Skriðnahellir opnaður á ný (myndband)

Bergvin Snær í Skriðnahelli um helgina
Bergvin Snær í Skriðnahelli um helgina
(frétt skrifuð af ruv.is) Fáir voru eins forugir um hvítasunnuhelgina og tveir menn sem réðust í að toga aur upp úr munna Skriðnahellis milli Borgarfjarðar eystri og Njarðvíkur. Vopnaðir skóflu og 30 lítra plastbrúsa tókst þeim að komast í hellinn sem óttast var að hefði mögulega eyðilagst fyrir 20 árum. Þar fundu þeir kerti og pilsnerdós.

Mokstur sóttist hægt

Skriðnahellir, á milli Borgarfjarðar eystri og Njarðvíkur, lokaðist í aurskriðu fyrir um 20 árum. Reynir Björnsson, sem býr á Egilsstöðum, staðsetti opið nokkrum árum síðar, hóf mokstur og skildi eftir skóflu og plastílát í þeirri von að hver sem þar kæmi tæki rispu við mokstur.

Framkvæmdamenn tóku á sig rögg

Um hvítasunnuhelgina réðust Bergvin Snær Andrésson og Hlynur Sveinsson í verkið af fullum krafti. Hlynur segir að þeir hafi á stundum efast um hvort moksturinn skilaði nokkru. „Menn voru ekki vissir um hvort skriðan hefði komið hreinlega út úr honum og hellirinn fallið saman eða hvort skriðan hafði komið utan frá og lokað innganginum. Menn voru ekkert vongóðir um að þetta myndi takast og ég var svona orðinn frekar á því að hellirinn hefði fallið saman og væri þá bara fullur af efni og hreinlega ónýtur,“ segir Hlynur.

Þeir hafi mokað þykkri og blautri eðju laugardag, sunnudag og mánudag samtals í um 10 tíma. „Það var spotti bundinn í 30 lítra brúsa sem sá sem að fór niður mokaði í og lét svo vita þegar þurfti að draga upp brúsann. Mér reiknast til að við höfum dregið upp svona 4 tonn af efni upp úr hellinum áður en við komumst inn í hann,“ segir Hlynur.

Bálköstur, snúið kerti og pilsnerdós

Á myndbandi sem Hlynur setti á netið og sjá má hér að neðan sést hvernig þeir þurftu bókstaflega að skríða og mjaka sér 10 metra leið niður í sjálfan hellinn. Þegar þangað var komið blasti við salur, 7-10 metra breiður og lofthæðin 3-4 metrar. „Þarna voru rest af bálkesti, kerti og gamall pilsner sem reyndar botninn var farinn úr þannig að við sáum ekki hvenær hann var útrunninni. Það er mjög sérstakt að koma inn í rými sem hefur ekki verið opnaði í að minnsta kosti 20 ár. Og að hann skuli hafa verið heill. Þetta var bara svona gleðigeðshræring,“ segir Hlynur.

Hann mælir ekki með því að neinn reyni að komast í hellinn á næstunni enda þurfi að moka meira út úr opinu til gera hann aðgengilegan.

(frétt tekin af ruv.is) texti Rúnar Snær Reynisson