Sagan af Gellivör ,,mömmu

Það er gömul sögn að í pápísku tímunum og áður íheiðninni hafi verið tröllagangur mikill á milli Borgarfjarðar eystra og Kjólsvíkur.  Gengur þar nestangi´austur í hafið norðan Kjólsvíkur og hamraflug mikið milli víkurinnar og nessins og fjallbunga upp af.  Í sævarflugi þessu er mælt að tröllkona ein hefðist við.  Sunnan Kjólsvíkurinnar í framanverðu fluginu er annað flugabjarg og fjall er Grænmór nefnist.  Þá gengur þar inn Breiðavík.  Sunnanvert við hana er hellir einn sem nú er mestmegnis í sæ.  Þar átti önnur tröllkona að búa;  var hún nefnd Gríður en hellirinn Gríðarhellir og þar við kennt Gríðarnes eftir henni.  Óljósar sagnir eru um hana og eigi er þess getið að hún væri sérlega mikill meinvættur.  Aftur á móti er svo sagt að sú fyrir norðan Kjólsvík hafi gert af sér hinn mesta usla í grenndinni.  Var hún kölluð Gletta og hafa sumir sagt að þær Gríður og Gletta væru systur.  Gletta seiddi til sín skip þau er fóru þar með landi fram og eitt sinn bát einn, lagði hann saman sem pappírsblað og hagnýtti sér menn og aðra áhöfn.  Rýmdi hún að lokum Glettinganesbóndanum er lengi sá við henni og svo öllum búendum brott úr víkinni og þar nærri og lögðust þau um 100 - 200 ár í eyði.  Var nesið síðan kallað Glettinganes og flugabjargið Glettingur.  Er hvort tveggja dregið af Glettu og yfirgangi hennar.
   
Nú segja sumir að helgur maður hafi verið fenginn til að vígja fjallið og nesið og hafi þá óvættur þessi flúið þaðan.  En aðrir segja að hún hafi flutt sig þegar björgin gekk til þurrðar.  En það ber mönnum saman um að Gletta flytti þaðan og lægi þó víkin og nesið í eyði fyrst eftir það.  Hellir hefir sést til skamms sunnanvert í fluginu er flagðkona þessi átti að halda til í.  Glettingur mun vera annar austasti tangi landsins.  Röst liggur fram af honum kölluð Glettinganesröst eða Glettingsröst.  Milli Glettings og Gerpis, austasta tanga landsins, er flói allbreiður sem kunnugt er, nefndur Loðmundarflói.  (Lr:  Seyðisfjarðarflói).
   
Nú er þess að geta að þegar reimleikar hurfu úr Víkum sem nú var sagt þá urðu menn þess vísir að flegða ein mikil var komin í Staðarfjallið suður og upp frá Desjarmýri í Borgarfirði.  Þóttust menn vita að þar var Gletta komin og þótti hún illur vágestur þar.   (Um nafn skessunnar í Staðarfjalli ber heimildum Sigfúsar ekki saman.  Kalla sumir hana Glettu, aðrir Gellivör, sbr. framhald sögunnar.)   Liðu nú þó tímar svo að hún áreitti menn eigi og var spök í helli sínum.
   
Staðarfjall er beint í hádegisstað frá Desjarmýri og er staðurinn sunnan Fjarðarárinnar.  Hvoll heitir einn af bæjum norðan árinnar; tekur hann nafn af stórum hól sem er fast við bæinn.  (Hvolshóll).
   
Þegar þetta gerðist bjuggu vel virt hjón að Hvoli; þau voru auðug að kvikfénaði og höfðu margt hjóna og kemur einn húskarl þeirra við söguna.  Svo bar til að Hvoli eina jólanótt að bóndi gekk út en kom eigi inn aftur og þótt hans væri vandlega leitað fannst hann eigi.  húskarl sá er getið var varð nú fyrir búinu og réðst þar næsta krossmessuár og bar nú eigi til titla né tíðinda.  En á næstu jólanótt fór sem fyrr að hann hvarf og varð eigi fundinn hversu vel og vandlega sem leitað var.  Hugðu menn ýmislegt um hvað valda myndi mannahvörfum að Hvoli.  Ekkjan flutti þá burt frá Hvoli að afliðnum jólum með hjón sín öll en lét þó hirða þar gripi sína á hverjum degi.   Um vorið áræddi hún þó að flytja sig og sitt heim aftur með hjúum sínum og bjó hún þar um sumarið en að veturnóttum ætlaði hún að flytja að Gilsárvöllum en láta húskarla sína hirða gripi og gefa heyin að Hvoli um veturinn.  Fjórar kýr átti hún og var ein þeirra borin fyrir veturnætur og tveim nóttum áður en hún ætlaði heim.  En þá dreymdi hana draum.  Henni þótti koma til sín kona sem hún kannaðist ekki við.  sú var klædd fornum íslenskum kvenbúnaði, þó fátæklegum.  henni þótti þessi kona heilsa sér vingjarnlega og taka þannig til máls:  „Nú er kýrin þín borin, ein af fjórum, en ég á ekki von á að fá mjólk fyrr en um jólaleytið og hefi þó þrjú ungbörn og því ætla ég að biðja þig þess að gefa mér mjólk á málum í könnuna sem mun standa á hillunni hjá búrdyrunum þínum þegar þú skammtar á málum.  Ég veit að þú ætlar að tveggja nátta fresti að flytja að Gilsárvelli því þú þorir ekki hér að vera í vetur og er þér á því vorkunn þar þú veist ekki hvað veldur því mannahvarfi sem hér hefir orðið hina fyrri vetur.  En það kann ég þér þar af að segja að skessa sú sem býr í Staðarfjallinu fæddi barn fyrir tveim árum síðan sem er svo einþykkt og sérlundað að hún verður að útvega því nýtt og ferskt mannakjöt á hverjum jólum.  Þess vegna hefir hún nú farið hingað og numið burt bónda þinn og húskarl og hið sama mun hún gera við þig í vetur.  En ef þú ætlar að verða vel við bón minni og vera hér kyrr þá mun ég leggja þér heilræði og hjálpa til að flæma þennan óvætt  héðan úr sveit.“
   
Þegar draumkonan hafði þannig mælt hvarf hún á burt en konan á Hvoli vaknaði og mundi drauminn.  var þá og dagur runninn.  Fór hún á fætur og fann könnuna þar sem henni var til hennar vísað.  Það var trékanna og fyllti hún hana af nýmjólk og setti hana aftur á sama stað en að vörmu spori var hún horfin.  En um kveldið stóð hún aftur á sama stað.  Þessum vana hélt ekkjan fram að jólum en á Þorláksmessu dreymdi hana enn draum.  Henni þótti koma til sín kona sú hin sama er fyrri kom á veturnóttum og heilsa sér kunnuglega og segja:  „Óforvitin þykir mér þú vera að vilja ekki vita hver sú kona er eða hvar hún býr sem þegið hefir mjólk þína í vetur en þó skaltu vita að ég er huldukona og á byggð í hólnum sem er hérna fyrir utan bæinn þinn.  Þú hefir nú gert vel í vetur en ég þarf þess ekki lengur því nú bar kýrin mín í gærdag og þarf ég því ekki þinnar mjólkur framar.  Nú skaltu eignast það lítilræði sem ég hefi lagt á hilluna þar sem trékannan mín stóð og þar með verð ég að hjálpa þér frá þeim voða sem fyrir þér liggur á jólanóttina.  Þegar liðið er miðnætti mun þig fýsa mjög að fara út úr bænum.  Þú skalt og heldur ekki sporna við því heldur ganga út; mun þá standa á hlaði stórvaxin kona.  sú mun þrífa þig og bera þig í fangi sér ofan túnið og ösla með þig suður yfir Fjarðarána og stefna suður nesið að Staðarfjallinu. 
   
Þegar hún er komin með þig skammt á leið frá Fjarðaránni skaltu segja:  „Hvað heyrist mér?“  Þá mun hún segja:  „Hvað ætli þér hafi heyrst?“  Þá skaltu segja:  „Mér heyrðist sagt: „Gellivör mamma, Gellivör mamma“.“  Það mun henni þykja kynlegt því hún veit að enginn mennskur maður þekkir hennar rétta nafn og mun hún þá segja: „Æ, það mun vera barnskrakkinn minn,“ og mun hún þá kasta þér niður og steðja í Staðarfjallið en ég mun kveðja krakkann meðan hún er hjá þér en verð þó að fara frá þegar hún kemur.  Þegar hún hefir yfirgefið þig skaltu hlaupa sem mest þú mátt beina leið út á eyrarnar fram og suður af Votanesinu.  Þegar hún kemur mun hún þrífa þig og segja:  „Gastu ekki verið kyrr, ólukku kindin,“ og síðan mun hún steðja með þig suður yfir nesið upp á Krókana fram af Tíðarmelnum.  Þá skaltu segja eins og í fyrra skiptið:  „Æ, hvað heyrðist mér?“  Og hún:  „Hvað ætli þér hafi heyrst?“  Þá skaltu segja sem fyrr:  „Mér heyrðist sagt:  „Gellivör manna, Gellivör mamma“.“  „Það mun þá vera barnskrakkinn minn,“ mun hún segja aftur og slengja þér þar niður og renna til fjallsins en þá skaltu hraða þér sem mest að ná kirkjunni og komast inní hana áður en skessan kemur aftur því þá mun henni vera heift í hug vegna þess að ég verð þá búin að fyrirfara barninu og mun hún ekki ætla sér að láta þig undan draga.  En ef þig þrýtur mun ég duga þér.“
   
Þegar konan vaknaði af þessum draumi var ljóst af degi.  Fór hún þá fram í bæ og fann á hillunni saman vafinn stranga og þar í forkunnarvel vandaðan kvenbúnað; tók hún hann og lét í fatakistu sína.  Leið nú Þorláksdagur og aðfangadagur og bar ekki til tíðinda.  Um miðnætti jólanóttina lögðust menn til svefns að Hvoli en konan vakti ein því hún gat eigi sofið.  fýsti hana þá út að ganga og réð hún sér ekki og gekk út og í því vetfangi er hún kom út úr bæjardyrunum var hún hrifin hátt á loft af stórkostlegri skessu sem óð með hana í fangi sér allt suður yfir Fjarðará.
   
Fóru þeirra skipti eins og álfkonan hafði getið til allt þar til tröllkonan hafði fleygt henni í seinna sinn og konan ætlaði að forða sér í kirkjuna; þá fannst henni eins og tekið væri um handlegg sér svo að henni varð léttara að ganga.  En rétt á eftir heyrði hún grjótskruðninga í Staðarfjallsurðunum.
   
Tunglskin var glatt og sá hún að tröllkonan fór út yfir engjarnar og stefndi að sér.  Varð hún þá svo óttaslegin að hún mundi hafa hnigið þar niður ef eigi hefði verið gripið undir hina hönd hennar og eins og liðið með hana í loftinu þar til henni var snarað inn fyrir kirkjudyrnar og læst hurðinni á eftir.  Voru þá allir menn komnir í kirkju og djákni að samhringja en þá heyrðist þungur dynkur á kirkjugarðinum.  Litu menn þá út um glugga nokkurn og sáu þar standa afar stóra tröllkonu sem sagði:  „Skítur minn, skítur minn,“ þegar hún heyrði klukknahringinguna.  Brá hún þá jafnskjótt við og spyrnti stóru stykki úr hleðslunni og mælti um leið og hún stökk burtu:  „Stattu aldrei, argur,“ og hvarf.
   
Konan var í kirkju meðan sunginn var óttusöngur og hámessa og eftir það fór hún heim.  Og var hún eigi áreitt af óvætti þessari síðan og er hennar eigi getið framar í þessari sögu.  Varð og eigi skessunnar framar vart þar í Staðarfjallinu.  Hugðu menn að hún hefði flutt burtu eftir þessar ófarir þótt Árni skáld Gíslason í Höfn vilji helst gefa í skyn að hún hafi verið þar fram á sína daga sem hann segir í Borgfirðingabrag.

 Í heiði vestur hellir stendur,
 Hamra-Settu viður kenndur;
 allur grjóti utan rendur;
 annan Gellivör byggir;
      fagur Borgarfjörður er;
 í Staðarfjalli hennar hendur
 hafa margt að vinna;
      sá er prýði sveita landsins hinna.

Þeir eru þó fleiri sem segja að Gellivör kæmi enn fram annarsstaðar og hafði þá með sér systur sína.