Bakki

Bakki.
(Eftir handriti Eyjólfs Hannessonar (um 1955).

Á fasteignamati 1861 – Ný jarðabók fyrir Ísland – er Bakkagerðis ekki getið.  Hefir þá Bakki átt land niður að Fjarðará.  Þó er vitað að áður var til býlið Bakkagerði sem þó átti ekki sérskilið land.  Fyrir síðustu aldamót var Bakkagerði orðið sjálfstæð eign og átti land upp frá FjarðaráBakkaárósi.  Skipti BakkaáBólakeldu sem rennur út neðan við Bólabarðsenda.  Þaðan voru landamerki um Stórastein á Bakkamel, inn á vesturhorn Bakkamels, þaðan með Reiðgötum sem lágu frá Bakkabæ inn að Leirgrófarvaði – síðan skipti innsveitarvegurinn að landamörkum Jökulsár.  Nú, 1957, hefur Bakki aftur eignast Gerðislandið – utan ca. 23-24 ha skák sem liggur frá landamörkum Jökulsár út með Fjarðará.  Á ný útkomnu fasteignamati heldur sá hluti Bakkagerðisnafninu en annað land sem áður tilheyrði Bakkagerði, metið sameiginlega með öðru Bakkalandi.

Verður nú örnefnum lýst í einu lagi á báðum þessum eignum eins og þau voru um aldamót, þótt nú séu horfin sum þeirra við framræslu og ræktun landsins.

Merkilækur kemur ofan úr Tjarnarbotnum og skiptir löndum milli Bakka og Geitavíkur allt til sjávar.  Inn frá Merkilækjarós er Merkilækjarfjara.  Innan við hana gengur sjór í kletta á Bökkunum sem Bakki mun draga nafn af.  Innan við Klettana taka við Flúðirnar inn að Bakkaárósi.  Yfir þær fellur þegar hásjávað er.  Út af ósi Bakkaár er Eyrarsker – áður af sumum nefnt Ársker.  Út yfir það innanvert er hafnargarðurinn byggður yfir Halann sem lá inn úr skerinu og var hættulegur róðrarbágum sem leið áttu framhjá skerinu.  Nokkuð fram af hafnargarðsendanum er Bakkaboði, hættulegur bátum og skipum.  Rísa fljótt á honum stórbrot þegar hreyfing er á sjó.  Inn frá Bakkaárósi er Bakkafjara.  Upp frá henni, meðfram Bakkaá, er Bakkaeyri, áður oftast nefnt Hvammurinn.  Þar standa nú verslunarhús og frystihús Kaupfélags Borgarfjarðar.  Innst við Bakkafjöru eru þrjú há sker, umflotin á flóði en gegnt út í þau á fjöru.  Innan við þau er Skipafjara að tveim háum skerjum sem einnig eru umflotin á flóði en gegnt út í þau á fjöru.  Út af ytra skerinu, á hægri hönd er út er farið frá Skipafjöru, er skerjaklasi eða nibbur sem koma uppúr á fjöru.  Heitir hæsta nibban Brattnefur.  Innan við Skipafjöru er hár klettarani.  Innan við hann er Sauðabani, klettaris sem gengt er í á fjöru en sjór gengur þar í kletta þegar kvika er.  Innan við Sauðabana gengur sjór aftur í kletta.  Handan við þá er GerðisfjaraBakkagerðisklöppum.  Um þær fellur Svínalækur til sjávar.  Nokkru neðar skerst Lónið inn í klappirnar en neðar er Vogurinn og Syðrivogur.  Hann er enn mjórri en hinn og skilur Vogana há klettabrík.  Neðan við Syðrivog tekur við Höfðinn.  Hinum megin við hann er Andrésarvogur og þá taka við Kiðubjörgin.  Inn í þau gengur löng klettaskora, örmjó.  Hún heitir Gusa.  Sunnan við Kiðubjörg er Kerlingarvogur.  Hinum megin við hann er Kerlingarsker, umflotið á flóði en má ganga í það þurrum fótum á fjöru.  Ber hvorutveggja, skerið og vogurinn sennilega nafn af klettadrang er stendur upp úr sjónum rétt sunnan undir Kiðubjörgum og heitir Kerling. (fallinn hluti af honum.)

Frá Kiðubjörgum gengur enn alllöng fjara suður að Ósklöppum sem liggja inn að Fjarðarárósi.  Úti fyrir Fjarðarárósi eru Árskerin og er sund á milli þeirra og Ósklappanna.  Í Ósklöppunum er Vörin rétt við íbúðarhúsið.  Þar var lendingin þegar sjósókn var á árabátum frá Ósi.  Sundið milli Ósklappa og Árskerja heitir Róðrarsund.  Sjór gengur nokkuð inn eftir Fjarðará á flóði.  Er sá hluti árinnar nefndur Lónið.  Innan til í því er steinn sem stendur upp úr vatninu nema í allra mestu vatnavöxtum.  Hann heitir Stóristeinn.  Nokkuð innar, skammt fyrir utan Fjarðarár-brúna er Kjóahraunsvað en Kjóahraun heitir klettaholtið sem brúin er lítið eitt innan við.  Annað klettaholt er lítið eitt ofar og er mýrarsund á milli holtanna.  Heitir efra holtið einnig Kjóahraun.  Inn með Fjarðará frá Brúnni eru háir bakkar.  Innan til undir þeim eru Hvammarnir.  Upp frá þeim liggja Höllin.  Ekki eru mér kunnug önnur örnefni á því landi er nú ber nafn Bakkagerðis, (þ.e. land Jóns Sveinssonar).

Önnur örnefni sem talin verða tilheyra nú Bakkaeign.

Ofan við Höllin tekur við stórt mýrarflæmi.  Það er Dýjablá.  Innan og ofan til í henni eru víða ófær dý og kviksyndi sem mörg skepnan hefur látið lífið í.  Illræmdast og hættulegast er Fetinn, samfellt dýja og forarflæmi efst á blánni niður frá Leirgrófarenda.  Utan við Dýjablá, neðan til, hátt yfir umhverfið, rís stók klettaborg, Álfaborgin sem Borgarfjörður mun hafa dregið nafn af.  Uppi á henni yst er grasivaxin hnúkur.  Hann heitir Völvuleiði.  Út frá Álfaborginni en miklu lægra gengur ávöl melbunga.  Það er Heiðin.  Um hana liggur vegurin til suðurbyggðarinnar.  Yst á Heiðinni, inn af Kiðubjörgum eru klettaholt og stakir steinar.  Það eru Hraunin.  Svínalækur sem áður ef nefndur kemur innan úr Dýjablá og rennur út ofan við Álfaborgina.  Hann fær aðal vatnsmagn sitt úr Leirgrófarlæknum gegnum Fetann sem áður er um getið.

Ofan við Svínalæk, upp frá Álfaborg í stefnu á Bakkamel, eru Höllin.  Ofarlega á þeim er stórt opið forardý er heitir Lortudý.  Skammt út frá því er Illakelda.  Hún liggur skammt út og upp á við og endar skammt utan við neðri enda á Bakkamel.  Innan við Illukeldu og neðanverðan Bakkamel en ofan við Dýjablá eru móabrot og melar allt inn að landamerkjum Jökulsár.  Það land er nefnt einu nafni Móar en Mólönd heita þar sem mætast móarnir og Dýjabláin allt út að Illukeldu.  Um endilanga Móana liggur innsveitarvegur.

Landamerki milli Bakka og Jökulsár voru áður fyrr frá Grænutóft á Fjarðarárbakka utan við Grjótárós, um Lýritiþúfu á Jökulsármóum og ysta Grjótár-Bug í Brandslækjarós þar sem hann fellur í Grjótá.  Skiptir Brandslækur síðan löndum upp í Brandslækjarbug.  Þaðan liggja landamörkin beina sjónhendingu í Grjótárfossa utan við Leynihjalla, (en þeir eru í Jökulsárfjalli).  Eftir það skiptir Grjótá löndum til upptaka undir Efra-Grjótdalsvarpi utan við Ytra-Dyrfjall.  Fyrir nokkrum árum varð landamerkjaþræta milli Bakkagerðis og Jökulsár.  Hafði þá Grjótá löngu í vatnavöxtum fyllt Ysta-Bug, Lýritiþúfa var ekki finnanleg og á bakka Fjarðarár voru tvær tættur grænar og grónar og nokkurt bil á milli.  Var gerð áreið á mörkin og hlaðin landamerkjavarða, miðja vega milli tóftanna og landamörkin ákveðin frá henni beina línu í áður umgetin Brandslækjarós sem fellur í Grjótá alllangt fyrir ofan innsveitarveginn sem áður skipti löndum Bakka og Bakkagerðis sem fyrr getur.  Ofan við Móana milli Grjótár og Leirgrófar eru Brandsbalar.  Óþekkt er þeirra nafngiftasaga.  Á þeim eru gömul gróin tóftarbrot, Brandsbalatættur, skammt utan við Brandsbalalæk.  Lítið eitt innar og neðar en tóftarbrotin er Gullsteinn, heljar-bjarg, sokkið í jörð.  Þau álög hvíldu á steininum að væri reynt að grafa eftir gullinu sem undir honum átti að vera skyldi þeim sem að greftrinum unnu sýnast Bakka-bærinn standa í ljósum loga.  Þó eru þess ljós merki að grafið hefir verið niður með steininum og inn undir hann þótt ekki séu sagnir um hvern árangur það hefur borið.

Utan Leirgrófar en ofan við Móana er Bakkablá út að Bakkamel sem er allstór meltunga sem ber yfir umhverfið.  Utan við hann er Bólamýri en utan við hana tekur við Bólabarð, fyrr meir oft nefnt Bólarani.  Er Bóla-nafnið dregið af bæ sem byggður var á barðinu og nefndur Bakkaból.  Utan Bólabarðs er Bakkaárgil.  Um það fellur Bakkaá ofan úr Bakkafjalli.  Nokkuð niður frá Bólabarðsenda er Hjallhóllinn, ávalur hólkollur sem rís snarbrattur upp frá Bakkafjöru innan við Bakkaeyrina sem fyrr er nefnd en Bólakelda fellur niður með framanverðu Bólabarði og út neðan við Bólabarðsenda til Bakkaár sem fyrr er um getið í sambandi við landamerki milli Bakka og Bakkagerðis.  Utan til á Bakkablá, inn og upp frá Bakkamel, eru Haugarnir, jarðvegsdyngjur 11 að tölu, dreifðar um nokkurt svæði, misjafnlega stórar, flestar hringlaga eða lítið eitt aflangar, augljós mannaverk.  Niður milli ystu Hauganna fellur lítil forarkelda.  Hún heitir Haugakelda.

Frá síki sem rennur út í Bakkaá ofan við Bólabarð, liggur Bakkatún upp með Bakkaárgili, því nær upp að fjallsrótum.  Heitir gilið framan Bakkaár Leyningur.  Niður í miðju túni er lægð í gilbarminn.  Neðan við hana heitir túnbarðið Rani.  Á honum stendur Ytra-Sauðhúsið en Fremra-Sauðhúsið er lítið eitt framar í túninu.  Skammt fram af því er mýrarhorn fremst og neðst í túninu.  Það heitir Fit.  Yst á Bakkahlaði er lítil hólmyndun, rétt ofan við djúpan hvamm sem þar er í gilbarminn.  Hann heitir Hlöðuhóll.  Framan og ofan við Bakkabæ er Balahús.  Lítið eitt ofar og út við Bakkaárgil er Lækjarhús og þar fyrir ofan Miðhús.  Þá Ketilskofi og efst á túninu Efstuhús.  Skammt fram af Efstuhúsum kom Bæjarlækurinn fram úr gili.  Heitir Grafningur beggja vegna gilsins upp að brekkurótum en Leira niður frá gilkjaftinum.þar sem lækurinn dreifði sér niður framan við túnið í vatnavöxtum en megin hlutinn féll út og niður um Leiruna og túnið í Bakkaá ofanvert við bæjarrústirnar, í gegnum Brunnhúsið.  Í það var gegnt innan úr bænum.

Skammt upp frá túni og upp frá Grafningi rísa holtabörð og móabrot.  Inn frá þeim liggja Ennin inn að Sellæk.  Innan við hann, í framhaldi af Ennunum, er Sellækjarkriki.  Neðan við Sellækjarkrika og framhluta Enna er Langimelur, utan til skorinn sundur af SellækSellækur fellur niður í Leirgrófargil, utan við Brands-bala.  Meðfram Sellæk niður frá Langamel heita Sellækjarbakkar.  Upp frá Brands-bölum liggur melhryggur til fjalls innan við Langamelsenda og Sellækjarkrika og annar melhryggur litlu innar.  Milli þeirra er Sláttulág sem liggur óslitin upp undir Vörðuhraun en innan við innri hrygginn er Brandslág upp með Brandslæk sem áður er nefndur en landið allt ofan Brandsbala, Sellækjarkrika og Enna nefnist einu nafni Bakkafjall.  Út frá Sláttulág, fyrir ofan Sellækjarkrika, er Óskipta stykki.  Þar var óskipt engjaland milli Bakka og býlisins Bakkabóla en annars höfðu “Bólin” úrskipt engi.  Um það bil upp af miðjum Ennum er stór stakur steinn og kringum hann móabrot og pöldrur.  Steinn þessi heitir Grásteinn og mórinn Grásteinsmór.  Út að honum nær Óskipta stykkið en utan við hann heitir Engi en neðan við það er Engis-brún þar sem Ennin og brekkurnar upp af Grafningnum koma saman við EngiðBæjarlækurinn sem áður er nefndur skiptir Enginu í Ytra-Engi og Fremra-Engi og er hér nefndur Engislækur.  Utan við Ytra-Engið, út við Bakkaárgil, rís hár og brattur melhryggur, Stekkahnausinn.  Neðan við háhnausinn, skammt upp frá Bakkatúni, er Stekkurinn.  Efst á Stekkahnausnum eru djúpir botnar sem heita Stekkabotnar.

Með þeim litlu undantekningum sem getið hefur verið er allt það land sem nú hefir verið lýst samfellt graslendi.  Ofar ber meir á berum melum en milli þeirra eru grónar dældir og drög og sumstaðar allstórir mýrarflákar.  Upp frá Stekkabotnum og Ytra-Enginu rís brött brekka Dalsmelanna.  Yst á þeim, út við Bakkaárgil, eru klettanibbur.  Þær heita Tóuhnaus en upp frá honum er Bakkadalur.  Hátt fram og upp af Tóuhnaus rís Brúnin sem liggur upp með dalnum að framan en upp frá Tóuhnaus er Tóumýri.  Utan við hana er Þvergil.  Um það fellur Þvergilslækur í Bakkaá rétt utan og ofan við Tóuhnaus í djúpu gili.  Þar sem áin og lækurinn koma saman myndast mjór tangi sem heitir Þvergilstangi.  Upp frá honum er Þvergilsmýri.  Utan við Þvergilið, upp í dalbrúninni er Náttmálahnúkur, eyktarmark frá Bakka og ber við loft.  Upp frá Fremra-Engi í framhaldi af Dalsmelum rís Stórimelur.  Ofan við hann er Stóribotn.  Upp frá Stórabotni rísa aftur allháar brekkur.  Upp af þeim, niður af Brúnaendanum framan Bakkadals er strýtumyndaður melur.  Hann heitir Trýtumelur og botnar framan við hann Trýtumelsbotnar.  Upp utan við Trýtumel liggur grösugur hjalli, út og upp utan við Brúnarendann.  Hann heitir Hrossahjalli.

Inn af Stórabotni og Trýtumelsbotnum taka við Kerlingarbotnar.  Þeir ná inn að Grjótá, ofan Vörðuhrauns en upp frá Sláttuglágarenda sem áður getur.  Ber efsta melinn hæst.  Efst á honum eru litlar klettaklitrur með gömlu vörðubroti sem melurinn niðurfrá mun draga nafn af.  Kerlingabotnar eru að mestu graslendi.  Skiftast á mýrardrög, hjallar og holtaborg, hækkandi út og upp að Bakkadalsbrúninni.  Inn frá Brúninni, ofan við Kerlingabotna liggur há og snarbrött brekka alla leið inn að Grjótá.  Það er Grjótdalsvarpið.  Neðan í brekkubrúninni rís hár klettadrangur, Kerlingin, sem botnarnir draga nafn af.  Skammt niður frá Kerlingu er tjörn sem heitir Nikurtjörn.  Upp frá Grjótdalsvarpi liggur Grjótdalur, allt upp undir Grjótdalsskarð sem líka er oft nefnt Efra-Grjótdalsvarp.  Að undanskyldu allstóru mýrarhalli neðst í Grjótdal er dalurinn allur og hlíðar hans að mestu gróðurlaus.

Þau örnefni sem nú hefur verið lýst eru öll innan Bakkaár.

Utan Bakkaár, upp af Flúðum, innar og Merkilækjarfjöru utar eru háir bakkar, Bakkarnir sem áður eru nefndir.  Upp frá þeim eru Þýfin, frá Bakkaá út að Merkilæk.  Niður um þau liggur breið dæld sem dýpkar niður í gegnum Bakkana.  Heitir hún Þýfislág.  Utan við hana bera Þýfin sérstakt nafn og heita Hestagarðsþýfi.  Á þeim sáust um sl. aldamót rústir af sjö hestagörðum, sumar því nær signar í jörð en aðrar hærri en krosshleðslurnar allstaðar vel sýnilegar.  Þar var annáluð hestaganga.  Upp af Hestagarðsþýfum er allbreið mýrarspilda.  Það er Bláin.  Ofan við hana rísa Höllin en upp frá þeim Ennin, allt til fjalls.  Yst á Ennum, upp með Merkilæk, eru á kafla móabörð.  Þau heita Merkilækjarmóar.  Upp af þeim, meðfram Merkilæknum, eru sléttir harðvellisbalar.  Þeir heita Grundir.  Upp með Bakkaá utanverðri eru Hvammarnir.  Heitir sá efsti Djúpihvammur.  Hann er út af Stakkahnaus sem áður er nefndur og lokast að ofan af klettanibbum sem liggja alveg að ánni.  Út frá neðri enda Djúpahvammsins liggur lægð þvert neðan við fremsta hluta Ennanna.  Hún heitir Lækjardalur.  Neðan við hann liggur lítil melrönd sem heitir Svarðarmelur en lækjarsytra fellur úr dalnum ofan utan við melendann.  Áður var tekinn svörður í Lækjardal og þurrkaður á melnum.  Mun hann hafa hlotið nafn sitt af því.

Út frá Bakkaárgili, skammt ofan við Djúpahvamm, liggja harðvellisbrekkur út ofan við Ennin.  Þær heita Kinnar.  Utan við þær ganga Ennin lengra uppeftir.  Eru þar grasbugar og lyngbrekkur sem heita Krókar.  Allt er þetta land neðan frá sjó samfelld grasbreiða að undanskildum Svarðarmel sem er eins og áður segir aðeins lítil melbrún.

Fram og upp af  Krókunum og upp af ytri enda Kinnanna rís hár melkollur.  Hann heitir Kollóttimelur.  Frá honum liggur Hrafnatindsegg hækkandi, út og uppeftir með klettaklitrum efst.  Ofan við þær er slakki í Eggina.  Á henni rís stakur klettastrókur.  Hann heitir Hrafnatindur.  Utan við Hrafnatindsegg ofanverða eru Neðri-Tjarnarbotnar en upp af þeim Efri-Tjarnarbotnar.  Í þeim eru litlir tjarnarbollar sem þorna í miklum þurrkum.  Frá neðri enda Hrafnatindseggjar og fram og upp frá Kollóttamel gengur melhryggur fram að Bakkaárgili, rétt á móti Tóuhnaus sem áður er getið, framan gilsins.  Frá þessum melhrygg hefst Bakkadalurinn, utan ár.  Ofan við melhrygginn taka við gróðursælar lautir sem hallar frá Hrafnatindsegg fram að árgili.  Þær heita Kúalágar.  Allháir melhryggir sem liggja eins og lágarnar skifta þeim í Efri- og Neðri-Kúalágar.  Upp frá Efri-Tjarnarbotnum rís há og brött melbrekka sem liggur fram að Bakkadalnum, skammt ofan við Hrafnatindinn og myndar eftir það úthlíðar að útbrún dalsins.  Þetta land er einu nafni nefnt Fláar.  En fyrir dalbotninum lokar há og brött brekka, Bakkadalsvarpið.  Fjallið framan Bakkaár er oft nefnt Fremrafjall en fjallið utan árinnar Ytra-Fjallið.

Eins og áður er getið um hafa ýmis örnefni horfið við framræslu og ræktun.  Þar á meðal Illakelda sem áður árlega varð fleiri eða færri kindum að bana.  Haugarnir hafa verið jafnaðir við jörðu, þýfin utan Bakkaár eru orðin sléttur töðuvöllur og sér þar ekki lengur fyrir hestagörðum.  Holtin öll milli Álfaborgar og Bakkamels öll orðin tún.