Síminn svarar Borgfirðingum aftur - 3G í mars!!!

Þá er Síminn búinn að svara okkur og kemur ekki margt á óvart í þeim svörum og ljóst að ljósnetið er ekki á leiðinni strax til okkar, en vissulega er að finna mikil gleðitíðindi í svarinu, en þau eru að nú í mars á að setja upp 3G senda á Borgarfirði. Húrra!!!
Þetta þýðir stóraukna þjónustu fyrir þá sem nota þráðlausa nettengingu gegnum símkerfi, eykur líka vonandi öryggi til sjós og lands og gefur okkur möguleika á að miðla upplýsingum um staðinn í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur til gesta. Auk þess vonum við að þetta stækki dreifikerfið eitthvað.

Við fögnum vissulega öllum framförum og vonum að þessi umræða hafi lagt eitthvað til málanna, og verði til þess að það verður hugsað sterkt til okkar í næstu skrefum hjá Símanum.

Hér er að finna svar símans til fréttasíðunnar.
Flest heimilin sem fá Ljósnet á landsbyggðinni eru á Austurlandi

Síminn ætlar að tengja 16.000 heimili á landsbyggðinni við Ljónsnet á árinu. Sú ákvörðun Símans að hefja Ljósnetsvæðingu á 53 þéttbýlisstöðum hefur áhrif á mörg minni sveitarfélög, því hefðum við hjá Símanum haldið okkur við fyrri áætlun hefðu þau líklega þurft að bíða þess að háhraðanet yrði sett upp að fullu á stærri stöðum áður en röðin kæmi að þeim.

Við hjá Símanum metum viðskiptasambönd okkar á landsbyggðinni mikils. Þrautseyjan og barátta Borgfirðinga fyrir bættum fjarskiptum er aðdáunarverð. Við höfðum þegar tilkynnt að við ætlum að tryggja 3G samband á næstu Bræðslu, en nú hefur verið ákveðið að 3G væða byggðina frá byrjun mars. Sú ákvörðun var tekin eftir að hafa skoðað aðstæður á Borgarfirði.

En af hverju þessir 53 staðir umfram aðra? Þar ræður valinu: a) stærð staðanna, b) tengingar til þeirra og c) staðsetning símstöðvanna í bæjarfélaginu. Við viljum ná til sem flestra. Það fleytir sem flestum fram veginn og hefur mestu áhrifin á þjóðarbúið í heild. Svona tekst okkur einnig að ljósnetsvæða þúsundir heimila fyrir það fé sem kostaði að tengja jaðra fárra þeirra.

Við breyttum verkáætlun okkar þótt það þýddi að bæjarbúar eða þéttbýli innan hvers sveitarfélags tengjast ekki háhraðaneti á sama tíma. Við völdum þessa leið því hún hefur þann ótvíræða kost að færri landsmenn þurfa að bíða þess að fá háhraðanet heim til sín. Hún hefur þann ókost að staða bæja innan sama sveitarfélags eða íbúa hvers og eins þeirra, er ekki sú sama. En þannig er það einnig innan sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og gefur að skilja er ekki hægt að tengja alla þéttbýlisstaði á Íslandi við Ljósnet á árinu 2013. Á vef Borgarfjarðar eystri gætir til dæmis vonbrigða með að þeir verði ekki tengdir Ljósnetinu í öflugri uppbyggingu á Austurlandi. Fleiri sveitarfélög eru í sömu stöðu. Og í þessu fyrsta skrefi nær meirihluti bæjarbúa þessara 53 þéttbýlisstaða Ljósnetinu. Ekki allir. Þá eru hverfi í borginni án Ljósnets og stefnir Síminn að því að tengja tæplega fjörutíu þúsund heimili þar á árinu við þetta háhraðanet. Þrátt fyrir það tekst ekki að tengja öll.

Síminn vill benda á að 62 þúsund heimili geta nýtt Ljósnetið. Með þessari ákvörðun er stefnt að því að þau verði orðin um 116 þúsund um mitt næsta ár. Uppbyggingin hefur verið hröð. Hún hefur aðeins staðið frá árinu 2009. Þetta eru fyrstu stóru skref Símans á landsbyggðinni ; tekin fyrr en stóð til. Við hjá Símanum erum stolt af þeim. Og eins og stóð í Fréttablaðinu á mánudag verða flest þessara heimila sem nú fá Ljósnet á landsbyggðinni á Austurlandi.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir