Kirkjan

Fróðleiksmolar um Bakkagerðiskirkju

Tekið saman af sr. Vigfúsi Ingvari Ingvarssyni

Sumarið 1898 var rætt opinberlega á fundi, í fyrsta sinn svo vitað sé, um að flytja kirkjuna frá Desjarmýri í „Bakkabyggð“ eins og það er orðað í bréfi Árna Sigurðssonar til prófasts (10/12 ´98).  Þessu var sóknarpresturinn, sr. Einar Vigfússon þá skiljanlega andvígur enda um nokkurn veg að fara og yfir óbrúaðar ár frá Desjarmýri og hingað út eftir þar sem kominn var vísir að þéttbýli.

Við prófastsvísitasíu 20. júní árið 1900 voru örlög Desjarmýrarkirkju endanlega ráðin.  Þá kirkju lét sr. Sigurður Gunnarsson byggja árið 1860 og um hana má lesa í Sögu Borgarfjarðar.  Hún var orðin hrörleg og skemmd eftir ofviðri árið áður.  Bæði prestur og sóknarnefnd urðu sammála um að rífa hana og bjarga með því einhverju af viðum hennar og lagði prófastur til að nota fáanlegt húsrúm á Bakkagerði þar til ný kirkja yrði risin.  Þá var búið að kaupa mikið af viðunum til kirkjubyggingar þó formlegt leyfi til flutnings kirkjunnar hafi ekki fengist fyrr en með Landshöfðingjabréfi 14. september um haustið.  Skjótt var tekið til við að rífa kirkjuna því viðir hennar voru seldir á uppboði 9. júlí sama sumar. (Uppboðs- og úttektabók).

Danskur smiður („húsabyggingameistari“) stjórnaði smíðinni sumarið 1900 en um 20. september fauk kirkjan í miklu ofvirði og þakið tók af Bindindishúsinu (Þórunn Valdimarsdóttir, Horfinn heimur  - Árið 1900 í nærmynd. Mál og mynd, Sögufélag 2002) sem líklega hefur verið notað til guðsþjónustuhalds á þessu tímabili.  Andrés Björnsson greinir frá þessu foki í merku handriti og segir danska smiðinn hafa grátið þegar kirkjan fauk.  Haft er eftir einum kirkjusmiðanna, Andrési Jónssyni í Geitavík, að ekki hefði kirkjan fokið ef hann hefði fengið að ráða.  Hann vildi byrja að klæða gólfið að vestanverðu en austurhluti þess var klæddur þegar vestanrokið komst upp um gólfið og inn í kirkjuna. (Munnleg heimild SÓP 30/11 ´06).  Timbrið bjargaðist þó ótrúlega vel en því var staflað saman naglhreinsuðu og það geymt til vors er hafist var handa á ný en þá virðist danski smiðurinn horfinn á braut.

Tveir Seyðfirskir smiðir vinna aðallega að kirkjubyggingunni síðara sumarið en Andrés Jónsson aðeins lítilsháttar þá.  Seyðfirðingarnir voru: Tryggvi Guðmundsson (trjesmiður) sem raunar var sunnlendingur (faðir Nínu Tryggvadóttur listakonu).  Hinn hét Jón Jónsson.  Samkvæmt reikningum unnu þeir báðir í 57 daga og fékk Tryggvi 3. kr. á dag í kaup en Jón 4 krónur.  Vissulega hjálpuðu heimamenn við ýmislegt varðandi bygginguna.

Kirkjan var vígð á 1. sunnudegi í aðventu árið 1901 þó ekki væri henni að fullu lokið.  Úr því var smám saman bætt næstu árin og 1905 segir að búið sé að panta járn á kirkjuna – bæði á þakið og utan á veggina.  Það sumar tók söfnuðurinn formlega við umsjá kirkjunnar en fram að því hafði sóknarprestur séð um fjármál hennar.

Úr kirkjunni á Desjarmýri er prédikunarstóllinn og raunar enn eldri en síðasta kirkjan þar.  Sömuleiðis er númerataflan, eins og sjá má, úr Desjarmýrarkirkju.  Þá voru við úttekt árið 1902 3 lausir bekkir úr Desjarmýrarkirkju, tveir uppi á lofti og 1 niðri.

Af klukkum kirkjunnar er það að segja, samkvæmt vísitasíugerðum (og vísitasíum Vallaneskirkju og kirkjustóli Húsavíkurkirkju), að eldri klukka og bjalla (til líkhringinga) sem voru í Desjarmýrarkirkju voru sendar til Danmerkur í því skyni að gera af eina nýja eða fá nýja hæfilega klukku í staðinn (vísitasía 13/7 1902).  Málin þróuðust þó á annan veg.  Strax á vígsluári, barst kirkjunni að gjöf klukka frá Vallneskirkju sem átti 4 klukkur.  Prófastur samþykkti tillögu Vallanesprests um þessa gjöf 10. ágúst árið 1901 og lofaði að leita samþykkis biskups, sem tók einhvern tíma að ganga formlega frá, en klukkan kom strax hingað og segir prófastur (sr. Einar Jónsson) hana „fremur litla en hljómgóða“.  Aðra klukku eignaðist Bakkagerðiskirkja á 4. áratug síðustu aldar en hún var keypt af Húsavíkukirkju.  Sú kirkja átti 2 klukkur en ein var talin nægja svo litlu guðshúsi og ekki verra að fá inn einhverja peninga þegar kirkjubygging stóð þar fyrir dyrum.

Í vísitasíu prófasts 6. ágúst árið 1905 segir: „Kirkjan hefur eignast nýtt harmóníum sem kostaði 190 kr. fyrir samskot safnaðarins og tombólu.“ Hljóðfærið hefur þá verið nýlega komið því þess er ekki getið sumarið áður (vísitasía 10/7 1904).  Árið 1920 er Ísólfur Pálsson beðinn að selja það og árið 1921 kemur hljóðfæri sem hann smíðar og er það notað til ársins 1966 er kirkjunni var gefið núverandi orgelharmóníum (Lindholm) til minniningar um Ídu Borgfjörð.  Árið 1968 var ákveðið að selja Ísólfsorgelið.

Árið 1951 var steypt utanum kirkjuna og byggð við hana forkirkja.  Nýverið hefur svo farið fram gagnger viðgerð á kirkjunni og steypan m.a. brotin utanaf henni og forkirkjan stækkuð.      

 

 Frekari fróðleikur sem fólk býr yfir varðandi byggingu kirkjunnar eða eitthvað athyglivert úr sögu hennar væri vel þegið og má senda það á vii@internet.is.