Dvergurinn í Stórasteini

Eftirfarandi er skráð af Sigfúsi Sigfússyni.     


Snemma á 18du öld er sagt að sá maður hafi búið í Hvannstóði í Borgarfirði austur sem Guðmundur hét. Einu sinni í kvöldrökkri snemma vetrar vantaði hann kindur nokkrar sem hann fann eigi. Gekk hann í baðstofu og svaf allt fólk rökkursvefni sem þá var siður. Hann settist á flet nærri innganginum og fór eigi af skóm því hann ætlaði út aftur eftir litla stund ogKollur vitja hvort kindurnar kæmu ekki sjálfar. Veður var kyrrt og tunglsljós bjart.
    Þegar bóndi hafði setið litla stund heyrir hann þrusk í göngunum og þar næst er baðstofuhurðinni lokið upp seinlega og hægt og stansað eins og verið sé að hlusta. Sér bóndi þá að þetta er maður og heldur ódjarflegur. Hann bregður upp silfurbjörtum hnífi og fer að leitast við að komast upp á pallinn. Bóndi stökk þá á fætur og í sama vetfangi snarast hinn fram um dyr. Bóndi hljóp á eftir út og greip um leið torfljá undan syllu í bæjardyrunum sem þar hafði verið síðan um haustið. Þegar bóndi kom út var maður þessi kominn suður í túnfitina og bar ótt á en miðaði þó lítið áfram því hann var mjög lágvaxinn og skrefstuttur en þó all-búkmikill og gildvaxinn eftir öðrum vexti. Bóndi hefir á rás eftir honum en hinn brýst hart undan. Var og berangur og hart undir fæti. Það þóttist Guðmundur sjá að hann gæti tekið hann hvenær sem hann vildi en hann vildi sjá inni hans og hafa sannar sögur af honum.
    Þeir hlaupa nú báðir suður yfir engjarnar og hefir sá lágvaxni sig allan við en bóndi gefur honum við fót en læst þó hlaupa svo hratt sem hann getur og veifar ljánum að hinum og eggjar hann að bíða ef hann þyrði. Hinn æpti aftur á móti sárlega.

Stilltu þig, snarmenni,
Snúðu aftur, hraustmenni,
virtu þig, valmenni,
vægðu mér, góðmenni,
og láttu mig fara, láttu mig fara!

    Bóndi var á öðru máli og elti jarðbúann allt suður um svonefndan Króarmel, þaðan yfir Lambadalsá og Kollutungur. Og er þessi vegur sæmileg bæjarleið að lengd. Alltaf veifaði bóndi torfljánum að hinum og manaði hann en hann æpti sömu orð á móti.

Stilltu þig, snarmenni,
Snúðu aftur, hraustmenni,
virtu þig, valmenni,
vægðu mér, góðmenni,
og láttu mig fara, láttu mig fara!

    Þetta gekk þangað til þeir komu sunnarlega í Kollutungur og þar að stórum steini nálægt vegi þeim sem liggur yfir svokölluð Kækjuskörð til Loðmundarfjarðar. Bóndi sér nú að opnar standa dyr á steininum og að hann muni heimili þess sem hann er að elta. hann snarast þá fram fyrir steinbúann og afkvíar hann. Þá segir steinbúi: "Láttu mig ná inni mínu, maður." Bóndi svarar: "Fyrst verður þú að segja mér hvað þú hafðir áformað að hafast að heima í Hvannstóði og hvert var erindi þitt?"
     "Ætlarðu þá að láta mig ná inni mínu ef ég segi þér það?" segir steinbúinn. "Já," svar bóndi. Þá mælti steinbúinn: "Þú hefir nú búið fimm ár í Hvannstóði og hefir mér einatt legið hugur á konu þinni en aldrei borið áræði til að ná henni fyrr en nú að ég ætlaði að drepa þig en nema hana heim til mín. En þess vinn ég þér nú dýran eið við allar vorar verur og vættir að hætta því áformi að vera þér til meins á nokkurn hátt." Þegar steinbúinn hafði þetta mælt veik bóndi sér frá steinsdyrunum en hinn hvarf inn um þær og lukust þær svo á eftir honum að bóndi sá þar engin dyramót á. Bóndi fór nú heim.
    Þetta skeði rétt fyrir hátíðar (á Þorláksmessu segja sumir). Eftir nýárið fékk Guðmundur bóndann í Brúnavík til þess að skipta á jörðum. Flutti Brúnavíkurbóndinn í Hvannstóð en Guðmundur í Brúnavík því hann þorði eigi að reiða sig á loforð steinbúans. Sonur Guðmundar hér Jón, hans son var Vilhjálmur er bjó í Hvannstóð og var kallaður Galdra-Vilhjálmur. Steinninn sem þessi huldumaður bjó í heitir Stóristeinn.