Skólareglur

 Skólareglur

 

 Í Grunnskóla Borgarfjarðar eystra:

   1. - eru einkunnarorðin: Gleði, virðing og árangur. Starfið okkar, hegðun og samskipti einkennast af þessu

   2. - hlýðum við kennurum og öðru starfsfólki skólans. Verði okkur á að brjóta þessa reglu biðjumst við afsökunar á því.

    3. - líðum við ekki einelti, stríðni, slagsmál eða ofbeldi í neinni mynd. Öllum á að líða vel í skólanum. Við látum umsjónarkennara            vita ef okkur sjálfum eða öðrum líður illa. Einnig eiga allir rétt á að vinna og leika sér í friði án truflunar.

    4. - við erum stundvís. Ef við mætum seint bönkum við á dyrnar og biðjumst afsökunar. Ástundun nemenda er skráð í                              ástundunarkerfi Mentor.

    5. - erum við vinnusöm, jákvæð og áhugasöm, bæði í kennslustundum og við heimanám. Það skilar árangri.

6. - erum við umhverfisvæn og leggjum því áherslu á góða umgengni í skólanum og á skólalóðinni. Við hreinsum sjálf rusl eftir okkur og göngum vel um.

7. - eru farsímar og önnur snjalltæki bönnuð á skólatíma nema annað sé sérstaklega tekið fram. Skólinn tekur ekki ábyrgð á þeim verðmætum sem nemendur taka með sér í skólann.

8. - leggjum við áherslu á holla siði og venjur. Við neytum hollrar fæðu í skólanum hvort sem við komum með nesti eða borðum það sem skólinn býður uppá. Sælgæti og gosdrykkir eru ekki leyfðir nema við sérstök tækifæri.

9. - hugsum við um öryggi okkar og annarra. Því notum við ávallt hjálma þegar við komum hjólandi í skólann. Einnig skal vera réttur útbúnaður á hjólunum, s.s. ljós og glitaugu.

10. - er öll notkun tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna stranglega bönnuð

Viðurlög við brotum á skólareglum:

a) Valdi nemandi verulegri truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr kennslustundinni. Komi til slíkrar brottvísunar skal vísa nemanda til skólastjóra sem í framhaldi hefur samband við forráðamenn nemandans.

b) Nemendum ber að hafa með sér þau gögn sem til þarf í skólann, s.s. bækur, ritföng og íþróttaföt/sundföt. Verði misbrestur á því skal hafa samband við forráðamenn.

c) Neysla sælgætis og gosdrykkja er bönnuð og ber starfsfólki að taka slíkt af nemendum.

d) Týni nemandi bók sem skólinn lánar honum eða valdi á henni skemmdum skal viðkomandi bæta tjónið.

e) Verði nemandi uppvís að notkun farsíma, fjarskiptatækja eða tölvuleikja í kennslustund verður tækið tekið í vörslu skólans og foreldrar beðnir að sækja það.

f) Komi nemandi hjálmlaus á hjóli í skólann skal hann fá aðvörun frá skólastjóra. Við endurtekið brot mun verða haft samband við forráðamenn og þeir beðnir um að senda viðkomandi nemanda ekki á hjóli í skólann.

g) Gerist nemandi sekur um alvarlega líkamsárás á aðra nemendur eða starfsmenn er haft samband við forráðamenn viðkomandi aðila. Geranda/gerendum er fundið viðeigandi úrræði það sem eftirlifir skóladags.  Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna.

h) Verði nemandi uppvís að því að reykja eða neyta áfengis og/eða annarra vímuefna í eða við skólann, skal senda nemandann heim það sem eftir lifir skóladags og hann boðaður ásamt forráðamönnum í viðtal til skólastjóra innan 12 klst. Leita skal samstarfs við foreldra/forráðamenn um úrlausn mála. (Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 1040/2011).

i) Verði nemandi uppvís að því að nota tóbak eða hafa áfengi og/eða önnur vímuefni í fórum sínum, eða neyta þeirra á skemmtunum skólans er forráðamönnum strax gert viðvart og þeir beðnir að sækja nemandann. Nemandi er boðaður ásamt forráðamönnum í viðtal til skólastjóra innan 12 klst frá broti. Leita skal allra leiða við lausn mála og í samstarfi við foreldra. (Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 1040/2011)

j) Gerist nemandi sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á málum hans. Forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum verður tilkynnt tafarlaust um ákvörðun skólayfirvalda.

k) Gerist nemandi sekur um alvarlegt brot á reglum skólans eða landslögum, hvar sem hann er á vegum skólans, verður hann sendur heim á kostnað forráðamanna sinna.

 

Við meðferð mála vegna brota nemenda á skólareglum, (samkv. 4 mgr. 12. gr. og 4. mgr. 13. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum) og beitingu viðurlaga samkvæmt þeim málsgreinum, skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu. Ávallt skal leita samstarfs við foreldra um úrlausn máls. (Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 1040/2011)