Pistill frá formanni Sveinunga

Bergvin Snær Andrésson
Bergvin Snær Andrésson

Kæru lesendur


Með þessum pistli langar mig að upplýsa ykkur um helstu störf björgunarsveitarinar Sveinunga og vona ég að þið hafið bæði gagn og gaman af. Björgunarsveitin Sveinungi er ein af mörgum sjálfstæðum björgunar og slysavarnarsveitum um allt land sem mynda Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Þó að Sveinungi sé sjálfstæð eining förum við eftir þeim lögum og reglum sem Landbjörg setur.

Okkar helsti styrkur er gríðalega gott samfélag og byggist það helst uppá óeigingjarnu framlagi sveitunga, hvort sem það skili sér í sjálfboðastarfi eða annarskonar framlagi. Baklandið okkar sinnir ýmsum verkefnum svo sem bakstri, hjálpar til við viðhald á húsnæði og þrif. Einnig láta fjölmargir fé að hendi rakna. Allir sýna okkur síðan andlegan stuðning þegar þörf er á og er hlýhugur samfélagins okkur mikilvægur. Án ykkar gæti sveitin ekki starfað. Það er mikill styrkur hvers sveitarfelags að eiga góða björgunarsveit sérstaklega í samfélagi eins og okkar þar sem langt er í aðra viðbragðsaðila og því erum við alltaf fyrstir á staðinn til að veita fyrstu hjálp í neyð.

Nýverið var fyrirkomulagi útkallsmála sveitarinnar breytt og eru nú tveir úkallslistar í notkun Útkall og Heildarútkall.

Á Útkalli eru virkasta fólkið okkar sem verður ávalt fyrsta viðbragðið. Á þessum útkallshóp eru um 30 manns, flest heimafólk með fasta búsetu á svæðinu sem tilbúið er að hlaupa af stað án fyrirvara.

Á Heildarútkalli ( meira viðbragð) eru þeir sömu og á Útkall, ásamt öðru frábæru fólki sem hefur tengsl við samfélagið okkar og á það til að dvelja á svæðinu til lengri eða skemmri tíma. Þessi útkallshópur verður notaður ef það þarf meiri aðstoð vegna stærri verkefna eða ef afföll verða hjá heimamönnum t.d. vegna sumarleyfa. Þessi hópur yrði notaður t.d. í stórri leit eða stærri verkefnum þegar meiri mannskap þyrfti.

Þó svo að við séum að stækka hópinn okkar sem verður á útkalli þá þýðir það ekki að allir þurfi að vera þrautþjálfaðir björgunarmenn. Verkefnin okkar eru margvísleg og allir sem vettlingi geta valdið koma að gagni þegar mikið liggur við. Í leitaraðgerðum þá þurfa ekki allar að hlaupa út með gönguskó og leita. Ekki síður mikilvægara er að manna stjórnstöð, hjálpa til við að skrifa niður hópa, skrá hvaða verkefni er verið að leysa, aðstoða við fjarskiptamál. Ómetanlegt er að einhver taki að sér að henda í súpu og nesti handa leitafólki, hlúa að aðstandenum og safna upplýsingum og svo lengi mætti telja. Þessi verkefni eru ekki síður mikilvæg en sjálf leitin eða björgunin. Þeir sem eru skráðir félagar í Sveinunga og taka þátt í útköllum eru sjálfkrafa slysatryggðir eins og lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn kveða á um.

Hver einstaklingur er mikilvægur í okkar fámenna samfélagi. Sumum hentar það betur að vera í byggð í þægilegri innivinnu en öðrum að hlaupa út með haka og skóflu.

Þegar farið er í útkall er það boðað með sms frá Neyðarlínunni 112. Við störfum við í umboði lögreglu og rétt boðunarleið er að hringja í 112 ef þörf er að ræsa björgunarsveit. Það er gert til þess að svæðistjórn björgunarsveita og bakvakt Landsstjórnar björgunarsveita viti að því að við séum farin að stað. Öll okkar útköll eru skráð í aðgerðagrunn hjá Landsbjörg. Mikilvægt er að tryggja skráningu í aðgerðagrunninn því úthlutun styrkja til eininga Slysavarnafélagsins fer meðal annars eftir álagi á viðkomandi björgunarsveit og það sem er ekki skráð hefur ekki gerst.

Fjáraflanir

Björgunarsveitin er fjármögnuð með styrkjum, fjáröflunum og sjálfboðavinnu. Vel þjálfaður björgunarmaður fer ekki langt og gerir ekki mikið ef ekki er til staðar sérhæfður og áreiðanlegur búnaður sem oft kostar mikið. Hver björgunarmaður fjármagnar sinn eigin persónulega búnað en allan sameiginlegan búnað fjármagnar viðkomandi björgunarsveit, en Sveinungi hefur oft komið til móts við björgunarfólk sitt hvað fatnað varða.

Helstu fjáröflunarverkefnin okkar

  • Endurvinnslan skilagjald: Sveinungi sér um að taka við dósum,flöskum og plasti til skilagjalds frá sveitungum og fær fyrir það. Einnig hafa sveitungar lagt inn skilaumbúðir án þess að fá fyrir það greitt og færum við þeim þakkir. Eins hafa þeir verið duglegir við að telja, flokka og merkja og sparar það okkur hellings tíma við að telja og ættu allir að geta nálgast miða hjá okkur til að merkja á pokana.
  • Flugeldasala til sveitunga: Um áramót og var nýung síðast þar sem fólk gat keypt tré sem fór í gróðursettningu í stað flugleda í átakinu: ´´skjótum rótum´´
  • Sala á neyðarkalli
  • Kaffisala
  • Gæsla á Bræðslutónleikum: Alltaf þörf á fólki þar með okkur í því stóra verkefni
  • Dyrfjallahlaup í samvinnu við UMFB: jafnframt ein besta æfing sem við höfum fengið sem Björgunarsveit og gríðarlega skemmtilegt.
  • Sölu á húfum og fl.
  • Eins fáum við reglulega inn frjáls framlög og þökkum við öllum því fólki sem hjálpar okkur með einum eða öðrum hætti.

Vonandi á þessu eða næsta ári er fyrirhugað að endurgera skálann í Brúnuvík sem er nú ekki mikið augnayndi en er mikil þörf fyrir. Mikið þarf að gera, svo sem skipta um járn mála, einangra, setja hitara, talstöð, neyðarvistir og fl. Við erum um þessar mundir að sækja um styrki og afla upplýsinga um hvað þarf að gera.

Þó svo að formlegar æfingar séu ekki haldnar oft þá æfum við okkur með því að nota tækin í ýmsum samfélagsverkefnum. Við höfum meðal annars verið að fara í eftirleitir. Þar höfum við t.d. „bjargað“kindum á bát sem skilað sér sérstaklega vel í aukinni þjálfun okkar í meðhöndlun bátsins. Sjósetning og aðstæður á mismunandi svæðum hefur skilað heilmiklu í reynslubankann. Eins ferðir yfir fjall, þekkja bíl og fjarskiptasamband á svæðinu og fl. Við eigum að vera dugleg að „leika okkur“ á tækjunum, kynnast þeim og þekkja vel inná þau, þvi við gerum það ekki í útkalli. Einnig höldum við reglulega námskeið sem gagnast okkur og eru allir félagar velkomnir að sækja þau. Námskeiðin eru alltaf fróðleg og auk þess er margt rætt og rýnt í eftir svona námskeið yfir góðum kaffibolla og bakkelsi.

Öllum er velkomið að ganga í Björgunarsveitina og er alltaf þörf á fleiru góðu fólki, endilega hafiði samband ef það eru einhverjar spurningar, eða ábendingar.

Virðingarfyllst,
Bergvin Snær Andrésson
Formaður Sveinunga