Fýll (Fulmarus glacialis) er stór fugl sem minnir á máf. Norræna litaafbrigðið kallast sótarar, kolapiltar og smiðir. Þeir hafa sést hér við land í björgum og mögulega hafa orpið hér stöku fuglar. Fýllinn verpir í sjávarbjörgum og einnig inn til landsins í árgiljum. Einu eggi er orpið á klettasyllu. Unginn verður seint fleygur og stefnir til hafs um leið og hann er fær um það líkt og sjófugla er háttur.
Erlend heiti á fýlnum er m.a.: Mallemuk í Danmörku, í Noregi Havhest, í Svíþjóð Stormfågel, í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Spáni Fulmar og Northern Fulmar (U.S.A.), í Þýskalandi Eissturmvogel og í Frakklandi Pétrel fulmar.
Á Íslandi eru veiddir árlega um 3.300-10.500 fýlar samkvæmt veiðitölum Umhverfisstofnunar. Fýllinn var veiddur mikið hér við land áður fyrr, en veiði á honum er miklu minni nú en áður. Fýlsungadráp lagðist að mestu af í kjölfar fýlasóttar sem kom upp mönnum í Vestmannaeyjum 1939.
Evrópuvarpstofn fýls er 2,8-4,4 milljónir para. Stofnstærð fýls á Íslandi er talin vera um 1-5 milljónir fugla yfir veturinn og að í varpstofninum sé um 1-2 milljónir fýlspara sem er um helmingur Evrópustofnsins.
Í kjölfar langvarandi fjölgunar fýls við Ísland hefur orðið vart við fækkun og víðar en við Ísland. Líkleg skýring fyrir þessum breytingum er talin vera breyting á einum af undirstöðum fæðukeðjunnar í Norður Atlantshafi, þ.e. rauðátunni, sem minnkað hefur undanfarna áratugi en undirstaða fæðukeðjunnar er plöntusvifið sem rauðátan lifir á. Þrátt fyrir sveiflur í fjölda fýls við Íslandsstrendur er hann útbreiddur varpfugl víðast hvar og á það ekki síst við Austurland. Varpbyggðir á austurströndinni virðast mikið til koma eftir 1950-1980.
Í Hafnarhólmanum verpa rúmlega 100 fýlspör. Fýlar verpa einu eggi en ár hvert komast ekki nema fáeinir ungar á flug úr Hafnarhólmavarpinu sem talið er stafa af fæðuskorti síðsumars svo ungarnir drepast í hreiðrunum. Mest fýlsvarp er við sjó en þeir verpa eitthvað inn til landsins í klettum og árgiljum. Þar sem fýlar verpa inn til landsins verða þeir oft innlyksa ef þeir lenda á jörðu niðri en geta bjargað sér nái þeir til vatns eða geti fylgt lækjum og ám. Ýmsar ástæður geta verið fyrir slíku innlandsstrandi og skal þar fyrst nefna að fálkar eiga það til að slá fýla niður svo þeim fipast flugið. Ungar sem reyna að ná flugi af syllu eru stundum of þungir og brotlenda. Þessir strandaglópar verða svo líklega tófu að bráð eða drepast úr hungri.
Þeir fýlar sem ekki verpa eða missa undan sér sitja á sínum syllum trúlega til að tryggja að engir aðrir fýlar né aðrir sjófuglar taki yfir varpstaðinn. Fýllinn er langlífur fugl af ætt pípunasa og byrjar varp um 11 ára gamall. Í þýðum að vetrarlagi setjast fýlar oft upp í fuglabjörgin eins og til þess að kanna aðstæður á varpstaðnum. Fýlar fylgja fiskiskipum eftir í von um að fá þar eitthvað æti sem til fellur.
Fýlar æla lýsisspýju til að verja sig en það getur verið óbein afleiðing þess að þeir eru að skila hálfmeltri fæðu til þess sem ætlar á þá að ráðast frekar en að láta lífið, þetta eru algeng viðbrögð ungviðis í fuglaríkinu. Þess vegna er t.d. fálka afskaplega illa við hann og ár hvert þarf að hreinsa fálka af fýlsspýju. Útbreiddur misskilningur er að fýllinn æli út um pípuna ofan á goggnum en oft má sjá sultardropa á nefi fýlsins sem seytla út um pípuna, þeir eru mettaðir salti sem fuglinn er að losa sig við.