Samþykktir um umgengni og þrifnað

Samþykktir
um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigiðsnefnar Austurlands

1. grein.
Eiganda eða umráðamanni húss, girðinga og annarra mannvirkja er skylt að halda eignum vel við og halda lóðum og lendum hreinum og snyrtilegum.

2. grein.
Óheimilt er að skilja eftir á víðavangi, flytja, dreifa eða geyma lausamuni á þann hátt að valdið geti slysum, mengun eða lýti í umhverfinu.  Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti, svo sem bílflök, bílhluta, kerrur, vélar, tæki, lanbúnaðarplast, byggingaefni, báta, skipsskrokka og annað sambærilegt.

3. grein.
Tæki og hluti sem ekki eru í almennri eða stöðugri notkun skal geyma þannig að nágrannar og vegfarendur hafi ekki ama af.  Bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki skulu geymd á þar til gerðum stæðum.

4. grein.
Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum eða á almannafæri.

5. grein.
Þeir sem annast flutninga skulu haga þeim þannig að ekki valdi óþrifnaði og haga skal þvotti og hreinsun á mannvirkjum og tækjum þannig að nágrannar og vefgarendur verði ekki fyrir óþægindum.

6. grein.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmíða eða ábyrgðarbréfi þar sem eiganda/ábyrgðarmanni skal almennt veittur 7 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða bregðast við tilmælum.  Telji heilbrigðisflulltrúi svo alvarlega hættu stafa af geymslu hlutar eða tækis að aðgerð þoli enga bið er heimilt að fjarlægja slíka hluti eða tæki án viðvörunar.  bílflökum og öðrum verðlausum hlutum er heimilt að farga strax að loknum fresti sem veittur er samkvæmt 1. mgr. enda hafi þá engin andmæli borist.  Skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja og aðrir hlutir og verðmæti sem eru fjarlægð að loknum fresti skulu geymd í vörslu viðkomandi sveitarfélags í 45 daga og síðan fargað hafi eigandi ekki vitjað eigna sinna og leyst út gegn greiðslu áfallins kostnaðar (svo sem dráttar- og geymslugjöld).  Liggi fyrir skráningarmerki, vélarnúmer eða annað sambærilegt skal eiganda tilkynnt um förgunina með tryggilegum hætti með a.m.k. 15 daga fyrirvara.  Þá skal viðkomandi sýslumanni og eftir atvikum bifreiðaskrá og veðhöfum og tryggingafélagi (sé um þá kunnugt) gert viðvart um förgunina með 15. daga fyrirvara.  Áfallinn kostnað vegna töku og geymslu skráningarskyldra ökutækja án skráningarmerkja og annarra hluta er heimilt að innheimta hjá eigendum samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með áorðnum breytingum.  Heimilt er að selja nýtilega hluti úr bifreiðum og annað nýtilegt sem er tekið í vörslu og ekki leyst út samkvæmt framansögðu til að mæta kostnaði vegna töku og geymslu.

7. grein.
Hafi rekstraraðili ekki sinnt fyrirmælum innan tiltekins frests, sbr. 1. mgr. 27. gr. reglugerðar um mengunareftirlit nr. 786/1999 með síðari breytingum, eða ekki fylgt tímasettri áætlun um úrbætur, sbr. 2. mgr. 27. gr. reglugerðar um mengunareftirlit, getur heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt.  Dagsektir renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits og er hámark þeirra 500.000 á dag.  Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kosntaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi.  Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi.  Þegar verk það sem eftirlitsaðili lætur vinna er komið til vegna vanhirðu og óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, lóð eða farartæki er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.

8. grein.
Heimilt er að innheimta gjald fyrir útlögðum kostnaði af eftirlitsskyldri starfsemi fyrir eftirlit samkvæmt þessari samþykkt í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með áorðnum breytingum sbr. 5. mgr. 21. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Heilbrigðisnefnd skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.  Gjöld samkvæmt 1. mgr. má innheimta með fjárnámi.  Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar.

9. grein.
Um brot gegn samþykkt þessari og um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög skal farið samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með áorðnum breytingum sbr. og ákvæði 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

10. grein.
Ofangreind samþykkt sveitastjórna á starfssvæði heilbrigðisnefndar Austurlands: Skeggjastaðahrepps, Fellahrepps, Austur-Héraðs, Borgarfjarðarhrepps, Fjarðabyggðar, Austurbyggðar, Djúpavogshrepps, Hornafjarðar, staðfestist hér með til að gilda á starfssvæðinu samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með áorðnum breytingum, sbr. 3., 4. og 5. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Samþykktin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu 8. mars 2004.

f.h.r.   Ingimar Sigurðsson           Sigurbjörg Sæmundsdóttir.