Borgarfjarðarlög

1. Álfaborgarsjens

Erlent lag

:,: Da, ra, ra, dirilídirí
vertu velkominn heim
í fagra fjörðinn kæra
í kvenfélagsgeim:,:

Borgarfjörður eystri, býður þér glens,
friðsæll og fagur í Álfaborgarsjens.
Hátíð við höldum og hér verðum öll,
og ef til vill hittum við álfa og tröll.

:,: Da, ra, ra, dirilídirí
vertu velkominn heim
í fagra fjörðinn kæra
í kvenfélagsgeim:,:

Er fjörðurinn birtist ég fæ alveg flipp
svo fögur er sjónin að mitt hjarta tekur kipp.
Staðarfjallið stöðugt og Svartfellið með,
og Dyrfjöllin öfug frá Héraði séð.

:,: Da, ra, ra, dirilídirí
vertu velkominn hér.
í fagra fjörðinn kæra
og skemmtu nú þér:,:

:,: Da, ra, ra, dirilídirí
vertu velkominn hér......

Lag: V. Hurton
Texti: Jón Ingi Arngrímsson og Valgeir Skúlason

 

2. Fjörðurinn okkar

Með sínu lagi

Fjörðurinn okkar er friðsæll og hlýr,
við öll erum sammála um það.
Því hvergi í heimi finnum við
enn fegurri og yndislegri stað.
Nú komum við saman og fögnum hér öll
en enginn af gleði verður lens.
Um helgina syngjum og dönsum við um völl
og upplifum Álfaborgarsjéns.

Já komdu í fjörðinn því fjörið er hér
og upplifðu ævintýr,
því enginn sem einn um Álfaborg fer
makalaus þaðan snýr.
Finndu þar skútann Dyrfjalli mót
eða lautina sunnan við
og sjálfkrafa rómantíkin þá tekur við.

:,: Velkominn vinur hver sem þú ert
þú unir þér vel á þessum stað.
Ungir sem aldnir, mætum hér öll
og helgina „fílum“ hreint í spað.
Markaður, sigling, ganga um fjöll
og árvissan dansleik bjóðum við.
Svo bíður þín Borgin í stígandi sól
þar áttu þér séns og unaðsfrið:,:

Lag og texti: Magnús Bjarni Helgason

 

3. Angi af gleði

Með sínu lagi

Það líður að helgi við hlökkum til,
föstudagskvöld hér um bil.
Vikan er liðin, var leiðinleg
skýjað og sólin æði treg.
En brátt það birtir nú enn á ný,
laugardagskvöld næstum því.
Við ætlum á fest, já og fríka út,
brögðum á brennsa beint af stút.

Við skulum skemmta okkur í kvöld
glaumur og gleði manna fjöld.
Við djömmum dönsum af lífi og sál,
brosandi breimum við skál,
já brosandi breimum við skál.

Nú festið er byrjað, fjör á ný.
í fantavímu við erum því.
Við dönsum og duflum í stuði og spekt
en hvað lífið er yndislegt.

:,: Við skulum skemmta okkur í kvöld
glaumur og gleði manna fjöld.
Við djömmum, dönsum af lífi og sál,
brosandi breimum við skál :,:

Lag og texti: Valgeir Skúlason

 

4. Fiðringur

 Með sínu lagi

Hér verður söngur grín og glens
það er gaman á Álfaborgarsjens.
Vangana kyssir hinn blómþrungni blær
og bjarma á Dyrfjöllin slær.

Í litlu þorpi við fagran fjörð
er fegursti staður hér á jörð,
þar Svartfellsins tindur í suðri rís,
það er sannkölluð Paradís.
Þó norðaustanvindurinn næði kalt
oss náttúran greiðir það þúsund falt.
Er sólargeislarnir sindra á ný
samstundis gleymum við því.

Hér verður söngur grín og glens....

Unaðsstundirnar á ég hér
því alveg fullkominn sjensinn er.
Brumið ástar það blómgast skjótt
á blíðri ágústnótt.
Ef of mikið gefumst við ástinni á vald,
augnablik skreppum við niður í tjald.
Bjástrum þar örlítið bólinu í
á ballið svo höldum á ný.

Hér verður söngur grín og glens.....

Lag og texti: Halldóra G. Guðlaugsdóttir

 

5. Í tilefni dagsins

Vertu hjá mér Dísa

Nú komum við hér saman og kætumst öll að nýju
þótt kaldur vetur ríki hér finnum ljós og yl.
Og látum sönginn hljóma með glöðu geði og hlýju
því gleðin er það besta, sem veröldin á til.

Við minnumst yndisstunda frá gömlum góðum dögum
í „Gamla skólann“ okkar er skemmtun öll var sótt.
Við heyrum ennþá óma af mörgum ljúfum lögum,
sem leikin voru á nikkuna, bjarta sumarnótt.

Já – minningarnar ljúfu við gjarnan munum geyma,
þó grálynd sýnist veröldin, eins og margur veit.
Þá enn mun sólin skína og vorið vakna heima,
á verði standa Dyrfjöll um okkar gömlu sveit.

Lag: Arch. Joyce
Lag: Friðrik Jónsson
Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir

 

6. Á fornum slóðum

Með sínu lagi

Ég á mér stað þar sem ég uni mér tíðum.
Ég á mér stað og hérna lyngbúinn grær.
Ég vitja hans í vorsins unaði blíðum,
og vaggar rótt hinn blái síkviki sær.

Um æðar mér,
nú finn ég unaðinn streyma
hérna átti ég heima,
ilmur jarðar er enn svo ljúfur hér.
Og Álfaborg
sem fagnar ætíð mitt hjarta,
hulduhöllin mín bjarta
ennþá óhögguð er.

Og lindin tær sem hér í lyngmónum kliðar
á ljúfan keim sem enn er hugþekkur mér.
Þá ljósu veig ég þrái löngum að teiga
úr lófa-skál er hægt að vörum ég ber.

Við hafsins nið
er sælt að sofna og dreyma,
það er söngurinn heima
er mér fylgir um fjarlæg draumasvið.
Um gluggann minn
í kvöld hann kemur með blænum
eins og kveðja frá sænum
eftir árlanga bið.

Hér á ég spor og hér ég ann hverjum steini.
Mitt æskuvor hérna fagnandi leið.
Ég burtu fór en ætíð lifði í leyni,
hin ljúfa kennd til alls er heima mín beið.

Um Dyrfjallstind
er enn sem dansi á kveldi
blik af deyjandi eldi,
en að morgni sem musteri hann skín
í sólarglóð.
Ég mun í sál minni geyma
fegurð sumarsins heima
hér er bernskubyggð mín.

Ég mun í sál minni geyma
hér er bernskubyggð mín.

Lag: Magnús Bjarni Helgason
Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir

 

7. Tökum sjensinn

Undir bláhimni / Við Löginn

Borgarfjörður svo friðsæll og fagur
fagnar gestum og býður í glens.
Líður nær þessi langþráði dagur
þegar loksins við komumst á sjens.
Þá mun ríkja hér kyngi og kraftur
og þá kætumst við saman af því
gömlu sjensarnir ganga nú aftur
og í glæðunum lifnar á ný.

Í þær glæður má ef til vill skara
eins og forðum, má læðast á braut.
Niður´ í Álfaborg ættum að fara
enn þá býður sú dúnmjúka laut
þar sem bröltandi´ á hnjánum ég bauð þér
að brokka með mér um ævinnar stig.
Í mánaskininu fráleitt það fannst mér.
Þegar ferlega hryggbraustu mig.

Lag: Joe Lyons, Sam C. Hart (Undir bláhimni)
Lag: Birgir Björnsson (Við Löginn)
Texti: Kristjana Björnsdóttir

 

8. Nú kemur vorið

Á bátadekki – færeyskt lag.

Nú kemur vorið sunnan að
og sólin bræðir ís.
Við sendna strönd í fjarðarbotni
lítil alda rís.
Og hvíslar: Það er langt síðan ég
lagði af stað til þín,
nú loks ég finn að komin er ég,
komin heim til mín.

Úr draumi frá í vetur enn ég
þekki þessa strönd.
Nei þannig fengu ei heillað suðræn
ævintýralönd.

Ó strönd míns lands, mig dreymdi að ég
deyja ætti hér.
Minn draumur rætist því nú hníg ég
ein að brjósti þér.

Lag: Birni Dam
Texti: Sigurður Óskar Pálsson

 

9. Kvöldljóð á hausti

Ævintýri á gönguför (Úr fimmtíu „centa“ glasinu)

Nú liðið er á sumarið og svífur haustið nær
og sveitin vefur að sér rökkurtjöldin.
En beint upp yfir Geitfellinu hálfur máninn hlær
því hann er alltaf brattastur á kvöldin.

Allir eru í síldinni og enginn fer á sjó
og ærnar ganga að vild í túnum okkar.
Halló, halló, Borgarfjarðarbátaradíó,
bestu veiðiskipin hingað lokka.

Það rýkur mjög úr bræðslunni, það blika víða ljós
á Borg og Kögri verið er að salta.
En beljugreyin troðjúra bíða út við fjós
því bændur hafa ei tíma til að mjalta.

Umhverfið á Skúrunum er allt á kafi í reyk
og engin rómantík er sólin hnígur.
Enginn fer þar lengur með kærustunni á kreik
og kærleiksbrautin orðin grútarstígur.

En allir græða á síldinni og sumir gera trikk
úr síld má skapa ýmisskonar vöru.
Bói seldi Héraðsmönnum Baðstofuna á slikk
en Bændahöllin stendur upp í fjöru.

Margir spá að síldin verði ei eilíf austur hér
og innan tíðar sjáist hvergi branda.
Ó, mikið veðrur yndislegt að láta líða úr sér
því lúinn gerist ég á þessum fjanda.

Texti: Sigurður Ó. Pálsson

 

10. Friðarljóð

Söngur förusveinsins

Á Borgarfirði búa vil ég / bjartan ævidag.
Þar fuglar syngja frelsissöng / og fagurt sumarlag.

Og fjöllin okkar fögur rísa / fjörðinn allt um kring.
Á Fróni ei annan finna má / svo fagurgjörðan hring.
Falleri, fallera, falleri, fallera, ha, ha, ha, ha, ha,
falleri, fallera, svo fagurgjörðan hring.

Mig dreymir ekkert dásamlegra / en Dyrfjallanna tind.
Í hrikalega hamraveggi / er höggvin þeirra mynd.

Svartfellið og Staðarfjallið / standa vörð um frið.
Því biðjum saman Borgfirðingar / bæn um alheims grið.
Falleri, fallera, falleri, fallera, ha, ha, ha, ha, ha,
falleri, fallera, bæn um alheims grið.

Hatrið skal úr heimi burt, / hatur má ei sjást.
Því besta vörnin gegn vítissprengju / er vinátta og ást.

Við stríðum móti stormi böls / og styrkjum vinabönd.
Nú trúum við á tilgang lífs / og tökumst hönd í hönd.
Falleri, fallera, falleri, fallera, ha, ha, ha, ha, ha,
falleri, fallera, og styrkjum vinabönd.

Texti: Kristjana Björnsdóttir

 

11. Sumarnótt á Borgarfirði

Where have all the flowers gone

Sjáðu hvernig silfurtær, / særinn ljómar.
Viltu kannski vina kær / vaka mér hjá.
Yfir Borgarfjörðinn ber
blærinn þrá í faðmi sér.
Blómin þau blunda rótt
borgfirska sumarnótt.

Fjöllin mynda fagran hring, / fjörðinn girða.
Grænt í brekku gras og lyng, / glitrar af dögg.
Vindur hlýr úr vesturátt,
vota jörð mun þerra brátt.
Bárurnar bærast ótt,
bjart er þá sumarnótt.

Fer í hreiður fugl af grein, / friður ríkir.
Lækur hjalar létt við stein, / liðast á braut.
Golan laufið leikur við,
lindin gárast örlítið.
Fossbúinn hefur hljótt,
hlýtt er um sumarnótt.

Sólin gyllir sjávarrönd, / sveitin logar.
Elskendur við ystu strönd, / eiga sér draum.
Eins og fyrrum enn á ný,
ástin lifnar björt og hlý.
Líður svo létt og fljótt,
ljúfasta sumarnótt.

Lag: Pet Seegel
Texti: Andrés Björnsson

 

12. Vistin

Sænskt lag – (Vikingarna)

Senn er komin sumartíð
svei mér við erum glöð.
Eftir því ei lengur bíð
það er svo mikið stöð.
Veðráttan er voða fín.
viltu skemmta þér.
Hittumst hér við glens og grín
já gaman er nú hér.

:,:Álfasjens,
allir koma á Álfasjens.
Álfasjens,
allir með og enginn lens.
Hönd í hönd
í dansinn drífumst brátt.
Í dunandi sveiflu dreymandi
dönsum við og syngjum hátt:,:

Texti: Valgeir Skúlason

 

13. Svífur yfir Dyrfjöllum

Vorkvöld í Reykjavík

Svífur yfir Dyrfjöllum drungalegt ský.
Dúnalogn er ennþá en senn kemur vestan rok.
Veðurstofuspekingar spáð hafa því,
spurnaraugum gjótum við suðvestrið í.
Binda fasta traktora bændur inn á Sveit,
bátum tylla sjómenn á Kaupfélagsins reit.
Aka nú úr vestri til austurs dökkir skýjabólstrar.
Ekkert er verra en vestan – suðvestan rok.

Fyrsta þotan strýkur um stendur og fjöll
það stendur varla lengi uns allt fer í háaloft.
Barómetið fellur heil ósköpin öll.
allsstaðar er verið með bjástur og köll.
„Flýttu þér nú kona og hýstu hænurnar,
hlerana ég læt fyrir gluggarúðurnar“.
Æða nú úr vestri til austurs dökkir skýjabólstrar.
Ekkert er verra en vestan – suðvestan rok.

Innan stundar skellur á rjúkandi rok,
það ryður grjóti og möl yfir þökin á húsunum.
Fjörðinn allan skefur og skýjanna fok,
skelfast menn og tala um heims-endalok.
Sótbölvandi hýsa nú bændur flest sitt fé,
flýja svo í bæinn og skella hurðinne.
„Ég hélt ég myndi bara ekki hafa mig hér inn í dyrnar.
Horngrýtis veðurlag er þetta vestanrok.“


Vestanrokið komið í algleyming er.
Ósköp er að vita hvað brakar í húsinu.
Nú er ég svo hræddur að hriktir í mér.
ég heyri hvernig tennurnar glamra í þér.
Svo hringi ég á bæi og glögg því geri skil,
að geysilegri bylji ég muni aldrei til.
„Halló, halló, heyrðu mig? Hefur annars nokkuð fokið?
Horngrýtis veðurlag er þetta vestanrok.“.

Lag: Evert Taube
Texti: Sigurður Ó. Pálsson, Jónbjörg Eyjólfsdóttir

 

14. Í draumanna heimi

Erlent lag

Í draumanna heimi ung og ástfangin sál
unir sér löngum við stjarnanna mál.
Og tíminn þá hverfur í tónanna flóð
titrandi vörum syngur hún sín ástarljóð.

Ég veit að þú kemur vina til mín
ég vaki og hlusta hverja nótt,
Ég bíð þinna funda með brennandi þrá
í barmi mér hjartað slær svo ótt.

Texti: Þorbjörn Magnússon

 

15. Borgfirskt ástarljóð

Komdu inn í kofann minn

Komdu niður´ á Kiðubjörg í kvöld er skyggja fer,
annars býst ég við að verða vitlaus út af þér.
Niður´ í henni gömlu Gusu gjálfrar aldan rótt.
Komdu vina viðmótsþýð og vertu mín í nótt.

Komdu niður´ að Bolabás svo blíð og æskurjóð,
þangað enginn reynir til að rekja þína slóð.
Um Dyrfjallstindinn djúpblá hvílir dreymin sumarró.
Við unum nið´r á Björgum þar til Böggi fer á sjó.

Eða viltu öllu heldur Álfaborgar-sjens,
oftast hafa meyjarnar þar orðið mát og lens.
Þar eru margar litlar lautir, líka dúnmjúkt gras.
Á kvöldin heyrist koma þaðan kynlegt hljóðlátt mas.

Eigum við að bregða okkur Bakkamelinn á,
og bíða þar í kyrrð og ró uns aðrir fara á stjá.
Því svarðahlaðasæluna er sælt að una við
með svarðagrafarómantíkina á aðra hlið.

Inn hjá Leirgróf labbað getum ljúfa vina mín,
þú veitir heitan votan koss er Venusstjarnan skín.
Hér eru á reiki svipir margra eldri elskenda
sem ástin tældi í gönguferðir inn á Brandsbala.

Eða viltu ganga austur yfir Fjarðará,
oft er kátt á Brotunum um sumarkvöldin blá.
Hér Kíllinn geymir leyndarmál um litlu lontuna.
Við löbbum kannski alla leið í Folaldsgontuna.

Já margar eru leiðirnar sem labbað getum við
og ljúft og gott mér finnst að ganga einn við þína hlið.
En ef þú ekki arka nennir inn hjá Jökulsá,
þá ættum við að skreppa út í Geitavíkurblá.

Texti: Sigurður Ó. Pálsson

 

16. Þegar þoka grá

Með sínu lagi

þegar þoka grá, þekur fjöllin blá,
næðir austan átt, yfir hafið blátt.
Þá skal hafa hátt, hrópa og syngja dátt,
grípa gítarinn, gefa honum inn.

Þá skal alla strengi strjúka
stillta, þýða, harða, mjúka,
létta tóna láta fjúka,
láta úr öllum strengjum rjúka,
yfir gólfið arka
og með hælum sparka.

Lag: Gylfi Gunnarsson
Texti: Valgeir Sigurðsson

 

17. Ákall

Ein bisschen Frieden – Eurovision 1982

Vinur minn hvar sem í heiminum er
heyrðu mitt ákall og liðsinntu mér
reynum að uppræta angur og kvöl
afnema stríðsins böl.
Stöndum við saman og störfum sem eitt
stefnunni ef til vill getum við breytt
smíðum úr vopnunum verkfæri þörf
verum í huga djörf.

Burt með hræðslu sem byrgð er inni,
burt með hatrið úr veröldinni,
burt með sprengjur sem brenna svörð,
biddu með mér um frið á jörð.

Burt með hungur og burt með sorgir,
burt með deilur og hrundar borgir,
burt með sprengjur sem brenna svörð
biddu með mér um frið á jörð.

Berum upp alls staðar bænina um frið,
bænina stærstu sem nú þekkjum við,
bænina einu sem bjargað nú fær
barninu frá í gær.

Burt með hræðslu sem byrgð er inni .....

Frið á jörð, já frið á jörð,
frið á jörð, já frið á jörð.

Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir

 

18. Á æskuslóðum

Með sínu lagi

Um júlídag er sumarvindar syngja
í sælum róm við okkar kæru jörð
við skulum saman sálir okkar yngja
á æskuslóðum hér við Berufjörð.
Hér undum við og byggðum skýjaborgir
sem brotnað hafa kannski ein og tvær
því ævin ber oss sælu jafnt og sorgir,
í sól og regni lífsins blómið grær.

Í leik og starfi liðu bernskustundir,
sá lærdómstími allra bestur er,
er mamma og pabbi búa börnin undir
þá brautargöngu sem að höndum fer.
Með trú og dug og vilja´ í veganesti
og vinarhug sem ríkti okkur hjá
var okkur tekið eins og góðum gesti
á gönguferð um lífið til og frá.

Og fossinn heima fellur enn til sjávar,
hann flytur okkur sama lag og fyrr,
og yfir sjónum svífa hljóðir mávar,
hér sýnist tíminn hafa staðið kyrr.
En aðra sögu segja gráu hárin
það silfurskart er haustið okkur ber,
þó standa enn í ljóma æskuárin
sú endurminning kærust okkur er.

Lag: Björn Pálsson
Texti: Hrönn Jónsdóttir

 

19. Þú ert ung (Þekking heimsins)

Með sínu lagi

Þú ert ung og ennþá ekki
þekkir heimsins tál.
Vertu gætin, varast skaltu
viðsjál leyndarmál
við Pétur og Pál.

Vita skaltu vina litla
veröldin er hál.
Fyrirheit og fagurgali
fanga marga sál
og bera´ ´hana´ á bál.

Ekki skaltu láta angurgapa
æskuvonum þínum glepja sýn.
Ef þú skyldir áttum réttum tapa
skaltu undireins koma til mín.

Lag: Gylfi Gunnarsson
Texti: Valgeir Sigurðsson

 

20. Héraðsrúmban

Erlent lag

Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog
þetta ljóð vil ég syngja í kveld.
Nú er vetur um jörð, byltist brim um sker og vog,
bera grundirnar mjallhvítan feld.
Syng ég sorg úr barmi,
sumargleði inn,
varpa hljóðum harmi,
hýrnar svipur minn.
Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog
lífsins gleði ég fagna í kveld.

Löngum minnist ég þess hversu undra ákaft fjör
áður hérna í skólanum var.
Borgfirsk dansmannasveit var á sporin ekki spör
er hún spriklaði á gólfinu þar.
Margir milli dansa
menn sér flýttu út,
drjúgum dauða og „lansa“
drukku þar af stút.
Síðan aftur í dansi með sviptingar og sving
sveitin brunaði hring eftir hring.

Texti: Sigurður Óskar Pálsson

 

21. Grænkandi dalur

Með sínu lagi

Grænkandi dalur góði,
gleði mín býr hjá þér.
Þar á ég það í sjóði
sem þekkast flestum er.
Blæs mér um vanga blærinn þinn,
blessaður æskuvinurinn.
Grænkandi dalur góði,
gleði mín býr hjá þér.

Við skulum sitja saman,
syngdu mér lögin þín.
Guð minn, hve nú er gaman!
Glampandi sólin skín.
Vina mín kæra, veistu hvað ?
Vorið er okkar, munum það.
Við skulum sitja saman,
syngdu mér lögin þín.

Grænkandi dalur góði,
gróanda lífsins skjól,
vafinn í vorsins ljóði,
vermdur af kveldsins sól.
Brosir við óttu aftanblær,
angandi gróður döggin þvær.
Grænkandi dalur góði,
gróanda lífsins skjól.

Lag: Anna G. Helgadóttir
Texti: Sveinn Bjarmann þýddi úr ensku