Njarðvík

narðvíkNjarðvík er norðan Borgarfjarðar.  Á dögum Margrétar ríku á Eiðum í byrjun 16. aldar kallaði hún Njarðvík „víkina mögru en fögru“ en hún átti bæði Húsavík og Njarðvík.

Gunnars saga Þiðrandabana, sem gerist um árið 1000, tengist Njarðvík mikið og í sögunni er m.a. getið Þorragarðs og Þiðrandaþúfu sem hvort tveggja eru í dag friðlýstar fornminjar. Þorragarður er hlaðinn torfgarður, allt að 1,5 m hár og hefur verið um 1,4 km að lengd í upphafi en hluti hans er nú kominn undir tún en eftir standa í dag um 0,9 km af garðinum. Tveir synir Þóris línu í Breiðuvík bjuggu á Borgarfirði, Gunnsteinn á „Dysjarmýri“ og „Sveinungur“ á Bakka en þeirra bræðra er beggja getið í Gunnars sögu Þiðrandabana en Sveinungur bjargaði Gunnari á flótta og er það fyrsta skráða björgun hér. Björgunarsveitin á Borgarfirði heitir Sveinungi eftir þessum fyrsta „björgunarmanni“

Njarðvík er ákaflega litfögur. Setur ljóst líparít mjög sterkan svip á hana og Dyrfjöllin (1136) gnæfa svo fyrir víkurbotni með sína svörtu móbergs- og basalthamra. Útsýni af Vatnsskarði er ákaflega fagurt og af norðurbrún má í góðu skyggni sjá til Snæfells, Herðubreiðar og Langaness.

Vegurinn yfir Vatnsskarð var fyrst lagður 1954 en áður var farin göngu- og hestaslóð um Gönguskarð frá Unaósi en um Sandaskörð ef farið var frá Borgarfirði á Inn-Hérað.

innra hvannagil í NjarðvíkInnra-Hvannagil í Njarðvík er staður sem allir ættu að kíkja á. Aka má upp að gilinu og mjög auðveld og stutt ganga er inn í það. Þar birtast fjölbreyttar bergmyndanir í líparítinu og sérkennilegir basalt-berggangar sem kljúfa líparítskriðurnar þvers og kruss.

Talið er að í Njarðvík sé miðja Njarðvíkureldstöðvarinnar og hún og Dyrfjallaeldstöðin myndi eina megineldstöð en Dyrfjöllin hafa myndast í gosi í öskju, svipaðri og Askja er í dag.