Kjólsvík

Örnefni í Kjólsvík

Handrit: að mestu eftir Daníel Pálsson frá Breiðuvík. Örnefni yfirfarin og staðsett af Ásgeiri Arngrímssyni í Brekkubæ og Hafþóri Snjólfi Helgasyni 2021. Myndataka og myndvinnsla: Hafþór Snjólfur Helgason.

Fyrir sunnan Kjólsvíkurá yst heita Sauðaból. Inna við þau, meðfram ánni er gamalt jarðsig, kallað Gömluhaup. Út af Sauðabólum efst er Brattijaðar nðrðan í Flugahorni en svo nefnist ysti og neðsti hluti Grenmósraðanna sunnan Kjólsvíkur. Skammt út af Flugahorni liggur sker, kallað Hlass. Upp af Sauðabólum miðjum gengur hjalli sem Stórihjalli nefnist. Á röðunum upp af Stórahjalla er tindur semStóritindur heitir. Framan við Stórahjalla niður undir Sauðaból og upp undirGrenmóskoll er grasivaxin lág er heitir Langalág. Fram af Löngulág efst eru Þjófabotnarog neðan í þeim er Þjófahryggur. Upp úr Þjófabotnum, upp á Grenmósraðir, gengur klettaskora er heitir Sauðaklauf.

Milli Grenmós og Kerlingarfjalls er Kjólsvíkurskarð (í dag er talað um Kjólsvíkurvarp eða Kerlingarskarð. Innskot ÁA/HSH) sem reiðgata liggur um milli Kjólsvíkur og Breiðuvíkur, stutt og allgreiðfær leið. Annað skarð er innan við Kerlingarfjall, kallað Kerlingarfjallsskarð (í dag er oftast talað um Kúabotnaskarð. Innskot ÁA/HSH). Kjólsvíkurmegin við Kjólsvíkurskarð er mýrlendið undirlendi, kallað Bungur en utan undir þeim er Bungutjörn. Milli Bungutjarnar og Kjólsvíkurár er mýrarfláki, kallaður Breiða. Norðan í Kerlingarfjalli er klettadrangur er Kerling heitir en neðan og framan við hana eru Kerlingarbotnar. Sunnan við Kjólsvíkurá innst er Svarðarmelur og sunnan undir honum er Svarðarmýri. Inn af Kjólsvík liggja Hámelar (Kjólsvíkurmelar). Af Hámelum yst og efst er Kjólsvíkurskarð (eða Súluskarð innra) milli Krossfjalls og Súlutinds. Um það liggur reiðgata niður á Þrándarhrygg til Borgarfjarðar. Súluskarð ytra er milli Súlutinds og Víðidalsfjalls er farið var til Brúnavíkur. Niður frá Víðidalsfjalli gengur röð sem Hall heitir. Frá Halli niður að ánni heita Hallklettar.

Frá Kjólsvíkurá inn og upp Hámela ganga tvö gil og heitir hið syðra Moldargil. Tungan milli giljanna kallast Klafar. Utan undir Hallklettum er mýrlendi, kallað Kriki. Í Krika eru grjóthólar, kallaðir Hólar. Út og upp af Krika eru Grænukinnar en út og upp af þeim eru Efri- og Neðri-Háuhlaup og ná þau að Víðidalsfjalli.  (Í Háuhlaupum er hóll sem Páll Sveinsson frá Hvannstóði kallaði Sjónarhól og þaðan sést best um alla vík í smalamennskum. Innskot ÁA) Utan við Háuhlaup er Innstihryggur en utan undir honum skerst Víðidalur upp í fjallgarðinn og fellur um hann Víðidalslækur. Munnmæli herma að fram á 17. öld hafi Kjólsvík verið slétt og fögur. Stöðuvatn hafi verið uppi á Víðidalsfjalli sem lækur rann út ofan í víkina. En eina nótt hafi fjallið klofnað um vatnið og hlaupið runnið niður alla vík út undir Hlass. (þetta bergflóð er vel sýnilegt á loftmyndinni)

Upp af Víðidal liggur Víðidalsskarð til Hvalvíkur. Utan Víðidals er gróðurlaus melhryggur, kallaður Miðhryggur en utan við hann er Glettingsdalur og fellur eftir honum Glettingslækur. Út af Glettingsdal er Glettingskollur. Samkvæmt málvenju virðist fjallið sjálft ekki heita Glettingur heldur aðeins flugin utan í því, milli Kjólsvíkur og Glettinganess. Sunnan í Glettingskolli eru Efri- og Neðri-Fláar. Milli Glettingslækjar og Kjólsvíkurár utan til heitir Stekkur. Inn og upp af honum heita Láguhlaup og þá Hryggir inn og upp undir Háuhlaup.

Rétt norðan Kjólsvíkurár gengur langur og mjór hryggur meðfram henni og heitir hann Kattarhryggur. Milli hans og Hryggjar eru Sund. Neðan undir Glettingi er einkennilegur klettur er heitir KjóllKjóll þýðir skip í fornu máli og mun víkin draga nafn af honum. Í brekkurótinni fram og upp af Kjólnum er lítil hvilft, kölluð Hvolf. Skammt neðan við Kjólinn stendur Kjólsvíkurbærinn (í eyði frá 1938), í lágum hvammi norðan við aðal dalinn. Er bæjarstæðið hið hrikalegasta undir snarbröttum Glettingskolli en Kjóllinn ver það skriðuhlaupum og snjólflóðum. 

Í túninu niður af bænum er uppsprettulind, kölluð Gvendarbrunnur. Brekkan frá Kjól og á sjávarbakka heitir Bæjarbrekka. Fremsti hluti túnsins og áfram inn með Bæjarbrekku kallast Leyningar. Upp af ytri hluta túnsins heitir Jaðar en efsti hluti hans heitir Jaðarstoppur. Jaðarinn var löngum talinn svo góður til beitar að hann jafngilti 30 hestburðum af töðu.

Syðst við sjó fram er malarfjara undir bröttum bökkum er heitir Kjólsvíkursandur og er þar hætta fyrir sauðfé. Rétt utan við Sandinn eru tveir básar, Lækjarbás sem Bæjarlækur fellur í ogVölvubás. Fram undan túni utan til er flúð er heitir Baka. Lendingarstaðir eru tveir, Ker undir Bjarndýrsklöpp niður af bænum og Höfn út undir Gletting. Má stundum nota aðra ef hin er ófær.

Leiðin til Glettinganess er undir flugum Glettings. Er farið í gegn um gat á kletti er kallast Gatklettur, (er nú horfinn). Síðan er farið undir ófæru er Forvaði nefnist og þarf þar að sæta sjávarföllum. Leið þessi getur verið hættuleg vegna grjótflugs. Utan Forvaða er löng malarfjara er Hvalfjara nefnist og er hún í svonefndum Hvalbás og enn utar er Naumaskot. Milli Hvalbáss og Naumaskots er lág klöpp er Gullklöpp heitir. Áður fyrr glitraði hún öll í sólskini af gylltum brennisteinskís sen nú hefur að mestu verið plokkaður burt.

Um miðjan Gletting er Fálkatindur og rétt niður af honum er Illabrík og enn neðar er Illiskúti.