Íþróttaaðstaða

Íþróttaaðstaða á Borgarfirði er mjög góð, sérstaklega þegar tekið er tillit til smæðar byggðarlagsins. Ungmennafélag Borgarfjarðar (UMFB) á góðan grasvöll í fullri stærð með 4 pollamörkum og 2 í fullri stærð. Við hliðina á þeim velli er malbikaður völl í handboltastærð með körfum og litlum mörkum.Helsta íþróttamannvirkið í firðinum er án efa Sparkhöll Borgfirðinga sem er yfirbyggður gervigrasvöllur, öllum opinn til frírra afnota. Sparkhöllin er við enda knattspyrnuvallarins og er í eign Borgarfjarðarhrepps.           Sparkhöll Borgfirðinga

,,Báðum um sparkvöll en fengum SPARKHÖLL”

Grein sem birtist í Snæfelli, blaði UÍA í des 2010.
Nú eru liðin rúmlega. tvö ár síðan tekinn var í notkun yfirbyggður sparkvöllur á Borgarfirði eystra. Reynslan af þessari byggingu er afar góð og hún hefur svo sannarlega sannað gildi sitt. Það eru liðin u.þ.b. fimm ár síðan stjórn UMFB sendi hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps beiðni um að skoða möguleikana á því að nýta sér stuðning frá KSÍ til þess að byggja sparkvöll á Borgarfirði. Aðstaða til knattspyrnuiðkunar utan hásumars á staðnum hafði lengi verið bágborin enda ekkert íþróttahús til staðar. Áhuginn á knattspyrnu hefur þó alltaf verið fyrir hendi og íþróttin stunduð með misjöfnum árangri og afleiðingum í hinum ýmsu húsum á Borgarfirði sem svo sannarlega voru ekki hönnuð til þess og óhætt er að segja að sá atgangur hafi gengið nærri sumum þeirra. Þannig fékk hátíðarsalurinn í félagsheimilinu Fjarðarborg oft að finna fyrir mis nettum tilþrifum borgfirskra knattspyrnumanna og –kvenna með tilheyrandi tjóni. Einnig er að finna atvinnuhúsnæði á staðnum sem ennþá ber þess merki að þar hafi verið sparkað ógætilega í bolta á tíunda áratug síðustu aldar.
Það er skemmst frá því að segja að hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps fór langt framúr því sem Ungmennafélagsmönnum hefði nokkurn tímann dottið til hugar að fara fram á. Hún ákvað að ráðast í að byggja það sem gárungarnir fóru fljótlega að kalla SPARKHÖLLINA. UMFB lagði til lóð undir húsið sem er hluti af íþróttavelli félagsins. Sótt var um undanþágu til KSÍ um að hafa gervigrasið örlítið mjórra til að hægt væri að kaupa staðlaða skemmu utan um völlinn. Það leyfi fékkst og í kjölfarið lét hreppurinn steypa grunn undir skemmuna sem gervigrasið frá KSÍ var lagt í. Haustið 2008 var skemman svo reist og húsið komið í notkun fyrir jól. Starfsmenn hreppsins eiga mikið hrós skilið ásamt þeim iðnaðarmönnum sem komu að byggingunni því frágangur á húsinu er allur til fyrirmyndar. Hafa verður í huga að margt í því er sérhannað svo sem lýsing og fleira enda er þetta eina svona mannvirkið á Íslandi og reyndar ekki vitað um annað slíkt í heiminum. Mannvirkið varð lítið eitt dýrara en ef hefði verið farið í byggingu hefðbundins sparkvallar en nýtist allt árið án kyndikostnaðar. Húsið hefur reynst notadrýgra en margur hugði í upphafi því þar inni hafa verið stundaðar margar aðrar íþróttir en knattspyrna svo sem blak, golf og badminton auk þess sem grunnskólinn hefur nýtt það til íþróttakennslu. Eldri borgarar og fleiri hafa einnig getað notað húsið til göngu eða hlaupa yfir hávetrartímann þegar hálka, snjór og myrkur geta komið í veg fyrir slíka líkamsrækt.  Það væru þó í besta falli ýkjur að halda því fram að húsið væri stöðugt í notkun. Til þess mætti íbúatalan hækka verulega en það þjónar engu að síður byggðarlaginu ákaflega vel. Nú myndu eflaust flestir vænta þess að þessi stórbætta aðstaða hafi þegar fleytt knattspyrnuliði UMFB í fremstu röð en það skal fúslega viðurkennt að það hefur ekki gerst ennþá. Hreppsnefnd Borgarfjarðar og íbúar eru hér með beðnir afsökunar á því en góðir hlutir gerast hægt auk þess sem árangurinn hefði líklega orðið enn verri ef blessuð sparkhöllin hefði ekki komið til.

 

F.h. stjórnar UMFB

Ásgrímur Ingi Arngrímsson