Ytri-Álftavík

YTRI-ÁLFTAVÍK - Örnefnaskrá

Ytri- Álftavík

Landamerki milli Ytri-Álftavíkur og Húsavíkur eru úr Álftavíkurtindi í Örvasandskrók og inn frá tindinum eftir háfjallinu. Krókurinn gæti verið hvorum megin við Örvasand sem er en Húsvíkingar töldu syðri krókinn á landamerkjum. Landamerkin miðast við þann tind sem sést úr Húsavík en hinn eiginlegi Álftavíkurtindur sem er uppi yfir Álftavík er fjallsbrík sem gengur suður frá Hádeginshnúk. Hans er getið í örnefnaskrá Húsavíkur. Skollabotnar eru austan við tindinn sem sést úr Álftavík en Álftavíkurdalur vestan við. Tindurinn er þverhníptur frá austri, suðri og vestri. Þar finnast ýmsar steintegundir, m.a. baggalútar.
Skollabotnar eru stórgrýttur grjótbotn að nokkru mosa vaxinn. Þar voru oft greni. Landamerkin voru Húsavíkurmegin við Skollabotna.
Sunnan við Örvasandskrók eru Álftavíkurflug, klettar. Nyrsti tangi við víkina, sunnan við flugin, heitir Stekkjartangi. Þar er gróinn smátangi. Ekki veit Sveinbjörn hvort stekkur hefur verið þar. Innan við Stekkjartanga er landsendafjara. Þar þótti góð lending í sunnanátt. Innan við hana gengur Landsendi fram til suðurs, klettahleinar. Hornið sem skagar lengst út nefnist Álftavíkurtangi. Austan við hann er Hlass, sérstakur klettur úti í sjó.
Innan við Landsenda er Norskalág og undir henni Norskafjara. Eiga hvort tveggja að draga nafn af því að eitt sinn er víkin var í eyði voru höfð þar naut til göngu frá Húsavík að sumarlagi. Fóru þá menn af norsku fiskiskipi þangað upp til þess að ræna nauti. Þá var eitt nautið svo mannýgt að þeir urðu fegnir að forða sér undan því í bátinn en skildu eftir ílát, hnífa o.fl. sem þeir höfðu haft með sér.
Upp af Stekkjarbarði eru Skjónuþúfujaðar, grasbrekka sem nær upp að Skollabotnum og ná þeir upp með Skjónuþúfu að austan. Það er stór Klettastríta. Hraun heita neðan við Skjónuþúfu upp af Landsenda, smáblettur nokkuð gróin en grýtt. Á þeim voru tættur sem enn sjást.
Innan við Landsenda taka við fjörur. Yst er Lotna. Hún er allstór, skeifulöguð. Þar er góð sumarlending og falleg höfn fyrir smærri báta. Háar hleinar eru báðum megin við þegar farið er inn. Sundið á milli er ekki breiðara en svo að það er vel árabátafrítt. Þarna var sérlega góð lending í norðanátt og lífhöfn, skjól fyrir öllum áttum, þegar inn var komið. Þá er Bæjarfjara og innst Folandsbás. Ganga klettahleinar alls staðar fram á milli fjaranna.
Túnið er ofan við fjörurnar. Bæjarstæðið er í því miðju. Ofan við túnið heita Melar, lynggrónir, innan við Skjónuþúfu. Ofan við Melana eru nafnlausar skriður og ofan við þær klettabelti. Ofan við það er rák sem heitir Bæjarrák, lyngi vaxinn hjalli. Ofan við hann er aftur klettabelti í svonefndum Dalsbrúnum. Ofan í þær miðjar er gjót sem fjárgötur liggja eftir gegnum miðja Bæjarrák og niður á Mela. Hún heitir Sauðaklauf.
Ofan við Dalsbrýr er Álftavíkurdalur. Hann er vel gróinn, sérstaklega brekkurnar. Í honum er mikil veðursæld. Hann liggur eins og áður segir vestan við Álftavíkurtind og er sunnan við Álftavíkureggjar, sem eru skörp brún, Miðmundarþúfu og inn í Miðmundarfjall. Þetta voru eyktarmörk úr Húsavík. Miðmundarþúfa er þúfustrýta, grasi gróin að vestan. Miðmundargjóta er einskonar skora sunnan og vestan við Miðmundarþúfu. Hún nær upp í brúnina og er að öðru leyti Álftavíkurmegin. Þar liggja fjárgötur til Húsavíkur. Fært var báðum megin við Hádegishnjúk, vestan megin fært með hesta. Álftavíkuregg heitir milli hans og landamerkjatindsins.
Innan við túnið eru svonefndir Hryggir, að mestu grónir lyngi og mosa. Gil eru á milli þeirra. Þeir ná frá sjávarbökkum og upp í fjall. Innsti hryggurinn nær upp í Dalsbrýr. Þar var aðalleiðin upp af víkinni til Húsavíkur, var alltaf farin með hesta og þá, eins og áður getur, vestan við Hádegishnúk.
Innan við Hryggi er svonefndur Höfði á sjávarbakka, nokkuð hár, grasi vaxinn. Innan við hann eru Innrivíkurflug. Fjaran neðan Hryggjanna heitir Langamöl en neðan Höfðans er Höfðasandur.
Inn og upp af Höfðanum er rák í Miðmundarfjallið. Hún nær inn í Innri-Álftavík og heitir Tóarák. Þverhníptir klettar eru fyrir neðan. Sagt er að endur fyrir löngu hafi smalastúlka, frá Ytri-Álftavík, sem vaktaði ær á Innri-Álftavík, hrapað úr Tóarák, með lyngbakka á baki, er hún var að reka ærnar heim að kveldi. Annars er rákin talin vel fær gangandi mönnum þegar autt er.
Inn úr Dalsbrúnum liggur rák til Innri-Álftavíkur sunnan í Miðmundarfjalli. Hún heitir Urðarrák og er ill yfirferðar vegna holurðar, hver steinnn liggur á öðrum. Enn ofar eru Lambarákar sem fé fer í, grónar. Þær ná ekki til Innri-Álftavíkur. Miðmundarfjall skilur Ytri- og Innri-Álftavíkur og gengur því nær lóðrétt í sjó fram. Þar eru hreppamörk milli Borgarfjarðar- og Loðmundarfjarðarhrepps.
Ekki er mikið af álftum í Ytri-Álftavík.

(Eftir handriti sr. Vigfúsar I. Sigurðssonar og Sveinbjörns Björnssonar).


 

Farið var yfir örnefnaskrá Ytri-Álftavíkur með Sveinbirni Björnssyni, 12. sept. 1980. Sveinbjörn er fæddur á Dallandsparti í Húsavík 20.10. 1902 og var þar til 1947. Fyrri örnefna skrá hafði sr. Ingvar Sigurðssona skrifað upp eftir handriti Sveinbjarnar. Skráðar eftir honum athugasemdir og viðbætur sem felldar eru inn í textann og orðalagi breytt þar sem þurfa þótti.

Reykjavík 13. okt. 1980
Guðrún S. Magnúsdóttir - Örnefnastofnun

Viðbót frá Örnefnastofnun:

Á Ytri-Álftavík hefur Sigmar Ingvarsson skráð Norskuboða sem hann man ekki, hver tilgreindi. Óvíst mun enn, hvar þeir eru.
Sigmar skráði eftir Rúnari Halldórssyni, sem átti heima í Húsavík til fullorðinsára. Sagði hann, að móðir sín og Anton móðurbróðir sinn hefðu verið sér sammála. Þau bjuggu í Húsavík um áratugi.
Sauðklauf heitir gjóta á leið, sem farin er niður úr Álftavíkurdal (6) niður á Álftavík. Þessi gjóta eða klauf er í dalsbrúninni.