Lundi

Lundi í HafnarhólmaLundi (Fratercula arctica) gengur undir ýmsum gæluheitum og er stundum kallaður „litli munkur í norðri“  eða „litli bróðir í norðri“.  Eins og tveggja ára lundar sem sjást við landið kallast “kolapiltar” trúlega vegna þess að þeir eru með gráleitar kinnar en það heiti er líka þekkt á dökkum hánorrænum fýlum.  Algengt er að lundinn sé kallaður prófastur sökum útlits og hátta.  Lundaungann köllum við kofu en í Vestmannaeyjum gengur hann undir heitinu pysja.  Erlend heiti lundans eru meðal annars  Lunde í Danmörku og Noregi, Papageitaucher í Þýskalandi, í Frakklandi heitir hann Macareux moine, á Spáni Frailecillo, Puffin í Bretlandi og í Norður Ameríka Common Puffin.  Lundinn er sjófugl af ætt svartfugla og þeirra algengastur við strendur Íslands.  Svartfuglum á norðurhveli jarðar svipar nokkuð til mörgæsa á suðurhveli, að líkamsbyggingu og  litasamsetningu. Trúlega er lundinn einn algengasti fuglinn á Borgarfirði Eystri. Talið er að í Hafnarhólmanum verpi 8.000-10.000 pör og geldfuglar koma að varpinu síðar um sumarið.

Útbreiðsla lundans á Íslandi

Lundinn er lítill sjófugl sem lifir stóran hluta ársins út á reginhafi allt frá ströndum Kanada með vesturströnd Evrópu og norður Rússlands. Ungir lundar frá Íslandi eyða vetrinum á Nýfundnalandsmiðum en eldri fuglar eru við  suðurodda Grænlands en eru að öðru leyti mjög lítið við landið yfir veturinn. Lundar eru við Ísland frá byrjun apríl og fram í september.  Hann er algengasti svartfuglinn við Ísland.  Stendur uppréttur og á auðvelt með gang.  Lundinn sem er félagslyndur fugl vegur um hálft kíló og lifir einkum á fiski (síli, loðna, seiði) átu og smokkfiski en hann étur líka krabbadýr.

Útbreiðsla lunda á hnettinum

Lifnaðarhættir og lífshlaup lundans

Lundinn er langlífur fugl sem getur orðið áratuga gamall.  Við náttúrulegar aðstæður er talið að meðalaldur lundans sé á bilinu 20 til 25 ár.  Elsti lundi sem vitað er um var 38 ára en Óskar J. Sigurðsson merkti hann í Eyjum. Sérstakasti varpstaður lundans á Íslandi er í Skrúðshelli.  Varptíminn er frá seinni hluta maí fram í fyrrihluta júní.  Lundinn verpir einu eggi sem er um 60g, eða svipað og hænuegg  að þyngd, í holu sem getur verið um hálfs metra löng.  Útungun tekur um 40 daga og lundinn verður kynþroska um 4-5 ára. Talið er að prófasturinn sé trygglyndur fugl og parist maka sínum fyrir lífstíð.  Foreldrarnir skipta með sér verkum. Lundinn getur kafað niður á allt að 60 metra dýpi og er afbragðs flugfugl með allt að 400 vængslætti á mínútu og getur náð 88 km hraða á klukkustund.  Lundinn getur haldið á allt að 10 fiskum í goggnum án þess að missa fæðuna.  Unginn yfirgefur hreiðurholuna u.þ.b. 45 dögum eftir klak og heldur á haf út. Þar eyðir hann næstu 3-5 árum við fiskveiðar og velur sér maka.  Helstu óvinir lundans eru svartbakar sem geta gleypt þá í heilu lagi.  Ritur ræna oft æti af lundanum og silfurmáfur, kjói og skúmur geta verið aðgangsharðir ræningjar sem getur haft áhrif á þroska og lífslíkur ungans. Ránfuglar við sjávarsíðuna veiða lunda eins og aðra sjófugla, má þar nefna fálka.

Lundinn á Íslandi, Austurlandi og á Borgarfirði

lundi puffinEins og áður hefur komið fram er dreifing lunda um Austurland almennt ekki nægilega vel þekkt þó stærstu varpbyggðirnar séu nokkuð vel þekktar, þá hefur lítið verið tekið saman og skrifað um lundann í heildarsamhengi við austurströndina.  Þekktustu varpbyggðirnar og jafnframt þær stærstu eru í Skrúð, Papey, Seley, Andey, Hafnarhólma, Hólmum í Reyðarfirði (Stórhólma), Bjarnarey, Gerpi og sunnan í Barðsnesi þar sem heitir Hestur.   Í Andey verpa nokkrir tugir lunda.  En í Papey urpu um 200.000 pör fyrir um aldarfjórðungi (1986) og talið er að eyjan beri nafn sitt af lundanum en ekki af írskum pöpum sem engin ummerki hafa fundist um.  Þá eru  heimildir um lundavarp víða í kringum Djúpavog og í Berufirði. Breiður af lundum má sjá á sjónum milli Skrúðs og lands og einnig á Héraðsflóa á sumrin þar sem þeir eru við fæðuleit.  Víða annars staðar með ströndinni má sjá lunda á sjónum eða á flugi. Yfir veturinn ber lítið á lunda við Austurland og svartfuglsveiðimenn fá ekki lunda þar sem aðrir svartfuglar eru veiddir sem er einkum innfjarða.

Lundaveiðar við Ísland

Samkvæmt veiðitölum Umhverfisstofnunar 1995-2007 voru veiddir árlega 64.008-232.936 lundar.  Veiðin hefur farið minnkandi hin síðari ár og gripið hefur verið til takmarkana á lundaveiðum í Eyjum.  Um helmingur veiðinnar fæst í Vestmannaeyjum þar sem háfaveiði hefur dregist verulega saman og borið hefur á miklum pysjudauða undanfarið. Lundinn telst til helstu nytjafugla á Íslandi enda vinsæl villibráð.  Nokkur kofnatekja var í Papey um 1940 og þar voru líka veiddir fullorðnir lundar.  Veiðar á lundaungum í holum eru kallaðar kofnatekja. 

Mest er skotið af lunda síðla vetrar og fram á vor úr bátum en annars eru lundar veiddir í háf einkum í Vestmannaeyjum  Langflestir lundar hafa verið merktir í Eyjum eða yfir 54.000 fuglar af Óskari J. Sigurðssyni vitaverði á Stórhöfða og eru þeir fangaðir í háfa og sleppt að merkingu lokinni.  Náttúrustofa Suðurlands hefur í seinni tíð sett litmerki og rafeindamerki á lunda í Eyjum og stendur fyrir ítarlegum rannsóknum á tegundinni og fæðu sem hann lifir á.  Allt er þetta gert til að afla betri gagna um þennan sérstaka fugl, ferðir hans og lífshætti.

Merktir lundar

Náttúrustofa Suðurlands hefur á undanförnum árum merkt lunda bæði með fótmerkjum og á rafrænan hátt í Vestmannaeyjum og er að gera yfirgripsmikla rannsókn á lifnaðarháttum og ferðum þessa litríka fugls.  langflestir lundar hafa verið merktir í Vestmannaeyjum og hefur Óskar J. Sigurðsson vitavörður á Stórhöfða merkt um 54.000 fugla.  Lundinn er veiddur í háf, merktur og honum síðan sleppt.