Brúnavík

Brúnavík

Leiðir nr. 19 & 20 á gönguleiðakortinu fyrir Víknaslóðir

Brúnavík liggur rétt austan við Borgarfjörð og er sannkölluð náttúruperla. Í víkinni var búið til 1944 og þótti ágætis jörð á sínum tíma. Víkin er grösug og græn, en nafnið fær víkin af miklum klettabrúnum sem er þar að finna. 

Brúnavíkurhringurinn er vinsælasta gönguleiðin á Víknaslóðum. Yfirleitt er orðið fært til Brúnavíkur um miðjan maí og þá mun fyrr en á öðrum leiðum á svæðinu. Hægt er að velja tvær leiðir til Brúnavíkur. Annars vegar um Brúnavíkurskarð og svo um Hofstrandarskarð. Myndbandið sýnir þegar gengið er um Hofstrandarskarð og til baka yfir Brúnavíkurskarð. Algengast er þó að fólk gangi Brúnavíkurskarð fram og til baka.

Ekki sleppa því að vaða ánna við víkurbotn og skoða Brúnavíkursand, en hann er alveg einstaklega litríkur og fagur. Þar er að finna samblöndu af litríku sjávarslípuðu líparíti og basalti úr fjöllum út með víkinni.