Sögugangan

Sögugangan - Sögumerking bæja/bygginga á Borgarfirði eystra
Þróunarverkefni á vegum Fjarbúa Borgarfjarðar eystra

Almennt um verkefnið – forsendur og markmið
Hugmynd um að merkja byggingar í Borgarfirði með það markmiði að upplýsa um sögu þeirra kom upp á íbúafundi Borgfirðinga vegna brothættar byggða. Stjórn Fjarbúafélagsins þótti þetta áhugaverð og spennandi leið til þess að bregðast við auknum áhuga á að varðveita sögu og þróun byggðarinnar og miðla henni með þessum hætti til komandi kynslóða. Einnig er markmið verkefnisins að fjölga tækifærum til afþreyingar í sveitarfélaginu, bæta ásýnd bygginga og mannvirkja og hvetja til útivistar. Verkefnið felst í að hanna og gera samræmd upplýsingarskilti þar sem saga viðkomandi bæjar, byggingar eða mannvirkis er rakin í stuttu máli og myndum. Það sem fram kæmi væri nafn staðarins, upplýsingar um búsetu og ábúendur og hlutverk viðkomandi byggingar fyrir sveitarfélagið eftir því sem við á. Lögð verður áhersla á að merkingar séu samræmdar og í góðu samræmi við umhverfið. Uppsetning skiltanna verður einnig samræmd. Samhliða hönnun og gerð skiltanna verður útbúið einfalt yfirlitskort til þess að auðvelda fólki að þræða sig á milli þeirra. Á skiltunum sjálfum verða einungis takmarkaðar upplýsingar en á þeim verður qr kóði, sem er nokkurskonar strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við. Með því að nota app úr síma eða
öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum. Með kóðanum verður hægt að sækja ýmiss konar upplýsingaefni og fróðleik sem tengist viðkomandi stað. Það efni er vistað á þessari síðu. Með þessu fyrirkomulagi verður auðvelt að auka við efni og upplýsingar, breyta þeim og þróa eftir því sem tilefni er til. Verkefnið er í vinnslu en stefnt er að því að fyrsta áfanga þess ljúki fyrir árslok 2021.