Neshjáleiga & innri-Álftavík

NESHJÁLEIGA OG INNRI-ÁLFTAVÍK
Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Landamerki fyrir Neshjáleigu eru að mestu leyti hin sömu og fyrir Nes því beitiland allt er óskipt en engjum er skipt. Réttur til fjörubeitar og reka er einnig sameiginlegur fyrir báðar jarðirnar.

Upp frá Neshjáleigu til norðausturs gengur dálítill dalur upp í fjallið, eða Nesháls, austan Grjótbrúnar og Sniðakinnar er Neshjáleigudalur heitir. Neshjáleigulækur rennur niður vestast í honum austan undir Sniðakinninni en vestan til í honum rennur á niður sem hefur upptök sín upp á Neshálsinum og heitir hún Landsendaá eftir svæði því er hún rennur síðast um til sjávar. Austan við á þessa upp á Neshálsinum er nokkuð stórt svæði er Víðátta heitir. Austan við þetta svæði er lágt fjall þeim megin sem að Víðáttunum snýr er Víðáttufjall heitir. Það nær frá Fossdalsvarpi norðaustan við Víðátturnar og suður að Neshjáleigudal.

Frá Neshjáleigu liggja götur upp á Nesháls sem farið er eftir til Húsavíkur. Þegar farið er upp frá Neshjáleigu er komið upp að brattri brekku vestan Neshjáleigudalsins. neðan undir þessari brekku er dálítil grasþúfa er heitir Biskupsþúfa en brekkan sjálf heitir Oddar.  (Oddar eru melakambar, ekki mjög sverir, nánast hryggir).  Göturnar liggja í skásneiðingum upp Oddana. Þegar kemur lengra norður á Neshálsinn liggja göturnar um langan mel sem vörður eru á og sem heitir Vörðumelur. Skammt fyrir norðan hann er Sandskeið, er nefnt er í því er ritað er um Nes.

Sunnan í Víðáttufjallinu austan við Neshjáleigudalinn er nokkuð stór hjalli er Miðmorgunshjalli heitir. Austan Neshjáleigutúns er allstórt mýrarsvæði er Kögurmýri heitir. (Kögurmýri er inn af Kögrinu).  Austan við mýri þessa tekur við allstórt landssvæði er Landsendi heitir og liggur það norðaustur með flóanum utan við Loðmundarfjörð. Á svæði þessu eru víðast harðvellisbakkar meðfram sjónum eða melar. Sums staðar eru klettabríkur á því með grashvömmum á milli.

Næst Landsendaánni eru klettar er Árklettar heita en nokkuð fyrir austan þá eru klettabríkur er Krubbuklettar heita. Tangi er Stekkjartangi heitir er þar fyrir neðan. Austan við Landsendaána neðan við mynni Neshjáleigudalsins eru grasbrekkur er Landsendabrekkur heita. Nokkuð fyrir austan þær er mjög brött hlíð er nær að svokölluðum Nesflugum - klettum - er heitir Hlíð.

Örnefni meðfram sjónum í Neshjáleigulandi eru eins og hér á eftir greinir: Neðan við Neshjáleigutúnið er dálítill klettatangi fram í sjóinn er Afkastatangi heitir. (Á Afkastatanga var kastað af bátum þó að ekki væri hægt að setja bátinn upp eða lenda).  Harðvelli eða tún er upp á bakkanum fyrir ofan tangann. þar hafa lengi staðið fjárhús en eru nú niðurlögð. Suðaustur af Neshjáleigutúninu er annar nokkuð langur klettatangi er Skúrklöpp heitir. (Upp af Skúrklöpp hafa líklega verið einhverjir skúrar).  Allmikið dýpi er meðfram henni að vestan og hafa bátar oft verið affermdir og fermdir þar þegar sjóveður hefur leyft.

Austur af Skúrklöppinni liggurstórgrýtt fjara austur að dálítið hærri klettabrík er liggur þar nokkuð út í sjóinn. Hún heitir Kögur og lýkur firðinum þar en fyrir utan tekur Loðmundarfjarðarflóinn við. Skammt austan við Kögrið er langur vogur upp í kletta sem þar eru. Hann heitir Alviðruvogur.   Það er gott að liggja inn á þessum vog þegar ekki er mjög mikið brim. (Í Alviðruvog var alltaf hægt að fara í norðan- vestan- og norðaustanátt).  Austan við voginn er stutt en breið vík og ofan í hana rennur áðurnefnd Landsendaá. Norðaustan við hann er það svæði sem aðallega er kallað Landsendi og hafa örnefni þar verið áður skráð.

Undan Landsendanum norðaustan til er sker, nokkuð frá landi, er Róðrarsker heitir og Róðrarsund á milli skers og lands. (Róðrarsker ber nafn af því að það er eins og bátur á hvolfi er það kemur upp á fjöru).  Stórbrim ganga yfir það.

Austan við eða norðaustan við Landsendann, nokkuð frá honum, gengur allhá klettabrík fram í sjóinn. Hún er þunn næst landinu en töluvert breiðari fremst og grasivaxin að ofan. Hún heitir Vígi. Nokkuð noraustan við Vígið taka við klettar frá fjallsbrún í sjó er heita Nesflug. Vestast í þeim nærri sjónum eru tvær klettabríkur er Stigar heita. (Í Stigum eru eins og tröppur í berginu).  Meðfram þeim eru snarbrattar grastorfur og verpir hvítfugl - fýll - allmikið þar. Nokkru ofar í klettunum er rák er Nesrák heitir.  Í henni eru sjö örnefni frá vestri til austurs og eru þau þessi: Flag, Þreparák, Garðsgil, Garðjaðar, Naumarák, Gljúfragil og Hvolf. Götur eru eftir rákinni á milli Hlíðarinnar og Innri-Álftavíkur.  (Nesrák er ekki löng en betra er að hafa ekki hveiti í sér ef maður fer eftir henni).

 Skammt fyrir ofan Nesrákina er önnur rák er heitir Toddarák.  (Í Toddarák eru grastoddar og ber hún nafn af því).  Eftir henni er mjög sjaldan farið enda ekki góð umferðar. Austur af áðurnefndum Miðmorgunshjalla er dálítill hjalli eða botn nærri klettunum er heitir Neðri-Leyningur. Nokkru ofar upp af Neðri-Leyningunum er annar botn suðaustan í brúninni á Víðáttufjallinu er Efri-Leyningur heitir. Austur frá honum liggur rák eftir klettunum er Skjaldarrák heitir en austan við hana, austast í klettunum, er dálítið svæði, grasivaxið og mjög bratt, er Skjöldur heitir. Þessi rák er ekki góð umferðar og aðeins viðburður að hún sé farin.

Austan við Nesflugin er nokkuð stórt landsvæði er Innri-Álftavík heitir. Þetta eru að mestu nokkuð brattar brekkur, lyng- og grasigrónar. Á dálitlu svæði er sléttur bakki meðfram fjörunni. Þar eru gamlar grónar og fallnar húsatættur austan til á bakkanum er heita Bæjarstæði.

Þegar komið er austur úr Nesrák tekur við nokkuð breiður jaðar er Heimastijaðar heitir. Austan við hann er gil, ekki mjög djúpt. Ofarlega á þessu svæði, skammt neðan við brún fjallsins, er nokkuð stór botn eða dæld í fjallið er Víkurdalur heitir. Upp úr honum er brött brekka upp í fjallsbrúnina og heitir hún Uppgöngur. Á Innri-Álftavíkinni er oft snjólétt og beitiland gott fyrir sauðfé enda var sauðfé oft rekið þangað snemma á vorin fyrr á árum.

Austan við Innri-Álftavíkina eru klettar á milli hennar og Ytri-Álftavíkur. Á milli víknanna eru tvær rákir er heita Tóarrák – neðar – og Urðarrák – ofar.