverfismenntatíma v/ grænfánaafhendingar.
Farið yfir bréf frá Margréti Hugadóttur frá Landvernd þar sem hún boðar að Guðrún Schmidt frá Landgræðslunni mun koma og afhenda okkur fánann þann 19. des ( á litlu jólunum ).

 

25. nóv
Mætt: Zlata, Júlíus, Páll, Hófi, Sylvía ásamt Jónu
Fundarefni: Endurgjöf vegna Grænfánaúttektar.
Nú hefur okkur borist endurgjöf vegna grænfánaúttektar. Niðurstöðurnar eru ánægjulegar, við fáum að flagga grænfánanum í fimmta skiptið næstu tvö árin.Nemendur létu í ljós ánægju sína með hversu flotta umsögn starfið þeirra fær. Þetta fær okkur til að halda áfram á þessari leið og vinna að nýju markmiðunum okkar að krafti.  Jóna fór lausnlega yfir helstu niðurstöður úttektarinnar og síðan fórum við í gönguferð :)
Fleira ekki gert og fundi slitið 
Jóna ritaði fundargerð.

 

28. okt
Mætt: Zlata, Júlíus, Páll, Hófi, Bryndís og Þrúða ásamt Jónu.
Fundarefni: Heimsókn Landverndar til að taka út skólann vegna umsóknar um grænfánann í fimmta sinn.
Í upphafi buðum við Hófi velkomna í hópinn og eins Bryndísi, stuðningsfulltrúa. 
Farið yfir dagskrá heimsóknarinnar en til okkar eru að koma þær Sigurlaug og Margrét frá landvernd. Þær koma í skólann kl. 8:30 og ákveðið að taka á móti þeim upp í útikennslustofu og bjóða þar upp á kakó og brauð á teini. Fara svo með þeim niður í skóla og sýna þeim skólann og það starf sem við höfum verið að vinna s.l. tvö ár. Einnig spyrja þær um hluti sem við þurfum að fá aðstoð með t.d. úttektarmiðarnir sem við fyllum út á hverju hausti um stöðu umhverfismála í skólanum, hvernig best sé að halda utan um þemun og þau verkefni sem við erum að vinna og hvort það sé í lagi að samflétta það sem við höfum verið að gera áður inn í ný markmið og þá kannski með aðeins breyttum forsendum.
Þrúða sat fundinn að þessu sinni og tók þátt í þessum umræðum okkar.
Fleira ekki gert og fundi slitið
Jóna ritaði fundargerð.

 

16. sept. Dagur íslenskrar náttúru.
Mætt: Zlata, Júlíus og Páll ásamt Jónu
Fundarefni: 
Umsókn um grænfánann. Þemu fyrir næstu tvö ár valin, eftir miklar vangaveltur og samningaviðræður "Hnattrænt jafnrétti" og "Lýðheilsa". Nemendur sammála því að halda áfram með þemað Hnattrænt jafnrétti en fleira en eitt kom til greina varðandi seinna þemað en þó voru allir sammála því að taka aðeins fyrir tvö þemu eins og s.l. tvö ár.  Greinargerðin lesin yfir og farið yfir verkefnastöðu og markmiðssetningu.
Rætt um verkefni innan þemanna. Margt skemmtilegt bar þar á góma og ótrulega líflegar umræður. 
Hnattrænt jafnrétti:
Ákveðið að halda áfram að styðja við krakka í öðrum löndum með því að hafa fjáröflun og láta peningana renna til góðs málefnis. 
Áhugi fyrir því að eignast félaga í öðrum löndum og vera í sambandi við þau t.d. í gegnum skype eða með bréfaskriftum á netinu.
Kynna okkur menningu fólks hérna á Borgarfirði sem á uppruna sinn að rekja til annarra landa.
Lýðheilsa:
Efla útinám ( setja fast niður í stundatöflu kennslustundir sem kenndar eru útivið )
Efla tómstundaiðkun nemenda með því að þeir velji sér tómstundir/íþróttir sem þeir stunda með jafningjum á Héraði. ( Skólinn gekkst fyrir því að Borgarfjarðarhreppur myndi styrkja nemendur til íþrótta og tómstundaiðkun utan sveitarfélagsins þar sem fámennið setur okkur ákveðnar skorður. ) Nemendur eiga nú rétt á styrk 100.000 kr pr önn til að standa straum af kostnaði sem hlýst af því að stunda íþróttir eða tómstundir í öðru sveitarfélagi. 
Halda áfram með skemmtilegar gönguferðir, eins og áður hefur komið fram. 
Tala um andlega líðan og heilsu og finna leiðir til að gera hana sem besta. 
Rætt lítillega um dag íslenskrar náttúru og nemendur sammála því að vinna saman að verkefni tengdu þessu viðfangsefni þ.e. íslenskri náttúru og þá jafnvel taka fyrir þjóðarblómið okkar. Ákveðið að ræða þetta frekar í valtíma á fimmudaginn.
Fleira ekki gert og fundi slitið 

26. ágúst 2019
Mætt á fyrsta fund þessa vetrar: Zlata, Júlíus og Páll og Jóna starfsmaður nefndarinnar.
Fundarefni:
Skipa í umhverfisnefnd: Þar sem aðeins eru þrír nemendur í skólanum var ákveðið að allir séu í umhverfisnefnd bæði nemendur í grunnskóla en eins eini nemandinn í leikskólanum hún Kamila. Júlíus Geir kosinn formaður nefndarinnar.
Ákveða verkefni vetrarins:
Ákveðið að sækja um grænfánann í fimmta sinn.  Jónu falið að gera það. Nemendum finnst þetta skemmtileg vinna þó stundum sé þetta erfitt og fáir nemendur til að taka þátt í verkefnunum og skipta með sér vinnunni.  Ákveðið að á næsta fundi verði farið yfir greinagerðina með umsókninni og valin þemu fyrir næsta tímabil og þá líka einhver verkefni þeim tengd.  
Gönguferðir:  Ákveðið að halda áfram með gönguferðirnar eins og áður og tengja þær inn í einhver skemmtileg verkefni. Fyrir valinu urðu; berjaferð í Stapavík, gönguferð á Hrafnatind, gönguferð upp í Brúnavíkurskarð ( jafnvel alla leið niður í Brúnavík ), gönguferð með Fellaskóla til Breiðuvíkur og gönguferð upp að Fardagafossi.
Styrkja börn í útlöndum, ( hnattrænt jafnrétti ) Ákveðið að hafa aftur fjáröflun og safna peningum til að styrkja barn/börn/þorp. Nánari ákvörðun um þetta tekin síðar.
Áframhaldandi samstarf við umhverfisnefnd Borgarfjarðarhrepps varðandi lífrænan úrgang. 
Fleira ekki gert og fundi slitið.
Jóna ritaði