Álfasöngvar

Gamla árið gengið er.

     Lag:  Táp og fjör.    Cm

 

Gamla árið gengið er,

glaðir ljóðin syngjum vér.

Búumst í vort besta skart,

blysin lýsa myrkrið svart.

  

Syngjum kátt, dönsum dátt,

dagur hvarf í vesturátt.

Enn í nótt skal æfin góð

Álfaborgar frjálsri þjóð.

 

Ítar kveða álfasöng,

undir tekur klettaþröng.

Blessun krýni Borgarfjörð

blómgist æ vor fósturjörð.

 

Syngjum kátt, dönsum dátt,

dagur hvarf í vesturátt.

Enn í nótt skal æfin góð

Álfaborgar frjálsri þjóð.

     Rannveig Sigfúsdóttir, Einbúa

 

 

 

 

Komum við á Kirkjustein.

     Lag: Máninn hátt...    Cm

 

Komum við í Kirkjustein,

klerkinn hlýddum á

heyrðum sálmasöngva

sætt við bergið slá.

Buðlung Dyrfjalla þar

biskupsins við hlið.

Undir tók þá Álfaborgar ítalið.

 

Göngum við í holt og hól

hávært eftir kvöld.

Húmið hauðrið byrgir

hvílist manna fjöld.

Ljúf er líðandi stund,

lýsum álfabæ.

Hverfum meðan máninn hyllir myrkan sæ.

     Sr. Einar Þórðarson.

 

 

 

Allir eru í dansinum.

     Lag: Stóð ég úti í tungsljósi.   C

 

Allir eru í dansinum

og enginn heima í kvöld.

Álfar kunna að gleðjast

þá nóttin hefur völd.

Förum við með hopp og hæ

í hring með blysin mörg.

Svo hristist Álfaborgin

og skjálfa Kiðubjörg

Svo hristist Álfaborgin

og skjálfa Kiðubjörg.

 

Á Hvolsmælinn og Geitfellið

nú gullnum bjarma slær.

Glottir fullur máni

og blikar stjarna skær.

Er gerfitunglin hringsóla

svo hratt um vora jörð,

heyrast skal vort fótatak

um allan Borgarfjörð.

Heyrast skal vort fótatak

um allan Borgarfjörð.

                 Sigurður Ó. Pálsson.

 

 

 

Um áramótin álfar fara á stjá.

     Lag:  Snert hörpu mína...   Dm

 

Um áramótin álfar fara á stjá

ef ætlar þú að heilsa upp á þá.

Þeir kynda bál og kyrja álfaljóð

svo kynnst þeim geti vel hin mennska þjóð.

 

Frá Álfaborg þeir leggja sína leið

og löng þeim finnst ei nóttin björt og heið.

Þeir stíga dans í daufri mánans glóð

er duna svellin, kætist álfaþjóð.

 

Þá fara þeir í kirkju í Kækjudal

og kyndla bera í þröngan fjallasal.

Út Borgarfjörðinn sést þá mögnuð mynd

er máninn skín á hvítan Dyrfjallstind.

 

Og Svartfellið er drungalegt og dökkt.

svo dularfullt við norðurljósaflökkt.

Er sléttur sjórinn sýnist eins og gler

þá segðu mér hvar fegurð meiri er.

 

Svo líður nótt við ljúfan söng og spil

og logar bálsins leika um fjöll og gil.

Þá gullnum bjarma slær á hjarnið hart

í hamrasalnum verður alveg bjart.

                     Andrés Björnsson   (1996)

 

 

 

Hverfi öll úr huga sorg.

     Lag:  Nú er glatt í hverjum hól.   G

 

Hverfi öll úr huga sorg

hinstu nótt um jólin.

Opin stendur Álfaborg,

uppljómuð sem sólin.

Dönsum og dönsum

og kveðum kvæðafans.

:,: Kveði undir Dyrfjöll

og allar vættir lands :,:

 

Utan frá sjó og inn á skörð,

erum vér á kreiki.

Stynur fönn og frosin börð,

förum vér í leiki.

Dönsum og dönsum....

 

Komum við á Kækjuskörð

þótt kveini vetrarhríðir.

Syngjum þar við hretin hörð

helgar jólatíðir.

Dönsum og dönsum....

 

Þó að dynji hretin hörð

og hundtyrkjann oss dreymi.

Vér biðjum yfir Borgarfjörð

blessun drottins streymi.

Dönsum og dönsum....

 

Vér biðjum yfir Borgarfjörð

blessun drottins streymi.

Því engan blett og engan fjörð

vér elskum meir í heimi.

Dönsum og dönsum....

                      Sr.  Einar Þórðarson.

 

 

 

Bjart er nú um Borgarfjörð

     Lag:  Góða veislu gjöra skal.   Cm

 

Bjart er nú um Borgarfjörð,

bleikur máni hlær.

Yfir mó og mýri

hann mildum geislum slær.

Stígum dans, leikum létt

langa næturstund.

Gleymum sorgum göngum nú

á gleðinnar fund.

 

Hér í vorri heimasveit

höldum gleðimót.

Auðnu vora aukum

og yndi - sveinn og snót.

Stígum dans....

 

Biðja viljum Borgarfjörð

blessast alla tíð.

Jafnt í sól á sumri

og svertri vetrartíð.

Stígum dans....

                      Sigurður Ó. Pálsson.

 

 

 

 

Enn er glatt oss álfum hjá

     Lag:  Táp og fjör...   Cm

 

Enn er glatt oss álfum hjá

út er vorri höllu frá.

Göngum vér með blysin björt

bagar oss ei nóttin svört.

Glöð er lund, ljúf er stund,

leikur álfasveinn og sprund.

Syngjum kát vor ljúflingsljóð

lyndisglöð er álfaþjóð.

 

Kyndlum vorum höldum hátt,

hefjum söng og leikum dátt.

Dönsum glatt svo duni grund,

dönsum þessa næturstund.

Auðnan fríð, björt og blíð,

brosir mót oss alla tíð.

Syngjum kát vor ljúfilngsljóð

lyndisglöð er álfaþjóð.

 

Hrópum nú af hartans þrá

helgar Íslands vættir á.

Að þær halda vilji vörð

vorn um kæra Borgarfjörð.

Eyðum hryggð, unnum dyggð

eflum gott í vorri byggð.

Syngjum kát vor ljúflingsljóð,

lyndisglöð er álfaþjóð.

    Sigríður Eyjólfsdóttir, eldri.

 

 

 

 

Bærinn álfa blasir við.

     Lag:  Nú er glatt.    G

 

Bærinn álfa blasir við

Borgarfirði öllum.

Er að gömlum aldasið

Álfaborg við köllum.

Bú okkar flytjum við blysaskin í nótt

:,: meðan sólin sefur í sævardjúpi rótt :,:

 

Dunar hátt í dvergahöll

dynur lands í fjöllum.

Álfar dansa út um völl,

ópum með og köllum.

Bú okkar flytjum....

 

Kyndla vora hefjum hátt

hryggðar hverfur efni.

Syngjum, leikum, dönsum dátt

drótt er öll í svefni.

Bú okkar flytjum....

                 Friðfinnur Runólfsson.

 

 

 

Horfum við og horfum á.
     Lag:  Máninn hátt....   Cm

Horfum við og horfum á
Höldar kveikja eld
upp á háum hólum
um heilagt gamlárskveld
Stígum, stígum vorn dans,
stynur freðin grund,
silfurrúnir ritar máninn Ránar á sund.

Allir flytja álfar sig
áramótin við.
Hlaupa þá í hópum
um hóla og klettarið.
Stígum, stígum vorn dans,
stynur freðin grund,
silfurrúnir ritar máninn Ránar á sund.
                      Sigfús Sigfússon

 

 

 

Bregða skal blundi.

     Lag:  Öxar við ána.    C

 

Bregða skal blundi, blysin við hefjum

bjarmanum slær yfir grundir og vog.

Á fagnaðarfundi fálæti kveðjum,

förum í dansinn við blysanna log.

Áfram, eldarnir brenna,

áfram, nóttin líður fljótt.

Máninn merlar ísa, mildar stjörnur lýsa,

gleðjumst öll meðan endist nótt.

                      Höfundur ókunnur.

 

 

 

 

Áfram, áfram.

     Lag:  Fram, fram fylking.   C

 

Áfram, áfram,

eldinn kringum sveinn og hrund.

Syngjum og dönsum svo duni grund.

Líður nú löng, ljúfan við söng,

miðsvetrar hin myrka nótt,

morguns ei skal bíða.

Ærið langt er enn til dags,

engu skulum kvíða.

 

Syngjum, syngjum,

sönginn undir taka fell,

bjarmanum slær yfir bláskyggð svell.

Eld við og ís, álfaþjóð kýs,

ennþá gleði umáramót

eins og fyrr um halda.

Sá er ekki syngur með

seinna mun þess gjalda.

                  Sigurður Ó. Pálsson.

 

 

 

 

Hröðum okkur hver sem má.

     Lag:  Nú er glatt í hverjum hól.  G

 

Hröðum okkur hver sem má

hverfur nóttin blíða.

Innum verða allir ná

ei má dagsins bíða.

Dansinn vér stígum

nú dofnar allt um grund

Glottir bleikur máni

um þögla óttustund.

     Friðfinnur Runólfsson

 

 

 

 

Nú skal halda gleði.

     Lag:  Nú er frost á Fróni.    C

 

Hér skal halda gleði, hefja léttan dans.

Glaður álfafans gerir engan stans.

Leikum létt í geði langa vetrarnótt,

meðan mókir rótt hin mennska drótt.

Álfur fögnuð fær, fornum vinum nær,

meðan máni skær, milt við öllum hlær.

Undir allir taka, ymja lögin góð.

Enn kann okkar þjóð álfaljóð.

     Sigurður Ó. Pálsson.

 

 

 

 

Álfakvæði

     A

 

Út úr fjöllum álfar streyma

ætla að halda dans.

Engin hræða er eftir heima

allur skrýðist fans.

Skemmtun veitir skörðum lýðum

skjöldung höfum vér.

Eftir merkismanni fríðum

mænir álfaher.

     Þórarinn Sveinsson frá Dallandi

 

 

 

 

Himinstjörnur brosið blítt

     Lag:  Máninn hátt...   Cm

 

Himinstjörnur brosið blítt

bjartan oná snjá.

Huldumenn og hrundir

hefjum dansinn þá.

Álfablys skína skær,

skyni vonar slær.

Ljúft á vorar leiðir,

við oss lífið hlær.

 

Geislinn hnígur himni frá

hauðurs oná skraut.

Huldusveinar syngja,

snjóvgri dansa á braut.

Álfablysin....

 

Eins og þjóti blíður blær

bærum léttan fót.

Dönsum svo og dönsum

dönsum fjöllum ót.

Álfablys skína skær....

 

Hóli í vér áttum bú

orpum dimmri mold.

Ský þar dimmleit drjúpa

dapri yfir fold.

Álfablys skína skær...

 

Kveðjum dimman drungageim

dauðablóðin öll.

Ærum vér og ærum

ærum næturtröll.

Álfablys skína skær....

 

Gamla árið, gamall hóll

gleymsku skal nú háð.

Förum upp til fjalla

fram með ráði og dáð.

Álfablys skína skær....

 

Tíminn heldur áfram æ

eigum því ei dvöl.

Lítur hann á lífið,

lífsins gleði og kvöl.

Álfablys skína skær....

 

Þar sem hátt í himinlind

hnjúkur baðast tær.

Móti okkur áfram

athvarf betra hlær.

Álfablys skína skær....

 

Himinstjörnur brosið blítt

bjartan oná snjá.

Huldumenn og hrundir

heim vér förum þá.

Lífsins blys skína skær,

skyni vonar slær.

Ljúft á vorar leiðir,

við oss lífið hlær.

     Bjarni frá Vogi.

 

 

 

 

Dans er hættur.

     Lag:  Táp og fjör...   Am

 

Dans er hættur, höldum brott

hér er svell að dansa gott.

Heim er mál að halda nú,

höldum lengra, flytjum bú.

Yfir frer, förum vér,

fagurt er á landi hér.

Fögnum ári nýju nú,

nýtt vér skulum reisa bú.

 

Kyndlum vorum höldum hátt,

heitt er loft og fagurblátt.

Ljóma fögur ljósin blíð

lýsa myrkra Skuldartíð.

Yfir frer.....

 

Skyggnumst gegnum Skuldartjald

skartkonu ég sé með fald.

Geislar standa af bjartri brá,

blikar sólin faldinn á.

Yfir frer....

 

Frelsisgyðjan helg og há

heima í vorum fjöllum á.

Aldrei flutti burt sitt bú,

blítt hún svaf – hún vaknar nú.

Yfir frer...

 

Allar standa henni hjá

helgar vættir landi á.

Allar glaða bera brá,

blikar sólin faldinn á.

Yfir frer....

 

Nú er ég glaður, nóg ég sá,

nú er gaman landi á.

Álfum, mönnum blikar blíð

broshýr, fögur, sælli tíð.

Yfir frer....

 

Mál er að halda í hólinn inn

heið og björt er framtíðin.

Blysin hátt vér hefjum nú,

hugglaðir við flytjum bú.

Yfir frer...

    Jón Ólafsson, ritstjóri,

     bróðir Páls Ólafssonar.

 

 

 

 

Út úr háum hamrasal.

     Lag:  Máninn hátt...   Cm

 

Út úr háum hamrasal

hleypur álfadrótt.

Dansar dátt á svelli

dimma vetrarnótt.

Blikar blysanna fjöld

bleika yfir grund.

Syngjum dátt og dönsum létt

uns dags rennur stund.

 

Áður fyrr á Ísagrund

álfaríki stóð.

Blíð í betri friði

blómgaðist vor þjóð.

Blikar blysanna fjöld....

 

Leiki sína léku í ró

léttir álfar þá.

Dundu fjöll og dalir

dvergar horfðu á.

Blikar blysanna fjöld....

 

Dönsum nú og syngjum sætt

senn er unnið stríð.

Yfir freðna foldu

fram vor sveitin blíð.

Blikar blysanna fjöld

bleika yfir grund.

Duni hátt í Dvalins höll

uns dags rennur stund.

     Bjarni Þorsteinsson