Heiðlóubreiður í Njarðvík

Nú eru farfuglarnir blessaðir farnir að flykkjast til landsins í massavís. Þessi heiðlóuhópur sást nú á þriðjudaginn í Njarðvík, en það var nýskipaður fréttastjóri stór-Njarðvíkursvæðisins, Jakob Sigurðsson sem smellti af þessari mynd út um stofugluggann eða rétt við hann allavegana.

(Texti af vísindavef Háskóla Íslands)
Heiðlóan (Pluvialis apricaria) er í hugum margra Íslendinga hinn eini sanni vorboði og telst það ætíð fréttnæmt þegar hún sést hér fyrst á vorin. Árið 2006, sáust fyrstu lóurnar þann 25. mars.


Heiðlóa (Pluvialis apricaria).

Yann Kolbeinsson líffræðingur hefur safnað í gagnagrunn ýmsu sem snýr að fuglum, meðal annars dagsetningum á komu fyrstu farfuglanna hingað til lands. Samkvæmt upplýsingum hans voru fyrstu tilkynningar um komu lóunnar hingað til lands árin 1998-2005 eftirfarandi:

Ár Dagsetning
1998 26. mars
1999 29. mars
2000 24. mars
2001 31. mars
2002 24. mars
2003 24. mars
2004 24. mars
2005 20. mars

„Meðaltal“ þessara dagsetninga er 25. mars og því freistandi þegar verið er að spá fyrir um komu lóunnar að giska á þann dag eins og raunin var nú í ár. Tíðasta gildi fyrir þessi ár er hins vegar 24. mars og það er því dagsetning sem einnig er gott að giska á. Með nokkru öryggi má spá því að það muni sjást fyrst til lóunnar á tímabilinu 20. - 31. mars ár hvert.

Þess má að lokum geta að meirihluti þeirra heiðlóa sem dvelja hér á landi yfir sumarið koma á tímabilinu 1.-20. apríl ár hvert.