Fundargerðir

8. stjórnarfundur

Framfarafélags Borgarfjarðar.

21. október 2013 kl 17:30 á Álfheimum.

 

Mættir. Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður, Hólmfríður Lúðvíksdóttir gjaldkeri, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, og Elsa Arney gegnum Skype.

 

Fundargerð síðasta fundar lesin upp í upphafi og undirrituð án athugasemda.

 

1.     Húsnæðismál.

Bréf til Sveitarstjórnar vegna húsnæðismála á Borgarfirði. Arngrímur les upp uppkast að erindi sem húsnæðismálahópurinn setti saman í ágústmánuði varðandi húsnæðismál í firðinum. Rætt um spurningarnar og ákveðið að senda sveitarstjórninni þetta erindi til umfjöllunar í nafni félagsins eftir lítilsháttar breytingar.

 

2.     Impru umsókn

Umsókn til Impru Nýsköpunarmiðstöðvar. Tinna frá Nýsköpunarmiðstöð á Hornafirði kom í heimsókn og fundaði með formanni varðandi umsóknina til Impru. Ákveðið í samráði við hana að breyta áherslum í umsókninni og setja meiri fókus á matvælaiðnaðinn og betrumbæta ferðaþjónustuþáttinn. Arngrímur mun breyta umsókninni samkvæmt ráðum Tinnu og senda hana aftur inn, en góðar líkur eru taldar á að hún verði samþykkt. Ákveðið að ræða við matvælaframleiðendur á staðnum og finna góða nálgun í umsóknina með tilliti til matvælaframleiðslu.

 

3.     Símamálin

Ekkert hefur enn náðst í NOVA varðandi hugmyndir þeirra um 4g sendi á Borgarfirði. Hafþór mun setja sig í samband við NOVA varðandi 4g möguleika á Borgarfirði og vera þar í sambandi við Olgeir Pétursson og reyna að koma í gang samskiptum við þá. Arngrímur hefur verið í sambandi við Símafélagið í Mývatnssveit sem sér um netmál þar. Þeir ætla að taka það fyrir á fundi hjá sér hvort þeir geti veitt okkur ráð og jafnvel þjónustu hér á Borgarfirði.

 

4.     Önnur mál

Verkefnið um Steiniðju hefur fengið 500.000.-kr styrk til gerðar viðskiptaáæltunar frá Atvinnuaukningarsjóði Austurlands og er verið að undirbúa stofnun fyrirtækis sem yrði staðsett í gamla frystihúsinu.

 

Rætt um hugmyndasamkeppni varðandi aðgengi og hönnun innviða í nágrenni Stórurða og hugmyndir þar kynntar.

 

Stjórninni barst bréf frá Framfarafélagi Fljótsdalshéraðs þar sem kom boð um að hitt stjórn þess félags fyrir aðalfund í byrjun nóvember. Ákveðið að senda fulltrúa á fund með þeim.

 

Ákveðið að negla niður fund með nemendaráði og ungmennafélagi í næstu viku á þriðjudag og ræða um hvað hægt sé að gera. Æfingar eru byrjaðar hjá Ungmennafélaginu og er mæting framar vonum.

 

Annað ekki rætt.

 

Fundi slitið 18:19.

Hafþór Snjólfur Helgason ritaði fundargerð.

 

 

 

  


7. stjórnarfundur

Framfarafélags Borgarfjarðar.

7. október 2013 kl 18:00 á Álfheimum.

 

Mættir. Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður, Hólmfríður Lúðvíksdóttir gjaldkeri, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, og Ásta Hlín Magnúsdóttir fyrrum starfsmaður félagsins.

 

1.     mál

Farið yfir fundargerðir síðustu tveggja funda og þær samþykktar og undirritaðar.

 

2.     mál

Ásta Hlín Magnúsdóttir mætir á fundinn til þess að gera upp störf sín fyrir félagið.  Gögnum komið í möppur og á rétta staði og verða í varðveislu ritara. Hólmfríður mun vakta póstfang félagins og halda utan um félagatalið og sjá um áframhaldandi rukkun félagsgjalda. Ákveðið að skrifa texta um ungmennaráðstefnuna til þess að setja inn í möppuna ásamt myndum.

 

3.     mál

Kastljós og áhrif þáttarins á verkefni Framfarafélagsins. Almenn ánægja er meðal stjórnarinnar um efnistök og umfjöllun og ljóst að þátturinn hefur virkað sem vatn á millu samfélagsmálefna Borgarfjarðar og komið umræðunni vel af stað. Jónas Sigurðsson hefur sagt stjórnarmeðlimum frá áhuga aðila sunnan heiða um að hjálpa okkur í netmálum með fjárstuðningi. Símafyrirtækið NOVA hefur lýst yfir vilja til þess að skoða möguleikana á að koma upp 4G sendi á Borgarfirði og fór sú umræða í gang eftir Kastljósþáttinn.

 

4.     mál

Rætt um mögulega umsókn í Vaxtarsamning Austurlands og ákveðið að senda drög að umsókn til yfirlestrar um umsagnar. Umsóknarfrestur er til 3 nóvember. Ákveðið að fara yfir drög að umsókn á næsta fundi.

 

            Önnur mál.

Rætt um verkefni með haustinu. Ákveðið að fresta áætlaðri vinnuhelgi fram í nóvember. Rætt um stöðuna á Álfasteinsverkefninu og styrkumsóknir.  Rætt um félagsmál unglinga og barna á staðnum og með hvaða leiðum framfarafélagið gæti aðstoðað.  Ákveðið að hafa samband við Ungmennafélagið, Nemendafélag Grunnskólans og ræða saman um félags- og íþróttamál.

 

 

 

Fundi slitið 19:34

Hafþór Snjólfur Helgason

ritaði fundargerð

 


  

6. stjórnarfundur

Framfarafélags Borgarfjarðar.

11. sept 2013 kl 17:00

 

Mættir. Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður, Hólmfríður Lúðvíksdóttir gjaldkeri, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, og Elsa Arney Helgadóttir varamaður.

 

1.     mál

Skráning félaga og rætt um skráningu nýrra félaga eftir að Ásta Hlín hefur hætt störfum. Hólmfríður gjaldkeri mun vakta póstfang framfarafélagsins og sjá um að bæta nýjum félögum inn.

 

2. mál

 

Rætt um umsóknina “Til móts við nýjan dag” til Impru Nýsköpunarmiðstöðvar. Arngrímur kynnir stjórninni vinnu sem hann og Ásta Hlín hafa unnið að upp á síðkastið. Umsóknin sem er upp á 1.500.000.- kr til verkefnisstjórnunar og verður send á næstu dögum. Verkefnin sem lögð er áhersla á í þessari umsókn er á endurreisn steiniðju og framleiðslu handverks á Borgarfirði og svo á sjálfbæra ferðaþjónustu frá öllum sviðum.

 

3. mál

 

Mögulegar styrkumsóknir ræddar fyrir ferðaþjónustuverkefni , og þá helst NATA og NORA styrki.

 

4. mál

Dagskrá haustsins.

Rætt um að funda hálfsmánaðarlega í vetur og þá á miðvikudögum kl 17:00 nema eitthvað annað sé ákveðið. Einnig rætt að taka 2 góða vinnufundi fyrir jól um helgar þar sem gert er ráð fyrir 4-6 klst vinnu í þágu félagsins. Þema fundanna gæti t.d. snúið að frekari úrvinnslu matvæla. Næsti fundur ákveðinn 23. sept kl 17:00. Fyrsti helgarvinnufundur verður 12. október þar sem verður rætt um möguleika á matvæla- og nátturuafurðavinnslu og síðari 16 nóvember.

 

Önnur mál

Rætt um samtökin Vini Vatnajökuls sem eru styrktarsamtök sem styðja m.a. útgáfu á náttúrutengdum ritum. Rætt um að skoða möguleika á útgáfu á riti fyrir Borgarfjörð og víkur, eins og hefur verið gefið út undir nafninu “Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð”

Rætt um fund hreppsnefndar þar sem Arngrímur og Ásta mættu til að gera grein fyrir vinnu Framfarafélagsins nú í sumar og var almenn ánægja hjá Hreppsnefnd með vinnuna sem er búið að vinna.

 

Fundi slitið 18:40

Hafþór Snjólfur Helgason

ritaði fundargerð

 

 

  

5. stjórnarfundur

Framfarafélags Borgarfjarðar.

22. ágúst 2013 kl 17:00

Mættir. Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður. Ásta Hlín Magnúsdóttir starfsmaður, Hólmfríður Lúðvíksdóttir gjaldkeri, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, og Elsa Arney Helgadóttir varamaður

Dagskrá fundarins.

1.    Fundargerð síðasta fundar lesin upp til samþykktar. Samþykkt

2.    Stofnfélagatal Framfarafélagsins. Alls eru komnir 90 stofnaðilar að framfarafélaginu og ákveðið að loka fyrir stofnfélagaskráningu. Aðilar sem ganga í félagið eftir þennan dag eru félagsmenn og með sama hætti og stofnaðilarnir. Rætt um að hafa samband við þess aðila og bjóða þá í velkomna í félagið og fá fram upplýsingar um aðstoð sem félagar vilja leggja til félagsins með einum eða öðru hætti.

3.    Fjarskiptahópur og tillaga um opin fund á þriðjudaginn. Fjarskiptahópur lagði til að boða til kynningafundar um komu Kastljósins á Borgarfjörð. Ákveðið að hafa fund á þriðjudaginn klukkan 20:00 í Fjarðarborg.

4.    Til móts við nýjan dag. Arngrímur kynnir drög að styrkumsókn til Nýsköpunarmiðstöðvar varðandi stöðu verkefnisstjóra hjá Framfarafélaginu. Farið yfir málaflokka og hvaða leiðir skuli fara í umsóknarferlinu. Ásta og Arngrímur munu halda áfram skrifum á umsókn og bera undir stjórn á næsta fundi

5.    Næstu skref og starfsmann með haustinu. Ákveðið að skoða stöðuna nánar eftir svar frá Nýsköpunarmiðstöð.

Fundi slitið 18:18

Hafþór Snjólfur Helgason

ritaði fundargerð


 

4. stjórnarfundur

Framfarafélag Borgarfjarðar

14. ágúst 17:00

Fundinn sátu: Arngrímur Viðar Ásgeirsson, Hólmfríður Lúðvíksdóttir og Ásta Hlín Magnúsdóttir.

1.    Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar. Samþykkt og undirrituð.

2.    Stofnun bankareiknings

Stjórnin fór yfir eyðublað til stofnunar bankareiknings fyrir félagið. Hólmfríður Jóhanna Lúðvíksdóttir, gjaldkeri framfarafélagsisns fer með prókúruumboð.

3.    Kastljóssþáttur
Kastljós hefur áform um að taka upp þátt á Borgarfirði í lok ágúst með fókus á framfarafélagið í samhengi við almena byggðamálaáherslu. Rætt var um það í víðu samhengi á fundinunm hvaða mál stjórnin vildi benda Kastljósi á að skoða. Rætt um mikilvægi þess að einblína á tækifæri frekar en vandamál. Umfjöllununin var rædd útfrá þremur þáttum starfs framfarafélagsins, atvinnumálaum, húsnæðismálaum og lífsgæðum.

4.    Borgarfjörður eystri 2020

Framtýðarsýnin fundarmanna rædd. Stjórnin var sammála um að mælanleg markmið þurfi að móta fyrir framfarafélagið. Mælieiningin getur verið íbúafjöldi, þjónnustustig eða hvað sem er.

5.    Önnur Mál

a.    Ungmennaráðstefna– verður í Fjarðarborg á laugardaginn, allt í orden. Ásta Hlín Hólmfríður og Eyrún Hrefna standa að skipulaggningu ráðstefnunnar.

b.    Dagskrá stjórnarfyrir haustið 2013 verði tekin fyrir á næsta funndi.

c.    Húsnæðismálahópur- Af húsnæðismálahóp er fínt að frétta, 2. Fundur hópsins verður haldinn á morgun.

 

Fundi slitið 18:31

Ásta Hlín Magnúsdóttir

Ritaði fundargerð
 

 3. stjórnarfundur

Framfarafélags Borgarfjarðar.

7. ágúst 2013 kl 17:00

Mættir. Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður. Ásta Hlín Magnúsdóttir starfsmaður, Hólmfríður Lúðvíksdóttir gjaldkeri, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, og Elsa Arney Helgadóttir sat fundinn gegnum Skype.

Dagskrá fundarins.

1.    Fundargerð síðasta fundar borin undir samþykki. Samþykkt og undirituð.

2.    Stofnfélagaskráning.Stofnfélagar Framfarafélagsins er nú orðnir 65 og enn á eftir að kíkja í skráningarkassann í kaupfélaginu. Áfram stefnt að því að reyna að ná félögum upp í 100 manns.

3.    Heimsíðan.Komin er undirsíða á Borgarfjarðarvef með lögum og reglum félagsins, fundargerðim og öflugri tengingu á fésbók þar sem að fréttir og annað verða birtar.

4.    Formleg stofnun félagsins. Stofnum félagsins hefur verið samþykkt fyrirtækjaskrá Ríkisskattsstjóra og er félagið komið með kennitöluna: 460813-0340. Stefnt að því að stofna reikning í Landsbankanum á Borgarfirði á næstu dögum. Gjaldkeri og starfsmaður sjá um að stofna reikning.

5.   Verkefni í atvinnu og byggðarmálum

a)    Ferðaþjónustutengd verkefni. Lag til að Ferðamálahópurinn og fyrirtæki innan hans verði sterkur samstarfsaðili að þessum lið, þar sem þar er að finna áður öflugt klasasamstarf allra ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Stefnt að því að boða fund með þessum aðilum um 20. ágúst til þess að ræða möguleika á jaðartímum og frekari nýtingu á innviðum. Í þessu samhengi var rætt um möguleikana á menntatengdri ferðaþjónustu, lengri dvölum og hvata og hópeflisferðum. 

b)   Snyrti- og heilsuvörugerð. Hvernig er hægt að nýta “local” náttúruafurðir til verðmætasköðunar á staðnum eða í samvinnu við önnur starfandi fyrirtæki. Vert að kanna áhuga einstaklinga á svæðinu í tengslum við þetta verkefni. Stefnt að því að kalla saman áhugasama aðila og aðilar með áhuga á þessu sviði eru beðnir um að setja sig í samband við starfsmann félagsins.

c)    Matarkistan.Frekari fullvinnsla á matvælum og leiðir að aukinni  verðmætasköpun á staðnum úr því hráefni sem er til staðar. Hvort sem er með aukinni framleiðslu eða markaðssetningu

d)   Fjölsmiðja.Rætt um möguleika á því að breyta húsnæðinu í gamla frystihúsinu í fjölsmiðju þar sem myndi rúmast handverk á staðnum, möguleg, listsköpun, sýningar og sölu á vörum og afþreyingu. Stefnt að því að boða aðila saman sem gætu tengst þessu verkefni til skrafs og ráðagerða.

e)    Fjarvinnsluver.Rætt um möguleikana á því að breyta efri hæðinni í Fjarðarborg í fjarvinnslumiðstöð með öflugu skrifstofurými og góðri nettengingu. Fundurinn er sammála um að verkefni, sem gætu bætt menntunarmöguleika á staðnum ættu að vera þar í forgangi, með möguleika á fjölbreyttari starfssemi síðar meir. Möguleiki á svæðistengdum verkefnum t.d. í tengslum við örnefnaskráningu eða í svæðisbundnum rannsóknum í Borgarfjarðarhrepp.

6     Önnur mál

Kastljós og Helgi Seljan munu að öllum líkindum koma á í lok mánaðarins að fjalla um Framfarafélagið og það sem er í gangi á Borgarfirði. Stjórnin fagnar þessum áfromum.

Fundi slitið 18:54

Hafþór Snjólfur Helgason

ritaði fundargerð2. Stjórnarfundur hjá Framfarafélagi Borgarfjarðar – Til móts við nýjan dag.

31. júlí 2013 í Björgunarmiðstöðinni á Borgarfirði.

Mættir: Ásta Hlín Magnúsdóttir, Arngrímur Viðar Ásgeirsson formaður, Hafþór Snjólfur Helgason ritari, Óttar Már Kárason varamaður og Elsa Arney Helgadóttir varamaður. Hólmfríður Lúðvíksdóttir boðaði forföll.

Dagskrá fundarins.

1.   Sagt frá fyrsta stjórnarfundi

2.   Verklagsreglur

Rætt um verklagsreglur stjórnar og með hvaða leiðum skal boðað til funda innan félagsins, hvort sem það er milli stjórnar, verkhópa eða til allra félagsmanna. Fundargerðir félagsins verða gerðar opinberar á undirsíðu félagsins á www.borgarfjordureystri.is og þar aðgengilegar öllum. Til að byrja með mun stjórn félagsins hittast vikulega á miðvikudögum klukkan 17:00. Allir stjórnarmenn og varamenn eru gjaldgengir á stjórnarfundi. Varamenn eru með atkvæðisrétt þeirri röð sem varð í kosningunni. 1. varamaður Helgi Sigurðsson, 2. Elsa Arney Helgadóttir, 3. Óttar Már Kárason.

3.   Næstu skref og starfið í vetur

Rætt um mikilvægi þess að vinna áfram hörðum höndum að því að safna fleiri stofnaðilum að félaginu, í gegnum heimasíðuna og netið. Markmiðið er að ná um 100 stofnaðilum að félaginu.

Rætt var um mögulega fjármögnun á áframhaldandi starfi fyrir verkefnisstjóra í vetur. Arngrímur ræðir um það að við ættum að hugsa stórt þegar kemur að þessum málum, til að geta verið með starfsmann, eða starfsmenn sem samsvarar fullu starfi. Möguleikar eru að fá styrk til verkefnisstjórnar t.d. hjá Nýsköpunarmiðstöð. Mikilvægt að verkefnisstjóri myndi áfram vinna að þeim verkefnum sem hafa verið rædd, í tengslum við frystihúsið (hagleikssmiðju), gestamóttöku, netmál, fjarvinnslu og ferðamál.

Fundurinn er sammála um að reyna að útvega fjármagn sem samsvarar fullu starfi til verkefnastjórnar, sem væri hægt að skipta milli verkefnastjóra annars vegar og einstaklinga með sérhæfðari þekkingu.

Til að vinna að umsókn til Nýsköpunarmiðstöðvar er nauðsynlegt að útlista hugmyndir nánar varðandi áðurnefnda liði.

Nauðsynlegt er í framhaldinu að skrásetja nánar mannauðinn og fá það á hreint hvernig fólk getur lagt félaginu og verkefnum lið.

4.   Ungmennaráðstefna

Ásta Hlín ræðir hugmyndir varðandi ungmennaráðstefnu á Borgarfrði fyrir krakka á aldrinum 14 - 20 ára í fyrri hluta ágúst. Þar yrðu lögð áhresla á jákvæðar umræður, skemmtilegt starf og hugmyndavinnu með yngstu kynslóðinni. Stjórn félagsins tekur vel í þessar tillögur og mun vinna með Ástu að þessum hugmyndum.

5.   Skýrsla til sveitarstjórnar

Skýrslu til sveitarstjórnar um framvindu verkefnisins verður skilað til sveitarstjórnar í lok ágústmánaðar.

6.   Önnur mál

Elsa ræðir um húsnæðismál og hver staðan sé á þeim hóp. Rætt um mögulegar lausar íbúðir.

Fundi slitið klukkan 18:28

Hafþór Snjólfur Helgason

ritaði fundargerð.

  

1. Stjórnarfundur

Fundinn sátu: Arngrímur Viðar, Hafþór Snjólfur, Hólmfríður Jóhanna og Ásta Hlín.

1. Verkaskipting Ákveðið að Hafþór Snjólfur starfi sem ritari og Hólmfríður sem gjaldkeri.

2. Skráning hjá fyrirtækjaskrá Eyðublað til umsóknar um kennitölu útfyllt

Fundi slitið