Sjósókn og útgerð

Um sjósókn, útgerð, verslun og fleira á Borgarfirði eystra.

Tekið saman af Guðgeiri Ingvarssyni frá Desjarmýri
  
    „Fagur Borgarfjörður er;
    finn ég það letur inna;
    sá er prýði sveita landsins hinna.
    _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
   
    „Þorsk og spröku fyrðar fanga;
    finnst þar einnig hlýri og langa;
keila og skata á krókum hanga,
    koli, ýsa, steinbítshrer;
        fagur Borgarfjörður er;
    hákarl menn og hamarinn stranga ,
    háf og blágóm vinna;
        sá er prýði sveita landsins hinna.

    Á sælutíðum sumars blíðum
    sjá menn skip með búning fríðum
    heims úr öllum áttum víðum,
    undir hafnir leggja  hér;
        fagur Borgarfjörður er;
    þeir framandi fyrðar tíðum
    fréttir margar kynna;
        sá er prýði sveita landsins hinna.“

Úr Borgarfjarðarbrag eftir Árna Gíslason (1724-1809) skáld og bónda í Höfn.


Sjósókn fyrr á öldum.
Telja má nokkuð víst að á Borgarfirði eystra hafi menn stundað sjósókn allt frá landnámsöld, þó í mismiklum mæli hafi verið frá einum tíma til annars.
Landnámsmenn komu til Íslands á skipum og hafa væntanlega sumir hverjir verið vanir sjómennsku  og þeir sem settust að nálægt sjó hafa eflaust  aflað sér sjávarfangs fyrir sig og sína fjölskyldu ef þess var kostur. 
 Um sjósókn fyrr á öldum á Austurlandi  og fram á 19. öld fjallar Halldór Stefánsson í Sjósóknarþætti, sem birtist í ritinu Austurlandi IV. bindi. Þar segir hann m. a. um Austurland: „Strandlengjan er  löng og stór hluti byggðarinnar með sjó fram. Lendingar nothæfar smábátum í góðu veðri við flest byggð ból á ströndinni –  og á smábátum var ekki hægt að sækja fiskveiðar nema í kyrrum sjó. Og öruggar lendingar voru inni á fjörðum, ef veður brást. Meðan firðir og flóar voru fullir af fiski og öðrum veiðiskap, var sjósóknin svo auðveld sem verða mátti.“
Ekki hefur verið um að ræða örugga höfn inni á Borgarfirði, eins og sums staðar á Austfjörðum, en sjósókn mun þó að öllum líkindum hafa frá verið stunduð meira og minna frá öllum sjávarjörðum í Borgarfirði þó lendingar væru víða erfiðar. Heimildir um þetta fyrr á öldum virðast þó af skornum skammti.

Veturliði Ásbjarnarson nam Borgarfjörð segir í Landnámabók. Ekki er þess getið hvar henn bjó, en í ritinu Austurland II. bindi ritar Halldór Sefánsson um landnám í Austfirðingafjórðungi. Þar segir hann: „Ekki er getið bústaðar Veturliða. Líklegasti bústaðurinn er Hofströnd; þar eru hoftættur í túni lögverndaðar.“  Hofströnd er skammt frá sjó og því stutt að sækja sjóinn. Í byggðasöguritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi II. bindi [Egilsstöðum] 1975, (hér eftir oftast stytt í Sveitir og jarðir...) bls. 384 er hins vegar sagt um bústað Veturliða landnámsmanns: „ Ekki væri ósennilegt að hann hefði búið á Bakka.“  En hvort sem hann bjó á Bakka eða á Hofströnd er sennilegt að hann hafi aflað sjávarfangs til bús síns, þó ekki séu til heimildir um það.

„ Þau kómu þar skipinu er Höfn heitir...“
Í Fljótsdæla sögu er m.a.  sagt frá því er Þorvaldur Þiðrandason   kemur til Íslands eftir dvöl á Hjaltlandi. Hann var sonur Þiðranda  Ketilssonar þryms landnámsmanns í Fljótsdal.  Þorvaldur hafði kvænst þar ytra Droplaugu sem frá er sagt í Droplaugarsona  sögu og fleiri Austfirðingasögum.
Um  heimför Þorvaldar með Droplaugu konu sína segir í Fljótsdæla sögu: „Og er þau vóru búin sigldu þau í haf  og fengu góð veðr ok hagstæð, tóku Ísland snemma sumars. Þau kómu þar skipinu, er Höfn heitir í Borgarfirði, fyrir sunnan Njarðvík.“  Af þessu má sjá að snemma hafa skip og bátar tekið land við Höfn í Borgarfirði.
Í athugasemd við þessa frásögn í Fljótsdæla sögu segir ennfremur  í neðanmálsgrein: „Allgott skipalægi er innan við Hafnarhólma, vestur af bænum Höfn.“ (Austfirðingasögur. Hins íslenska Fornritafélags. Reykjavík 1950).
Útræði mun því að öllum líkindum hafa verið frá Höfn frá fyrstu tíð, trúlega allt frá landnámsöld.
Í byggðasöguritinu Sveitir og jarðir ...   II. bindi bls. 419 segir um lendingaraðstöðu í Höfn: „  ... ,en annars dregur hún [jörðin] nafn af lendingu í Hellisfjöru fram og niður af bænum. Þar er einna skást lending í firðinum í ófullkomnu vari af hólmanum.“ Fleiri lendingarstaðir eru þekktir við Höfn og verður þeirra getið hér síðar.

Sveinungur á Bakka leynir Gunnari Þiðrandabana og felur hann undir skipi.
Tveir synir Þóris línu landnámsmanns er nam Breiðuvík eru nefndir í Landnámabók. Það voru Sveinungur (eða Sveinungi)  og Gunnsteinn. Þeir bjuggu í Borgarfirði á Söguöld, bjó Gunnsteinn á Desjarmýri en Sveinungur á Bakka.
Sveinungur leyndi Gunnari Þiðrandabana er hann flúði undan óvinum sínum. Frá því segir m. a. í Gunnars þætti Þiðrandabana, en þar er Sveinungur nefndur Sveinki.  Faldi hann Gunnar fyrst í móhlaða inni í andyri í bæ sínum, en á meðan þeir sem leituðu Gunnars voru að leita í bænum sagði Sveinki við þann þeirra er gæta átti dyranna: „ Ek mun hér vera, at eigi komisk maðrinn út, ef hann er hér inni, en þú gakk til stofu. Nú hljóp þessi til stofu, en Sveinki bað Gunnar upp standa ok út fara, en rak slagbrand fyrir hurðina. Þá mælti  Sveinki : Nú skulum vit ganga ofan til skips er ek á niðr í fjöru. Svá gerðu þeir. Þar hválfði skip eitt, Þat var lítil skúta, ok hafði látit bræða. Hér skaltu fara inn undir skipit, ok verður nú skjótt  at taka til ráða. Sveinki rak þá lömb sín til fjöru í farit, at eigi mátti sjá tveggja manna far. Gunnar fór undir skipit.“  Fleiri brögðum beitti Sveinki eða Sveinungi til að forða Gunnari Þiðrandabana undan eftirleitarmönnum hans og slapp Gunnar með naumindum undan þeim, sem lesa má um í fyrrnefndum þætti Gunnars Þiðrandabana og fleiri Austfirðingasögum.
Hins vegar er vert að vekja athygli á því að samkvæmt  sögunni átti Sveinungi bát eða litla skútu niðri í fjöru. Má telja mjög líklegt að hún hafi meðal annars verið notuð til að afla fiskjar í bú Sveinunga en ekki aðeins verið þar til skrauts eða skemmtisiglinga. Reyndar segir í Fljótsdæla sögu þar sem þessum atburðum er einnig lýst, að Sveinungi hafi fylgt Gunnari „til sjóar ok til nausts síns. Þar var velt fyrir framan skip, er Sveinungr átti, er hann sótti sér farm á suður í fjörðu um haustit.“ (Fljótsdæla saga bls. 277. Hið íslenska Fornritafélag. Reykjavík 1950). Það að hann hafi farið á skipi þessu að sækja farm suður í fjörðu þarf hins vegar ekki að þýða að skipið hafi ekki líka verið notað til fiskveiða frá Borgarfirði.

Verslun með fisk innanlands frá landnámi fram yfir 1250.
Verslun með fisk hér innanlands frá upphafi byggðar á Íslandi og fram yfir miðja 13. öld mun ekki hafa verið mikil og fiskur heldur ekki verið fluttur út á því tímabili. Halldór Stefánsson minnist á þetta í Sjósóknarþætti í ritinu Austurlandi IV. bindi bls. 111. Þar segir hann meðal annars:
„ Frá upphafi byggðar og  u.þ.b.  fram yfir  þjóðveldislok var sjófanga aflað eingöngu til innanlands nota, nema hafi það verið selskinn og lýsi. Fiskfanga umfram það [sem þeir sjálfir notuðu fyrir sig og sína] höfðu sjávarbændur því ekki þörf, nema til skipta við landbændur. Slík þörf virðist ekki muni hafa verið mikil. Sjávarbændur flestir austan lands höfðu yfir fullgildum bújörðum að ráða og gátu því haft landvöru nær á borð við landbændur. Og höfðingjar allir og hinir stærri landbændur munu á öldum fyrr hafa haft sinn eiginn útveg til sjófanga. Viðskiptaþörfin milli landbænda og sjávarbænda sýnist þá ekki hafa getað verið mikil. Hvorir um sig gátu búið mestpart að sínu.“

Bændur í Borgarfirði höfðu ekki þörf fyrir sérstakar verstöðvar.
Í Borgarfirði gátu allir landbændur sótt sjóinn frá þeim lendingum sem eru við fjörðinn, því vegalengdir frá bæjum landbænda að sjó eru þar ekki miklar. Þeir landbændur sem ekki áttu báta gátu líka hafa fengið skipsrúm hjá sjávarbændum, eins og Halldór Stefánsson bendir á í Sjósóknarþætti sínum. (Austurland IV. bindi bls. 114). Borgfirðingar höfðu því ekki þörf fyrir sérstakar verstöðvar.

Nokkrar umsagnir um lendingar og heimildir um sjósókn
 frá einstökum bæjum í Borgarfirði.

Snotrunes:  „Illt er að stunda sjó frá Snortrunesi sökum hafnleysis, en var þó löngum gert,enda skammt á mið, en þau brigðul.“ (Sveitir og jarðir... II. bindi bls. 375).

Geitavík: „Niður af bæjum er víkin, sem bærinn dregur nafn af , afmörkuð af 300-400 m löngum tanga út og norður í fjörð. Hann veitir lendingunni í fjörunni lítið skjól og innsigling um víkurmynnið óhrein. Þaðan var þó fyrr og raunar fram um 1940 töluvert sóttur sjór frá Geitavík...  Hrognkelsaveiði dágóð í lóni í fjöru“ (Sveitir og jarðir... II. bindi bls. 378).

Bakki: „ Áin [Bakkaá] er sem vænn lækur að jafnaði; hún kemur úr .... Bakkadal, fellur ... til sjávar fast utan við verslunarhúsin á Bakkaeyri og hafnargarð. Þar - eða í Höfn - var fyrr skásta lending við fjörðinn“ (Sveitir og jarðir... II. bindi bls.).

Bakkagerði:  Mörk Bakka og Bakkagerðis að utan eru við Bakkaá, svo bændur á Bakkagerði hafa án efa frá fornu fari getað haft afnot af lendingu í Bakkafjöru eins og ábúendur á Bakka. Einnig er sennilegt að þeir hafi þegar gott var í sjóinn getað notað lendingu í svokölluðum Vogi við klappirnar  neðan við Svínalæk og vestan Kiðjubjarga,þar sem  löngu síðar var gerð bryggja.
Um hafnaraðstöðu á Bakkagerði á 20. öld segir Magnús H. Helgason í Saga Borgarfjarðar eystra, útg. 1995, bls. 140:
„Eitt hið mikilvægasta fyrir þorp þar sem íbúar eru flestir háðir sjósókn  eru góð hafnarskilyrði. Í Bakkargerðiskauptúni var þetta lengi vandamál en eins og fyrr segir voru hafnarskilyrið þar mjög slæm. Engin góð lending var þá á Borgarfirði og voru bryggjur lausabryggjur sem stóðu uppi í fjöru á milli skipaferða en var þá hrint á flot. Síðan er vitnað í Ármann Halldórsson í bókinni Sveitir og jarðir...  II. bindi, en þar segir meðal annars bls. 386: „Aðallending var úti við Bakkaá, Eyrarfjara og Bakkaeyri með verslunarhúsunum upp af .... Kippkorn sunnar í sömu fjöru var lengi vel lending kaupfélagsins í svonefndum Krók. ... Kiðubjörg skaga fram í sjó austan við þorpið. Vestan við þau er Vogur, bátalending,...“   Síðar segir í sömu heimild um Bakkagerði bls. 387: „ Í matsgerðinni 1918 er búskaparskilyrðum lýst og segir þar m. a.: ... Útræði er í matsgerðinni talið gott  og „fremur aflasælt,“ en tæplega myndu þeir, sem nú eiga heima þar, skrifa fyrirvaralaust undir það...“
Rétt er að benda á að þótt lendingaraðstaða væri aldrei góð á Bakkagerði, þá var talið að í Bakkafjöru og í  Höfn væri skástu lendingar við fjörðinn og er þá vætnalega miðað við minni báta, sem hægt var að setja á land milli róðra eða um lengri tíma t. d. yfir veturinn. Eftir því sem bátar stækkuðu svo erfitt eða ómögulegt var að taka þá á land jukust jafnframt kröfur um bætt hafnarskilyrði.

Hofströnd: „ Útræði var stundum frá Hofströnd og  geðug lending eftir ástæðum í Borgarfirði fremst við Hamarinn.“ (Sveitir og jarðir... II. bindi bls. 417). Í sömu bók segir í Búskaparannál
á bls. 418: „ Útræði talið gott. Hægir aðflutningar úr kaupstað.“ Nokkur munur er á þessum umsögnum eða mati á aðstöðu til útróðra, en líklega hafa tveir menn skrifað hér hvor sína umsögnina.
 
Höfn: Útræði hefur eflaust verið í Höfn frá fyrstu tíð.  Í Sveitir og jarðir... II. bindi  segir m. a. bls. 419: ...  „ annars  dregur hún [jörðin] nafn af lendingu í Hellisfjöru fram og niður af bænum. Þar er einna skást lending í firðinum í ófullkomnu vari af hólmanum.“ Einnig segir í sömu bók bls. 420:  „... Bjargið, sem er hár sjávarbakki innnan við Hellisfjöru, hét öðrum nöfnum Fiskabjarg og  Eiðabjarg. Eiðabás er lendingarstaður í fjöru og Eiðabrekka ofan við Bjargið.“ Þetta vitnar um sjósókn Eiðamanna frá Höfn fyrr á öldum, sjá hér síðar.
Auk lendingar í Hellisfjöru og í Eiðabás má nefna Færeyingavog. „ Í klöppunum  norðan við Hellisfjöru er djúpur, en mjór vogur, sem heitir Færeyingavogur. Þar settu Færeyingar upp fisk  og bundu báta sína á meðan þeirra útgerð stóð í Höfn.“ (Þorsteinn Magnússon bóndi í Höfn f. 1902: Höfn. Örnefnaskrá í Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Örn-9).

Sæluvogurinn.
Utan við Hafnartanga og undir Hafnarbjargi eru stórgrýttar fjörur,básar, vogar og sker. Þar er Sæluvogur, sem er allstór vík og þrautalending undir Hafnarbjargi. Um hann kvað Árni Gíslason skáld og bóndi í Höfn (1724-1809):
„Þegar ég skil við þennan heim,
    þreyttur og elliboginn,
    eg mun róa árum tveim,
    inn í Sæluvoginn.“
(Heimild:Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI bindi, Reykjavík 1986, bls. 247).

Verstöð við Fiskabjarg.
Í Sjósóknarþætti Halldórs Stefánssonar, sem áður er til vitnað, telur hann upp helstu verstöðvar á Austurlandi utan byggðra býla og á eyjum fyrir landi. Þar segir: „ Fiskabjarg í Borgarfirði, sérstök  verstöð Eiðakirkju. Þar eru enn verstöðvatættur, og þar heitir Eiðabás í bjarginu“
Óvíst mun vera hve langt er síðan Eiðamenn fóru að sækja sjó frá verstöð við Fiskabjarg, en Halldór Stefánsson telur að verstöðvasókn Austfirðinga hafi verið mest frá því um miðja 14, öld og fram til þess einokunarverslun Dana hófst 1602.

Í Eiðasögu eftir Benedikt Gíslason frá Hofteigi vitnar hann í  Vilckinsmáldaga sem gerður var 1397, en þar segir m. a. um kirkjuna á Eiðum:  „Maríukirkjan á Eiðum á hálft heimaland með öllum gögnum og gæðum...“ Síðan eru taldar upp jarðir, jarðarhlutir og ítök, sem Eiðakirkja átti.  Eiðakirkja átti sem sagt aðeins hálfa jörðina á Eiðum.  Í máldaganum koma fram fjögur nöfn Eiðabænda, Arnór, Karl Arnórsson, Þorvarður  og  Páll Þorvarðarson .
Eiða-Páll Þorvarðarson.
Vitað er að á dögum Eiða-Páls Þorvarðarsonar sem uppi var á 14. öld (dáinn í Svartadauða 1403) eiga Eiðar verstöð í Borgarfirði.  „Páll er nefndur hirðstjóri um 1400. ... Páll á Eiðum hefur verið mikill höfðingi... Stóraugður, svo að aldrei mun hafa verið auðugri maður á Austurlandi. Verður þó ekkert vitað um það, hvaða stoðir runnu undir auðlegð hans, en það kemur síðar fram, að Eiðar eiga verstöðvar niður í Borgarfirði og við Unaós, og jörðina Njarðvík í Borgarfirði“ (Benedikt Gíslason: Eiðasaga útg. 1958, bls. 38 og 41-42).

Benedikt  Gíslason segir í Eiðasögu að Þorvarður og Páll hafi endurbyggt kirkjuna litlu fyrr en máldaginn er gjörður. Hafi Þorvarður líklega fallið frá meðan á því stóð,en Páll síðan lokið því verki.
Í máldaganum segir einnig:  „ Portio féll niður, öll sú er fallið hafði, meðan karlinn Þorvarður og Páll hafa búið fyrir kirkjuuppgjörð.“ (Eiðasaga útg. Akureyri 1958).  Hvað hér er átt við er erfitt að fullyrða,en helst virðist mega skilja þetta svo, að þeir feðgar hafi farið með öll yfirráð á helmingshlut kirkjunnar í jörðinni gegn ákveðnu gjaldi, sem svo hafi fallið niður þann tíma sem þeir feðgar voru að endurbyggja kirkjuna á sinn kostnað. Ef þetta er rétt skilið má ætla að Eiðabændur hafi  á þessum tíma rekið verstöðina við Fiskabjarg í Borgarfirði og hirt af henni allar tekjur, en ekki Eiðakirkja.

Margrét ríka.
Margrét ríka eða Eiða-Margrét var Þorvarðardóttir og mun hún hafa verið ein af afkomendum Eiða-Páls, sem fyrr er getið.  „Þorvarður bjó á Eiðum og hefur verið ríkur maður. Árið 1509 kaupir hann Njarðvík....  Um þetta leyti er að skilja að Þorvarður rými á Eiðum fyrir Margréti dóttur sinni...“ Margrét var tvígift, en lifði menn sína báða. „Um eða fyrir 1540 er Margrét orðin ekkja aftur, og á þessum tíma  fer af henni sögn um mikinn búskap og aðdrætti. Hún hélt út í Eiðaveri, við Unaós, við Fiskabjarg í Borgarfirði, og er svo að skilja, að harðræði hafi hún viljað að sýnt væri við sjómennskuna, og benda sögur á það, að meir hafi henni legið við kappi en forsjá í þeim hlutum.“ ( Benedikt Gíslason frá Hofteigi: Eiðasaga bls. 47-48).
Verslun Borgfirðinga fyrr á öldum.
„Hafnarhólmi er eina eyjan á Borgarfirði.... Sunnan við hólmann var, áður hafnargarður kom, lélegt skjól fyrir brimi en þó það skásta við fjörðinn. Það er líklegt að undan Höfn   og innan við hólmann hafi lagst skip er til Borgarfjarðar áttu leið.... líklega um allar aldir   þangað til þorp óx upp við fjörðinn, í öndverðu knerrir, síðar búsur og kuggur og þá duggur. Að fornu og fram undir einokun munu skip hafa komið við og við að vori og sumri, lagst  innan við hólmann í skaplegu veðri og sjólagi og átt frjáls vöruskipti við fjarðarbúa.“ (Magnús H. Helgason: Saga Borgarfjarðar eystra útg. 1995, bls. 47).

Borgfirðingar mótmæla banni við verslun við aðra en danska kaupmenn.
Eftir að einokunarverslun Dana á Íslandi komst á 1602, höfðu danskir kaupmenn meðal annars áhyggjur af verslun Íslendinga við Englendinga.  Dönsk stjórnvöld reyndu að hindra  slíka verslun með ýmsu móti og bönnuðu Íslendinum að eiga viðskipti við Englendinga að viðlögðum fésektum. Þetta virðist þó ekki hafa haft afgerandi áhrif á þessa verslun sem stunduð var á laun.
 „Árið 1631 þótti dönskum kaupmönnum sem verslun Englendinga hefði gengið mjög úr hófi og sneru sér þá til konungs og kvörtuðu. Kom nú aftur blátt bann við allri verslun við enska fiskimenn, á sjó og landi, og lögð við hörð refsing ef út af brygði. Viðbrögð landsmanna voru allmikið og kom skýrt fram að þeir höfðu óhikað skipt við duggara, til dæmis Vestmannaeyingar og  íbúar í Borgarfirði eystri, og fóðruðu með því að hjá þeim fengju þeir duganleg veiðarfæri sem fengjust ekki hjá dönsku kaupmönnunum. Af öllu samhengi verður ráðið að þeir keyptu ýmislegt annað líka.“
(Heimild: Helgi Þorláksson: Sjórán og siglingar. Ensk- íslensk samskipti 1580-1630. Reykjavík  1999. Bls.281-283).
Kvörtunarbréf Borgfirðinga.
Til gamans er birt hér „inntak“ úr bréfinu sem Borgfirðingar skrifuðu Árna Oddsyni lögmanni og lesið var upp í Lögréttu á Alþingi 1. júlí árið 1633. Frumritið af bréfinu mun hafa glatast. Þetta „inntak“ úr bréfinu er hins vegar varðveitt í Alþingisbókum frá þessum tíma:

 „Inntak úr bréfi Árna lögmanni til skrifað úr Borgarfirði í Desjarmýrar- og Njarðvíkurkirkjusókn.“
„ Sé yður kunnugt, að vor yfirvaldsmaður, bóndinn Bjarni Oddsson, hefur opinberað fyrir oss forboð vors náðuga herra  og kongs, kongs Christians 4. með það nafn um engelskan kaupskap, það að íslenzkir megi hvorki veiðarfæri, sem er strengi og línur eður neitt  annað, við Engelska víxla eða neina höndlun við þá hafa. En með því að við þessa sjávarsíðu, eður hér um fjörður, hafa fátækir menn mesta björg og uppheldi af fiskifari, svo sem yðar heiðursemi kann nærri að geta, þá þurfa þeir sífeldlega að kaupa veiðarfærin til sinnar nauðþurftar og fyrir sín skip, hver mjög oft misfarast bæði í stórdráttum og svo með öðru móti, svo sem dagleg reynsla sýnir, svo einn fátækur maður kann hér  ekki  við færri strengi að hjálpast en þrjá, svo þó sem ekkert skip úti hefur og engan mann, nema sig sjálfan, þeir fleiri, sem meira hafa um að vera, svo fátækir menn geta ei opt goldið sínar skuldir. Og jafnvel (má ske) missi konungurinn sinn skatt fyrir þá stóru þörfnun, sem þeir hafa á strengjunum, ef þeir skulu og ekki heldur  af Engelskum veiðafærin kaupa. Í öðru lagi, nær selur gengur, þá á vetur líður,kunna menn honum ekki að ná hér vegna nótaleysis, hvað þó gjörir ekki hinn minnsta skaða, ekki alleinasta  íslenzkum heldur og einnin dönskum kaupmönnum, svo sem vér  megum fullkomlega klaga ei sízt. Í þriðja lagi komast ekki fátækir menn héðan úr sveit í kaupstaðina, þar hér eru margir þeir, sem öngvan færleik eiga, en sumir einn, sumir tvo, sumir þrjá, og þeir fæstir, þar með langur og torveldur vegur í kaupstaðina yfir ferjur og heiðar, svo menn eru ekki skemur en viku aptur og fram á þeirri sinni reisu. Einninn margir einvirkjar og mega ei heiman fara á miðjum hjálpartíma sumarsins.
Í fjórða máta hafa menn ekki fengið veiðarfærin, svo sem þeim hefur þarfnast, af Dönskum, þá í kaupstaðinn hafa komizt og stundum með öllu  synjandi farið, svo sem nú gefur raun vitni þetta fyrirfarandi ár, anno 1632. Og biðjum vér yður auðmjúklega guðs vegna og fyrir skyldu yðar embættis þessa vora klögun fyrir Companiið ad láta koma, svo sem og fyrir vor   yfirvöld andleg og veraldleg. Og kerfjum vér allir og beiðumst í þessari fyrrnefndu sveit áðurgreint Compani ad láta hér ganga skútu eður jakt, sem áður hefur gengið, þá þýzkir kaupmenn voru og hafnirnar höfðu, minst tvisvar á sumri með sína vöru, og sækja aptur þá íslenzku, og skikka oss nægilega og góða strengi, línur og nótgarn  eptir kong majestets taxta, að þeir skuli landinu með nægilegri kaupmannsvöru forsorga. Annars kunnum vér engan veginn að bjargast, fyrst vér megum ei fyrrnefnd veiðarfæri af Engelskum kaupa með nægilegu verði, og kann ske því þó, sem ei er kaupmanns vara, því margir geta hér á firðinum keypt upp á 30, 40 eður 50 fjórðunga, þeir sem ekki eru mektugir í kaupstað að fara, og er þetta vor helzta klögun að þessu sinni.“  (Alþingisbækur Íslands V. 1620-1639 bls. 296-297. Sjá einnig  grein Árna Halldórssonar í Múlaþingi  12. hefti 1982 bls. 152-158. Þar má lesa nánar um þetta brér og viðbrögð við því).                                                                                                                                                                                      

Árni Gíslason í Höfn.
Árni Gíslason bóndi og skáld í Höfn (1724-1809) var sonur séra Gísla Gíslasonar á Desjarmýri og bróðir séra Halldórs Gíslasonar er tók við prestsembætti á Desjarmýri eftir föður þeirra. Synir Árna voru hinir nafnkunnu Hafnarbræður, Hjörleifur og Jón.
Árni unni sveit sinni eins og Borgarfjarðarbragur hans ber vitni um. Í einni af vísum sínum telur Árni upp flesta bæi í Borgarfirði, en tekið skal fram að sú vísa ekki er í Borgarfjarðarbrag hans. Hún hljóðar svo:
    „Njarðvík, Nes og Gerði
    neyt eru og víkin Geita,
                Hólaland, Bakki, Hvolur;
                         hollur er Gilsárvöllur;
           dýr er Desjarmýrin,
               dávæn Jökulsáin
       kjósum Hofströnd hrósa
    til Hafnar knýr margur stafinn.

Hér eru ótaldir bæirnir Setberg, Gilsárvallahjáleiga, Hólalandshjáleiga, Geitavíkurhjáleiga, Bakkagerði og Þrándarstaðir.“ (Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI. bindi útg. 1986, s. 198-199).

Þess  má geta að samkvæmt manntalinu frá 1801, þegar Árni Gísason er enn á lífi, virðist ekki vera búið á Setbergi, Gilsárvallahjáleigu (nú nefnd Grund), Hólalandshjáleigu, Geitavíkurhjáleigu, Bakkagerði né Þrándarstöðum og þessara bæja ekki getið 1801.  Hins vegar búa þá ein hjón í Hvannstóði. Ekki er víst við  hvaða bæ nafnið Gerði á, en nærtækast virðist að ætla að þar sé átt við Bakkagerði og þar hafi þá verið búið er Árni orti vísuna, en búseta þar mun hafa verið eitthvað slitrótt á fyrri tíð (Sbr. Sveitir og jarðir... I.bindi bls. 386) og t. d. var Bakkagerði ekki íábúð,  þegar fyrsta manntal fyrir allt landið var tekið árið 1703. Ætla mætti að Árni hafi talið upp í vísunni þá bæi sem voru í byggð um það leyti sem hann yrkir vísuna þó það sé ekki víst. Gæti Hvannstóð þá hafa verið í eyði ásamt  þeim bæjum sem hann telur ekki  upp í vísunni, en Bakkagerði eða Gerði í byggð.  Íbúar í Desjarmýrarsókn árið 1801 voru samkvæmt manntali samtals 101 og eru þá Njarðvík Brúnavík og Breiðavík meðtaldar. Hins vegar eru Húsavík og Hólshús þá talin með Klyppstaðarsókn. 

Átján bæir í Borgarfirði.
Til gamans mætti benda á að í einu erindinu í Borgarfjarðarbrag, sem áður er minnst á hér að framan, nefnir Árni Gíslason skáld fjölda bæja í Borgarfirði og er þar nefnd hærri tala en bæjarnöfn í vísunni hér fyrir framan :
    „Engi,nes og akrar víða
    ótal gæðum landið prýða;
    um bygging þessa furðu fríða
    fénaðurinn dreifir sér;
            fagur Borgarfjörður er;
    út að sjó og inn til hlíða
    má átján bæi finna;
        sá er prýði sveita landsins hinna.“

Í manntalinu 1703 eru taldir 18 bæir í Borgarfjarðarhreppi og eru þá allar víkurnar sunnan Borgarfjarðar taldar með og eru Njarðvík,  Húsavík, Hólshús og Dalland með í þeirri tölu. Þessi tala stemmir við fjölda bæja í kvæðinu hjá Árna.  Manntalið er að vísu tekið rúmmum tuttugu árum áður en Árni fæðist, svo væntanlega hafa orðið einhverjar breytingar á búsetu í hreppnum á  síðustu þremur fjórðungum 18. aldar, þegar Árni er í fullu fjöri,bæir farið úr ábúð og aðrir byggst í staðinn.
Í þessu manntali 1703 eru hjáleigurnar ekki taldar sérstakir bæir eða sérstakar jarðir og hafa ekki sérstök nöfn heldur aðeins nefndar hjáleigur, þó íbúar þar séu skráðir. Þar er um að ræða hjáleigu í Njarðvík, Geitavík, Gilsárvallahjáleigu (síðar nefnd Grund) og hjáleigu frá Desjarmýri. Þar er trúlega um að ræða Þrándarstaði frekar en Setberg. Ef þessar hjáleigur væru taldar sem fullgildir bæir hefðu þá verið 11 bæir eða býli í Borgarfirði sjálfum, en að víkunum öllum meðtöldum hefðu þá verið 22 býli í byggð í hreppnum að öllum hjáleigunum meðtöldum.

Viðskipti við skútusjómenn frá Hollandi, Englandi og Frakklandi á 18. öld.
„Í tíð Árna í Höfn [Árni Gíslason 1724-1809, faðir Hafnarbræðra] var mikil sigling til Austurlands af fiskiskútum frá Hollandi, Englandi og Frakklandi og víðara að; einnig af lausakaupmönnum. Átti Árni mörg skipti við þá og marga ágæta vini meðal þeirra. Einn tíma er 20 duggur lágu inni í Borgarfirði ferðaðist  Árni milli þeirra heilan dag og þá vín og aðrar veitingar. Hann kvað þá þessa vísu:

   
    „Þó hann geri þokumuggu
    það er mér engin pín.
    Við skulum róa duggu af duggu
    og drekka brennivín.“
 
(Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI. bindi Reykjavík 1986, bls. 151-152).


Móðuharðindin í Borgarfirði.
Í Sögu Brogarfjarðar eystra skrifar Ármann Halldórsson m. a. kafla um Móðuharðindin í Borgarfirði og er þar vitnað í Íslandsögu til okkar daga (útg. 1991), en þar segir meðal annars að fimmti hver Íslandingur hafi fallið úr hungri í móðuharðindunum 1783 og næstu ár. Síðan  segir Ármann Halldórsson í Sögu Borgarfjarðar eystra: „ Ekki á þetta hlutfall við Borgfirðinga, þeir eru langt undir þessu meðaltali.“ Vitnar hann í prestsþjónustubók Desjarmýrar og Njarðvíkur frá þessum tíma því til staðfestu. Síðar segir í sömu bók um orsakir hungurs í móðuharðindunum: „Hungurorsakir voru aðallega óbeinar. Askan [frá gosinu í Lakagígum] eitraði gróður og eyddi honum. Því fylgdi gripamissir  með flúoreitrun í svo stórum stíl að fólk féll. ... Aftur á móti mun þess ekki getið að fiskur eða aðrar sjávarnytjar menguðust, og var það mikilvægt á stöðum sem Borgarfirði.“
Þetta bendir til þess að fiskveiðar og sjósókn Borgfirðinga hafi á þessum tíma forðað því að margt manna félli úr hungri í Borgarfirði. (Sjá nánar í Sögu Borgarfjarðar bls. 44-46).

Nokkrar sögur af Hafnarbræðrum, Hjörleifi og Jóni, Árnasonum. 
Heimild: Sigfús Sigfússson Íslenskar þjóðsögur og Sagnir VI. bindi Rvík. 1986:

Morgunmatur Hafnarbræðra: Sjálfrunnið hákarlalýsi og hákarlsbiti.
„Næstu árin eftir Skaftáreld svonefndan,1783, varð víða bjargarþröng, sem kunnugt er. Sparði Árni þá eigi fæðuföng sín við nauðstadda og sat því sjálfur í skorti. Synir hans voru þá um tvítugsaldur og orðnir sægarpar miklir. Þá er sagt að það væri oft aðalfæða þeirra áður þeir reru að súpa sér sleif af sjálfrunnu hákarlalýsi úr lifrarköggum föður síns og taka sér hákarlsbita með. Síðan brögðuðu þeir eigi mat fyrri en heim kom. Þessa lýsisnautn juku þeir allt að hálfri mörk og er sagt að þeir neyttu þess loks eins lostugt og nýmjólk væri. Þeir þoldu manna best sult og átu manna mest þegar svo bar undir, einkanlega fiskafla, ket og nýmjólk. Þeir sóttu sjó af kappi en unnu lítið í landi. Löngum æfðu þeir aflraunir og íþróttir.“

Bjarga bröndunum eða brýna skelinni.
„ Þeir bræður stunduðu hákarlaveiðar á lagvað og öfluðu löngum vel. Einu sinni sem oftar höfðu þeir sjóhlaðið bátinn. Þegar að landi kom heyrðu menn að Jón sagði: „Hvort viltu heldur bjarga bröndunum eða brýra skelinni?“ „Bjarga þú bröndunum ,“ sagði Hjörleifur, „ég skal sjá um skelina.“ Síðan kippti Jón hákörlunum á land en Hjörleifur bar bátinn á stöfnum upp undir bakka. Er mál manna að þetta bæri oftar til.“
Hélt sporði hákarlsins í handarkrikanum.
„Annað sinn bar svo til að þeir drógu fullorðinn hákarl á  hafmiði því er heitir Tindaröst. En þeir höfðu gleymt ífærunni heima. Hjörleifur brá sporði hákarlsins í handarkrika sinn og hélt honum svo á meðan Jón reri að landi.“

Baggaburðurinn.
„Eitt vor sem oftar varð bjargarþröng í Borgarfirði svo að margir voru að þrotum komnir með matföng.  Er svo að skilja að Hjörleifur [Þorsteinsson prestur á Desjarmýri 1790-1800] væri þá  enn að Desjarmýri. Þá var eigi nær kornbjörg að fá en niðri á Reyðarfirði. Kom Borgfirðingum saman um það að leita þangað. Hafnarbræður voru þar fremstir í flokki að vanda. Segja sumir að þeir færu með hesta. En hvort sem þeir fóru  á bát eða með hesta þá rak niður snjókyngju nóttina eftir að þeir komu ofan yfir svo þeir hlutu að skilja þar eftir hestana og þeir aðrir Borgfirðingar er voru í förinni. Og eigi var fært á sjó heldur. Þeim kom saman um það að brjótast  upp yfir því bjargarlítið  var heima. Þeir bræður vildu eigi gera ónýta ferðina. Þeir lögðu þá sinn mjöltunnusekkinn hvor á bakið og bætti Jón þó við kvartili er hann bar í fyrir. Sumir segja brennuvínsandkerinu [svo]. Svo þrömmuðu þeir upp Tungudal og komu að Þuríðarstöðum og báðu um að drekka. Húsfreyja færði þeim súrmjólk í pottkönnu og rétti Jóni. Hann segir: „Þetta er ekki minn drukkur, veslingur. Áttu ekki lýsisdropa?“ „Jú,“ svaraði konan og brosti lítið er hún fór inn. Að vörmu spori kom hún með fulla könnuna af lýsi. Jón renndi hana í botn og sagði: „Þetta er minn drukkur, veslingur. Guð launi þér hann.“ Konan færði svo Hjörleifi lýsi í könnunni. Gerði hann því sömu skil og þakkaði fyrir á sama hátt. Eftir þetta segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þeir komu heim með „skjattana.“ Litlu seinna  er sagt að leiði hafi batnað svo að þeir gátu náð hestunum. Það er haft eftir Hjörleifi að hann hafi sagt svo frá að á meðan þeir slóruðu hafi hann látið sinn bagga hvíla á bæjarveggnum en Jón staðið og hallast fram á staf sinn.“
(Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI. bls.255-256).                                                                                    


Um bátafjölda Borgfirðinga og íbúafjölda í hreppnum á árunum 1806 til 1815.
Varðveittar eru í Héraðsskjalasafni Austfirðinga yfirlitsskrár yfir fólksfjölda og fjölda báta og
ýmsar fleiri upplýingar úr hreppum Norður-Múlasýslu. Þar eru athyglisverðar upplýsingar um bátaeign Borgfirðinga, fólksfjölda í hreppnum og fleira árin 1806, 1809-1812 og 1815. Er þar m. a. hægt að sjá hvaða bæir og hvaða bændur áttu báta á þessum árum nema árið 1806. Í yfirlitsskránni er bátunum skipt niður í þrjá flokka, 8-10 manna för, 4-6 manna för og svo minni bátar. Allir þeir bátar sem skráðir eru í Borgarfjarðarhreppi umrædd ár voru  4-6 manna för.

Hér kemur tafla yfir íbúafjölda og fjölda báta í Borgarfjarðarhrepp á fyrrnefndum árum unnin upp úr skjölum í Héraðsskjalasafninu (Sjá skjöl í  NMúl – 5-5 og NMúl- 5-6):Fjöldi íbúa og báta í Borgarfjarðarhreppi 1806 til 1815.
Ártöl:    1806    1809      1810    1811    1812    1815
Íbúar      155      154      157       181      164      168
Bátar          8           9       10          7          9          6   

Bæir þar sem bændur áttu báta:
Ártöl:               1806    1810    1811    1812    1815   
Bæjanöfn:               
Njarðvík                  2        1    2   
Snotrunes                  2     1    1    1   
Geitavík/Gautavík              1        1    1       
Bakki                      1    1    1    1   
Desjarmýri                  1       
Höfn                      1    1    1    1   
Brúnavík                  1        1   
Breiðavík                  1    1    1   
Húsavík                  1    1    1    1   
Hólshús                    1               
                       ___________________________________________
Samtals bátar     6        10          7          9          6   

Eins og sést af þessum tölum er bátafjöldi nokkuð mismunandi milli ára, fer hæst í 10 báta 1810 en er kominn niður í 6 báta 1815. Öll árin sem tölurnar ná yfir eiga bændur á Snotrunesi, Bakka, Höfn og Húsavík bát og á Snotrunesi eru 2 bátar 1810. Í Njarðvík eru 2 bátar bæði 1810 og 1815 og einn bátur 1812, en enginn skráður þar 1811.
Þessar tölur um bátaeign styðja það sem sagt hefur verið hér að framan að sjósókn hafi gegnum aldirnar verið stunduð meira og minna frá öllum jörðum sem áttu land að sjó í Borgarfirði.  Athygli vekur þó að á þessum árum var enginn bátur skráður á Hofströnd.
Fjöldi íbúa í hreppnum á þessum árum var á bilinu 154-168 manns ef undan er skilið árið 1811, þá er 181 íbúi skráður í hreppnum og fjölgar þeim um 24 frá árinu áður. Þess má geta til, að þetta hafi tengst eitthvað góðum fiskafla og því að fjöldi báta var mestur næsta ár á undan eða 10 bátar.
Til samanburðar má nefna að íbúar í Borgarfjarðarhreppi voru  298 við manntal 1845 og er þá búið í nær öllum víkur sunnan Borgarfjarðar, en Bakkagerði ekki nefnt. Árið 1860 hefur íbúum hreppsins fjölgað og eru samkvæmt manntali það ár 355 að íbúum í öllum víkunum meðtölum.

Samanburður á bátaeign á öðrum stöðum í Norður-Múlasýslu árið 1810.
Til samanburðar við aðra staði í Norður-Múlasýslu hvað bátaeign snerti  má taka árið 1810 en þá eru 10 bátar á Borgarfirði. Þetta ár eru 13 bátar á Seyðisfirði allt 4- 6 manna för, 11 bátar á Vopnafirði, þar af einn 8- 10 manna far, 6  fjögura til sex manna för og 4 minni bátar. Á Bakkafirði voru þá 7 bátar þar af einn minni en fjögurra manna og í Loðmundarfirði voru þá 7 bátar þar af 3 minni en fjögurra manna. (Sjá skjöl í Héraðsskalasafni Austfirðinga,  NMúl-5-6).
Sjósókn frá Njarðvík.
Eins og fram kemur í töflunni hér að framan voru gerðir úr 2 bátar frá Njarðvík bæði árið 1810 og 1815 og einn bátur 1812, svo sjósókn virðist hafa verið stunduð þaðan af kappi á þessum árum.
Í Sveitir og jarðir í Múlaþingi II. bindi bls. 370 segir að útræði sé slæmt í Njarðvík, en það hefur greinilega ekki aftrað mönnum að stunda sjósókn þaðan.
Árið 1904 stofnaði Björn Þorkelsson frá Njarðvík býlið Króksbakka sunnan Njarðvíkurár undir Hádegisfjalli. Síðar segir í sömu heimild  bls. 373: „Oftast var skást að lenda ,í Króknum‘.“ ,en það mun vera í víkurkróknum þar sem sandurinn fyrir botni Njarðvíkur endar skammt þaðan sem Króksbakki stóð. Ennfremur segir í umfjöllun um Króksbakka í sama riti bls. 373-374: „ Sjóróðrar: Helgi Björnsson átti lengst af árabát og stundaði dálítið sjó, þegar fiskur gekk á grunnslóðir. Fyrrum var sjór kappsamlega stundaður í Njarðvík, eftir því sem aðstæður leyfðu og hélt Helgi lengst þeirri venju.“ Helgi Björnsson bjó á Króksbakka frá 1917 til dauðadags 1936.

Hjörleifur Árnason frá Höfn bjó nokkur ár á Desjarmýri.
Séra Hjörleifur Þosteinsson fékk veitingu fyrir Desjarmýrarprestakalli árið 1790. Hann sat á Bakka frá 1790-1800. Það sat því ekki prestur á Desjarmýri í tíð séra Hjörleifs. Þess má geta að á árabilinu frá 1798 til 1801 býr nafni hans, Hjörleifur Árnason, annar þeirra Hafnarbræðra á Desjarmýri. Hann er síðast skráður á Desjarmýri í manntalinu 1801 og titlaður „bonde af jordbrug og fiskerie.“  Hann hefur trúlega átt bát þann tíma sem hann var á Desjarmýri enda hinn mesti sægarpur ef marka má sagnir um hann.
Vorið 1800 fær séra Einar Jónsson veitingu fyrir Desjarmýri, en virðist  ekki hafa komið þangað fyrr seinni hluta næsta árs 1801. Í manntalinu fyrir 1801, sem Einar Jónsson undirritar í apríl 1802, er  Hjörleifur Árnason skráður bóndi á Desjarmýri 1801, en í Húsvitjunarbók Desjarmýrarsóknar fyrir þetta sama ár, 1801, sem skráð er í nóvember það ár, er Hjörleifur farinn frá Desjarmýri að Bakka, en séra Einar Jónsson sestur að á Desjarmýri.                                                                 

Bátur gerður út frá Desjarmýri.
Það vekur athygli að einn bátur er skráður á Desjarmýri 1811. Einar Jónsson er prestur á Desjarmýri frá 1800 til dauðadags haustið 1811, svo hann gæti hafa átt bát og gert hann út.
Sóknarmannatal Desjarmýrarprestakalls frá 1811 til 1827 er glatað. Ekki er því vitað með vissu hver bjó á Desjarmýri frá því séra Einar deyr í september 1811 og þar til séra Engilbert Þórðarson tekur við prestakallinu haustið 1813. Í Prestatali og prófasta Reykjavík 1949  kemur fram að Jón Einarsson, sem verið hafði prestur að Hálsi í Hamarsfirði hafi fengið veitingu fyrir Desjarmýri 18. mars 1812, en margt bendir til að hann hafi aldrei komið þangað heldur farið annað og í athugasemd í Prestatali og prófasta Reykjavík 1949 segir, að hann hafi flosnað upp frá Hálsi 1812, en þetta verður ekki rakið hér frekar hér.

Erfið hafnaraðstaða.
Eins og kunnugt er hefur hafnleysi löngum háð sjómönnum á Borgarfirði,enda er fjörðurinn frekar stuttur og liggur fjarðarmynnið fyrir opnu hafi. Þar var því hvergi gott skjól fyrir báta og lendingar oft erfiðar. Allt frá fyrstu tíð máttu bátar á Borgarfirði því ekki vera stærri eða þyngri en svo að hægt væri að taka þá á land er komið var af sjó, og setja þá aftur á flot, er menn fóru aftur á sjónn. Í því sambandi má benda á að á árunum 1810 -1815 voru t.d. allir bátar Borgfirðinga 4- 6 manna för en enginn stærri bátur sbr. töflu yfir bátaeign Borgfirðinga á þessum árum og skýringar við hana hér að framan.


Bátstapi 1858.
Bátur frá Borgarfirði fórst 24. apríl 1858 og þrír menn létust úr sjókulda. Það voru þeir Halldór Benediktsson bóndi á Hofströnd 43 ára, Guðmundur Ólafsson bóndi í Höfn 43 ára og Björn Guðmundsson  vinnumaður í Höfn 43 ára.
Þrjár frásagnir virðast vera til um þennan atburð og ber þeim ekki saman að öllu leyti. Árni Halldórsson lögfræðingur birtir grein um þennan atburð í Múlaþingi 15. hefti 1987 bls. 96-99 undir nafninu „Að kunna að þegja.“ Þar birtir hann frásögn séra Sigurðar Gunnarssonar sem  birtist í Norðanfara 31. júlí 1858 og einnig frásögn Magnúsar Þorsteinssonar bónda  í Höfn af sama atburði er Þorsteinn ritaði að beiðni Árna. Í frásögn Magnúsar kemur fram að fjórði maðurinn á bátnum, Snjólfur  er síðar bjó á Þrándarstöðum, hafi komist lífs af. Árni gerir í greininni nánari grein fyrir þeim sem voru á bátnum og vísar í Prestsþjónustubók Desjarmýrar. Þessi atburður verður ekki rakinn hér en auk framangreindra heimilda má nefna  að Halldór Pétursson frá Geirastöðum hefur skrifað frásögn af þessu slysi undir fyrirsögninni „Bátstapi“, sem til er í handriti á Héraðsskjalasafni Austfirðinga (A6-34,3).

Bréf frá Jóni forseta.
Þorsteinn Mangússon eldri í Höfn hefur verið í bréfasambandi við Jón Sigurðsson forseta í Kaupmannahöfn, a. m. k er varðveitt eitt bréf frá Jóni til Þorsteins í Héraðsskjalasafni Austfirðinga (A6-185-16). Hér er birt afrit af hluta þessa bréfs, en í síðari hluta þess er skriftin mjög máð og nær ólæslileg svo ekki er unnt að birta þann hluta þess.

Í janúar – 1879

Þorsteinn minn.

Guð gefi þér gleðilegt nýtt ár!
Ástar þökk fyrir mig – ekki meira um það – hvernig lýst þér á blikurnar núna – nú er komin hláka – ætli brýrnar léttist ekki á búendum – margt er nú um að ræða –  leifði tíminn – hvernig lýst þér á stefnu ungu kynslóðarinnar – hvort hleypur hún í sömu átt og Vesturheims búar til auðs og velsældar. Þangað liggur samtöl og breytni manna – eg fer þangað sem ég hef flestar krásir – hvernig sem ásigkomulag er á heimilum (?) að öðru leyti -      já svona er þetta.
Nú er   ................   .....           í Vesturheimi – skildi hann ei koma víðar – þörf er á að þjóðirnar vakni til að hugur vor ....“

Harðinda- og hafísár.
Á síðari hluta 19. aldar var veðrátta  oft köld og þá komu allmörg  harðindaár þar sem hafís rak upp að landi einkum norðan lands.  Á Borgarfirði eystra voru mikil harðindi nær öll árin frá 1880-1892 eins og rakið er í grein Eyjólfs Hannessonar Borgarfirði: (Eyjólfur Hannesson: Harðindabálkur úr Borgarfirði. Múlaþing 6. hefti 1971 s. 139-147).

Fjörðurinn fullur af ís. Færeyingar finna dauðan hval.
Í fyrrnefndri grein Eyjólfs Hannessonar  segir m. a. um árið 1881:
„Um áramótin héldust dimmviðri og grimmdir látlaust í þrjár vikur. 16. janúar var 16 gráða frost. Þá var fjörðurinn lagður manngengum ís. Fyrsta þorradag var hafís kominn svo mikill að ekki sá útyfir.“  Þrátt fyrir þessi harðindi og mikla erfiðleika við heyöflun vegna kulda og óhagstæðrar veðráttu segir þar að fiskafli hafi verð sæmilegur.  Síðan segir: „ Hausttíðin var umhleypingasöm og veturinn eins til nýárs....Færeyingar sem voru hér að fiska frá skipi sínu fundu dauðan hval. Borgfirðingar fengu 2/3 af honum í skurðarlaun.“

Nokkur orð um verslun Borgfirðinga á árunum 1880-1894.
„Um 1880 fóru stærri verslanir á Seyðisfirði svo sem Gránufélagsverslun og síðar verslun V.T.Thostrup, að láta skútur eða verslunarskip sín ganga til Borgarfjarðar í sumarkauptíðinni, er fluttu útlendar vörur,sem pantaðar höfðu verið og tóku aftur innlendar vörur svo sem ull, fisk og lýsi. Stóðu skip þessi venjulega stutt við á Borgarfirði, aðeins fáa daga, og var ávalt einhver verslunarfulltrúi  sendur með þeim til að sjá um innkaup og annast afgreiðslu á vörunni. Þótti Borgfirðingum að þessu mikil hagsbót frá því sem áður var.
Um eða litlu fyrir 1890 fóru svonefndir spekúlantar að koma til Borgarfjarðar frá ýmsum verslunum á Seyðisfirði, er keyptu og seldu vörur um borð.
Útlend fiskiskip komu hingað að jafnaði allmörg þegar leið á stekkjartíma, einkum franskar duggur og enskir kútterar þegar leið á júlímánuð. Höfðu bændur alltaf einhver vöruskipti við þá , fengu hjá þeim brauð,kartöflur, salt og veiðarfæri en létu í staðinn kindur, kálfa, prjónles og fleira. Létu menn einkum vel af viðskiptum við Frakka.“
(Framanskráður kafli er tekinn úr handriti séra Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar á Desjarmýri, sem er í vörslu undirritaðs).

Skútuna Andrés frá Mandal rak á land.
Harðindin héldu áfram næstu árin að undanskyldu árinu 1884, sem  „var talið gott og hagstætt ár.“ eins og segir í títnefndri grein Eyjólfs Hannessonar. Í frásögn af árinu 1882 er í sömu heimild m. a sagt frá skipsstrandi:
„2. október [1883] rak á land skútuna Andrés frá Mandal [í Noregi]. Mannbjörg varð. 4.-18. október var ágætur fiskafli þá hægt var að róa.“ (Eyjólfur Hannesson: Harðindabálkur úr Borgarfirði 1880-1892. Múlaþing 6. hefti 1971).

Ingiborgarstrandið 1888.
Harðindin héldu áfram og árið 1888  varð vart við hafís við Norðurland þegar í janúarmánuði og um páskana rak hann inn  á firði norðan og  austanlands.
Í bókinni Geymdar stundir I. bindi útg. 1981, bls. 78-86, skrifar Sigurður Óskar Pálsson grein um það þegar skipið Ingeborg  strandaði á Borgarfirði árið 1888 og fleira því tengt. Þar segir hann meðal annars:
„ Af hafísnum stöfuðu sífelldir kuldar og næðingar, stundum með fjúki og  illviðrum. Nyrðra og eystra kom gróður mjög seint eins og nærri má geta, og grasvöxtur varð  lítill.  Af þessu urðu bjargræðis-vandræði nyrðra og eystra svo sem að líkum lætur. Var matarskortur mikill og sá á fólki af harðréttinu, þótt um beinan hungurdauða yrði ekki að ræða í það sinn.
Þá gerist það dag einn síðari hluta vetrar þetta ár, að fyrir Borgfirðinga ber harla  óvenjulega sjón, sem sé þá, að stórt kaupfar siglir inn á fjörðinn í stinnings- norðaustankalda.  Þá var á Borgarfirði enn engin verslun en aðallega sótt á Seyðisfjörð en þar áður á Eskifjörð og Vopnafjörð.
Eitthvað er nú samt bogið við siglingu þessa skips. Furðulega er það lágt í sjónum. Það varpar heldur ekki akkerum er inn á fjörðinn kemur, heldur sígur jafnt og þétt nær og nær landi.   Ætlar skipið að sigla í strand? Sú er raunin. Það nemur ekki staðar fyrr en það stendur á grynningum í fjarðarbotni, fyrir utan þar sem nú er neðsti hluti Bakkagerðisþorps.
Í ljós kemur, að hér er á ferðinni eitt af Íslandskaupförunum. Heitir Ingeborg upp á dönsku,...  
Skipið  er að koma frá Danmörku hlaðið vörum, hafði lent í hrakningum í ís og komið að því leki. ... Það er óhætt að fullyrða, að betri sendingu hefðu Borgfirðingar ekki getað fengið eins og á stóð.“
Rúgur laus, annað korn í sekkjum.
Í grein Eyjólfs Hannessonar , sem vitnað var til hér að framan er sagt aðeins nánar frá því hvað var í skipinu Ingeborg  þegar það strandaði og fleiru í því sambandi. Tilvitnun hefst:
„Sigldi skútan fyrir fullum seglum beint upp að klöppunum  út af Svínalækjarósi...
Skipið var að heita mátti ein lest stafna á milli. Rúgur laus  og sykurtoppum stunið ofan í, annað korn í sekkjum. Fljótlega hækkaði sjór í skútunni. Þó náðist  nokkuð af matvöru óskemmt og álnavara. Miklu af blautu korni var skipað upp og sett í hauga í fjörunni. Varð þetta til bjargar skepnum hér og víða í grennd, því víða var orðið bjargarlítið fyrir menn og skepnur. Hafísinn var mikið laus og á reki til og frá. Komu bátar bæði sunnan af Fjörðum  og norðan frá Vopnafirði og Bakkafirði. Sagt var að troðnar slóðir hefðu verið  um öll skörð sem fær voru milli Borgarfjarðar og nærsveita. Hafði frétt um strandið borizt sem hvalsaga á ótrúlega skömmum tíma. Var talið að hér hefði verið saman komið um 1000 aðkomumanna suma uppboðsdagana.
Þá var hér við sjóinn engin byggð, nema einn lítill kotbær, Bakkagerði. Næsti bær var Bakki skammt upp frá sjónum.“
Selir drepnir á hafísnum.
Enda þótt harðindaár væru Borgfirðingum erfið eins og   öðrum landsmönnum og stundum  matarskortur ekki síst  þegar hafís lág við land eða inni á fjörðum, gat þó komið fyrir að með ísnum bærist velþeginn matbjörg. Sem dæmi um það má nefna að vorið 1891 voru                                                                                                            drepnir 400 selir á ís á Borgarfirði eystra. Stóð sú veiði yfir í 8-9 daga. Var nokkuð af þeim feng flutt upp á Hérað. ( Úr frásögn Árna Steinssonar Borgarfirði eystra, sem birtist í Syrpa Halldórs Péturssonar útg. Reykjavík 1955).

Upphaf fastrar verslunar á Borgarfirði.
„Fyrstu drög til verslunar hér á Borgarfirði voru þau, að um jólin 1891 kom Gísli Hjálmarsson [frá Brekku í Mjóafirði] hingað landveg frá Norðfirði og hafði Einar Jónsson frá Hvannstóði fyrir fylgdarmann. Gistu þeir í Höfn hjá Þorsteini Magnússyni  en voru við Desjarmýrarkirkju á jóladag. Eftir messu átti Gísli tal við bændur um það hvort þeir vildu skifta við sig, ef hann setti upp verslun hér á Borgarfirði. Fékk hann hinar bestu undirtektir með það, og hélt  heimleiðis eftir jólin. Á útmánuðum þennan sama vetur lét Gísli grafa fyrir kjallara að verslunarhúsi og hlaða hann upp, þar sem Rauðiskúrinn var síðar reistur skammt frá Voginum neðst í Bakkagerðisþorpi. En ekkert timbur kom það vor né heldur næsta vor og ekkert gerðist í þessu verlunarmáli fyrr en vorið 1894. Kom þá Þorsteinn Jónsson, síðar nefndur borgari, hingað róandi frá Norðfirði við annan mann, Ólaf Gíslason, og ráðskonu. Eftir að þeir félagar höfðu fengið sér hressingu og hvílt sig lítið eitt eftir róðurinn fór Þorsteinn í göngutúr meðfram sjónum til að kynna sér alla staðháttu. Voru nokkrir Borgfirðingar í fylgd með honum og spurðu hann, hvort honum litist ekki vel á plássið og sveitina, því veður var hið fegursta og hiti mikill. En hann gaf lítið út á það fyrr en hann settist niður á kjallaragrunninn sveittur og móður af göngunni. Varð honum þá þetta að orði: „Gott má það vera, en ekki líst mér á það.“
Um vorið byggði hann fyrsta verslunarhúsið hér á kjallaragrunninum, sem hann hafði þá keypt af Gísla Hjálmarssyni. Setti hann hér upp verslun í Rauðaskúr og rak hana til ársins 1907, að hann seldi hana Thor E. Thulinius stórkaupmanni í Kaupmannahöfn og fluttist héðan til Seyðisfjarðar.
Flest árin sem Þorsteinn verslaði hér var Eiríkur Sigfússon, tengdasonur Sigurðar Jónssonar frá Gautlöndum,  verslunarstjóri hans, utan árin 1899-1901 sem Sveinn Ólafsson síðar alþingismaður í Firði í Mjóafirði var verslunarstjóri  við verslun hans. Þosteinn Jónsson var athafnamaður mikill og áhugasamur um framfaramál sveitarinnar. Rak hann útgerð hér öll sumurin sem hann hafði verslun á Borgarfirði. Fyrsta sumarið gerði hann út 3 báta og voru Ólafur Gíslason frá Norðfirði og Magnús Sigurðsson frá Fossi formenn á tveimur þeirra. ...“

(Kaflinn hér á undan er tekinn úr óprentuðu handriti séra Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar á Desjarmýri í tilefni af 50  ára afmælis Bakkagerðisþorps, en handritið er í vörslu undirritaðs. Þar segir nokkru nánar frá upphafi fastrar verslunar á Borgarfirði en í Sögu Borgarfjarðar eystra).

Bakkagerði fær löggildingu sem verslunarstaður -  mikill kraftur er í útgerð.
 Bakkagerði fékk löggildingu sem verslunarstaður árið 1895.  Árið áður, 1894, hóf Þorsteinn Jónsson, oft kallaður borgari, verslun á Bakkagerði og rak þar verslun til 1907. „Þorsteinn var eini kaupmaðurinn á Borgarfirði frá 1894-1897. Hann gerðist fljótlega nokkuð umsvifamikill  bæði í verslun og útgerð.
„Auk verslunar  á Borgarfirði hafði Þorsteinn  verslun á Krosshöfða við Selfljótsós við Héraðsflóa  á árunum 1904-1907.“ (Sigurður Óskar Pálsson: Upphaf verslunar á Krosshöfða). Þegar „árið 1894 hóf Þorsteinn útgerð á 4 bátum. Einn Borgfirðingur gerði út jafnmargar báta, Þorsteinn Magnússon í Höfn. Alls voru gerðir út bátar frá 13 af 25 bæjum... Þorsteinn Jónsson gerði yfirleitt út 4-5 báta fram til ársins 1905...  Sumarið 1896 lét Þorsteinn hlaða upp grjótbryggju á Bakkagerði og lét ,cementera‘ hana.... Þessi bryggja var kölluð Vogsbryggja. Lending við hana var alla tíð fremur slæm en hún var þó notuð fram yfir 1950...  Eins og fyrr segir gerði Þorsteinn yfirleitt út 4-5 báta. Á þá réði hann aðallega sunnlennska sjómenn, auk Færeyinga, þar sem erfitt var að fá vinnumenn á heimaslóðum.“ (Saga Borgarfjarðar eystra bls. 94- 98).
 Af framansögðu má sjá hve mikill kraftur og gróska var í útgerð á Borgarfirði á þessum tíma og   þetta undirstrikar það sem áður er minnst á, að bændur á landjörðum í Borgarfirði hafa eflaust stundað sjómennsku meira  og minna á liðnum öldum.
Þess má geta varðandi árið 1895, þegar Bakkagerði fékk löggildingu sem verlsunarstaður, að: „Byggð var þá engin önnur á Bakkagerði  en gamli Bakkagerðisbærinn er stóð ofan við Svínalækinn, þar sem steypubrúin á honum er nú.“ (Úr handriti Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar á Desjarmýri, en það er hjá undirituðum).

Verslun Bjarna Þorsteinssonar.
Bjarni Þorsteinsson, sonur Þorsteins Magnúsonar í Höfn, stofnaði verslun á Bakkagerði 1897 í félagi við nokkra aðra. Verslun hans gekk ekki vel og var hún gerð upp árið 1899. Hann fluttist ári síðar til  Vopnafjarðar og þaðan til Ameríku 1903. Bjarni byggði svonefnt Eyrarhús á Bakkaeyri, sem var myndarlegt verslunarhús á þeim tíma. Þorsteinn Jónsson  borgari keypti Eyrarhúsið og flutti verslun sína þangað 1901 og síðar eignaðist Kaupfélag Borgarfjarðar húsið. Hefur verið verslað í þessu húsi óslitið frá því Bjarni hóf þar verslun sína 1897.
Bjarni hafði lært ljósmyndun í Kaupmannahöfn og tók talsvert af ljósmyndum bæði á Borgarfirði og Vopnafirði. Í Ljósmyndasafni Austurlands, sem varðveitt er á Héraðsskalasafni Austfirðinga eru skráðrar hátt í 70 mannamyndir, sem hann hefur tekið,  þar sem þeir sem eru á myndunum eru þekktir og nokkuð er til hér af óþekkum myndum sem hann hefur tekið. Ljósmyndir eftir hann munu einnig vera til á fleiri ljósmyndasfönum hér á landi og trúlega hjá allmörgum einstaklingum.

Verslun einstaklinga annarra en Þorsteins og Bjarna.
„Árið 1897 greiddu þrír kaupmenn útsvar á Borgarfirði, auk Þorsteins borgara. Það var áðurnefndur Bjarni, Eiríkur Sigfússon og Jón Lúðvíksson.“ (Magnús H. Helgason: Saga Borgarfjarðar eystra, bls. 96-97). Frá því í byrjun 20. aldar og fram til 1924 stunduðu nokkrir einstaklingar einhvern verslunarrekstur á Borgarfirði, flestir  þó aðeins stuttan tíma, oftast fáein ár eða jafnvel skemur. Sú saga verður ekki rakin hér, en benda má á Sögu Borgarfjarðar eystra, þar sem sagt er nánar frá verslunarrekstri einstaklinga á Borgarfirði á þessum tíma.

Selstöðuverslanir á Borgarfirði.
„Frá 1907- 1925 var hér Selstöðuverslun...“, (Sveitir og jarðir... bls. 362), en það voru verslanir í eigu manna sem búsettir voru erlendis. Það var fyrst verslun Thors E. Tuliniusar frá 1907-1912 og síðan Hinar sameinuðu verslanir hf. frá 1912-1926.    Kaupfélag var svo stofnað á Borgarfriði 1918 eins og vikið er að hér síðar.

Norðmannasumarið 1905.
„Sumarið 1905 reyndist örlagasumar í öllum atvinnurekstri Þorsteins.  Ári áður hafði hann veðsett allar húseignir sínar Thor E. Túliníusi sem hafði m.a. verslun á Seyðisfirði, auk hluta úr íshúsi því sem hann hafði látið reisa í byrjun aldarinnar, og 9 hundruð úr landi Bakkagerðis (Sbr. Þinglýsingarskjöl)
Veturinn 1904-1905 tók Þorsteinn mikilvæga ákvörðun og lagði þá í raun allan atvinnurekstur sinn undir.“ Hann fór til Lofóten í Noregi og hugðist ráða til sín 75 bátshafnir eða um 250 manns til þess að stunda fiskveiðar við Austurland þá um sumarið. ... Þorsteinn leigði gufuskip til að flytja Norðmennina til Íslands.“ (Saga Borgarfjarðar eystra bls. 99). Ekki gat hann þó ráðið jafnmarga Norðmenn og hann ætlaði, þó fjöldinn væri mikill, en mennirnir voru ráðnir upp á hlut. Þetta sumar gerði Þorsteinn út 45 báta frá Borgarfirði og 23 báta frá Seyðisfirði. „ Alls hafði hann 76 Norðmenn á Borgarfirði þetta sumar ... Á Borgarfirði fiskaðist lítið þetta sumar og höfðu Norðmennirnir ekki fyrir úttekt og uppihaldi á staðnum.“ (Saga Borgarfjarðar eystra bls. 99-100). Síðar var þetta sumar kallað Norðmannasumarið.

Úr frásögn séra Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar um Norðmannasumarið.
Í handriti séra Vigfúsar Ingvarssonar sem er í vörslu undirritaðs er sagt öllu nákvæmar frá sumum atriðum frá Norðmanna sumrinu og verður hér vitnað stuttlega í frásögn hans:
„Árið 1904 eða 1905 réði Þorsteinn Jónsson borgari, sem þá var kaupmaður hér á Borgarfirði um 70 Norðmenn hingað til að stunda róðra á sumarvertíð á Borgarfirði. Komu þeir hingað með kolaskipi og   höfðu báta sína með sér. En það sumar var afli mjög tregur á Borgarfirði og gekk útgerðin því ekki vel, svo Þorsteini veitti erfitt að gera upp við Norðmennina um haustið.“

Skipsstrand í Sæluvogi 1905.
Í bréfabók hreppstjóra Borgarfjarðarhrepps 1898-1915 er sagt frá því þegar skip strandaði í Sæluvognum undir Hafnarbjargi 1905. Þar segir hreppstjórinn Hannes Sigurðsson m.a. í bréf til sýslumanns:
Gilsárvallahjáleigu 30. September 1905.
Mánudaginn 25. þ.m. kl. 10 f.m. var mér tilkynnt að fiskiskipið Seyðfirðingur, eign pöntunarstjóra, Jóns Stefánssonar, væri sokkið upp í svo kölluðum Sæluvog, sem er utan undir Hafnarbjargi.....
Ég fékk mér strax menn og fór þangað sem skipið var, kom þangað kl. 2 e. m. Þá sást aðeins á masturstoppana á því upp úr sjónum. Upp úr skipinu hafði flotið dálítið af ýmsu dóti sem við björguðum. Síðan hefur töluvert af spýtnarusli, seglaræflum og köðlum rekið upp á Sæluvogsfjöruna, og var ég að bjarga því undan sjó í dag...“ Hreppstjórinn segir síðan að ekki sé hægt að flytja það sem náðst hafi úr skipinu á örguggan stað, ef stórbrim geri, fyrr en brimið minnki, en landveg komist ekki í fjöruna nema fuglinn fljúgandi. Þegar veður og sjólag batnaði lét hreppstjórinn flytja það sem bjargaðist úr skipinu „inn í Hellisfjöru fyrir neðan Höfn og seldi það þar.“
(Bor 6-7: Borgarfjarðarhreppur. Bréfabók [hreppstjóra] 1898-1915). 

Mótorbáturinn Henný strandar í Drumbafjöru 1909.
Þann 14. september 1909 tilkynnir hreppstjóri Borgarfjarðarhrepps með bréfi til sýslumanns
strand mótorbátsins Hennýjar, þar segir m. a.: ... „ í morgun kl. 7 strandaði hér í svokallaðri Drumbsfjöru fyrir utan Höfn mótorbáturinn Henný frá Norðfirði eign Gísla Hjálmarssonar. Ég kom að strandi þessu kl. 10 f. m. og var þá vatnið um ¾ alin í vélrúmminu og lestinni. Skipstjóri, Ólafur Ólafsson, tjáir mér að í skipinu muni vera um 30 tonn af salti, 9 skp. [skippund] af fiski og um 1 tunna síld svo og töluvert af veiðarfærum.... Skipverjar óska að húsbóndi þeirra, Gísli Hjálmarsson, gjöri sem fyrst ráðstöfun til þess að þeir verði sóttir. 

Virðingarfyllst,
Hannes Sigurðsson.“

(Bor 6-7: Borgarfjarðarhreppur. Bréfabók [hreppstjóra] 1898-1915).


Gufuskipið Reidar strandar í Hellisfjöru sumarið 1909.
Í bréfi til sýslumanns segir Hannes Sigurðsson hreppstjóri meðal annars:

„Bakkagerði, 2. Október 1909.

..... í dag um kl.  2 strandaði í Hellisfjöru fyrir innan Höfn gufuskipið Reidar frá Eskifirði eign Carl D. Thulinius ept. sögn kapteinsins Z. C. Olsen.  Á skipinu voru alls 7 menn sem allir björguðust í land hér um bil allslausir. Eftir sögn kafteins á að vera í skipinu ca. 30 tonn af kolum sem hingað átti að fara (og um 20 tonn skipskol), 10 föt steinolíu, ca. 100 tunnur með salt og um 50 tunnur tómar... því miður verður líklega litlu bjargað ef þetta veður og brim sem nú er helst lengi, því nú þegar er skipið farið að brotna...“

Íbúafjöldi á Borgarfirði á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar.
Athyglisvert er að skoða  tölur um mannfjölda í Borgarfjarðarhreppi upp úr aldamótunum 1900 og næstu áratugina þar á eftir, sem m. a. má lesa um í ritinu Saga Borgarfjarðar eystra.
Þar segir m. a. : „Árið 1901 voru íbúar Bakkagerðiskauptúns 82 en alls voru hreppsbúar þá 398. Fólksfækkun varð veruleg næstu ár og árið 1905 hafði íbúum fækkað um tæplega hundrað manns frá aldamótum. ... Á næstu árum fjölgaði hreppsbúum verulega. ... Aldrei hefur orðið jafnmikil hlutfallsleg fjölgun íbúa í Borgarfjarðarheppi og á tímabilinu 1905-10. Alls fjölgaði þeim úr 309 árið 1905 í 432 árið 1910. ... Frá árinu 1906 fram til 1915 var mikill uppgangur á Borgarfirði, m. a. vegna góðs fiskafla. Það sést á því að árið 1915 voru íbúar kauptúnsins orðnir fleiri en þeir sem bjuggu í sveit innan hreppsins. Þá hafa aldrei búið fleiri í hreppnum en þetta ár eða 448 manns. Á Bakkagerði bjuggu flestir 1918 eða 239.“
(Saga Borfarfjarðar eystra: Tilvitnanir úr kaflanum Atvinna, verslun og almenn hreppsmál. Fyrri hluta eftir Magnús H. Helgason, bls. 89).

Fjöldi báta á Borgarfirði 1895-1905.
Í kafla um útgerð í Borgarfjarðarhreppi 1900-1950 og töflu yfir fjölda báta og skipverja í Borgarfjarðarhreppi 1895-1940, sem birt er í bókinni Saga Borgarfjarðar eystra má m. a. sjá þær  breytingar sem verða á bátaflotnum á þessu tímabili bæði hvað varðar fjölda báta og hvernig vélbátar taka smám saman við af árabátum á síðari hluta þessa tímabils.   Þar kemur fram að frá 1895 og fram undir lok þriðja áratugs 20. aldar voru árabátar og þá aðallega tvíæringar, meginuppistaða í útgerð í hreppnum. Frá 1895-1904 var fjöldi báta sem gerður var út mjög mismunandi frá ári til árs eða á bilinu 16 til 33 bátar. Norðmannasumarið 1905 sker sig mjög úr hvað fjölda báta snertir, en þá voru gerðir út 79 árabátar, tveggja manna för, samkvæmt skýrslubókum hreppstjóra, en stuttlega var fjallað um Norðmannasumarið hér að framan.
Fjöldi báta 1895-1940 og íbúa til 1950.
Hér fyrir neðan má lesa upplýsingar úr töflu í bókinni Sögu Borgarfjarðar eystra um fjölda báta í Borgarfirði og fleira 1895-1940, þó taflan sé ekki birt í heild. Hér er sleppt tölum um        fjölda skipverja tilgreind ár frá 1915-1940, en þess í stað er bætt við töfluna tölum um fjölda íbúa í hreppum frá 1895 til 1950, sem að hluta eru fengnar úr töflu í fyrrnefndri bók bls. 90:

Fjöldi báta í Borgarfjarðarhreppi 1895-1940 og íbúafjöldi tilgreind ár til 1950.
Ár                         Árabátar                                                       Vélbátar     Fjöldi íbúa
                      2ja manna för             4 manna för
1895            (19)                            339
1900            (24)            3                398 (árið 1901)
1905            (79) 56                            309
1910            (27) 31                            332
1915            (27) 27                    1        448
1920              (9) 11            (2)                407       
1925                    21                     1        403
1930                                3        325
1935                      2                    3        298
1940                                          12        316
1945                                        291
1950                                        288
Heimildir: Í svigum eru tölur úr Skýrslubókum hreppstjóra. Landshagsskýrslur 1905-1910.
Fjöldi íbúa 1895 er fenginn úr Sóknarmannatali yfir það ár í Njarðvíkur-, Desjarmýrar- og Húsavíkursóknum.

Nokkur orð um útgerð á Borgarfirði 1900- 1950.
 Árabátar voru aðaluppstaðan í útgerð á Borgarfirði fram undir 1930. Þó hófst vélbátaútgerð þar þegar árið 1906, en í smáum stíl. Gekk útgerð vélbátanna ekki vel á Borgarfirði framan af. Fyrsti vélbáturinn sem gerður var út frá Borgarfirði hét Naddi og var hann í eigu Helga Björssonar. Báturinn var 5-6 tonn og áhöfnin fjórir menn. Nadda var siglt til Seyðisfjarðar til að sækja vörur, en nóttina áður en haldið skyldi aftur til Borgarfjaðar gerði hvassviðri og var báturinn horfinn um morguninn.  „Fjórir fyrstu vélbátarnir sem gerðir voru út frá Borgarfirði, fórust með svituðum hætti og Naddi. Þeir losnuðu frá  bryggju og brotnuðu eða sukku. Eina sjóslysið sem af hlaust mannskaði var þegar vélbáturinn Óðinn fóst. Óðinn var 5-6 tonna bátur með fjörgra manna áhöfn.“
(Magnús H. Helgason:Saga Borgarfjarðar eystra 1995, bls. 124).

„Svo virðist sem vélbátaútgerð hafi að nokkru lagst af á Borgarfirði skömmu fyrir 1920. Um miðjan þriðja áratuginn er síðan skráður einn vélbátur og 21 tveggja manna far í hreppnum. Upp úr því lagðist árabátaútgerð smám saman af en vélbátum fjölgaði og árið 1940 höfðu orðið geysileg umskipti. Vélbátar voru nú orðnir 12 en enginn árabátur var á skrá. Með þessari breytingu varð veruleg aflaaukning fiskibáta í Borgarfjarðarhreppi.“ (Magnús H. Helgason: Saga Borgarfjarðar eystra 1995, bls. 124).
 
Útgerð Færeyinga á Borgarfirði.
„Heimildir eru til um veiðar Færeyinga í umdæmi Borgarfjarðarhrepps á tímabilinu 1896-1929. ...   Í hreppsbókum er fyrst getið um Færeyinga árið 1896. Þá gerðu þeir út fjögur tveggja manna för frá Bakkagerði....
Árið 1899 er fyrst talað um „Færeyingafélög“ á Borgarfirði eystra. Þá eru þau skráð þrjú. Það stærsta var á Bakkagerði og gerði út 6 báta en hin tvö voru í Húsavík og Höfn, og gerði hvort um sig út einn bát.“

Verslun Hjaltastaðaþinghármanna á Borgarfirði.
„Á einokunartíma stóttu bændur í Útmannasveit verslun til Breiðuvíkur við Reyðarfjörð, ...  Síðar færðist sú verslun til Esikifjarðar. Um miðja 19. öld hófust viðskipti við Seyðisfjörð. Þangað var fjallvegur um Vestdalsheiði frá Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Vestdalsheiði er brött og snjóþung og erfið kaupstaðarleið,en mun skemmri en til Eskifjarðar. Þangað [til Seyðisfjarðar] var sótt verslun til 1920. Um það leyti færðust nær öll viðskipti til Borgarfjarðar.
Árið 1902 var lögtilt verslunarhöfn við Unaós í lélegu vari af klöppum utan við svonefndan Krosshöfða....
Kaupfélag Borgarfjarðar var stofnað 1918. Það „hóf vöruflutninga á Höfðann og afgreiðslu þar um 1920, en þá höfðu margir bændur í sveitinni gengið í það félag. ... 1920-1946 versluðu flestir bændur í sveitinni á Borgarfirði. Þeir ráku sláturfé þangað um Gönguskarð og Njarðvíkurskriður, en fengu meirihluta varnings sjóleiðis á Höfðann og síðar í Stapavík, því lendingin við Höfðann varð nær ófær vegna sandburðar á þriðja tug aldarinnar. Stapavík er hömrum girt nokkru utar með Ósfjöllum.  Þar er sæmileg lending í góðu veðri, en draga þurfti allar vörur upp úr víkinni með handknúnu spili.“ (Tilvitnun úr Sveitir og jarðir... II. bindi s. 282-283).

Úthéraðsmönnum bjargað frá vöruskorti og vandræðum 1936.
Árið 1933 varð  sviplegt slys í Stapavík er bóndinn á Unaósi beið bana við útskipun er spilið bilaði.
Nokkru síðar „var þá um nokkurra ára skeið skipað upp úr smábátum við klöpp út af Höfðanum, þegar algjörlega ládautt var, einkum þó á útmánuðum 1936, er miklu magni af fóðurvörum var   landað þar. Fullyrða má, að sú ráðstöfun bjargaði Úthéraði frá vandræðum, því allir fjallvegir voru ófærir, en fóðurskortur hjá bændum. Hætt var að skipa upp vörum í Stapavík 1939. Eftir það var vörum landað við Höfðann, þegar færi gafst til 1945 ...“ (Sveitir og jarðir í Múlaþingi, II. bindi s. 283).
Af þessu sést m. a. hve verslun Úthéraðsmanna við Kaupfélag Borgfirðinga var Úthéraðsmönnum mikilvæg á tímabilinu 1920-1945 og hefur eflaust átt sinn þátt í því að byggð hélst lengur á mörgum bæjum á Úthéraði, en ella hefði mátt ætla. Einnig styrktu þessi viðskipti verslunina á Borgarfirði og juku umsvif Kaupfélagsins og atvinnu á Borgarfirði tengda versluninni og vöruflutingum á Höfðann eða Stapavík og við slátrun fjár úr Hjaltastaðaþinghá á hverju hausti og fleira því tengt.  Þess má einnig geta að akfær vegur frá Egilsstöðum út að sveitarmörkum við Eiðaþinghá kom ekki fyrr en 1935 (Sveitir og jarðir í Múlaþingi II. bindi bls. 283) og vegi heim á einstaka bæi vantaði, svo erfitt var um alla aðdætti á landi og það tók 15 ár í viðbót að koma veginum út í Unaós. Á  þeim tíma var líka unnið að vegagerð heim á bæi í Hjaltastaðaþinghá og raunar lengur.
Enda þótt verslunarleiðin til Borgarfjarðar af  Úthéraði væri brött og nokkuð torfær og Njarðvíkurskriðurnar oft hættulegar að vetrarlagi, þá er leiðin ekki löng ef miðað er við að fara til Seyðisfjarðar að ekki sé talað um að fara alla leið til Eskifjarðar.Guðgeir Ingvarsson frá Desjarmýri tók þessa þætti saman í febrúar og mars 2010 og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.