Borgfirsk ljóð

Borgarfjörður.

Brosir við mér Borgarfjörður,
björt mig heillar töfrasýn,
þú ert vel af guði gerður,
góða fagra sveitin mín.

Máttug tign og töfra veldi
traust í þínum faðmi býr,
þegar sól á sumar kveldi
signir geislum fjöllin hýr.

Hér bunar foss í bröttum hlíðum,
hér bærir kaldinn skógargrein,
hér kyssir aldan kossi blíðum,
kaldan sandinn sker og hlein.

Hér liðast áin lygn fram dalinn,
hér lifna blóm um fjallasal.
Þú munt lengi af lýðum talin,
ljúfa sveitin, byggða val.

Bjarni Steinsson fæddist í Höfn 6. Júlí 1902
Bjarni var ágætlega hagmæltur og lét eftir sig mikið af kveðskap af ýmsu tagi.
Hann átti mikinn þátt í að endurvekja þokkablótin á Borgafirði og orti margar
„Þorrablótsvísur“, sem ýmsir sungu t.d. Arnagrímur Magnússon, Sigursteinn Jóhansson
o.fl. undir undirleik Sigbjörns Guðmundssonar í Ásgarði.


Borgarfjörður

Borgarfjörður, kæra byggðin mín
bjart er oft um fjöllin þín.
Sumarfegurðin í faðmi þér
fast er greypt í hjarta mér.
Þú átt minninga- og sögusjóð
sögn um hulduklett og álfaslóð,
kyrrar ljósar nætur, kveldin hljóð
kátra fugla morgunljóð.
Þegar bliki slær á bláan sæ
bárur hjala rótt í mildum blæ
sólin hnígur vart í sævar djúp
sveipar allt í töfrahjúp
fegri sýn ég aldrei augum leit
en sú litadýrð um fjörð og sveit.
Við þinn fjallahring og breiða byggð
börn þín festa ævitryggð.

 
Þú átt oft á tíðum fanna föng
frost og hríðardægur löng.
Virðist langt að bíða vorsins þá
vetur leggur allt í dá.
Íssins breiða hylur hafið blátt,
hrannast kólguskýjum loftið grátt.
Margur treysta þarf á þor og mátt
þar til fæst við Norðra sátt.
Loks er vorið faðmar völl og sæ
verður létt um spor í hverjum bæ,
smáar bárum gæla björgin við
bát er siglt á fiskimið.
Þegar brosir sól við blómareit
betri, fegri slóðir enginn veit
kæra, gamla bernskubyggðin mín.
Blessist ætíð minning þín.
 

Hvert sem barna þinn beinist för
bíða misjöfn ævikjör.
Æskuminningu sem aldrei þver
eiga þau í hjarta sér
um hið litla blóm á lágum hól,
lamb í túni, kletta þinna skjól,
hlýja morgunstund er hani gól
hátt og snjallt við árdagssól.
Þá við bæjarlæk og bláa tjörn
bátum fleyttu stundum lítil börn
og í fjöruborði fundu þar
fagrar, dýrar gersemar.
Aldinn hugur þangað feginn flýr
fangar þessi gömlu ævintýr.
Lokahvíldin verður vær og hlý
vinarfaðmi þínum í.
 
                 Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir
                 Lag: Sigþrúður Sigurðardóttir



Gamall vinur

Þú stendur ennþá stoltur hér
og starir yfir byggð og fjörð,
á grýttum hörðum gráum mel
um gamlar slóðir heldur vörð.
Þú ert sem þögult minnismark
um minnar bernsku vættatrú
um gamlan álf með gráan koll
sem gæti átt sér hérna bú.
 
Í leik ég undi ein hjá þér
og oft um sumardægur löng,
ég hleraði við hulduþil
ef heyra mætti óm af söng.
Þá blómagarð ég gerði hér
því gott mér reyndist æ þitt skjól
og gróðursetti baldursbrá
og blágresi og melasól.
 
Ég hafði sögur heyrt um það
ef hrelldu mennskir álfadrótt
og gætti þess í grennd við þig
að ganga stillt og tala hljótt.
Og þó í leik því gæti gleymt
þá galt ég aldrei fyrir það.
Þær góðu vættir gættu mín
sem gistu ætíð þennan stað.
 
Er aldur færist yfir mig
ég einhvern daginn fæ þig hitt.
Ég klappa ögn á kollinn þinn
og kannski flyt þér ljóðið mitt.
Þér framundan er byggðin breið
að baki þeir sem luku för.
Þar helst ég kýs að halla mér
er horfið verður lífsins fjör.
 
                        Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir
                        Lag Sigþrúður Sigurðardóttir