Lendingar og leiðarmerki

Eftirfarandi upplýsingar um lendingar í Borgarfjarðarhreppi eru teknar úr:

 „Skrá yfir lendingar og leiðarmerki eftir skýrslum frá hreppsnefndaroddvitum skv. lögum nr. 16, 14. júní 1929.“

 

BORGARFJARÐARHREPPUR

a. NJARÐVÍK

Lendingin er í suðurhorni Njarðvíkur ,beint út af Króksbakkabænum, sunnan Njarðvíkurár.

Lendingin liggur í vestur. Leiðarberki eru engin. Lendingin er talin miður góð,kvikan venjulega minnst um fjöru. Sandfjara.

b. GEITAVÍK

Lendingin er suður af Geitavíkurbænum, syðst í sandfjörunni fyrir víkurbotninum. Liggur í suðvestur. Sandfjara, en grunnt um fjöru. Leiðarmerki eru engin. Blindsker eru í leiðinni, og inn um mjótt sund að fara, sem ekki er fært ókunnugum. Lendingin er  talin miður góð.

c. BAKKAGERÐISÞORP (Vogur)

Lendingin er vogur,sem skerst inn í Kiðubjörg sunnan við Bakkagerði. Á bakkanum upp af vognum standa fiskhús. Lendingin er í suðvestur. Klapparbotn. Leiðarmerki eru engin. Í miðjum vognum er boði, um 5 m frá steyptu bryggjunni. Lendingin er talin miður góð.

d. BAKKAGERÐISÞORP  (Bakkafjara eða Eyrarfjara)

Lendingin er sunnan Bakkaár fram af verslunarhúsinu Bakkaeyri. Liggur í vestur. Í lendingingunni er grjót og klappir. Leiðarmerki eru engin. Fram af lendingu er stórt sker, Ársker, sem er í kafi um háflæði. Leiðin liggur sunnan skersins, en varast skal klapparhala suður úr skerinu, og ber því að fara um 8 m frá háskerinu. Sunnan við leiðina eru smá blindsker, sem ber að varast. Lendingin er talin miður góð, betri um flóð.

e. BAKKAGERÐISÞORP (Skipafjara)

Lendingin er fram af verslunarhúsum Kaupfélags Borgarfjarðar, fyrir norðan klettahleinar,er gagna þar fram í sjó. Lengingin liggur í vestur, Malar- og sandbotn. Leiðarmerki eru engi. Fram af vörinni eru blindsker. Syðsta skerið er fram af hleininni og er upp úr sjó um   4 klst. hverja fjöru. Um 10-12 m norður af því er smásker, sem aðeins stendur upp úr um stórstraumsfjöru. Leiðin er aðeins laus við þetta sker, því þar fyrir norðan tekur við skerjaklasi milli lendinganna Bakkafjöru og Skipafjöru. Lendingin er talin miður góð,bæði um flóð og fjöru.

f. BAKKAGERÐISÞORP (Bakkagerðisfjara)

Lendingin er fjara sú, er tekur við sunnan við klettahleinar þær, er ganga fram i sjó frá verslunarhúsi Kaupfélags Borgarfjarðar. Lendingin liggur í suðvestur. Malar- og sandbotn. Leiðarmerki eru engin. Lendingin er slæm bæði um flóð og fjöru.

g. HOFSTRÖND

Lendingin er Stekkavík, út og suður af bænum Hofströnd, skammt innan við Hofstrandar-hamar. Lent er rétt utan við ystu klöppina niður af fjárréttinni á sjávarbakkanum. Lendingin liggur í suður. Klapparbotn með malarfjöru. Lendingin er hrein, utan við hana eru blindsker, sem sést á um fjöru. Lendingin er allgóð, betri um flóð.

h. HÖFN

Lendingin er í Hellisfjöru fast innan við Hafnartún og er önnur fjara inn frá Hafnarhólma, innan við Skarfasker, sem er 80-100 m fyrir innan Hafnarhólma. Malarfjara, nokkuð brött, kólfhörð, en hreint úti fyrir. Leiðarmerki eru  engin. Lendingin er allgóð, best um hálffallinn sjó.

i. BRÚNAVÍK

Lendingin er norðanmegin í Brúnavíkinni, um 200 m frá sandi þeim, sem er fyrir botni víkurinnar, beint undan ysta jaðri Brúnavíkurtúnsins, í háaustur frá íbúðarhúsin í Brúnavík. Lendingin er í norðvestur. Grjót og klappir. Leiðarmerki eru engin. Á leiðinni eru blindsker og boði. Lendingin er talin góð fyrir kunnuga, best um hálffallinn sjó.

k. GLETTINGANES

Lendingin er í norðaustur af Glettinganesbænum. Austan við hana liggurGlettinganestangi í norður úr nesinu. Lengingin er í suður. Malarbotn. Leiðarmerki eru  engin.Norðaustanvert utan við mynni lendingarinnar er boði. Þegar inn er komið er lendingin talin góð.

l. KJÓLSVÍK

Lendingin er kölluð „Ker“,er niður af Kjólsvíkurbænum, sunnan við syðsta bökuhornið. Klapparbotn. Engin leiðarmerki. Lendingin er slæm, en skárst um fjöru. Boði er rétt suður undir bökuhorninu.

m. BREIÐAVÍK (Steinsfjörulending)

Lendingin er norðan við Breiðuvík, utan við klettahlein,sem er stutt utan við krókinn, þar sem  víkin  beygist til austurs. Leiðarmerki eru engin. Lendingin er í norður. Malarbotn.Lendingin er hrein,en talin miður góð, best um hálffallinn sjó.

n. LITLAVÍK (Kambsvíkurlending)

Lendingin er sunnan í Breiðuvík, í fyrsta bás sunnan við Litluvíkurbæinn. Leiðarmerki eru engin. Lendingin er í suðvestur. Malarbotn, nokkuð stórgrytt. Í mynni bássins er sker. Lendingin er talin miður góð.

o. HÚSAVÍK

Lendingin er sunnanvert við klöpp, sem liggur fram í sjó fyrir miðri Húsavík, undir horninu á Húsavíkurkambi, sem er beint upp af klöppinni. Lendingin er í norðaustur. Malarbotn og klappir. Leiðarmerki eru engin, en farið er eftir dæld, sem er sunnan við Húsavíkurkamb og á að bera í Dallandspart,sem er miðbærin í víkinni. Einn boði er í lendingunni nærri fjörunni. Lendingin er talin góð, best um hálffallin sjó.

 

Hér lýkur kaflanum um lendingar í Borgarfjarðarhreppi, en eins og getið er hér í  upphafi eru þessar upplýsingar um lendingar og leiðarmerki teknar upp úr skýrslum frá hreppsnefndar-oddvitum um allt land, sem þeir skráðu samkvæmt lögum frá Alþingi nr.16, 14. júní 1929.

Oddviti Borgarfjarðarhrepps á þessum tíma var Vigfús Ingvar Sigurðsson prestur á Desjar-mýri og hefur hann tekið þessar upplýsingar saman, eflaust eftir upplýsingum frá mönnum sem best þekktu til einstakra lendingarstaða. Á þeim tíma sem þessar skrár voru teknar saman var Loðmundarfjörður sérstakur hreppur. Þar er lýst lendingum við Neshjáleigu og Seljamýri. Skráin yfir lendingar í Borgarfjarðarhreppi er hér birt orðrétt, en stafsetning löguð að núgildandi reglum.

Ég minnist þess ekki að hafa annars staðar séð jafn ítarlegar upplýsingar um lendingar í Borgarfjarðarhreppi, en þessi skrá er mjög óvíða til og því fáum kunnug.

Guðgeir Ingvarson

frá Desjarmýri.