Samþykktir

Samþykktir Framfarafélags Borgarfjarðar

1.gr.

Félagið heitir Framfarafélag Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag, heimili þess og varnarþing er á Borgarfirði eystra. Starfssvæði félagsins er Borgarfjarðarhreppur.

2. gr.

Félagið er frjáls félagasamtök einstaklinga, stofnana, samtaka og fyrirtækja og er félagið opið öllum sem vilja vinna að markmiðum þess.

3. gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að samfélagsþróun á Borgarfirði með áherstu á tækifæri fyrir nýja íbúa að setjast að í sveitarfélaginu. Markmið félagsins eru:

a) Stuðla að atvinnuþróun og framboði fjölbreyttra atvinnutækifæra.

b) Stuðla að stöðugu framboði íbúðahúsnæðis.

c) Stuðla að aukningu almennra lífsgæða á Borgarfirði miðað við kröfur hverju sinni.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að: 

a) Veita stuðning og aðstoð við þróun og framkvæmd hugmynda sem eru til þess fallnar að skapa atvinnutækifæri á svæðinu.

b) Leita leiða til að mæta þörf fyrir íbúðarhúsnæði og veita stuðning og aðstoð við uppbyggingu slíks húsnæðis.

c) Greina þarfir samfélagsins þegar kemur að almennum lífsgæðum og þrýsta á hið opinbera jafnt sem einkaaðila er varðar þjónustu við svæðið.

d) Sinna öðru sem samrýmist markmiðum félagsins.

5. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið.  Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. 

6. gr.

Aðeins félagsmenn sem greitt hafa árgjald hafa atkvæðisrétt á aðalfundi, aðrir hafa málfrelsi og tillögurétt. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála.

7. gr.

Aðalfund skal halda á tímabilinu 1. júní – 15. júlí ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti ss. með tölvupósti til félagsmanna eða auglýsingu í útbreiddum miðli á starfssvæði félagsins. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1.    Kosning fundarstjóra og fundarritara

2.    Skýrsla stjórnar lögð fram

3.    Reikningar lagðir fram til samþykktar

4.    Lagabreytingar

5.    Ákvörðun félagsgjalds

6.    Kosning stjórnar

7.    Önnur mál

8.gr.

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi. Stjórnina skipa fimm stjórnarmenn, þ.e. formaður, gjaldkeri og ritari sem jafnframt gegnir hlutverki varaformanns.  Að auki skulu kosnir þrír varamenn í stjórn. Stjórn og varastjórn eru kosnar til eins árs. Kjósa skal formann sérstaklega. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn er eftir aðalfund félagins. Kjörgengir til stjórnar eru félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld.

 

9.gr.

Ákvörðun um félagsgjald komandi starfsárs skal tekin á aðalfundi.  Félagsgjöld skulu innheimt árlega fyrir 1. júní.

10. gr.

Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins. 

11. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með samþykki  2/3 hluta greiddra atkvæða. Renna þá eignir félagsins til samfélagsmála í Borgarfjarðarhreppi. 

12. gr.

Þar sem ákvæði samþykkta þessara segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga um frjáls félagasamtök, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.


Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi Framfarafélags Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag.

Dagsetning: 17. 07. 2013

 

Undirskriftir stjórnar: