Jólaboð og kökubakstur

Jólaboð og kökubakstur fyrir rúmum hundrað árum.

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum er varðveitt einkaskjalasafn Halldórs Péturssonar (1897-1989) frá Geirastöðum í Hróarstungu, sem margir Borgfirðingar kannast við, en hann var af svokallaðri Njarðvíkurætt yngri. Móðir hans ,Elísabet, var dóttir Steins Sigurðssonar á Borg í Njarðvík og faðir hans, Pétur Daníel Sigurðsson, var sonarsonur  Sigurðar Jónssonar í Njarðvík, eins af forfeðrum Njarðvíkurættarinnar yngri. Halldór átti því margt skyldmenna á Borgarfirði ekki síst þar sem Steinsættin var þar fjölmenn.  Hann hafði því frá unga aldri mikil tengsl við Borgfirðinga og kvæntist síðar borgfirskri heimasætu, Svövu Jónsdóttur frá Geitavík.
Skjalasafn Halldórs er fjölbbreytt að efni og er nánar sagt frá því í pistli um sama efni á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins.
Þegar jólin nálgast virðist vel við hæfi að birta nokkur brot úr frásögn Halldórs Péturssonar um kynni hans af jólahaldi og kökubakstri á Borgarfirði eystra fyrir rúmlega hundrað árum. Varðveitt er  í Héraðsskalasafninu lýsing Halldórs á fyrstu ferð hans  til Borgarfjarðar árið 1905, þegar hann var á níunda ári.Í fyrrnefndri frásögn er m.a. kafli um vikuna milli jóla og nýárs,  jólaboð og kökubakstur eins og tíðkaðist á þessum tíma á Borgarfirði.Hefst nú frásögn Halldórs:
„Þessi jólavika og fram að þrettánda er skýrt mótuð í huga minn. Hún er bundin við heimboðin innan Steinsættarinnar, en þau voru fastur liður í tilverunni..... Þá er að snúa sér að vikunni milli jóla og nýárs, sem hefur kannski verið fyrsta sæluvikan hér á landi. Til jólanna var að sjálfsögðu tjaldað öllu sem til fannst.
Bökunarilminn lagði út úr öllum þessum húsum sem ég var heimagangur í, Hól, Bakkakoti, Bólum, Hjallhól og Bakka. Þarna var bakað og brasað af mikilli list,sem dæmi nefni ég hér nokkrar tegundir. Sjálfur man ég þetta ekki glöggt, en til þess að fólk haldi ekki að hér sé ný útgáfa af Gylfaginningu, sneri ég mér til Tobbu og Laugu Sigurðardætra [Þorbjörg Sigurðardóttir og Áslaug Sigurðardóttir, innskot G.I. ].
Við fórum svo að rifja upp og þetta kom í ljós. Hvað margar tegundir voru úr sama deiginu vil ég ekkert fullyrða um, en við þessa  upprifjun lifði ég upp hina áratugagömlu tilhlökkun í súkkulaði, kaffi og allt þetta brauð. Og  hér koma þær tegundir sem fram voru bornar:
Kleinur, vöfflur, pönnukökur, jólakaka, sódakaka, astrakaka, marmarakaka, gyðingakökur, hálfmánar, umslög, vanilluhringir, kossar, ömmukökur, laufabrauð, partar, röfl, fínabrauð, mömmukökur, terta, tvíbökur, kringlur, spesíur, tvær sortir af kexi, dollarakaka, lummur, ástarpungar, hrærðar kökur, kúrínukökur,súkkulaðiterta.
Ekki má skilja þetta svo, að allar þessar tegudir væru í einu boði, heldur þekktist þetta yfir heilu línuna. Líka má vera að samtal hafi farið fram um hvað helst væri á borði hjá hverjum.“
Hér líkur tilvitnun í Halldór Pétursson. Margar þær kökutegundir sem Halldór nefnir eru enn  vel þekktar en aðrar munu minna eða lítt þekkar nú um stundir. Undirritaður hefur t.d. aldrei heyrt talað um kökutegund sem kölluð er röfl. Í Íslenskri orðabók 3. útgáfu frá 2002 er orðið rövl skrifað með v og ein merking þess sögð vera ljósar smákökur. Væri gaman ef einhverjir gætu miðlað upplýsingum um þessa kökutegund. Ekki þekkir undirritaður heldur hvað er astrakaka, fínabrauð, spesíur eða  dollarakaka. Umslög hefur sá er þetta ritar heyrt talað um sem nafn á kökum. Í íslenskri orðabók frá 2002, sem fyrr var nefnd, segir  um þessa kökutegund:„Umslag: Sætabrauð, brotið saman með hornin inn á miðju. ”

Dollarakökur  (fínar danskar smákökur) 
Hrært deig/ca. 60 stk

200 gr smjör eða smjörlíki
125 gr flórsykur
1 eggjahvíta
2 msk vatn
225 gr hveiti
1/2 tsk hjartarsalt
100 gr suðusúkkulaði, grófhakkað
25 gr afhýddar möndlur

Smjörið og flórsykur þeytt vel saman. Eggjahvíta og vatn þeytt saman með gaffli og súkkulaði og smátt söxuðum möndlunum bætt út í. Þessu síðan strax hrært saman við smjörhræruna.
Hveiti ásamt hjartarsalti hrært létt saman við.
Sett í toppa með 2 teskeiðum á ofnplötu klædda með bökunarpappír
Bakað við 225° C í ca 10 mínútur.

Spesíur
Hnoðað deig

250 gr smjör
250 gr hveiti
250 gr strásykur
250 gr möndlur
1 egg

Smjörið er mulið í hveitið. Í það er blandað sykri og möndlum sem hafa veið afhýddar og saxaðar smátt. Þetta er hnoðað þegar eggið hefur verið látið í. Flatt þunnt út. Kökurnar er formaðar með glasi og tekið innan úr þeim með minna glasi. Bakaðar ljósbrúnar.

Jóninna Sigurðardóttir, Matreiðslubók. 1945. Prentverk Odds Björnssonar, Akureyri.

Astrakaka

250 gr  smjör
250 gr púðursykur
500 gr hveiti
100 gr egg
250 gr mjólk
40 gr kúrennur
35 gr glæbörkur (súkkat)
1 tsk matarþvol (natron)
1 tsk kanill
1 tsk negull
12 dropar gulaldinolía (sítrón-)

Smjörið er linað og hrært með sykrinum, þar til það er orðið að þéttri froðu. Þá er eggjunum, einu í senn bætt út í, og hveitið blandað með matarþvoli (natróni)  blandað saman við. Mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Kúrennur þvegnar vel og þurrkaðar á klút, glæbörkurinn skorin í litla bita og hrært saman við deigið ásamt öllu kryddinu.

Sett í formkökumótog bökuð í svo sem 11 klst.

Síðan er útlistað að kakan skuli kæld og hvernig hún er borin fram þ.e. „skorin í sneiðar, þykkar en laglegar“.

Jóninna Sigurðardóttir, Matreiðslubók. 1945. Prentverk Odds Björnssonar, Akureyri.

Umslög

500 gr hveiti
250 gr smjör
250 gr sykur
100 gr egg
1 ½ tsk hjartarsalt
2-3 msk berjamauk
4-6 msk mjólk

Hjartarsaltinu og smjörinu er núið saman við hveitið, þar til það er orðið að fínni mylsnu. Er þá sykurinn látinn í og vætt í með eggjunum og mjólkinni. Deigið er hnoðað saman, þar til það er sprungulaust. Það er það breitt út í mjög þunnar kökur, sem svo eru skornar í aflangar ræmur, nokkuð breiðar og ræmurnar aftur í ferhyrninga.

Svo eru öll hornin á ferhryningnum brotin inn að miðjunni á honum (auðvitað öll sama megin). Og ofan á samskeytin er látið ¼ úr teskeið af berjamauki. Sem svipast lakki á umslagi.
Umslögin eru sett á hreina og smurða bökunarplötu og bökuð ljósbrún við góðan hita.
Eigi að hafa meira við er gaman að láta málshætti, skrifaða á miða innan í umslögin, áður en hornin eru brotin upp. Miðanum þarf að dýfa í fitu áður en hann er látin innan í.

Jóninna Sigurðardóttir, Matreiðslubók. 1945. Prentverk Odds Björnssonar, Akureyri.

Fyrsta mánudag  í aðventu 2009,
Guðgeir Ingvarsson frá Desjarmýri.