Fornsögur

78. kafli

Uni sonur Garðars, er fyrst fann Ísland, fór til Íslands með ráði Haralds konungs hárfagra og ætlaði að leggja undir sig landið, en síðan hafði konungur heitið honum að gera hann jarl sinn.
Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós, og reisti bæ þar.  Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar nokkuð innan við Egilsstaði.
En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann eigi þar haldast.  Uni fór í Álftafjörð hinn syðra en náði þar eigi að staðfestast.
Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi; hann tók við þeim. Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs og var hún með barni um vorið.  Þá vildi Uni hlaupast á braut með sína menn, en Leiðólfur reið eftir honum, og fundust þeir hjá Flangastöðum og börðust þar því að Uni vildi eigi aftur fara með Leiðólfi.  Þar féllu nokkrir menn úr liði Una en hann fór aftur nauðugur því að Leiðólfur vildi að hann fengi konunnar og staðfestist og tæki arf eftir hann.
Nokkru síðar hljóp Uni á braut þá er Leiðólfur var eigi heima en Leiðólfur reið eftir honum þegar hann frétti það og fundust þeir hjá Kálfagröfum.  Var hann þá svo reiður að hann drap Una og förunauta hans alla.
Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði.  Hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti dóttur Hámundar, systur Gunnars frá Hlíðarenda.   Þeirra sonur var Hámundur hinn halti er var hinn mesti vígamaður.
Tjörvi hinn háðsami og Gunnar voru (systur)synir Hróars. Tjörvi bað Ástríðar manvitsbrekku Móðólfsdóttur, en bræður hennar, Ketill og Hrólfur, synjuðu honum konunnar en þeir gáfu hana Þóri Ketilssyni.  Þá dró Tjörvi líkneski þeirra á kamarsvegg og hvert kvöld er þeir Hróar gengu til kamars þá hrækti hann í andlit líkneski Þóris en kyssti hennar líkneski áður Hróar skóf af.  Eftir það skar Tjörvi þau á hnífsskefti sínu og kvað þetta:

Vér höfum þar sem Þóri,
þat vas sett við glettu,
auðar unga brúði
áðr á vegg of fáða.
Nú hefk, rastkarns, ristna
réðk mart við Syn bjarta,
hauka, skofts, á hefti
Hlín ölbækis mínu.

Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.
Þorkell fullspakur hét maður er nam Njarðvík alla og bjó þar.  Hans dóttir var Þjóðhildur er átti Ævar hinn gamli og var þeirra dóttir Yngvildur, móðir Ketils í Njarðvík Þiðrandasonar.
Veturliði hét maður sonur Arnbjarnar Óláfssonar langháls, bróðir þeirra Lýtings, Þorsteins torfa og Þorbjarnar í Arnarholti. Óláfur langháls var sonur Bjarnar reyðarsíðu. Veturliði nam Borgarfjörð og bjó þar.
Þórir lína hét maður er nam Breiðavík og bjó þar.  Hans synir voru þeir Sveinungur og Gunnsteinn.
Nú hefir Kolskeggur fyrir sagt héðan frá um landnám.

79. kafli

Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík og bjó þar.  Sonur hans var Án er Húsvíkingar eru frá komnir.
Loðmundur hinn gamli hét maður en annar Bjólfur, fóstbróðir hans.  Þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi.  Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur.  Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu sem þær ræki á land.  En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þrjá vetur.
Þá frétti hann til öndvegissúlna sinna fyrir sunnan land.  Eftir það bar hann á skip öll föng sín en er segl var dregið lagðist hann niður og bað öngvan mann vera svo djarfan að ónáða sig.  En er hann hafði skamma hríð legið varð gnýr mikill.  Þá sáu menn að skriða mikil hljóp á bæ þann er Loðmundur hafði búið á.
Eftir það settist hann upp og tók til orða: "Það er álag mitt að það skip skal aldri heilt af hafi koma er hér siglir út."
Hann hélt síðan suður fyrir Horn og vestur með landi allt fyrir Hjörleifshöfða og lenti nokkru vestar.   Hann nam þar land sem súlurnar höfðu komið, á milli Hafursár og Fúlalækjar.  Það heitir nú Jökulsá á Sólheimasandi.  Hann bjó í Loðmundarhvammi og kallaði þar Sólheima.
Þá er Loðmundur var gamall bjó Þrasi í Skógum.   Hann var og fjölkunnugur.
Það var eitt sinn að Þrasi sá um morgun vatnahlaup mikið.  Hann veitti vatninu með fjölkynngi austur fyrir Sólheima en þræll Loðmundar sá og kvað (falla) sjó norðan um landið að þeim.  Loðmundur var þá blindur. Hann bað þrælinn færa sér í dælikeri það er hann kallaði sjó.
Og er hann kom aftur, sagði Loðmundur: "Ekki þyki mér þetta sjór." Síðan bað hann þrælinn fylgja sér til vatnsins "og stingdu stafsbroddi mínum í vatnið."
Hringur var í stafnum og hélt Loðmundur tveim höndum um stafinn en beit í hringinn.  Þá tóku vötnin að falla aftur vestur fyrir Skóga.
Síðan veitti hvor þeirra vötnunum frá sér þar til er þeir mættust við gljúfur nokkurt.  Þá sættust þeir á það að áin skyldi þar falla sem skemmst væri til sjávar.  Sú er nú kölluð Jökulsá og skilur landsfjórðunga.

80. kafli

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma og fylgdi henni heiman öll  nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár.  Ísólfur hét sonur Bjólf, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir.