Námsmat

Í skólanum er stuðst við leiðsagnarmat sem þýðir að árangur nemenda er metinn jafnt og þétt út frá náms- og lykilhæfnimarkmiðum sem nemendur og kennarar setja. Kennarinn uppfærir námsáætlun nemandans í samráði við nemandann út frá því mati sem fer fram. Kennarinn ígrundar einnig og endurskoðar kennsluhætti sína og verkefnaval í takti við matsniðurstöður innra og ytra mats. Matsaðferðir eru fjölbreyttar allt frá því að vera símat kennara í hverju fagi, jafnt yfir skólaárið, sjálfsmat nemenda eða lokamat, svo dæmi séu tekin.  Leiðsagnarmat gerir nemendur meðvitaða um nám sitt og líðan í skólanum og hefur það að meginmarkmiði að bæta námsáhuga, ábyrgð á eigin námi, getu og hæfni nemenda.

Leiðsagnarmat byggir á þeirri forsendu að nemendur eru frá upphafi meðvitaðir um námsmarkmið sín og að þeir séu virkir í að setja sér markmið sjálfir.

Uppbygging mats:

  • Fylgst er með námi nemenda út frá námsmarkmiðum og lykilhæfni, samskiptum og líðan.
  • Nemandaviðtöl eru tvisvar á ári.
  • Foreldraviðtöl, foreldrar og nemendur mæta til fundar við kennara þar sem rætt er almennt um nám og líðan viðkomandi nemanda.
  • Verkefni,  verkefnabækur og fleira námstengt sem lagt er fyrir er yfirfarið og metið með tilliti til þekkingar, færni og leikni.
  • Nemendur eru reglulega beðnir um að meta eigin vinnu og frammistöðu.
  • Lokapróf í íslensku, tungumálum og stærðfræði lögð fyrir í lok haustannar og vorannar,  skyndipróf kaflapróf og heimapróf í öllum greinum eftir þörfum.

Á skólaárinu eru foreldraviðtöl haldin einu sinni á hvorri önn, í lok október eða byrjun nóvember og febrúar/mars. Er þá búið að senda lykilhæfnimat heim til foreldra útfrá hverri námsgrein. Eftir miðsvetrarpróf  og vorpróf fá nemendur einkunnaspjöld þar sem gefin er umsögn og/eða einkunn. 1.og 2. bekkur fær eingöngu umsagnir. Bæði umsögn og tölustafur í 3., 4. og 5. bekk og þar eftir eru gefnar tölurnar 1-10 en í 10. bekk fá nemendur vitnisburðarblað með bókstöfum.

 

 Skimanir eru reglulegar og sjá má áætlun um dagsetningar þeirra á þessum tengli.