Hafnarbræður

Bræður tveir voru í Múlasýslu, hét annar Jón, en hinn Hjörleifur. Þeir voru Árnasynir frá Höfn í Borgarfirði, Gíslasonar. Þeir ólust upp í Höfn hjá föður sínum og voru þá þegar kallaðir Hafnarbræður; því sögur hafa verið farnar að ganga af gjörvuleik þeirra meðan þeir voru í föðurgarði.
En þær sögur frá uppvaxtarárum þeirra eru mönnum mjög úr minni liðnar nema ef vera skyldi sú að það var vani þeirra í ungdæminu að þeir tóku sér á morgnana lýsisskel úr hákarlalifrarköggum föður síns og supu. Þessari venju héldu þeir fram eftir ævinni og juku smásaman sopann, allt að hálfri mörk. Einkum höfðu þeir þenna sið þegar þeir reru á sjó og neyttu þeir lýsisins eins lostugt og nýmjólk væri; ætla menn að þeir hafi fengið krafta sína og þol af því, enda voru þeir kallaðir Jón sterki og Hjörleifur sterki.

En þótt þeir bræður bæru af öðrum samtíðarmönnum orku og burði voru þeir allt um það frábitnir því að þykjast öðrum meiri. Í framgöngu og klæðaburði þóttu þeir heldur seinfara og sérlegir. Þeir voru gjarnast á dökkleitum stuttbuxum og sortulitaðri eða sauðsvartri mussu sem náði niður fyrir mjaðmirnar og fléttingslindi bundinn um mittið; þann linda kallaði Hjörleifur svarðreipi. Þeir höfðu bláleita kollhúfu á höfði; heima fyrir gengu þeir tíðast snöggklæddir á koti (bol) utan yfir nærpeysu og stungu höndunum í barminn undir kothlýrana við handkrikana.

Hjörleifur var ætíð gangandi og gekk við stóran staf bæði sumar og vetur og var í fjaðrabroddur (atgeirsstafur); hann óð og allar ár. Á vöxt voru þeir með hærri mönnum, um og undir þrjár álnir og þrekvaxnir þar eftir svo ekki hafa þeir sem sáu Hjörleif beran séð annan þykkari undir hönd eða þrýstnari, enda er sagt að hann væri sextíu þumlungar ummáls um herðarnar. Ekki segja menn almennt að þeir hafi verið vel limaðir, en þó hafði Hjörleifur smáa hönd og mjúka, enda er hann talinn fimleiksmaður og mjúkur, besti smiður og fríður ásýndar.

Fálátir voru þeir bræður og hverndagsgæfir; en illa reiddist Hjörleifur ef í hann fauk. Kom þá á hann nokkurs konar berserksgangur, en hætti oft við að verða nokkuð eftir sig þegar af honum rann móðurinn. Seinmæltir voru þeir og þó einkum Hjörleifur sem auk þess var nokkuð einkennilegur í máli. Hann þúaði hvern mann og talaði hreinna og betra mál en aðrir; hann var og fróður maður og minnugur. Ánslegir þóttu þeir í orðatiltækjum, en oft smáskrítnir og fyndnir. Hjörleifur hafði t.d. ýms fögur orðtök og málshætti á hraðbergi; því varð honum að orði þegar hann heyrði lát dr. Gísla Brynjólfssonar:

"Silfurkerin sökkva í sjó,
en soðbollarnir fljóta."

Ráðvandir voru þeir og dagfarsgóðir, hóglátir og óáleitnir við aðra, hreinskilnir og óásælnir í viðskiptum. Því var það oft þegar þeir fluttu lýsi sitt í kaupstað að þeir horfðu ekki í að leggja hálfan og heilan kút ofan á hverja lýsistunnu.

Þeir Hafnarbræður þóttu sterkastir menn á Austurlandi og þó víðar væri leitað um þær mundir sem þeir voru uppi, en þó bar Jón af Hjörleifi að því sem sögur segja. Það er talið með aflraunum þeirra að þeir hafi hvor um sig borið sína brennivínstunnuna undir hvorri hendi, en það hafði Jón umfram bróður sinn að hann hélt jafnframt á brennivínskvartéli í tönnunum.

Þeir bræður reru jafnan saman, að minnsta kosti meðan þeir voru í föðurgarði, fyrir hákarl; ekki voru á skipi nema þeir tveir og einn maður til því svo mikill munur var þeirra bræðra að þá gekk rétt þegar Jón reri einn á annað borðið, en Hjörleifur og þriðji maðurinn á hitt, ef ekki slóst í kappróður.

Einhverju sinni þegar þeir bræður voru á sjó við þriðja mann hrepptu þeir landspyrnuveður og fengu barning þungan. Hjörleifi þykir þá bróðir sinn linræður og lítið ganga; fyrtist hann því og tekur nokkur áratog í svo miklum jötunmóði að hann snýr á Jón. Jón finnur fljótt hvaðan á sig stendur veðrið, færist þá einnig í ásmegin og réttir svo af sér að hann snýr á hina og segir um leið: "Taktu betur í árinni, Hjörleifur."
Þessi sömu ummæli hefur Jón í hvert sinn sem sveif á þá Hjörleif, en linar ekki á róðrinum að heldur. Fór þá svo að Hjörleifur og borðsmaður hans gátu ekki að gert; því þegar fram í sótti og móðurinn rann af Hjörleifi linaðist hann upp og borðsmaður hans þreyttist einnig svo að þeir féllu báðir fyrir ofurborð.
Þegar svo var komið hendir Jón sína ár á hvort borð og rær einn slíkt sem aftekur uns hann nær lendingu; enda hafði hann þá tekið svo nærri sér að blóð gekk upp úr honum á eftir. Jón var og brjóstveikur, en Hjörleifur aftur hinn heilsuhraustasti.

Það er haft eftir Hjörleifi þegar tilrætt varð um mannskap þeirra bræðra að hann hefði ýmist sagt: "Jón er sterkari heldur en ég, en ég er þolnari" - eða: "Ég er ekki sterkur, en Jón bróðir minn er sterkur," og eins hitt að hann hefði aldrei séð Jóni verða aflfátt.

Í öðru sinni voru þeir bræður í hákarlalegu, en ekki er getið þriðja mannsins með þeim í það sinn. Þeir komu í hákarl og drógu hann undir borð. En annaðhvort höfðu þeir misst ífæruna eða gleymt henni í landi svo að þeir gátu ekki unnið hákarlinn og sleit hann sig af þeim. En af því hann flæmdist lítið eitt ofansjávar nærri skipinu náði Hjörleifur í sporðinn á honum og kom honum undir handkrika sinn og hélt honum þar; bað hann svo Jón að róa í land og það gerði hann, en Hjörleifur hélt hákarlinum á sporðinum alla leið.

Húnvetningar segja að þeir bræður hafi róið tveir einir á áttæringi í hákarlalegur, en þegar þeir hafi komið að og fengið nokkuð hafi Jón sagt við Hjörleif: "Hvort viltu heldur bjarga bröndunni eða bátnum?" En Hjörleifur kaus heldur að setja og bar skipið á stöfnum upp í naust, en Jón kippti hákörlunum hvort sem þeir voru einn eða fleiri á þurrt og gerði til.

Eitt haust fóru þeir bræður með nokkra hesta undir reiðingi suður í Reyðarfjarðarkaupstað sem þá var. Rak þá niður snjóa mikla og urðu þeir að skilja þar eftir hestana og fara gangandi heim; það eru þrjár dagleiðir og yfir tvo fjallgarða að fara. En til þess að koma ekki allsendis tómhentir heim héldu þeir á sinni matartunnunni hvor og var ófærð í mesta lagi.

Einhverju sinni voru þeir bræður staddir í kaupstað og varð Hjörleifi sundurorða við annan mann. Maður þessi var fyrir innan hjá kaupmanninum, en Hjörleifur fyrir utan og gat svo ekki náð til hans. Verður hann þá reiður og tekur upp á því að berja húsið utan með drumb sem fyrir honum varð svo allir sem inni voru urðu lafhræddir. Síðan fer hann og sækir hákarlaskálm ofan í skip sitt sem lá á útborða við annað skip er og var á floti fram undan fjörunni. Hleypur nú Hjörleifur ofan að sjó, en nennir ekki að ganga yfir skipið sem nær var landi og hendir sig því yfir það þvert út á sitt skip og kemur standandi á þóftuna, grípur hákarlaskálmina og heldur með hana í land.
Meðan á þessu stóð náði kaupmaðurinn í Jón bróður hans og biður hann í öllum bænum að stilla Hjörleif og blíðka hann á einhvern hátt. Jón bregður þá fljótt við og verður í flasinu á Hjörleifi þegar hann kemur upp undir búðirnar vaðandi með skálmina.
Jón segir þá: "Hvað ætlarðu að gera við hákarlaskálmina þá arna, bróðir ?"
Hjörleifur svarar: "Ég ætla að drepa hann N. N. með henni."
Jón segir: "Fáðu mér hana, bróðir, ég skal drepa hann."
Hjörleifur fær honum skálmina og segir: "Ég trúi þér manna best til þess, bróðir."
Jón tók við skálminni og fór með hana eins og honum þótti best henta.

Önnur sögn er það um Hjörleif að einu sinni þegar þeir bræður voru staddir í kaupstað hafi honum þótt fyrir við kaupmanninn af því hann hefði reiknað eitthvað af Hjörleifi; en Hjörleifur vildi hafa hrein viðskipti af öðrum eins og hann var sjálfur viðskiptagóður. En þegar kaupmaður vildi ekki rétta skakkann reiddist Hjörleifur svo að hann ætlaði að fella kaupmannsbúðina með því að hleypa stórtré undir stokkinn svo við því var búið að hann mundi hefja húsið á loft ef Jón hefði ekki komið að í sama bili, tekið Hjörleif og haldið honum svo hann gat ekkert illt af sér gert.

Enn eru þessi dæmi um það að Hjörleifur reiddist illa ef hann reiddist: Maður hét Þorsteinn; hann var skjólstæðingur Hjörleifs og bjó í hjáleigu frá Snotrunesi. Hann var heldur lítill vexti og ekki sterkur, en bráður í skapi. Hann reiddist Hjörleifi einu sinni svo að hann þreif varreku og ætlaði að berja Hjörleif með eða barði hann. Þá fauk í Hjörleif svo hann greip Þorstein, brá honum á loft og kastaði honum langt frá sér svo Þorsteinn lá í óviti, og hélt Hjörleifur fyrst að hann hefði drepið hann, en þó raknaði Þorsteinn úr rotinu.

Það var enn að maður nokkur sem Stefán hét kastaði illum orðum á Hjörleif í viðurvist margra manna og meðal annara var þar viðstaddur sýslumaðurinn sem þá var í Múlasýslu, amtmaður Páll Melsteð.
Hjörleifur þoldi lengi illyrði Stefáns þangað til menn tóku eftir því að Hjörleifur sprettur upp og fölnar í framan, hleypur þangað sem stafur hans stendur, mundar hann og segir: "Viltu ég sendi þér sendingu?"
Gekk þá sýslumaður á milli og bað Hjörleif að gæta sín og vinna ekki slys.
"Ég skal gera það fyrir þín orð, Páll," sagði Hjörleifur.

Áður en hætt er við þá bræður báða saman verður að segja hér eina sögu um aflraunir þeirra sem gekk í Húnavatnssýslu fyrir hér um bil þrjátíu árum. Þeir bræður áttu einhvern tíma kaup við lausakaupmann nokkurn eða þó heldur hollenskan duggara. Spurði Hjörleifur þá eftir haldfærum og voru honum sýnd nokkur. Hann reyndi þau milli handa sér og dró þau sundur sem hægast og sagði að þetta væri ónýt vara sem ekki þyldi handafl manns. Skipsforingjanum þótti Hjörleifur bæði spilla fyrir sér færunum og gera sér skömm með þessu og sagðist skyldi hugsa til hans að ári að koma með færisspotta handa honum sem hann mundi ekki leika sér að slíta milli handanna.
Sumarið eftir kom sama skipið og fóru þeir bræður út í það; spurði Hjörleifur þá skipsforingjann hvort hann hefði munað eftir færunum. Hinn sagði svo vera og lét færa Hjörleifi þrjár línur; ein þeirra var gul, önnur blá og hin þriðja rauð.
Hjörleifur reyndi fyrst gulu línuna, en gat ekki slitið hana fyrr en hann brá henni um herðar sér. Þar næst tók hann bláu línuna, bregður henni eins um herðar sér og getur þó ekki slitið hana; en hann teygði hana um faðm og rétti hana svo að Jóni. Jón tók við og sleit hana við hné sér. Síðan tekur Jón rauðu línuna og reynir eins á hana og gengur ekki; þá bregður hann henni um herðar sér hvað eftir annað því hún tognaði einlægt. Loksins rykkir hann henni sundur; hafði hún þá tognað um þrjá faðma.
Er sagt að þeim hafi sýnst sem hjá stóðu sem eldneistar hrykkju úr endunum þegar línan slitnaði. Við þetta þykknaði í skipsforingjanum, en þorði þó ekki að láta á því bera; því honum þótti sem hér væri við tröll að eiga, en ekki mennska menn.

Enn er það haft til marks um afl Jóns að einu sinni var hann staddur þar sem kaupfar hafði brotnað og reyndi afl sitt að dæmi Orms Stórólfssonar á siglutrénu úr skipinu. Tuttugu og fjórir menn tóku tréð á loft því færri munu ekki hafa getað loftað því og lögðu það um þvert bak á Jóni; brá hann svo handleggjunum aftur fyrir það, hélt því föstu á spjaldhryggnum, gekk með það þrjá faðma og sleppti því síðan. Haft er það eftir honum að þetta hafi verið mesta aflraunin sín og það með að hann hefði aldrei orðið jafngóður eftir.

Nú segir af aflraunum Hjörleifs eins.
Þegar séra Hjörleifur Þorsteinsson var prestur á Desjarmýri (1790-1800), en Hjörleifur Árnason bjó á Snotrunesi, átti prestur griðung gamlan og heldur manneygðan.
Það var einn laugardag á engjaslætti að prestur var einn heima, en allt fólk annað á engjum; blásandi þerrir var úti og allar dyr settar upp á gátt til að viðra húsin og þurrka. Þegar leið fram um nón heyrði prestur inn í hús sitt hark frammi í bænum, fer ofan og skyggnist um; eru þá kýrnar komnar heim og boli inn í búr. Prestur gengur þangað og ætlar að reka nautið út; en boli bregst illa við og fer undir prest; stimpast þeir þar um stund þangað til hann kemur þó bola út því hann var fílefldur maður, en þó var hann svo yfirkominn af mæði að hann gekk til rúms og lagði sig fyrir.
Um kvöldið þegar engjafólk kom heim lætur prestur smalamann sinn fara út að Nesi og gerir Hjörleifi orð að drepa fyrir sig griðunginn svo hann ynni engum tjón. Hjörleifur var ekki heima þegar sendimaður kom.
En í bíti morguninn eftir er gengið í bæinn á Desjarmýri og til baðstofu; er þar kominn Hjörleifur sterki og hefur hákarlaskálm í hendinni og segir: "Hvar er nú kálfurinn?"
Honum var vísað til hesthúss; þar hafði nautið verið látið inn og borið grjót á hurðina. Hjörleifur snarar út úr bænum og fer til hússins, en vinnukonur prests komu með trog á eftir. Hjörleifur veltir frá grjótinu og opnar húsið; en boli þýtur út og undir Hjörleif. Hann tekur mannlega á móti og skiptir það engum togum að boli fellur og Hjörleifur sest ofan á hann og sker hann þar ofan í hesthússvarpann.

Þegar prestur nokkur (ef til vill séra Hjörleifur) flutti sig frá Desjarmýri lét hann járnarusl og ýmislegt annað í stóra eikarkistu. Við þetta varð kistan svo þung að prestur sá engin tök á að koma henni til skips.
Svo stóð á að Hjörleifur sterki var þar aðkomandi og heyrir að prestur er að fárast um þetta. Þá segir Hjörleifur: "Ætli það megi ekki bera kistuskollann?"
Þeir sem viðstaddir voru segja að það taki engu tali, hún sé ómeðfærileg. Hann segist halda að það muni mega og biður þá að fá sér reipi. Þeir gera svo. Hjörleifur slær reipunum utan um kistuna, bregður töglunum upp á aðra öxlina og leggur svo á stað með hana á bakinu. Tveir menn urðu honum samferða og talaði hann við þá á leiðinni út um alla heima og geima. Hann bar kistuna án þess að hafa axlaskipti viðlíka langan veg og frá Reykjavík inn að Laugarnesi og lagði hana orðalaust af sér á þeim stað sem hún átti að komast á.
Seinna lét prestur vega upp úr kistunni og vóst það þá 72 fjórðungar.

Espólín hefur talið tvær aflraunir Hjörleifs; önnur var sú að hann hóf um seilingu stafn á skipi sem annar maður óvalinn og þó afstyrmislaus mátti ekki láta vatna.
Þetta skip hafði Guðmundur sýslumaður Pétursson í Krossavík látið smíða og ætlað til flutninga; það var ákaflega stórt og viðamikið; var farin á því ein flutningsferð, en þótti svo þungt og ómeðfærilegt að formaðurinn afsagði að fara með það oftar. Var það sett upp í Vopnafirði og hvolfdi þar síðan lengi. Hjörleifur gekk að skipinu, tók undir báða framkinnungana og hélt því svo hátt að hann sá standandi inn í skipið og lagði það síðan niður sem hægast.

Annað var það að Hjörleifur bar á baki sér á túni hundrað faðma stein þann er vó nær níu vættum.
Einhverjar sagnir hafa verið fleiri um stein þenna í Múlasýslu, en enginn hefur getið um vigt á honum nema Espólín. Nokkrir segja að það hafi átt að vera hlóðarsteinn eða stóarsteinn sem Hjörleifur sótti út í tún og má vera að það sé allt sami steinninn sem Espólín talar um.

Einhvern tíma voru þeir feðgar, Hjörleifur og Árni sonur hans, staddir í kaupstað. Brá Árni sér þá til að halda upp (frá skipi) á nokkrum mjölhálftunnum og bar jafnan sína undir hvorri hendi.
Þá mætir Hjörleifur honum og segir: "Svona fór ég með mjöltunnurnar, drengur minn, þegar ég var á þínum aldri."
Árni svarar: "Það er eins víst að það mætti bæta nokkru við."
Árni líktist föður sínum að vexti og mannskap, en dó óharðnaður um tvítugsaldur.

Það segja Múlasýslumenn að þeir bræður Jón og Hjörleifur hafi mjög tamið sér á yngri árum að stökkva bæði langt og hátt og verið svo leiknir í því að þeim hafi veitt hægt að létta sér yfir áttæringsskip á jafnsléttu og þegar Hjörleifur hafði sjö um sextugt stökk hann enn hæð sína í loft upp (1818), enda telja Múlasýslumenn hann fremri bróður sínum að fimleikum.
Hann sagði og sjálfur frá því að hann hefði oft á yngri árum sínum þegar skipi var hægt róið með landi gengið eftir borðstokknum fram á hnýfil, snúið þar við og gengið svo eftir hinum borðstokknum aftur á eftri hnýfil.

Hjörleifur dó á Snotrunesi 1831, en Jón lifði lengur.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)